Jóhanna Sigurðardóttir þykist hvorki sjá né heyra

Evrusvæðið er brennandi hús. Merkel kanslari talar um mesta vanda Evrópuríkja frá stríðslokum og Sarkozy varar við því að ESB sé að klofna. En á Íslandi situr forsætisráðherra sem reynir að telja þegnum sínum trú um að þetta sé nú bara „skuldavandi örfárra þjóða". Er sá ráðherra hæfur til að gegna embætti sínu sem þykist hvorki sjá né heyra það sem allir aðrir sjá?

Mörg stærstu fyrirtæki Bretlands búa sig undir að evran hverfi úr sögunni. The Guardian í London nefndi sem dæmi fyrir nokkrum dögum stórfyrirtæki á borð við Diagaco (sem á Johnnie Walker og Smirnoff), GlaxoSmithKline, Unilever og Vodaphone. Að sjálfsögðu  verður líf að lokinni evru, en stórfyrirtæki þurfa að hafa viðbragðsáætlanir á hreinu.

Áformuð áætlun ESB til bjargar evrunni er afar flókið verkefni sem veldur hörðum deilum, ekki síður í Þýskalandi og Frakklandi en í öðrum evruríkjum, svo sem Finlandi. Forsætis- og utanríkisráðherra Dana eru mjög ósáttir um það hvernig við skuli brugðist og hart er deilt fyrir opnum tjöldum á æðstu stöðum, bæði í Pólandi og Svíþjóð. Þar að auki snýr björgunaráætlun ESB fyrst og fremst að vandanum þegar til lengri tíma er litið. En samt er það einmitt  yfirvofandi skammtímavandi sem öllu máli skiptir í svip.

Í gær, 13. desember, hafði skuldatryggingaálag flestra evruríkja hækkað enn frá því sem var áður en niðurstaða leiðtogafundarins lá fyrir. Markaðirnir treysta því ekki að lausn sé fengin á vanda evrusvæðisins og í gær var skuldatryggingaálagið hjá Írum komið upp í 735, hjá Portúgölum í 1114, Spánverjum 451, Ítölum 566 og Grikkjum 11310! Allar eru þessar tölur háskalega háar. Staðan hjá Grikkjum er nú um það bil tvöfalt verri en fyrir mánuði síðan og fjórfalt verri en í sumar.

Inn í þetta brennandi hús vill Jóhanna leiða okkur og það helst eins fljótt og verða má. Í því skyni reynir hún að gera nógu lítið úr þeim vanda sem evran sem gjaldmiðill hefur sannanlega skapað vegna þess hve aðstæður eru gríðarlega misjafnar á evrusvæðinu. Enn er það í fullu gildi að „ein stærð fyrir alla" er regla sem hentar þjóðum Evrópu afar illa. - RA


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er þetta ekki dæmigert fyrir fólk sem ekki getur viðurkennt að það hafi gert mistök?

Kristján B Kristinsson (IP-tala skráð) 14.12.2011 kl. 15:38

2 identicon

Bretar vilja evru feiga vegna þess að hún veikir þeirra eigin gjaldmiðil. Bandaríkjamenn sjá ofsjónum yfir evru sem ógnar stöðu dollars. Það ber að skoða yfirlýsingar Breta og Bandaríkjamanna um allt er varðar ESB og evru í þessu ljósi.

Þó að verkefni ESB framundan kunni að vera flókin er flækjustigið lítið í samaburði við það að leggja evruna niður. Þú bíður ekki bara eftir því að evran hrynji og tekur þá upp nýjan gjaldmiðil.

Hver þjóð fyrir sig ákveður hvort hún leggi niður evru. Það verður aðeins gert í mikilli neyð og það er vafasamt að það leysi nokkurn vanda.

Þrátt fyrir allt er evran mjög sterk í sögulegu samhengi. ESB myndi hins vegar þola vel mikið fall hennar. Áhrifin yrðu tiltölulega lítil vegna þess að mest af viðskiptum evruþjóða eru innbyris milli þeirra.

Gengisfall evru myndi einnig leiða til betri samkeppnisstöðu evruþjóða gagvart þjóðum utan þeirra.

Þeir sem loka ekki augunum fyrir öðru en því sem þeir vilja sjá vita að nú stefnir í betra ESB og betri evru sem gerir hvort tveggja eftirsóknarverðara fyrir Íslendinga.

Mér kæmi ekki á óvart að einmitt við þyrftum á þessum hertu aðhaldsaðgerðum að halda fyrst í stað eftir inngöngu í ESB.

Ásmundur Harðarson (IP-tala skráð) 14.12.2011 kl. 16:03

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband