Um líkræðu Össurar og pílagrímsförina sem reyndist fýluferð

Aðildarumsóknin er í reynd dauð og nú vantar það eitt að Alþingi geri hreint fyrir sínum dyrum og gefi út formlega dánartilkynningu. Össur rétt náði því áður en þingið fór í sumarfrí að mæla fyrir tillögu sem reyndist eins konar eftirmæli eða líkræða yfir dauðri aðildarumsókn.

 

Sumarið 2009 var fellt á Alþingi að fram færi þjóðaratkvæði um fyrirhugaða aðildarumsókn að ESB. Össur var þá nýtekinn við völdum sem utanríkisráðherra en mátti þá ekki heyra á það minnst að þjóðin væri höfð með í ráðum á nokkurn hátt, þótt ljóst væri af ítrekuðum yfirlýsingum við afgreiðslu málsins að meirihluti Alþingis væri í raun andvígur aðild að ESB. Málinu var þó smyglað í gegnum þingið með atkvæðum rúmlega helmings þingmanna VG sem lýstu því flestir yfir, bæði þeir sem greiddu atkvæði með og á móti aðildarumsókn, að þeir væru persónulega andvígir inngöngu í ESB en gætu þó fallist á þá fyrirætlun samstarfsflokksins að viðræður við ESB væru hafnar til þess að í ljós kæmi, hvað í boði væri.

 

Síðan eru liðin fjögur ár, og á þeim tíma hefur ekkert annað komið fram en það, sem allir áttu að vita fyrirfram, að í sjávarútvegsmálum er það eitt í boði sem samræmist regluverki ESB og felur það í sér að 200 mílna lögsaga Íslendinga verði undir yfirstjórn ESB. Jafnframt höfum við Íslendingar fengið lærdómsríka kennslustund í stjórnsemi og yfirgangi forystumanna ESB sem hóta okkur hafnbanni og jafnvel viðskiptabanni ef stjórnvöld hlýða ekki fyrirskipunum þeirra um veiðar Íslendinga á eigin miðum innan 200 mílna landhelgi, sbr. meðfylgjandi frétt af viðræðum Sigmundar Davíðs við ráðamenn í Brussel.

 

En hvers væri þá að vænta ef Íslendingar létu lokka sig inn í ESB úr því að kommissararnir hafa nú þegar í hótunum við okkur út af veiðum á hafsvæðum sem þeir hafa ekkert yfir að segja? Að sjálfsögðu látum við hótanir ESB sem vind um eyru þjóta, enda ber þjóð okkar engin þjóðréttarleg skylda til hlýða fyrirmælum kommissaranna í Brussel, meðan hún gætir sín á því að framselja ekki fullveldisréttinn í þeirra hendur.

 

Össur er þó hreint ekki af baki dottinn þótt þjóðin sé nýbúin að helminga þinglið Samfylkingarinnar. Áður en sumarþinginu lauk tók hann ESB-málið upp á ný með þingsályktunartillögu fyrir hönd þingflokks síns. Framsöguræða hans reyndist eins konar líkræða yfir fjögurra ára gamalli og steindauðri aðildarumsókn. Össur sló þó prestum landsins eftirminnilega við með því að hvetja ákaft til þess að reynt yrði að vekja hina dauðu aftur til lífsins.

 

Þau rök sem Össur hafði uppi voru þau helst að hin látna hefði verið svo bráðhress, blessunin, alveg fram í andlátið og hóf síðan að gera sem mest úr þeim árangri sem náðst hefði í viðræðunum við ESB. En ef betur er að gáð og skoðað hvaða árangri Össur og félagar hans hafa raunverulega náð eftir allt puðið í fjögur ár sem kostað hefur skattgreiðendur milljarða króna kemur skýrt í ljós að Össur getur ekki státað af árangri í einu einasta efnisatriði sem samkomulag hafi náðst um og einhverju máli skipti fyrir  Íslendinga. Þeir kaflar fyrirhugaðs samnings sem lokað hafði verið voru endurprentun upp úr EES-samningnum sem samið var um fyrir rúmum 20 árum!

 

Það eina til viðbótar sem Össur tínir til og kallar árangur eru óljós ummæli einstakra manna sem komu að þessum viðræðum og eru sagðir hafa lýst yfir „fullum skilningi á óskum og kröfum Íslendinga“ í þessu atriði eða hinu. Sem dæmi má nefna að í greinargerð Össurar segir: „Stefan Fühle, stækkunarstjóri Evrópusambandsins, lýsti fullum skilningi á kröfum Íslendinga um bann við innflutningi á lifandi dýrum, sem talið var að yrði eitt erfiðasta viðfangsefni samninganna.“

 

„Skilningur“ og samningsniðurstaða er tvennt ólíkt. Hughreystandi klapp kommissara ESB á bak Össurar er einfaldlega einskis virði úr því að skjalfestur árangur í formi niðurstöðu reynist hvergi sjáanlegur eftir fjögurra ára viðræður, og hvergi svo mikið sem glittir í þær undanþágur og tilslakanir frá reglum ESB sem Össur og liðsfélagar hans hétu Íslendingum þegar lagt var af stað í þennan leiðangur. Pílagrímsför Össurar og félaga hans til Brussel reyndist því sannkölluð fýluför.  Vonandi verður þess langt að bíða að naumur meirihluti á Alþingi samþykki aftur að eyða dýrmætu skattfé almennings í svo botnlausa erindisleysu. - RA
mbl.is „Erum að skoða allar leiðir“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband