Hægri boðskapur Jóhönnu

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra hélt snöfurmannlega ræðu á flokksstjórnarfundi Samfylkingarinnar um helgina. Það sem vekur athygli er að þar er ekki minnst einu orði á samstarfsflokkinn í ríkisstjórn, orðið vinstri er aldrei nefnt og eins og fyrri daginn er sparkað krónuna, sem helst hefur rétt af íslenskt samfélag eftir boðaföll hrunstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks.

Ónot í garð krónunnar tvinnar Jóhanna saman við gagnrýni á helsta óvini sínum, Sjálfstæðisflokknum, tilvitnun er hér tekin af vef Samfylkingar.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur sagt alveg skýrt að hann muni slíta viðræðunum komist hann til valda enda hafi Ísland ekkert að gera í ESB. Sjálfstæðisflokkurinn hefur á sama tíma sagt alveg skýrt að hann útiloki einhliða upptöku annarrar myntar í stað íslensku krónunnar.

Sjálfstæðisflokkurinn skilar auðu í þessu stærsta framtíðarmáli íslensku þjóðarinnar.

Hans lausn er að halda fast í krónuna, krónu sem leitt hefur og leiða mun til mikils óstöðugleika fyrir íslenskt atvinnulíf og lakari lífskjara fyrir heimilin.

Öllum möguleikum sem aðild að ESB getur fært nýja Íslandi vill Sjálfstæðiflokkurinn því hafna og halda enn á ný á vit óvissu og óstöðuleika fyrirhrunsáranna, með krónu og höft uppá arminn.

Það er ekki boðlegt fyrir íslenska þjóð. Það getur aldrei orðið framtíðarsýn okkar jafnaðarmanna um nýja Ísland.

Í ljósi staðreynda sem við blasa í Evrópu er ræðustúfur sem þessi vitaskuld ekki nema til heimabrúks fyrir sanntrúaða. Hrunið var hvorki í boði krónu né hafta heldur skilgetið afkvæmi þeirrar bankafrjálshyggju sem hér var innleidd með EES. Særingar Jóhönnu í garð Sjálfstæðisflokks eru athyglisverðar og þá ekki síst í ljósi þess að þar innanborðs eru fjölmargir ESB sinnar. Vináttan við hina íslensku krónu er ótraust hjá því liði sem helst vill braska með annarra eigur og taka annan hring á fjárhag almennings.

Um ESB sagði ráðherrann ennfremur:

 

Ein afdrifaríkasta ákvörðun þjóðarinnar á næsta kjörtímabili mun hinsvegar lúta að mögulegri aðild Íslands að ESB. Þar er um slíka hagsmuni að tefla fyrir heimili og fyrirtæki þessa lands að fátt eitt mun breyta eins miklu um lífskjör á Íslandi næstu áratugina og sú ákvörðun.

Enn er ósamið um nokkra mikilvæga kafla í ferlinu, svo sem í gjaldmiðlamálum og sjávarútvegsmálum, en það sem þegar hefur komið fram í viðræðunum gefur okkur fullt tilefni til bjartsýni um að samningamönnum okkar takist að ljúka góðum samningi fyrir Ísland.

Öll þekkjum við þá stórauknu möguleika sem aðild að ESB myndi færa ungu fólki og vísindasamfélaginu, þau hagstæðari rekstrar skilyrði sem fyrirtæki myndu njóta, bæði til fjárfestinga hér á landi og ekki síður til að sækja fram á nýja markaði.

Og öll þekkjum við þær samfélaglegu umbætur , frið og farsæld sem ESB hefur haft í för með sér og hafa nú orðið til þess að sambandinu hafa verið veitt friðarverðlaun Nobels. Allt mælir þetta með aðild Íslands að ESB þegar til framtíðar er litið.

Nú liggur einnig fyrir vönduð og ítarleg úttekt Seðlabanka Íslands á möguleikum Íslands í gjaldmiðlamálum, þar sem aðild að ESB og upptaka Evru er annar þeirra kosta sem sagðir eru fýsilegastir, en hinn er áframhaldandi notkun krónunnar í einhverskonar höftum.

Í þessari vönduðu skýrslu kemur fram að með upptöku Evrunnar gætu við Íslendingar reiknað með aukningu þjóðartekna um vel á annað hundrað milljarða, tugmilljarða sparnað á ári í kostnaði vegna gjaldeyrisvarasjóðs og milliríkjaviðskipta, milljarða sparnaði heimila og fyrirtækja vegna lægri vaxtakostnaðar og auðvelda aðgengis að fjármagni og stóraukins stöðugleika í efnahagslífinu, ekki síst vegna minni sveiflna gjaldmiðlisins.

Möguleg aðild að ESB og upptaka Evru er háð því að Samfylkinging verði áfram í forystu við ríkisstjórnarborðið á næsta kjörtímabili. Samfylkingin er og hefur verið brjóstvörn allra þeirra sem hafa viljað láta á aðild að ESB reyna. Vegna Samfylkingarinnar erum við komin þangað sem við erum komin í því ferli.

 

Hér er ekki ástæða til að elta ólar við rangfærslur um skýrslu Seðlabanka eða þann barnaskap að telja að hrunið hagkerfi evrunnar komi Íslandi til bjargar. Ekki er síður broslegt að heyra hér hælt þeim árangri sem náðst hefur í meintum samningaviðræðum við ESB þegar staðreyndin er að ekki er komin niðurstaða í neinu sem máli skiptir. Öll ágreiningsmál hafa verið lögð til hliðar og áhersla er lögð á að draga viðræðurnar á langinn, þvert á gefin loforð. Hvergi örlar á því að staðið skuli við fyrirheit sem hinum beygðu VG - liðum voru gefin um snöggar viðræður og afgerandi niðurstöður á kjörtímabilinu.

En athyglisverðast er því að horfa á fyrrum vinsti manninn Jóhönnu Sigurðardóttur mæra markaðskerfið í tali um hin ógnarlegu höft krónunnar. Höft sem eru skjól en ekki fár á umbrotatímum eins og þeim sem nú ganga yfir heimsbyggðina. En markaðstrú Samfylkingarinnar er slík að hún telur öllu skipta að galopna landið fyrir kaupskap og þar á bæ hafa menn ekkert lært af eigin mistökum.

"Minn tími mun koma," sagði hin vinstri sinnaða Jóhanna fyrir margt löngu og yfirgaf ESB sinnaða hægri krata þess tíma í gamla Alþýðuflokki Jóns Baldvins. Tími Jóhönnu kom svo sannarlega og er nú loks á förum. En hvaða Jóhanna er það? Er það sama vinstri sinnaða baráttukonan sem við þekktum eða er það sú Jóhanna sem kokgleypt hefur alla hægri vitleysu markaðskratanna, Blair-ista og Brusselíta... /-b.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Eggert Sigurbergsson

Þetta skrifar Lilja Mósesdóttir:

"Mér skilst að ætlun ríkisstjórnar Geirs H. Haarde hafi verið að kaupa upp kröfur á föllnu bankanna en Barroso, framkvæmdastjóri ESB, hafi í símtali við Geir talað gegn því að íslensk stjórnvöld reyndu að kaupa upp kröfur á föllnu bankana fyrir slikk."

Þá spyr maður sjálfan sig, hvað fyrirmæli gefur Barroso Jóhönnu og hennar hyski?

http://liljam.is/greinasafn/2012/hraegammasjodir-vilja-island-a-hrakvirdi/

Eggert Sigurbergsson, 28.10.2012 kl. 14:08

2 identicon

Það er undarlegt að hrósa gjaldmiðli fyrir meinta getu til að koma okkur upp úr hruni sem hefði aldrei orðið nema vegna þess að við vorum með krónu sem gjaldmiðil.  

Skuldavandræði íslensks almennings og fyrirtækja, sem enn sér ekki fyrir endann á, eru alfarið krónunni að kenna. Með evru hefðu erlendar skuldir ekki hækkað upp úr öllu valdi heldur þvert á móti lækkað með hverri greiðslu. 

Það er því verið að snúa hlutum á hvolf með því að halda því fram að krónan hafi "rétt af íslenskt samfélag eftir boðaföll hrunstjórnar Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks."

Næsta hrun krónunnar verður okkur trúlega óyfirstíganlegt vegna þess hve erlendar skuldir ríkisins eru miklar. Við hrun á gengi krónunnar um helming tvöfaldast nefnilega erlendar skuldir ríkisins í krónum talið.

Ásmundur (IP-tala skráð) 28.10.2012 kl. 18:25

3 Smámynd: Elle_

Jóhanna er ekkert nema óþolandi ófriðarsinni og stórskaðleg landi og þjóð.  Það sem Jóhanna vill SKAL öll heila þjóðin hafa.  Nauðug viljug.  TÍMI kerlu er á enda, guði sé lof.

Elle_, 28.10.2012 kl. 19:50

4 identicon

Barosso hafði auðvitað rétt fyrir sér þegar hann rálagði ríkinu að kaupa ekki skuldabréf gömlu bankanna. Ríkið á ekki að standa í slíkum áhættufjárfestingum. Auk þess voru engir peningar til fyrir slíkum kaupum.

Ég tel einnig ólíklegt að eigendur gömlu bankanna, kröfuhafarnir, hafi verið tilbúnir til að selja ríkinu skuldabréfin á þessum tíma þegar verð þeirra var í lágmarki.

Það var gæfa okkar eftir hrun að neyðarlögin voru samþykkt af dómstölum og ESA. Ástæðan var eflaust sú að við gengum ekki lengra á rétt kröfuhafa en nauðsynlegt var.

Ásmundur (IP-tala skráð) 28.10.2012 kl. 19:51

5 Smámynd: Ásgrímur Hartmannsson

" athyglisverðast er því að horfa á fyrrum vinsti manninn Jóhönnu Sigurðardóttur mæra markaðskerfið"

Ef hún væri hægrisinni myndi hún ekki traðka á markaðshagkerfinu eins og hún hefur verið að gera síðan hún komst á þing.

Ásgrímur Hartmannsson, 28.10.2012 kl. 21:52

6 Smámynd: Bjarni Harðarson

það er að renna upp fyrir mér ljós, Ásmundur. Hrun hins vestræna kapítalisma varð vegna íslensku krónunnar og henni er því ekki of gott að hífa það sama upp aftur...

Bjarni Harðarson, 28.10.2012 kl. 22:24

7 identicon

Bjarni, ekki þennan leikaraskap.

Neitarðu því að erlendar skuldir teknar fyrir hrun væru nú lægri ef við hefðum haft evru þegar bankarnir hrundu? Neitarðu því að þær hefðu lækkað með hverri greiðslu?   

Neitarðu því að gengishrun krónunnar um meira en helming mánuðina fyrir hrun hafi gert hrunið miklu alvarlegra en ella ef ekki beinlínis verið hrunvaldurinn? 

Neitarðu því að þegar gengi krónunnar lækkar um helming þá tvöfaldast erlendar skuldir, reiknað í krónum?

Þetta eru óhrekjanlegar staðreyndir. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 28.10.2012 kl. 23:04

8 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Heyrði seðlabankastjórann segja í Silfrinu í dag að það væri ekki hægt að taka upp evru eins og væri, því það sæi ekki fyrir um hvernig hún endaði.  Og hann færðist undan að mæra evruna þó Egill reyndi að fá hann til þess.  Þetta er ákveðin stefnubreyting, því hingað til hefur hann hvatt til upptöku evru.  En eftir skýrsluna sem unnin var að tilhlutan seðlabankans hefur hann skipt um gír í gjaldmiðilsmálum.  Og það er vel.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.10.2012 kl. 23:31

9 identicon

Ásmundur: Verðmæti gjaldeyristekna - mælt í krónum - tvöfaldast líka ef krónan fellur.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 29.10.2012 kl. 00:12

10 Smámynd: Bragi

"Það er undarlegt að hrósa gjaldmiðli fyrir meinta getu til að koma okkur upp úr hruni sem hefði aldrei orðið nema vegna þess að við vorum með krónu sem gjaldmiðil." Rangt.

"Skuldavandræði íslensks almennings og fyrirtækja, sem enn sér ekki fyrir endann á, eru alfarið krónunni að kenna." Rangt.

Krónan, gjaldmiðillinn, hafði ekkert að gera með hrunið hér heima. Ef Ásmundur telur slíkt hlýtur hann einfaldlega að telja að evran hafi orsakað hrun S-Evrópuþjóðanna. Rökvillur í málflutningi Ásmundar á sér enga hliðstæðu.

Gallaða kerfið okkar hafði hins vegar allt að gera með hrunið. Lágmarksávöxtunarkrafa lífeyrissjóða setur hálfgert vaxtagólf á markaði, verðtryggingin eykur verðbólgu og ýtir vöxtum enn hærra upp, engar reglur gilda um verðtryggingarjöfnuð þannig að bankar hafa hag af því að auka verðbólgu og rýra trúverðugleika SÍ á sama tíma (sem leiðir til enn hærri vaxta), alveg frjálst verðbólgumarkmið virkar ekki fyrir svona lítinn gjaldmiðil, menn réðust í skattalækkanir og stórkostlegar fjárfestingar á miklum uppgangstíma, bankakerfið var alltof stórt, ólögmæt gengistryggð lán voru veitt í gríð og erg og fjármálastofnanir vissu af því að þau væru ólögmæt allan tímann. Stórgallað kerfi en mér sýnist við vera að taka lítil skref í áttina til að bæta það. Það er frábært. Örugglega fleiri atriði sem ég man ekki eftir í augnablikinu.

Það er gott að Már er loksins að snúast á opinberum vettvangi enda veit hann fullkomlega að afar líklegt er að evrusvæðið splundrist í tætlur. Til að evran lifi af þurfa ríkari þjóðirnar að niðurgreiða lífsstíl fátækari þjóða. Það mun einfaldlega ekki gerast. 2013 verður mun verra en árið 2012 á evrusvæðinu, sannið til. Bæði Spánverjar og Ítalir þurfa að ganga á náðir þríeykisins fræga þ.a. mikill niðurskurður er framundan þar. Þýska vélin er farin að gefa eftir, ástandið á meginlandinu er hreint út sagt hræðilegt.

Þetta er munurinn á Íslandi og evrusvæðinu. Stórgölluð kerfi bæði tvö en á næstu misserum mun það breytast hér heima, ekki úti. Svo einfalt er það.

Bragi, 29.10.2012 kl. 00:41

11 identicon

Hans, það er rétt. En það er takmarkað gagn að því fyrir ríkissjóð með miklar erlendar skuldir en engar tekjur í gjaldeyri.

Ásthildur, það er ekki hægt að taka upp evru fyrr en í fyrsta lagi rúmum tveim árum eftir inngöngu í ESB.

Seðlabankinn hefur ekki skipt um gír. Enn er evran valkostur. Seðlabankinn getur hins vegar ekki leyft sér að taka afgerandi afstöðu með henni gegn krónu því að það væri álitið vera pólitísk afskipti.

Ásmundur (IP-tala skráð) 29.10.2012 kl. 00:51

12 identicon

Ríkið innheimtir flesta skatta sem prósentuhlutfall en ekki fastar krónutölur og á endanum er það alltaf visst hlutfall af landsframleiðslunni sem rennur til ríkissjóðs sem þýðir að hann getur alltaf keypt u.þ.b sama hlutfall af gjaldeyrinum sem þjóðarbúið aflar. Áhrif gengissveifla á getu ríkissjóðs til að borga erlendar skuldir eru mjög lítil og til mjög skamms tíma.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 29.10.2012 kl. 01:29

13 identicon

Við hrun bankanna og gengishrun krónunnar lækkuðu tekjur ríkissjóðs á sama tíma og erlendar skuldir hans meira en tvöfölduðust.

Það sem bjargaði okkur var að skuldir ríkissjóðs voru mjög litlar. Vandi Grikkja er hins vegar miklar skuldir ríkisins.

Skuldir íslenska þjóðarbúsins voru hins vegar gífurlegar. Þar eð þar var einkum um skuldir einkafyrirtækja (bankanna) að ræða afskrifuðust þær við gjaldþrot þeirra.

Hér var um að ræða 7000-8000 milljarða afskrift eða fimmföld landsframleiðsla. Til samanburðar eru skuldir gríska ríkisins  1.7 sinnum landsframleiðsla þeirra. 

Skuldir ríkja verða hins vegar aldrei afskrifaðar nema um það semjist við kröfuhafa eftir að ríkið er komið í greiðsluþrot.

Auk neyðarlaganna, þar sem lögvarðar eigur kröfuhafa voru fluttar til innistæðueigenda, skýrir þetta að miklu leyti aðstöðumun Íslands og Grikklands.        

Ásmundur (IP-tala skráð) 29.10.2012 kl. 08:45

14 identicon

Ísland hefði auðvitað fundið fyrir heimskreppunni þó að evran hefði verið gjaldmiðill okkar. En á því er enginn vafi að krónan átti ríkastan þátt í að hrunið varð svo miklu verra hér en annars staðar.

Ástæðan var fyrst og fremst gengishrun krónunnar í aðdraganda hrunsins. Gengið hefði hrunið enn frekar ef ekki hefði verið gripið til gjaldeyrishafta.

Gengishrun krónunnar átti ekki aðeins mestan þátt í að hér varð miklu verra hrun en annars staðar. Skuldavandi heimila og fyrirtækja er einnig afleiðing gengishrunsins enda ljóst að með evru hefðu skuldir ekkert hækkað heldur þvert á móti lækkað með hverri greiðslu.   

Ásmundur (IP-tala skráð) 29.10.2012 kl. 09:06

15 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Er það ekki upplífgandi að Jóhanna er á leið til Helsinki að ræða efnahagsmál við alla helstu spekulanta þar http://www.mbl.is/frettir/innlent/2012/10/29/johanna_raedir_efnahagsmal_i_evropu/ Verð að viðurkenna að ég fæ hroll.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 29.10.2012 kl. 12:07

16 identicon

Hvernig varð gengishrun krónunnar þess valdandi að hrunið á Íslandi varð miklu verra en annars staðar?

Við gengishrun krónunnar lækkaði landsframleiðslan um meira en helming en erlendar skuldir bankanna stóðu í stað reiknað í helstu erlendu gjaldmiðlunum.

Við þessa miklu hækkun á hlutfallinu skuldir/landsframleiðsla varð ljóst að ríkið myndi ekki geta stutt við bankakerfið. Þess vegna fengu bankarnir engin lán erlendis frá.

Þegar Glitnir fékk ekki erlent lán til að endurfjármagna eldra lán blasti greiðsluþrot við. Við það varð áhlaup á hina tvo bankana erlendis sem varð þeim að falli.

Þannig olli krónan allsherjarhruni íslenska fjármálakerfisins.   

Ásmundur (IP-tala skráð) 29.10.2012 kl. 16:40

17 Smámynd: Bragi

Nei Ásmundur, það var ekki krónan. Það var of stórt bankakerfi. Þú ert nokkru dýptarlögum frá því að skilja þetta, því miður.

Bragi, 29.10.2012 kl. 17:46

18 identicon

Ásmundur: Í fyrsta lagi varð hrunið hérna ekki miklu verra en annarstaðar. Hefur þú ekki heyrt neinar fréttir frá Írlandi, Grikklandi. Spáni o.s.frv. síðustu ár?

Í öðru lagi var gengið fyrir hrun falskt í þeim skilningi að innstreymi erlends lánsfjár hélt því uppi. Þegar það hrundi kom vissulega í ljós önnur mynd af greiðslugetu ríkissjóðs en það er undarlegt að tala um að hún hafi minnkað sökum krónunnar. Greiðslugeta spænska, gríska, portúgalska og írska ríkissins fór sömu leið þegar innstreymi lánsfjár stöðvaðist, er það ekki?

Hvort bankakerfið var 10 sinnum eða 15 sinnum landsframleiðsla á skiptigengi hafði nákvæmlega ekkert að gera með bankahrunið, hvort sem það hefði verið, var ómögulegt að bjarga þeim og raunar hefði það ekki verið sérstaklega æskilegt heldur.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 29.10.2012 kl. 18:50

19 identicon

Hans, ekki rugla saman hruninu og hvernig hefur gengið að vinna sig út úr því. Hvergi í heimunum hrundi svo til allt fjármálakerfið nema hér.

Þú nefnir falskt gengi á krónunni. Það var einmitt þetta falska gengi sem átti einn stærsta þáttinn í útþenslu bankanna. Of hátt gengi gerði allt erlent ódýrt þar á meðal erlend fjármálafyrirtæki sem bankarnir ásældust. Kaupgleðin var því mikil.

Hagnaður bankanna var mikið til gengishagnaður. Ef talið hefði verið fram í evrum hefði komið fram gengistap. Verri afkoma hefði þá ekki réttlætt mikla útþenslu.

Það gefur augaleið að traust á ríkinu sem bakhjarli fyrir bankana versnar mikið þegar landsframleiðslan minnkar um helming (í evrum vegna gengishruns krónunnar) en skuldir bankanna standa í stað.

En vissulega var staðan orðin slæm fyrir vegna mikilla skulda bankanna sem höfðu þanist út úr hófi fram. En eins og ég leiði rök að hér fyrir ofan átti sú útþensla að miklu leyti rætur að rekja til þess að við vorum með krónu sem gjaldmiðil. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 29.10.2012 kl. 22:55

20 identicon

Tja, er þetta ekki spurning um hverja bankakerfið hrundi ofan á? Hér hrundi það á kröfuhafa en á Írlandi á skattborgar. Vissulega telst það írska ekki verið farið formlega í þrot en með u.þ.b þrefallt meira atvinnuleysi, tvöfalt meiri niðurskurð á opinberri þjónustu, meiri ríkisskuldir og minni hagvöxt þá er kannski lítil huggun í því fyrir Íra að bankarnir hafi ekki farið formlega á hausinn. Persónulega er mér næstum alveg sama hvað verður um einkabanka úti í bæ en þú hugsar kannski öðruvísi.

Bankarnir voru að kaupa erlendar eignir fyrir erlent lánsfé og umsvif þeirri erlendis meginparturinn af efnahagsreikningum þeirra. Vafalaust hefur gegngishagnaður brenglað afkomutölur um einhver prósent og það er aldrei að vita nema gengið hafi haft einhver áhrif á verðskyn bankastjóra  en ansi er það nú hæpið að halda því fram að þar sé komin meginástæða hrunsins.

Hverju reiddust goðin þá á Spáni og Írlandi?

Traust á ríkinu sem bakhjarli bankanna hefði alltaf verið lítið, hvort sem þeir voru með efnahagsreikning upp á tífalda eða fimmtánfalda landsframleiðslu og vandi þeirra var fyrst og fremst sá að þeir voru illa reknir og fullir af verðlitlu rusli. Vandinn var á endanum eginfjárvandi en ekki lausafjárvandi. Það var raunar mikið lán í óláni að þeir skyldu þó vera það stórir að engin leið var að reyna að bjarga þeim.

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 29.10.2012 kl. 23:21

21 identicon

Þegar afleiðingar hrunsins eru skoðaðar verður að bera ástandið eftir hrun saman við ástandið fyrir hrun.

Þó að atvinnuleysi á Írlandi sé td þrefalt meira en hér er það talsvert minna en það var þegar það fór hæst áður en evra var tekin upp á tíunda áratugnum. 

Þegar fyrirtæki verða gjaldþrota hætta þau starfsemi og búin eru tekin til gjaldþrotaskipta. Ef ekki hefði verið gripið til "ólöglegra" neyðarráðstafana hefði nær öll starfsemi stöðvast á Íslandi og hér orðið skelfilegt neyðarástand.

Lengi vel var óljóst hvort við kæmumst upp með neyðarlögin enda fólst í þeim tilfærsla á fé frá kröfuhöfum til innistæðueigenda.

Ástæðan fyrir því að betur hefur gengið hjá okkur eftir hrun er því ekki alvarleiki hrunsins. Ástæðurnar eru margar. Í fyrsta lagi hafa ytri aðstæður verið okkur hagstæðar. Aflabrögð  hafa verið góð og fiskverð verið hátt.

Ferðaþjónustan hefur blómstrað sem aldrei fyrr. Við vorum svo heppin að skuldir ríkisins voru lltlar fyrir hrun. Þess vegna eru þær ekki óbærilegar nú þegar þær hafa vaxið upp úr öllu valdi vegna hrunsins.

Skuldir einkafyrirtækja sem fara í þrot eru afskrifaðar. Þannig lækkuðu skuldir þjóðarbúsins um 7000-8000 milljarða eða um fimmfalda landsframleiðslu. Það munar um minna.

Verstu afleiðingar hrunsins á Íslandi eru áhrifin á skuldastöðu einstaklinga og fyrirtækja og allar þær afskriftir sem þær hafa kostað að ógleymdum áhrifum á geðheilsu þjóðarinnar.

Þetta eru afleiðingar þess að hafa ónýtan gjaldmiðil enda ljóst að skuldir hefðu ekki hækkað ef við hefðum haft evru. Skuldirnar væru þá mun minni núna án þess að til neinna afskrifta hefði komið.

Það er undarlegt að þeir sem hafa farið illa út úr skuldakreppunni skuli ekki berjast fyrir upptöku evru. Það er eins og þeir loki augunum fyrir því að vandræði þeirra megi alfarið rekja til krónunnar.  

Ásmundur (IP-tala skráð) 30.10.2012 kl. 08:11

22 identicon

U.þ.b helmingur írskra heimila býr við neikvæða eiginfjárstöðu og vanskil eru á svipuðu róli og hér. Skuldirnar hafa vissulega ekki hækkað en fasteiganverð hefur lækkað mun meira en hér og tekjur heimila dregist saman. Niðurstaðan er því nokkurn veginn sú sama og hér á Íslandi.

Er þá evran ekki alveg jafn ónýt og krónan, þ.e ef þú gefur þér að það sé einhver möguleiki á því að vernda almenning fyrir áhrifum efnahagshruns með notkun á einum gjaldmiðli fremur en öðrum?

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 30.10.2012 kl. 10:23

23 identicon

Það er margt annað en gjaldmiðillinn sem hefur áhrif á skuldavandann. Það er því ekki hægt að bera saman Írland og Ísland og draga einhverja ályktun um krónuna eða evru út frá því.

Skuldavandinn á Íslandi er ekki meiri en raunin er vegna mikilla afskrifta. Afskriftirnar voru mögulegar vegna þess að nýju bankarnir keyptu skuldabréf gömlu bankanna á lágu verði. Það eru því kröfuhafar, sem eru flestir erlendir, sem greiða að mestu skuldalækkunina.

Tímabundin lækkun á fasteignaverði skiptir litlu eða engu máli nema að til standi að selja án þess að kaupa dýrara. Hér á landi er meira að segja hagur í slíkri tímabundinni lækkun vegna þess að húsnæðiskostnaður er í vísitölunni.

Lækkun á verði íbúða hefur því áhrif til lækkunar á verðtryggðum lánum. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 30.10.2012 kl. 15:10

24 identicon

Við erum ekki að tala um minniháttar, tímabundna lækkun húsnæðisverðs á Írlandi. Að meðaltali hefur húsnæðisverð fallið um 35% og í Dublin er verðfallið á biliniu 50-60%. Á sama tíma hafa tekjur fólks dregist saman þótt skuldirnar hækki ekki.

Á endanum lendir fjöldi írskra heimila í samskonar vanda og fjöldi íslenskra heimila. Fólk getur ekki borgað af lánunum og getur ekki selt nema með miklu tapi sem oft þýðir að viðkomandi kemur frá viðskiptunum með skuld á bakinu en enga eign.

Annars finnst mér þetta orðið hálf óskiljanlegt hjá þér. Skuldavandinn á Íslandi er vegna krónunnar en þó ekki verri en hann er vegna afskrifta sem hægt hefði verið að komast hjá með evru. Skuldavandinn á Írlandi erhinsvegar þrátt fyrir evruna sem þó hefði vafalaust hefi varið hag íslensks almennings!

Er ekki kominn tími til að horfast í augu við að það er enginn gullpottur við enda regnbogans?

Hans Haraldsson (IP-tala skráð) 30.10.2012 kl. 15:29

25 identicon

Raunlækkun á íbúðaverði á Íslandi er yfir 30% frá 2008 þegar verðið var hæst. Neysluverðsvístalan hefur hækkað um meira en 40% frá þeim tíma og enn er íbúðarverð lægra í krónum talið en þegar það var hæst.

Eins og ég benti á áður þá er rangt að bera ástandið á Íslandi saman við ástandið í einhverju evrulandi til að fá niðurstöðu um hvor gjaldmiðillinn sé betri fyrir Ísland. Málin eru auðvitað miklu flóknari en svo.

Réttara er að gera sér í hugarlund ástandið með evru. Þar liggur beinast við að skuldir hefðu ekkert hækkað vegna hrunsins, og hækka reyndar aldrei, heldur þvert á móti lækkað með hverri greiðslu og væru þess vegna miklu lægri núna ef við hefðum haft evru 2008.

Þar fyrir utan er alveg óljóst hvort hér hefði orðið nokkuð sem verðskuldar að vera kallað hrun með evru. Allavega hefði það ekki verið nærri jafnalvarlegt og með krónu. Það varð ekkert hrun í flestum evrulöndum. Þar er ástandið býsna gott.

Með evru þurfum við ekki gjaldeyrishöft. Við fáum nauðsynlegan stöðugleika til að auka samkeppnishæfni landsins. Við það verða til margvísleg ný störf og útflutningur eykst.

Lægri vextir, minni verðbólga, engin verðtrygging og lægra vöruverð með inngöngu í ESB og upptöku evru eru einnig mikils virði.

Frjáls viðskipti við útlönd og störf og nám í ESB-löndum ganga okkur heldur ekki úr greipum en gjaldeyrishöft samrýmast ekki EES-samningum. Það nægir ekki að breyta þeim og kalla þau einhverju öðru nafni.

Með krónu virðist því blasa við einangrun og lífskjararýrnun svo að ekki sé dýpra í árinni tekið. Sjálfur óttast ég annað hrun, mun alvarlegra en 2008.

Það er þó ekki tímabært að taka ákvörðun fyrir en samningur liggur fyrir. Þangað til eru allavega fáein misseri. Þá gæti verið allt öðruvísi umhorfs á evrusvæðinu en núna.  

Ásmundur (IP-tala skráð) 30.10.2012 kl. 22:26

26 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þetta er bölvað bull í þér Ásmundur, þér er ekki svara vant með áróður og hreinan bjánagang.  Ísland hefur verið í mörg á meðal fremstu þjóða í lífskjörum, með krónunni.  Þetta er því bara hjóm hjá þér, og auk þess er ekki hægt að ræða þessi mál við þig því þú ert eins og róbót tekur engum sönsum, en ert bara í frösum. Ég verð hreinlega þreytt á að lesa það sem þú skrifar, því þú ert eins og ég segi eins og vélmenni sem hefur verið innprentað ákveðin skilaboð og svo er bara vaðið áfram og áfram og áfram og áfram.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.10.2012 kl. 23:31

27 Smámynd: Bragi

Vegna hlaturs frussaði vatninu mínu út úr mér beint á tölvuskjáinn vegna síðasta innleggs Ásmundar.

Hættuleg blanda þegar einstaklingur hefur augljóslega ekki vit til að taka þátt í efnahagsumræðum og er á sama tíma langt leiddur vegna áróðurs.

Hans hefur verið ansi þolinmóður í sínum svörum en vitið hans Ásmundar er ekki til staðar. Haldbær rök síast einfaldleag ekki inn.

Ekki svara verður, þó það sé nú gaman að stinga upp í kappann af og til.

Bragi, 31.10.2012 kl. 01:37

28 identicon

Bragi, í allri vinsemd, vertu ekki að ímynda þér að þú getir verið einhverjum leiðarljós. Það er mjög augljóst að það geturðu ekki.

Þig skortir alla rökhugsun og átt því mjög auðvelt með að komast að þeirri niðurstöðu sem þér hefur verið innprentuð.

Til að komast yfir það stig verðurðu að temja þér rökhugsun, vera gagnrýninn á sjálfan þig og vera maður til að viðurkenna eigin mistök.

Dæmi um skort þinn á rökhugsun er þegar þú ályktaðir að ef hrunið á Íslandi væri af völdum krónunnar þá hlyti hrunið í Grikklandi að vera af völdum evru.

Það er á allra vitorði að hrunið í Grikklandi er vegna spillingar innanlands. Það viðurkenna Grikkir sjálfir. Auk þess virðist þú ekki hafa hugleitt að það varð aldrei neitt hrun í flestum evrulöndum.    

Ásmundur (IP-tala skráð) 31.10.2012 kl. 07:55

29 identicon

Ásthildur, þetta er einfaldlega rangt hjá þér.

Framleiðni á Íslandi er 20% lægri en í nágrannaríkjunum þrátt fyrir miklu lengri vinnudag. Ef við ynnum átta stundir á dag væru lífskjör hér miklu verri en þar. Þau væru þá sambærileg við lífskjör í Suður-Evrópu.

Láttu ekki blekkjast af lífskjörunum fyrir hrun þegar lifað var um efni fram og safnað skuldum. Of hátt skráð króna gerði það mögulegt. 

http://ruv.is/innlent/lag-framleidni-litil-fjarfesting

Ásmundur (IP-tala skráð) 31.10.2012 kl. 08:08

30 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Síðan eftir stríð höfum við átt góða daga hér á Íslandi, ég veit ekki hvað langt aftur er hægt að tala um aðlögum að hruni.  Veit það bara að hér meðan allt lék í lyndi og heiðarleiki og trúnaður ríkti milli atvinnurekenda og verkamanna var hér blómsælt líf.  Það hafði ekkert með krónuna að gera heldur dugnað þeirra sem rifu landið upp úr doða, og færðu það til nútímans, og létu alla njóta góðs af. Það var fyrir tíma græðginnar, að hrifsa til sín allt sem hægt var að hrifsa.  Þar liggur sökudólgurinn en ekki í krónunni, því fyrr sem fólk gerir sér grein fyrir því, því betra. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 31.10.2012 kl. 12:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband