. . . og megum við þá ekki vera með í Eurovision?

Stefán Ólafsson, prófessor í félagsvísindum með meiru, stakk niður penna á dögunum og leiddi að því félagsvísindaleg rök að ef Íslendingar létu eiga sig að ganga inn í Evrópusambandið þá yrði ein af hinum voðalegu afleiðingum þess útilokun frá þátttöku í söngvakeppni þeirri sem venjulega er kölluð Júróvisjón!

Hafði prófessorinn, sem vonlegt er, af þessu töluverðar áhyggjur enda félagsvísindalegt viðfangsefni sú dæmalausa múgsefjun sem hér verður í hvert sinn sem þessi keppni stendur yfir svo ekki sé nú minnst á aðdragandann.

Mér að meinalausu mætti hætta öllu Júróvisjón standi og stjörnuleik í því sambandi en ekki hef ég þó trú að svo verði í bráð - enda þjóðin ánetjuð þessum fjanda og sjálfsagt félagsvísindalegt viðfangsefni að gogga hana úr því neti.

Hitt er annað - og þessu, eðlilega, óskylt - og það er sú staðreynd að við sem berjumst gegn innlimun Íslands í Evrópusambandið höfum ekkert á móti menningarsamskiptum við Evrópuþjóðirnar, einar sér eða í stærri hópum, þótt svo sumum ESB-agentum líki vel að ljúga öðru upp á okkur. Við fögnum menningarlegum margbreytileika - ólíkt mörgum þeim sem halda að Evrópa sé nafli alheimsins - og við getum jafnvel, fyrir siðasakir og -umburðarlyndis, kinkað kolli í átt að Júróvisjón og étið snakk úr poka á meðan Evrópuþjóðirnar gefa hverri annarri stig eftir fyrirfram gefinni formúlu.

Formúlu sem lýsir þó einhverri rest af þjóðartaug sem enn bærist og finnur sér helst útrás í þessari sykurhúðuðu söngvakeppni. Sú þjóðartaug er herpt og klemmd þegar aðrar veigameiri ákvarðanir eru teknar í sameinaðri Evrópu - þar ráða þeir sem alltaf hafa ráðið, og nota bene, ráða Júróvisjón

- gb.

 

Pistill Stefáns:

http://blog.pressan.is/stefano/2013/05/10/verdur-eurovision-bonnud-a-islandi/ 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Júróvision snýst um að auðga Evrópu með samvinnu um list. Allt sem eflir frið, samvinnu og sátt er mikils virði fyrir heildina, hvar sem er í heiminum. 

Sumir vilja skapa sundrungu um allt sem fallegt er og gott. Svo helteknir geta sumir áróðursmeistarar orðið í sinni rætnu rökleysu, að nota allt mögulegt og ómögulegt,  eins og vanþroska kjánar, til að skapa úlfúð, sundrungu illindi og  mannskemmandi umtal. 

Þeir veljast til skítadreifara-stjórnunarinnar, sem eru yfirmáta vanþroskaðir, rætnir, gráðugir og sundrungar-sinnaðir.

Það er takki á sjónvarpinu sem hægt er að nota, ef ekki er áhugi á júróvision og fótbolta-fréttatímum/leikjum.

Gangi öllum þessum flottu söngvurum vel í kvöld, og almættið algóða verndi friðinn og kærleikann.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 18.5.2013 kl. 14:56

2 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Júróvisjón er ESB algjörlega óviðkomandi.  Þessi söngvakeppni býður öllum Evrópuríkjum, utan og innan ESB (og jafnvel utan Evrópu) upp í dans - í boði evrópskra sjónvarpsstöðva.  Bara gaman að því.

Hitt er svo verra mál þegar ESB sinnar vilja meina að þetta sé eitthvert sérstakt fyrirmyndardæmi um hina góðu fjölmenningu sem viðgengst í álfunni.

Kolbrún Hilmars, 18.5.2013 kl. 16:42

3 Smámynd: Elle_

Allar blekkingar reyna nú ESB-sinnar til að fá fram fullveldisframsal.  En heil þjóð er ekki fífl.  Og ætti lærður prófessor ekki að vita að Eurovision kemur hinu svokallaða 'Evrópu'sambandi ekkert við?  Prófaðu annan, Stefán.

Elle_, 19.5.2013 kl. 17:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband