Reyndu aldrei að skjóta tvær kanínur í einu!

Árangur VG í kosningunum var viðunandi miðað við sögulegt fylgi VG undanfarinn áratug. Kjósendur þökkuðu VG fyrir góða frammistöðu í glímunni við afleiðingar hrunsins. En tvöfeldnin í afstöðunni til aðildar­umsóknar að ESB var VG fjötur um fót og olli því að fylgið streymdi til framsóknar í stríðum straumi.

 

Máltækið segir að sá sem reyni að skjóta tvær kanínur í einu muni hvoruga hitta. Meiri hluti þingflokks VG markaði á sínum tíma þá stefnu og fékk hana samþykkta af flokksstjórn að enda þótt flokkurinn væri andvígur aðild að ESB og aðild samrýmdist ekki hagsmunum íslensku þjóðarinnar, skyldi engu að síður sótt um inngöngu í ESB.

 

Óumdeilt er að tvöfeldnin sem í þessu fólst varð VG dýrkeypt og rýrði mjög það traust sem VG hlaut hjá kjósendum í kosningunum 2009. Sennilega er leitun að stjórnmálaflokki í Evrópu sem farið hefur eins að ráði sínu og tileinkað sér svo kostulega „kíkja-í-pakkann-stefnu“. Að sjálfsögðu sækir engin þjóð um inngöngu í ESB ef hún vill ekki ganga þar inn. Svo einfalt er það.

 

Kannski varð það VG til lífs að gert var hlé á aðildarviðræðunum í upphafi ársins. Málinu var þar með vísað til komandi ríkisstjórnar og nýs Alþingis að kosningum loknum og jafnframt hvarf það í skuggann af öðrum deilumálum.

 

Algengt er í kosningum að talsmenn flokka ræði um árangur flokks síns út frá tölum sem birst hafa í skoðanakönnunum. Að sjálfsögðu er það þó hæpin viðmiðun. Hins vegar er ljóst að nýi formaðurinn, Katrín Jakobsdóttir, stóð sig frábærlega vel í kosningabaráttunni. Jafnframt ber að viðurkenna að kosningarnar 2009 sem fram fóru í ringulreiðinni rétt eftir hrun og stórsigur VG í þeim kosningum er vafasöm viðmiðun. Eðlilegast virðist að skoða útkomuna í samanburði við meðalfylgi flokksins undanfarinn áratug. 

 

Tæplega 11% fylgi VG nú er góður árangur ef haft er í huga að meðalfylgi flokksins á árunum 1999-2007 var 10,7%.  En tæplega 13% fylgi Samfylkingarinnar í kosningunum er aftur á móti augljóst afhroð og hrun í samanburði við meðalfylgi flokksins á árunum 1999-2007 sem var 28,2%. - RA
mbl.is „Erum ánægð með baráttuna okkar“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband