Norskur prófessor: Engin efnahagsleg rök fyrir tilvist evrunnar

Evrusamstarfið byggir á mjög veikum lýðræðislegum grunni. Auk þess eru evrulöndin með mjög ólík stjórnkerfi og samfélagsgerð og munurinn á löndunum í suðri og austri annars vegar og í norðrinu virðist ekkert vera að minnka.

Þetta eru athyglisverð orð sögð af Janne Haaland Matlary, prófessor í stjórnmálafræði við Háskólann í Osló. Hún bætir því við að samþykktir í Brussel munu hafa lítil áhrif því það er miklu lengra á milli orða og athafna í alþjóðlegu samstarfi en innan einstakra landa.

Janne þessi er engin núlla í fræðunum eða í opinberri umræðu á Norðurlöndum. Hún var valin sem eini útlendingurinn í nefnd á vegum Göran Perssons fyrrum forsætisráðherra Svíþjóðar til að meta hvort evran gæti verið góð lausn fyrir Svíþjóð. Í grein sem hún skrifar í norska dagblaðið Dagens Næringsliv 2. janúar s.l. segir hún að inntakið í 500 síðna skýrslu Perssons um evruna hafi verið að efnahagslega væri evran ekkert sérstaklega góð hugmynd, en að hún gæti stuðlað að pólitískri sameiningu. Svo virtist á fyrstu árunum, en að undanförnu hefur allt farið á verri veg.

Meginvandinn, segir Janne, er að það skorti djúpa pólitíska vitund um að evrulöndin eigi eitthvað sameiginlegt og þessa vitund sé ekki hægt að skapa sameiginlega í svo mörgum og gjörólíkum þjóðfélögum.  Í greininni rekur hún muninn á réttarríkjunum í Norður-Evrópu og ríkjunum í suðri og austri sem séu veik og einkennist af spillingu og klíkuskap. Einkum nefnir hún til sögunnar Grikkland, þar sem stöður séu veittar vinum og kunningjum, og Ítalíu, þar sem ekki einu sinni SuperMario Monti hefur þorað að leggja til atlögu við forréttindi þingmanna sem hafi á bilinu 3,5-5 milljónir í mánaðarlaun, auk bílstjóra og launa frá fyrri störfum.

Þetta eru talsvert stór orð hjá prófessornum. En hún ætti vita hvað hún syngur eftir langar og ítarlegar rannsóknir. Það er því mjög athyglisverð setning sem má finna í grein hennar. Hún segir nefnilega að rannsóknir sýni að vald ESB yfir löndum sem sótt hafi um aðild sé sérstaklega mikið. Það ætti því ekki að koma á óvart að ákveðnir ráðherrar á Íslandi liggi kylliflatir fyrir ESB-valdinu og þessum eina sem reyndi að standa í lappirnar var sparkað úr stólnum. // S


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband