Forystumaður á þingi ESB kallar Íslendinga bandítta

Varaformaður sjávarútvegsnefndar ESB segir að Íslendingar og Færeyingar séu að gera út af við makrílstofninn, þótt hitt sé sönnu nær að makríllinn myndi aféti aðrar fiskitegundir á miðum Íslands og Færeyja ef ekkert væri þar veitt, eins og lengstum var krafa ESB.

 

Ef Íslendingar hefðu hlýtt fyrirskipunum ESB um veiðar á makríl væru íslensk skip ekki að veiða einn einasta makríltytt í eigin lögsögu. En Íslendingar neituðu að beygja sig undir kúgunarkerfi ESB og þess vegna eru þjóðartekjur landsmanna 30 milljörðum króna meiri árlega en ella væri.

 

Makríldeilan endurspeglar afar vel hvers Íslendingar mega vænta í sjávarútvegsmálum ef þeir ganga í ESB. Þjóðin yrði svipt rétti sínum til yfirráða yfir lífríkinu á hafsvæði sem er sjö sinnum stærra en landið sjálft. Kommissarar ESB myndu ráða því hvað við veiddum þar úr deilistofnum í samráði við stofnanir þar sem Ísland hefði aðeins 3 atkvæði af 350.

 

Orð Struan Stevensons, varaformanns sjávarútvegsnefndar ESB-þingsins sem hann lét hafa eftir sér s.l. fimmtudag í Strassborg þar sem ESB-þingið fundar, lýsa ágætlega því hugarfari sem ræður ríkjum í þessu væntanlega stórríki Evrópu:

 

„ESB-þingið samþykkti reglur um strangar refsiaðgerðir á síðasta fundi sínum í Strassborg í september. Framkvæmdastjórnin ræður nú yfir þessu vopni og það er tími kominn til þess að taka nú fram stórskotaliðsvopnin og sýna þessum bandíttum að við þolum ekki þessa ósjálfbæru aðför að sameiginlegum fiskstofni.“

 

Struan Stevenson bætti því við að ekki væri nein hætta á að skortur yrði á þorski þótt lagt yrði hafnbann á Íslendinga og Færeyinga því að „Norðmenn ráði yfir mörg þúsund tonnum af þorski sem bíði eftir að verða seld og þeir geti fyllt upp í hvaða tómarúm sem kunni að myndast verði lokað á íslenskan þorsk. Íslendingar og Færeyingar ættu að gæta sín, þeir gætu varanlega tapað mörkuðum í hendur Norðmanna grípi ESB til refsiaðgerða.“

 

Bretar reyndu ákaft í þorskastríðunum fyrir hálfri öld að beita Íslendinga þvingunaraðgerðum af nákvæmlega sama tagi. Íslendingar létu þó sem betur fer ekki beygja sig. Enn á ný skiptir höfuðmáli að íslensk stjórnvöld geri ítarlega grein fyrir sjónarmiðum okkar á erlendum vettvangi.

 

Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvegaráðherra, sagði í fyrradag í viðtali við mbl.is:

„Það veldur mér vonbrigðum að enginn samningur hafi náðst þrátt fyrir tillögu frá Íslandi um umtalsvert minni veiðar. Við erum eftir sem áður reiðubúin að semja um lausn sem dragi úr makrílveiðum allra strandríkjanna byggt á vísindalegri ráðgjöf og sem tryggir sanngjarnan hlut allra á sama tíma og staðið er vörð um stofninn með hagsmuni framtíðarkynslóða fyrir augum.“

 

Jafnframt segir í fréttinni: „Ráðherrann leggur áherslu á það í yfirlýsingunni að strandríkin beri jafna ábyrgð á því að koma í veg fyrir ofveiði á makrílstofninum og tryggja sjálfbærar veiðar. Það valdi stofninum frekari skaða að ekki hafi enn tekist að ná samkomulagi um lausn á deilunni og um leið efnahag allra ríkjanna.

 

Steingrímur fagnar hins vegar samkomulagi um að renna styrkari stoðum undir eftirlit með uppsjávarveiðum í norðausturhluta Atlantshafsins enda hafi Ísland lagt áherslu á það í samningaviðræðum um makrílveiðarnar til þessa.“


mbl.is „Íslendingar ættu að passa sig“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

þetta er ekki rétt. Að sjálfsögðu getur Ísland veitt makríl. Málið snýst um MAGNIÐ sem LÍÚ hrifsar til sýn af landskunnri frekju og bófahætti.

Eg mundi þýða ummælin sem: LÍÚ er ekkert nema bófaflokkur".

,,Time for tough sanctions against Iceland and the Faroes in mackerel war after talks in London broke up again yesterday with no result. These two bandit nations will wipe out the shared mackerel stock due to their greed."

Núna verða kjánaþjóðrembingar hræddir! Hahaha.

Annars var nú ,,blaðamaður á Mogganum" að verja framferi LÍÚ á facebook síðu Stevensons. Bullaði náttúrulega bara eins og vanalega og var Íslandi til skammar.

http://www.facebook.com/struanmep

Ómar Bjarki Kristjánsson, 27.10.2012 kl. 12:39

2 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Friðarbandalagið og tilvonandi stórveldið ESB, hótar að beita vopnum. Það er nú töluverð mótsögn í þessu, hjá magnaða friðarbandalaginu. Frekar vandræðalegt hjá embættismönnunum drottnandi í Brussel-hásætunum.

ESB ætti kannski að hætta sínum sjóræningjaveiðum út um víða veröld, áður en það stórveldi segir öðrum fyrir verkum. Það er alla vega ljóst að Íslendingar og Færeyingar verða sjálfir að passa sig, því ekki mun ESB passa þá. Það er nokkuð ljóst.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 27.10.2012 kl. 14:09

3 Smámynd: Gunnlaugur I.

Svo tala hér hinn heimskunni Ómar Bjarki Kristjánsson Bruuselskur ESB aftaníossi og ESB- Rembingur um um að menn verði Íslandi til skammar.

Staðreyndin er samt sú að á síðari tímum hefur enginn orðið þjóð sinni til meiri skammar og minnkunnar en einmitt fyrrnefndur ESB aftaníossi Ómar Bjarki.

Hann berst gegn hagsmunum þjóðarinnar á öllum vígstöðvum !

Gunnlaugur I., 27.10.2012 kl. 15:05

4 Smámynd: Ragnar Gunnlaugsson

Já þetta er ótrúlegt Gunnlaugur að svona raddir séu til eins og Ómar Bjarki, sem tala á móti hagsmunum lands og þjóðar. En það virðist vera orðin stór hópur fólks,sem leyfir sér að tala niður helstu atvinnuvegi þjóðarinnar og gjaldmiðil, hvenær sem tækifæri gefst. Þetta hefði verið talin heimska á háu stigi í mínu ungdæmi.

Ragnar Gunnlaugsson, 27.10.2012 kl. 15:24

5 identicon

Er krafa Íslendinga byggð á vísindalegum rökum? Ég hef ekki heyrt nein slík rök. Ég hef heldur ekki orðið var við að Íslendingar færi rök fyrir kröfum sínum í erlendum fjölmiðlum.

Fyrir bragðið er okkar málstaður litinn hornauga. Við eru sögð stunda ofveiði sem mun leggja makrílstofninn í rúst. Óneitanlega fær maður á tilfinninguna að margir Íslendingar vilji ekki semja því að þá geta þeir ekki lengur veitt eins og þeim sýnist. Það er hins vegar nauðsynlegt að semja um skiptingu kvótans því að annars hrynur stofninn.

Íslendingar verða að fara að skilja að frekja og yfirgangur ganga ekki lengur í samskiptum við erlendar þjóðir. Við erum ekki lengur undir verndarvæng Bandaríkjamanna. Herinn burt er ekki lengur okkar vopn.

Að byggja kröfur á þjóðrembunni einni sér og ásaka aðra um landráð fyrir að ástunda þroskaðri umræðu er feigðarflan.

ESB getur ekki bannað innflutning á þorski frá Íslandi. Hins vegar getur myndast um það samstaða að kaupa ekki íslenskan þorsk. Það er vel raunhæft vegna gífurlegs offramboðs á þorski sökum aukins kvóta í Barentshafi. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 27.10.2012 kl. 18:03

6 Smámynd: Bragi

Þetta er mjög furðulegt mál. Skv. ESB erum við að rústa makrílstofninum, skv. Íslendingum erum við ekki að því. Hvort er rétt, spyr ég sem hef kannski ekki fylgst mikið með þessu frá upphafi. En annað hvort hlýtur að vera rétt og hitt rangt. En hvort er það? Hafa einhver gögn stutt málstað okkar, hafa einhver gögn stutt málstað ESB?

Bragi, 27.10.2012 kl. 18:43

7 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Jaá, bíddu nú við? Hverjar eru aftur kröfur LÍÚ? Hvað fara þeir fram á mikið og í framhaldi: Er gerð krafa um veiðar í EU eða Norskri lögsögu? Um þetta spyr enginn. Kjánaþjóðrembingar bara öskra og garga og eru svo núna alveg við að gera í brækurnar af hræðslu þegar sá skoski sagðist vera að ,,wheeling out the stórskotaliði".

Sjáiði til,heildarkvóti er sirka 600.000. LÍÚ bandíttar og Færeyjar eru að taka helminginn af honum! Uppúr þurru. LÍÚ var með 0% um 2007. (Færeyingar hafa einhverja veiðireynslu þarna sem eg skal ekki fullyrða um nákvæmlega hver er en þeir bættu líka allt of miklu við einhliða)

Hver er krafa LÍÚ? Held að kjánaþjóðrembingar ættu að andskotast til að spurja þessa bandítta að því.

EU og Noregur eru, að sögn erlendra fjölmiðla, búnir að koma með margar ólíkar tillögur og hugmyndir að lausn. það kemur víst ekkert frá LÍÚ. þeir halda alltaf uppi sömu heimtufrekjukröfunum - sem enginn veit hver er.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 27.10.2012 kl. 19:05

8 Smámynd: Gunnlaugur I.

ESB- og Brussel Rembingurinn Ómar Bjarki - Hefur talað !

Gunnlaugur I., 27.10.2012 kl. 20:15

9 identicon

Íslendingar eiga ekki að gera kröfu um ákveðið aflamagn af makríl. Þeir eiga aðeins að gera kröfur um ákveðna prósentu. Síðan er það sameiginleg ákvörðun allra hlutaðeigandi hve mikill heildarkvótinn eigi að vera.

Áður en gerðar eru kröfur um ákveðna prósentu þarf að komast að samkomulagi um hvernig hún skuli reiknuð. Í því sambandi skiptir mestu máli hve mikið af þyngd heildaraflans verður til í landhelgi Íslands vegna fæðuöflunar makríls þar.

Þetta hlýtur að vera viðmið sem hlutaðeigandi aðilar ættu að geta sæst á. Ef ekki, þarf að kynna okkar sjónarmið í fjölmiðlum. Tækifærissinninn ÓRG þegir eins og steinn. Hann vill að ágreiningurinn haldi áfram til að minnka líkur á inngöngu Íslands í ESB.

Krafa um magn en ekki hlutfall eykur okkar slæma orðspor enda bendir slík krafa til að heildaraflinn skipti okkur engu máli. Það gefur þeirri útbreiddu skoðun byr í seglin að við séum veiðiþjófar.

Ef kröfur okkar eru byggðar á vel rökstuddum rökum er nauðsynlegt að fram fari mikil kynning í fjölmiðlum erlendir. Ef almenningsálitið er á þann veg að við séum veiðiþjófar þá má búast við að þorskur frá Íslandi seljist ekki í Evrópu enda nóg framboð af þorski þar.

Makríldeilan kemur ESB-aðild ekkert við að öðru leyti en að í ESB verðum við í miklu betri aðstöðu til að tala okkar máli en utan þess.  

Ásmundur (IP-tala skráð) 28.10.2012 kl. 11:44

10 Smámynd: Jóhann Kristinsson

Fyrstu tvær málsgreinin er svo sem góð hugmynd en svo fer Ásmundur aftur í gamla ESB hjólfarið og eyðileggur það sem hann er að leggja til málana.

Kveðja frá Las Vegas

Jóhann Kristinsson, 28.10.2012 kl. 12:48

11 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

það sem kemur í ljós er að það veit engin hver krafa LÍÚ er. það er náttúrulega merkilegt í ljósi þess hve mikla umræðu þessi makríll hefur fengið hérna.

Ennfremur verða menn að hafa í huga, að þetta hangir saman við aðra deilistofna. Framkoma LÍÚ gæti sett samkomulag um aðra deilistofna í uppnám.

Eins og sá skoski hefur oftar en einu sinni bent á, þá hafa skotar og fleiri ekkert góða reynslu af framkomu LÍÚ. það er td. bara stutt síðan að LÍÚ rústaði kolmunnastofninum. Sá skoski mann það alveg. Í raun er LÍÚ með sömu taktík núna - þó ofstækið sé meira núna. Svona öfgasinnaðir sérhagsmunahópar eins og LÍÚ hafa tilhneigingu til að verða alltaf frekari og frekari ef enginn setur ofaní við þá. Norðmenn hafa bent á að það er líkt og íslenska ríkisvaldið hafi ekkert kontról á þessum bandíttum. Og það er rétt ábending hjá þeim Nojurunum.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 28.10.2012 kl. 13:16

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband