Atli og Jón Bjarnason krefja Steingrím svara um aðlögun að ESB í landbúnaði

Margoft hefur verið bent á að umsóknarferlið felur í sér miklu meira en það eitt „að kíkja í pakkann“ til að kanna hvað ESB hefur upp á að bjóða. ESB krefst þess að jafnhliða fari fram flókin aðlögun að regluverki ESB löngu áður en þjóðin á kost á að svara því hvort hún vill ganga í ESB.

 

Kröfur ESB um aðlögun beinast ekki síst að landbúnaðarkerfinu og byggðamálum. Kröfur eru gerðar um umbyltingu íslenska stjórnkerfisins í því skyni að það falli að stjórnkerfi og regluverki ESB. Í mörgum tilvikum er um að ræða breytingar sem ekki væru taldar eftirsóknarverðar ef Íslendingar gengju ekki í ESB. Aðstæður á Íslandi eru mjög ólíkar því sem algengast er í aðildarríkjum ESB, ekki síst í landbúnaði og byggðamálum, og formúlan sem ESB fylgir svo dyggilega, „ein stærð fyrir alla“ hentar Íslandi afar illa á mörgum sviðum.

 

Þegar jafnframt er haft í huga að mikill meiri hluti þjóðarinnar vill ekki ganga í ESB og mun vafalaust hafna því þegar á reynir, er allt þetta aðlögunarbrölt út í bláinn og getur bæði verið stórskaðlegt og kostnaðarsamt.

 

Atli Gíslason, fyrrv. þingmaður VG og Jón Bjarnason, fyrrv. landbúnaðarráðherra, hafa lagt fram svohljóðandi skriflega fyrirspurn til Steingríms Sigfússonar, núverandi ráðherra landbúnaðarmála:

 

1.     Hver er staðan í vinnu ráðuneytisins við að svara opnunarskilyrðum ESB vegna samninga um landbúnaðarmál?

2.     Hvaða skuldbindingar felast í þeim fyrirheitum sem gefin eru um aðgerðir af hálfu íslenskra stjórnvalda í drögum að svari við fyrrnefndum opnunarskilyrðum sem hafa verið til kynningar á fundum samningahóps um landbúnað, kynnt sem „non-paper“, þar sem m.a. er gefið til kynna að vinna við breytingar á löggjöf muni hefjast áður en aðildarsamningur kemur til þjóðaratkvæðagreiðslu?

3.     Hvaða samskipti hafa farið fram við framkvæmdastjórn ESB vegna fyrrnefndra opnunarskilyrða?

4.     Getur ESB krafist þess að tilteknum áföngum verði náð í aðlögun íslenskrar stjórnsýslu að löggjöf ESB áður en samningskaflanum um landbúnað verður lokað (e. closing benchmarks) á grundvelli þessarar skýrslu? Hver er skýringin á því?

 

Þeir Atli og Jón spyrjast jafnframt fyrir um samningsafstöðu varðandi dýra- og plöntuheilbrigði, en það mál varðar einkum rétt íslenskra stjórnvalda til að hafa örugga stjórn á innflutningi á dýrum og plöntum svo að koma megi í veg fyrir að óheftur innflutningur veki hér ekki upp háskalega sjúkdóma, en af því hafa Íslendingar hörmulega reynslu eins og flestir þekkja. Bændasamtökin gera þá kröfu að bannað verði að flytja inn lifandi dýr, hrátt og ófrosið kjöt og aðrar dýraafurðir, svo og að víðtækar takmarkanir verði á innflutningi á lifandi plöntum.  Tilefni fyrirspurnarinnar er jafnframt augljós skortur á samráði við innlenda hagsmunaaðila. Spurt er:

 

1.     Hvernig er staðið að mótun samningsafstöðu varðandi dýra- og plöntuheilbrigði í viðræðum um aðild Íslands að Evrópusambandinu?

2.     Gerir ráðherra kröfur um undanþágur frá regluverki Evrópusambandsins hvað þennan málaflokk varðar og þá hvaða kröfur?

3.     Hefur ráðherra fylgt því sérstaklega eftir að samráð við hagsmunaaðila sé tryggt á öllum stigum málsins og ef svo er, þá hvernig?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Vonandi fá þeir skjót og fljót svör við þessum sanngirnisspurningum.  Eða... er Steingrímur í stakk búin til að svara.  Kemur ef til vill enn ein undanflóttaleiðin.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 4.7.2012 kl. 12:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband