Þorsteinn Pálsson óttast að ESB-skútan sé að stranda

Þorsteinn Pálsson fullyrðir blákalt í Fréttablaðinu í gær að VG hafi stöðvað aðlögunarferlið að ESB og þar með sé útilokað að viðræðurnar geti klárast fyrir næstu kosningar. Sjálfur situr hann í samninganefndinni og ætti að vita manna best hvernig staða mála er.

Að vísu geta þó ekki aðrir svarað því en innstu koppar í búri hvað í rauninni liggur að baki þessum skrifum Þorsteins. Þau ríma ekki við orð Össurar utanríkisráðherra sem lét í það skína fyrir skömmu að hraða bæri viðræðum. Felst eitthvað ósagt að baki skrifum Þorsteins sem enn hefur ekki komið opinberlega fram? Eða er hver höndin upp á móti annarri í viðskiptum Össurar við samninganefndina?

Í grein sinni vitnar Þorsteinn í orð Ingibjargar Sólrúnar sem sagði nýlega að hæpið væri að núverandi ríkisstjórn gæti lokið ESB-aðildarviðræðurnar vegna ágreinings um markmið. Síðan segir Þorsteinn:

„En nú blasir einnig við sú nýja staða að áformin um að ljúka málinu á þessu kjörtímabili eru úr sögunni." Þessa eindregnu skoðun sína rökstyður Þorsteinn á eftirfarandi hátt:

„Ástæðan fyrir því að þetta er ekki lengur mögulegt er fyrst og fremst sú, að VG hefur lagt stein í götu efnislegra viðræðna...Í maí setti VG...skilyrði sem stöðvuðu frekari vinnu að samningsmarkmiðum í landbúnaðarmálum og í reynd á fleiri sviðum. Eftir það var ljóst að lokasamningsgerðin yrði verkefni næsta kjörtímabils. Þetta gjörbreytir aðstæðum og kallar á nýja og lengri tímaáætlun um viðræðuferilinn."

Síðar í greininni þegar hann tekur til umræðu hvað orðið gæti um aðildarumsóknina eftir næstu kosningar, er hann óneitanlega heldur svartsýnn á framhaldið, sem reyndar er skiljanlegt, enda er honum sem öðrum ljóst að bæði Sjálfstæðis- og Framsóknarflokkurinn hafa harðari afstöðu gegn frekari aðildarviðræðum en nokkru sinni fyrr. Líkur á því að Samfylkingin og VG fái aftur meirihluta á þingi við næstu kosningar eru heldur ekki miklar, a.m.k. ekki eins og leikar standa á þessu hausti, því að kannanir hafa sýnt að stjórnarflokkarnir hafa nú aðeins rétt um þriðjung kjósenda á bak við sig. Flest bendir því til þess að eftir næstu kosningar verði ekki þingmeirihluti lengur að baki áframhaldandi aðildarumsókn.

Óneitanlega er mjög athyglisvert að Þorsteinn skuli setja það fram á svo afdráttarlausan hátt að aðildarumsóknin sé þegar komin í öngstræti sem ekki sjái fyrir endann á. Eitthvað fleira hlýtur að búa á bak við og hanga á spýtunni en átök Össurar og Jóns Bjarnasonar um aðlögunarkröfur ESB, sem Þorsteinn kýs reyndar að kalla ekki „aðlögunarkröfur", því að hugtakið „aðlögun" mega þeir ESB-sinnar ekki heyra nefnt, þrátt fyrir stöðugar kröfur ESB af því tagi.

Í staðinn skrifar Þorsteinn um „skilyrði" sem hann segir, að VG hafi sett fram í maí og „stöðvuðu frekari vinnu að samningsmarkmiðum í landbúnaðarmálum og í reynd á fleiri sviðum". Ótrúlegt er að þessi „skilyrði" ein og sér séu næg skýring á fullyrðingu Þorsteins og þess vegna líklegra að raunverulega hafi hann í huga mörg önnur algerlega óaðgengileg skilyrði ESB sem nú eru í farvatninu í samningaviðræðunum, svo sem afnám hindrana hér á landi á innflutningi lifandi dýra, hvalveiðar, makrílveiðar og samningsréttur við önnur ríki um fiskveiðimál sem ESB heimtar að Íslendingar framselji, svo að fátt eitt sé nefnt.

Þorsteinn gengur svo langt í grein sinni að benda stjórnarflokkunum á annað ágætt tilefni en þau sem hér voru nefnd til að víkja aðildarumræðunum til hliðar:

„Til að komast hjá því að láta á það reyna hvort aðildarmálið er stjórnarslitamál er trúlegast að stjórnarflokkarnir sameinist um þá skýringu að hin alvarlega kreppa í heimsfjármálunum hafi breytt áformunum."

Þetta er ágæt ábending hjá Þorsteini og ekki síst holl ábending til forystu VG sem auðvitað geta sett Samfylkingunni stólinn fyrir dyrnar í ESB-málinu, hvenær sem er, enda færir Þorsteinn einmitt ágæt rök fyrir því að Samfylkingin standi að mestu einangruð hvað aðildarumsóknina varðar, og hafi því ekki í önnur hús að venda til að koma umsókninni áfram eftir næstu kosningar.

Ragnar Arnalds


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Það eina sem er að stranda hérna er sú stefna sem andstæðingar Evrópusambandsins hafa rekið undanfarina áratugi á Íslandi.

Fremstur meðal þeirra manna sem hafa staðið og stutt þá stefnu er Ragnar Arnalds, sem hérna rekur þetta blogg gegn ESB aðild Ísands. Enda er Ragnar Arnalds ekki þekktur fyrir neitt annað en hatur á því sem erlent er og einharða einangrunastefnu á sínum stjórnmálaferli.

Staðreyndin er einfaldlega sú að efnahagsstefna og pólitísk stefna andstæðinga Evrópusambands aðildar Íslands er komin í strand og var það fyrir löngu síðan.

Ber Ragnari Arnalds og öðrum andstæðingum Evrópusambandsins að skammast sín fyrir að níðast svona á íslenskum almenningi eins og raun ber vitni.

Jón Frímann Jónsson, 25.9.2011 kl. 15:31

2 Smámynd: Valdimar Samúelsson

Ragnari Arnalds ber að þakka fyrir hans framlag sem er að vinna gegn þessari vitskertu hugmynd sem ESB umsóknin er. Þú Jón Frímann ættir að koma þér til Evrulandana sem fyrst því meintir landáðamenn hafa ekkert að gera hér á Íslandi.

Valdimar Samúelsson, 26.9.2011 kl. 08:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband