Norsk skólaspeki og barnaskapur á Íslandi

Í gær flutti norski fræðimaðurinn og ESB sinninn Fredrik Sejersted erindi í Þjóðarbókhlöðunni um EES samstarfið. Á eftir birtist greinagott viðtal við fræðimanninn í Ríkisútvarpinu sem Jón Guðni Kristjánsson tók. Vinstri vaktin fagnar málefnalegri umræðu en hefur um leið nokkru við umræðu Sejersteds að bæta.

Enn og aftur sannast hér að hvorki Ísland né Noregur geta afgreitt ESB málið í eitt skiptið fyrir öll. Sú hugsun að hægt sé að segja þannig skilið við pólitísk ágreiningsmál byggir á misskilningi á eðli lýðræðis. Norðmenn hafa tvívegis gengið í gegnum kosningar um ESB aðild sem í báðum tilvikum höfðu lamandi áhrif á norskt samfélag. Á vef RÚV skrifar Jón Guðni Kristjánsson sem ekki verður nú sakaður um að vera mjög andsnúinn ESB:

Deilurnar um aðild eða ekki aðild klauf samfélagið, jafnvel fjölskyldur í herðar niður. 

Þetta er ástand sem við könnumst vel við á Íslandi. ESB deilan hefur leikið fleira grátt á Íslandi en flokk Vinstri grænna. Það er því barnalegt að heyra til þeirra stjórnmálamanna sem segjast vera andsnúnir ESB aðild en vilja setja samfélagið í þeytivindu ESB átakanna til þess að fá málið út af borðinu. Eins og áður hefur verið rætt hér á Vinstri vaktinni þá hafa þeir sem vilja Ísland í ESB fullan rétt til að viðhalda því baráttumáli meðan sú barátta er háð án erlendrar íhlutunar.

Í Noregi er nú stund milli stríða vegna pólitískra hrossakaupa ríkisstjórnarflokkanna norsku og ástandsins í Evrópu sem veldur því að fylgi við ESB aðild er í sögulegu lágmarki. Á meðan safna ESB sinnar vopnum eins og þeim sem birtast okkur í EES skýrslu Seiersted. Þar er því hampað að mikill lýðræðishalli sé á EES samstarfinu vegna þess að löndin séu ekki aðilar að lagasetningu ESB: Orðrétt sagði í Speglinum á RÚV þar sem fréttamaður vitnar í samtal við hinn norska fræðimann:

EFTA löndin taka upp lög Evrópusambandsins án þess að hafa áhrif á mótun þeirra ... Það dregur úr ábyrgð stjórnmálamanna gagnvart kjósendum. Kjósendur geta ekki hengt stjórnmálamönnum fyrir lagasetningu vegna þess að þeir telja sig skuldbundna til þess samkvæmt samningum við Evrópusambandið.

Hér er dregin upp mjög útópísk mynd af ESB og rökræðan minnir á sumt á skólaspeki miðalda þar sem háðar voru langar þrætur um það hversu margir englar gætu setið á títuprjón. Það er vissulega svo að fræðilega eiga öll lönd Evrópusambandsins aðild að lagasetningu ESB en það er ekki þar með sagt að kjósendur í litlum ESB ríkjum hafi möguleika á að refsa sínum stjórnmálamönnum fyrir það sem líkar miður í lagasetningu hins stóra bákns í Brussel. Þvert á móti er Brusselvaldið mjög fjarlægt almennum þegnum ESB og áhrif smáríkja hverfandi. Það er meira að segja vafamál að áhrif Íslands og Noregs ykjust við beina aðild þar sem helsta og eina raunhæfa leiðin til áhrifa innan ESB er ekki í gegnum atkvæðagreiðslur kjörinna fulltrúa heldur með hagsmunapoti innan kerfisins. Þar hafa Norðmenn látið töluvert til sín taka og í einstaka tilvikum hafa Íslendingar gert það sama og gengið bærilega eins og hægt er að nefna dæmi um, til dæmis í saltfiskdeilu fyrir ári síðan.

Með mögulegri inngöngu Íslands í ESB yrðum við að viðurkenna meginregluna um forgangsáhrif (e. supremacy), en í henni felst að allar reglur Evrópuréttar, hvort sem þær séu innleiddar af okkur eða ekki eru hvers kyns reglum aðildarríkjanna (þ.á.m. stjórnarskrá) æðri og ganga þeim framar. Síðan fengi Ísland 6 sæti af af 736 á Evrópuþinginu. Eftir sem áður færu áhrif okkar á regluverk ESB fyrst og fremst eftir því hvaða bolmagn við hefðum til að beita áhrifum innan framkvæmdastjórnarinnar en það ræðst mikið af því hversu marga embættismenn ríki hefur efni á að halda við hirðina.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vinstrivaktin gerir lítið úr niðurstöðu norsku sérfræðinganefndarinnar þess efnis að meiri lýðræðishalli og meira fullveldisafsal fylgi EES-samningnum en ESB-aðild og talar í því sambandi um norska skólaspeki.

Að þurfa að kyngja því að með ESB-aðild minnki lýðræðishallinn og að fullveldisafsal endurheimtist að hluta er meira en búast má við að Vinstrivaktin sé tilbúin til að kyngja. 

Vinstrivaktin talar um það sem hinn mesta barnaskap að taka undir með nefndinni. Það þarf þó ekki tveggja ára rannsókn til að sjá að ályktun hennar er hárrétt enda benti ég ítrekað á þetta áður en hún gaf út sína skýrslu.

Aukinn lýðræðishalli og fullveldisafsal með ESB-aðild hafa verið helstu rök andsinna gegn aðild. Það er því ekki nema von að þeir gefi ekki þessi rök upp á bátinn vegna þess sem Vinstrivaktin kallar ranglega norska skólaspeki. Ekkert slíkt er kennt í skólum þar.

Það sem skiptir öllu máli í þessu sambandi er að norska spekin er miklu áreiðanlegri heimild en óskhyggja Vinstrivaktarinnar og annarra andsinna á Íslandi. 

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 29.3.2012 kl. 08:13

2 identicon

Jájá, Jón Ásmundur.

Jörðin er flöt og tunglið úr osti. Whatever.

Rosalega er þetta orðið langsótt hjá þér. Þessi "sérfræðinganefnd" með Eirík Bergmann gæti sagt hvað sem er, þú myndir lepja það upp sem heilagan sannleik.

Við hin höfum dálítið sem kallast sjálfstæð rökhugsun, sem og undirstöðu stærðfræði.

Ekkert væl og gól og gelt í þér mun breyta því.

palli (IP-tala skráð) 29.3.2012 kl. 08:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband