Síharðnandi átök milli suðurs og norðurs innan ESB
19.5.2013 | 11:04
Eitt það fráleitasta sem heyrist í umræðunni er það slagorð ESB-sinna að Íslendingar þurfi að ganga í ESB og taka upp evru til að komast í skjól með gjaldmiðil sinn. Ef einhvers staðar geisar nú efnahagslegt óveður þá er það einmitt á evrusvæðinu. Evran reyndist falskt öryggi.
Menn kvarta yfir hægagangi í efnahagslífi Íslendinga þar sem hagvöxtur á þessu ári er aðeins rúm 2%, en sá vöxtur er reyndar með því mesta sem fyrirfinnst meðal iðnríkja. Á evrusvæðinu er aftur á móti samdráttur í framleiðslu og hagvöxtur mælist víða í mínustölum, m.a. á Ítalíu og Spáni. Varla er nokkurs staðar í heiminum að finna jafn skelfilegar tölur um atvinnuleysi eins og einmitt á evrusvæðinu.
Á vefnum visir.is í gær er á það bent að samkvæmt nýjustu tölum hafi hagkerfi evrusvæðisins dregist stöðugt saman síðasta eitt og hálft ár. Níu af sautján Evrulöndum eru í kreppu stödd, og eitt þessara ríkja er Frakkland, annað helsta forysturíki ESB.
Það kemur því engum á óvart að harðar deilur séu uppi um orsakir vandans á evrusvæðinu. Aðeins fáir þeir forhertustu neita þó að viðurkenna að sameiginlegur gjaldmiðill leikur þar bersýnilega býsna stórt hlutverk í vaxandi kreppu. Hitt er miklu frekar ágreiningsmál hvernig við skuli brugðist; eiga evruríkin að einbeita sér að því, eins og Þjóðverjar predika, að skera niður ríkisútgjöld og herða sultarólina, eða er skynsamlegra að ráðast gegn atvinnuleysinu og reyna að auka framleiðslu.
Hollande, forseti Frakklands og Angela Merkel, kanslari Þýskalands, eru mjög ósammála um forgangsröðun verkefna; Hollande sér það helst til ráða til að bjarga evrusvæðinu frá hruni að búa til sérstaka ríkisstjórn fyrir allt evrusvæðið, með öðrum orðum vill hann enn meiri samruna og samkrull. Merkel kanslari er aftur á móti andvíg þessu og óttast að slík áform gætu orðið til þess að Þýskaland neyðist til að borga brúsann fyrir lönd sem standa ekki jafn vel að vígi fjárhagslega.
Augljóslega er evrukreppan að snúast upp í átök milli suðurríkjanna annars vegar, Portúgals, Spánar, Ítalíu, Kýpur og Grikklands undir forystu Frakka, og hins vegar Þjóðverja sem njóta stuðnings norðlægari ríkja. Bretar standa þar utan við með sitt pund og vilja ólmir komast út úr ESB!
En hvar í flokki myndu Íslendingar lenda ef þeir álpuðust inn í þennan darraðardans. Þá er skemmst frá því að segja að ekkert ríki í vestanverðri álfunni er jafn ólíkt að efnahagsgerð því sem almennast er í ESB og einmitt Ísland. Þar ræður mestu að sjávarútvegur og fiskvinnsla vega miklu þyngra í heildarframleiðslu Íslendinga en almennt gildir í ríkjum ESB. Á þetta hefur oft verið bent með skýrum rökum. Evran myndi því ekki henta Íslandi vel og í henni fælist falskt öryggi, eins og margar þjóðir á evrusvæðinu eru nú einmitt loksins að átta sig á. - RA
Tæpur helmingur Breta vill út úr ESB | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.