Er unnt að bakka út af evrusvæðinu?

Þær þjóðir sem verst eru staddar á evrusvæðinu eiga fárra kosta völ. Sjálfstæður gjaldmiðill væri líklega heppilegasta úrræði fyrir þær til að rífa sig upp úr kviksyndinu líkt og gerst hefur á Íslandi. Gallinn er þó sá að ekki er auðvelt að sleppa aftur út af evrusvæðinu þegar ríki er komið þar inn.  

Í grein sinni í Frjálsri verslun (7/2011) rifjar Þráinn Eggertsson upp að tveir af virtustu hagfræðingum Þjóðverja, Hans-Werner Sinn og Otmar Issing, lögðu nýlega til að Grikkir tækju aftur upp drökmuna. Um þetta segir Þráinn:

„Martin Feldstein á Harward og ýmsir aðrir eru sama sinnis. En er hugmyndin raunhæf? Árið 2007 fól National Bureau of Ecomic Research í Bandaríkjunum kunnum hagfræðingi, Barry Eichengreen að nafni, það verkefni að kanna hvað mundi gerast ef evrusvæðið liðaðist í sundur.

„Eichengreen komst að þeirri niðurstöðu að afleiðingarnar yrðu svo skelfilegar að ekkert þjóðríki mundi gera slíka tilraun. Það er óðs manns æði að reyna að bakka út af evrusvæðinu. Til dæmis, ef gríska ríkið ræddi í alvöru um endurupptöku drökmunnar mundi skella á svo æðislegur fjármagnsflótti að loka þyrfti lánastofnunum, kauphöllum og sennilega einnig landamærum ríkisins. Töluverðan tíma mundi einnig taka að leysa ýmis mál tengd myntbreytingunni, svo sem að gefa út nýja mynt og breyta forritum og sjálfssölum. Evruþjóðirnar tóku sér tvö ár, 1999-2001, til að undirbúa myntbreytinguna, en fóru sér að vísu rólega.

Eichengreen telur einnig að lýðræðisríki geti ekki skipulagt myntbreytingu að næturþeli og komið aftan að þjóðinni. Í greiningunni frá 2007 tók Eichengreen ekki með í reikninginn að lánakreppa, eins og nú ríkir, gæti rústað fjármálakerfi Grikkja, sett af stað fjármagnsflótta og neytt yfirvöld til að loka fjármálastofnunum - þótt ekki væru uppi bein áform um að taka aftur upp drökmuna. Ef bankakerfi landsins er þegar hrunið fylgir því lítill viðbótarkostnaður að yfirgefa evrusvæðið.

Í nýlegri grein viðurkennir Eichengreen þennan möguleika en grípur til kranahagfræðinnar og segir að við slíkar aðstæður sé víst að Þjóðverjar, Frakkar og aðrar evruþjóðir muni hlaupa undir bagga með Grikkjum vegna ótta ráðamanna ES (þ.e. ESB) við að skelfingin breiðist út til annarra jaðarríkja, jafnvel til sjálfra kjarnaríkjanna (Australian Financial Review 29. júlí 2011). Þjóðverjar geta einir þjóða lagt niður evruna án þess að fjármálakerfi landsins hrynji. Ef þeir taka aftur upp markið mun gengi þess hækka miðað við evruna og fjármagn streyma til Frankfurt, ekki úr landi, en hagkerfi hrynja annars staðar á evrusvæðinu. Hátt gengi marksins og hrun á útflutningsmörkuðum mundi lama þýskar útflutningsgreinar. Fyrir vikið eru forsprakkar í þýsku atvinnulífi vinir evrunnar, segir Eichengreen."

„Trúin flytur fjöll", segir Þráinn Eggertsson síðar í greininni. „Ef fjármálamarkaðir í hræðsluuppþoti trúa því að allar Miðjarðarhafsþjóðirnar eigi ekki fyrir skuldum er fjandinn laus: til að róa markaðinn dugar ekki lengur að tryggja afborganir af lánum þessara þjóða. Það bætir ekki úr skák að þýskir bankar eru mjög skuldsettir, meira en margir ætla, og óðagot og verðbréfahrun sem rætur á í Grikklandi og berst til annarra jaðarríkja gæti einnig lagt þýska stórbanka að velli, svo ekki sé talað um franska og aðra evrópska banka. Og þá yrði nú bomsara boms."

Hvað er nú skynsamlegast fyrir Íslendinga að gera, með yfirsýn Þráins Eggertssonar, hagfræðiprófessors, í huga? Að æða sem hraðast inn í ESB og fá þar að auki hraðferð inn á evrusvæðið, eins og Árni Páll, fyrrverandi efnahagsmálaráðherra, segist hafa verið að undirbúa áður en hann yfirgaf ráðherrastólinn? Og eiga svo á hættu að verða fangar evrunnar og geta ekki sloppið þaðan út aftur, ef allt færi á versta veg? - RA
mbl.is Evrópa á enn langt í land
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Það eitt ætti að fylla stjórnvöld hér ábyrgðatilfinningu,hætta við þetta feigðarflan. Jóhönnuflokkur ber ábyrgð á hruninu sem hér varð, og ætti því að varast vítin,þótt ekki sé vegna þeirra sjálfra,þá vegna þeirra landa sinna,sem henni ber að verja,samkvæmt stjórnatskrá.Alltént eins og hún er í dag.

Helga Kristjánsdóttir, 16.1.2012 kl. 04:30

2 identicon

Hvort mikill fjármagnsflotti skelli á í Grikklandi við upptöku eigin gjaldmiðils fer alveg eftir skiptigenginu.

Þeir sem telja það hagstætt og líklegt að það eigi eftir að hækka sjá sér ekki hag í að koma fé úr landi. Sumir myndu jafnvel kaupa nýja gjaldmiðilinn.

Það er því nauðsynlegt að hafa gengi nýja gjaldmiðilsins lágt í upphafi þannig að það hækki eftir að hann hefur öðlast gildi.

Ef evra hefði ekki verið tekin upp hefði gengi drökmunnar hrunið eins og gengi krónunnar. Drakman hefði þá getað endað í enn lægra gengi en mögulegu skiptigengi.

Það er því varla frágangssök að skipta um gengi af þessum ástæðum þó að það muni valda óróa fyrst í stað.

Hitt er annað mál að eigin gjaldmiðill mun valda Grikkjum jafnvel enn meiri vandræðum en evran enda er vandinn ekki fyrst og fremst gjaldmiðilsvandi. Sveiflur á gengi munu koma í veg fyrir nauðsynlegan stöðugleika.

Ástandið verður þó ekki eins slæmt og hér vegna þess að krónan er miklu minni gjaldmiðill. Grikkir munu samt búa við það ófremdarástand að erlendar skuldir hækka þegar verst stendur á í efnahagslegum samdrætti.

Það er einfeldningsháttur að draga þá ályktun að það sé til vitnis um að Grikkjum muni vegna vel með eigin gjaldmiðil að okkur hefur gengið endurreisnarstarfið betur en nokkur þorði að vona.

Aðstæður voru allt aðrar hér fyrir hrun. Aðalvandi Grikkja eru miklar erlendar skuldir ríkisins. Þær myndu hækka upp úr öllu valdi og verða óviðráðanlegar við hrun eigin gjaldmiðils. Íslenska ríkið skuldaði hins vegar nánast ekki neitt fyrir hrun.

Annað sem hefur hjálpað okkur mikið er að mikill meirihluti af skuldum þjóðarbúsins fyrir hrun, skuldir bankanna, afskrifast við gjaldþrot þeirra.

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 16.1.2012 kl. 09:01

3 Smámynd: Elle_

Evran var sérstaklega klikkuð hugmynd.  Gjaldmiðill ætti ekki að vera pólitískur.

Það er ´barnaskapur´ og ´einfeldningsháttur´ að halda að við gefum upp fullveldið fyrir gjaldmiðil.   Það eru bara þeir sem ´forðast alla rökhugsun´ sem vilja það. 

Elle_, 16.1.2012 kl. 11:01

4 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Matsfyrirtæki heimsins stjórna skuldsetningu ríkja með sínum lygum. Það er sama hvaða gjaldmiðil ríki hefur, meðan þessum svikulu matsfyrirtækjum er trúað. Gleymum ekki hvernig matfyrirtækið Moody's talaði upp ofskuldsetninguna á Íslandi, sem endaði með því að seðlabankinn skuldaði margfalda þjóðarframleiðslu.

Það er auðvitað óskiljanlegt að slíkt hafi verið framkvæmanlegt. Það getur ekki annað hafa komið til, en hótanir og mútur af verstu gerð, til að hrunframköllunar-framkvæmdin hafi verið möguleg.

Slíkar hótanir verður það síðasta sem einhver þorir að segja frá, og á því fljóta svika-matsfyrirtæki siðblindu-heimsauðmanna-klúbbanna.

Alveg fram að hruni sagði svika-matsfyrirtækið Moody's að lánshæfismat Ísland væri gott. Þetta er hertökubragð heimsmafíu-klúbbsfélaganna. Það á ekki nokkur þjóð, hvorki Grikkland né nokkur önnur, að taka meir mark á þessum matsfyrirtækjum, sem eru í raun þrælaframleiðslu-kvarnir auðvaldsins.

Ég óska Evrópubúum og restinni af heimsbyggðinni þess, að ekki verði hlustað meir á þessi tortímandi matsfyrirtæki. Reynslan hefur sýnt hvernig þau kúga þjóðir.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 16.1.2012 kl. 14:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband