Örlar á örvæntingu hjá Ingibjörgu og Jóhönnu
23.9.2011 | 10:24
Nú í vikunni sáust fyrstu merki þess að forysta Samfylkingarinnar gerði sér grein fyrir því að stóra sóknin í fang ESB væri að renna út í sandinn. Sá leiðangur hefur nú staðið í þrjú ár og hófst með herópi Gylfa, forseta ASÍ, sem reyndi þegar neyð íslensku þjóðarinnar var sem mest í miðju bankahruninu, að þröngva ríkisstjórn Geirs Haarde til að sækja um aðild í krafti áhrifa sinna í lífeyrissjóðakerfinu.
Sú atlaga mistókst. En skömmu síðar setti Ingibjörg Sólrún, þáverandi utanríkisráðherra, Sjálfstæðismönnum úrslitakosti. Annað hvort féllust þeir á umsókn um ESB-aðild eða stjórnarsamstarfið myndi springa. Þeir þæfðust þó við og hálfu ári síðar myndaði Samfylkingin stjórn með VG og sótt var um aðild að ESB.
Alvarlegir þverbrestir voru þó strax í þessum áformum Samfylkingarinnar, eina flokksins sem vildi aðild og var því harla einangraður frá upphafi; knappur meiri hluti var að vísu fyrir aðildarumsókn á Alþingi en hins vegar ekki fyrir aðild. Jafnframt hafa allar skoðanakannanir seinustu tvö árin sýnt að þjóðin var og er andvíg aðild.
Það einkenndi einmitt aðildarferlið frá upphafi að þær stöllur, Ingibjörg og Jóhanna, böðluðust áfram meira af kappi en forsjá og geta nú sjálfum sér um kennt. Ingibjörg gefur þó hiklaust í skyn að klaufaskapur og forystuleysi Jóhönnu sé ástæðan fyrir því að illa horfir um ESB-umsóknina og sérstaklega hafi frammistaða Össurar reynst einkar léleg. Hún sagði m.a. í viðtali við RÚV miðvikud. 21. sept:
Að ætla sér að fara í einhvern svona leiðangur með klofið bakland og með myntbandalagið í uppnámi, það er ansi á brattann að sækja.
Vonleysið skín út úr þessum orðum og rímar vel við orð annars ákafamanns um ESB-aðild, Jónasar Kristjánssonar, sem sagði af sama tilefni fyrir fáeinum dögum: Ég segi þetta sem sannfærður evrópusinni. Atkvæðagreiðsla við núverandi aðstæður gerir bara illt verra. Eyþjóðin er of heimsk og roggin...
Ástæðan fyrir þessari örvæntingu er auðvitað ekki sú ein að kannanir hafa sýnt stöðugt einbeittari vilja landsmanna til að standa utan við ESB. Hitt vegur vafalaust þyngra að evrusamstarfið, sem var aðaltálbeita ESB-sinna eftir að bankahrunið felldi krónuna, hefur reynst meingallað og því hefur einmitt fylgt veruleg áhætta fyrir smáþjóðir á jaðri evrusvæðisins. Eða eins og Jónas Kr. orðaði það:
"Evran og Evrópusambandið eru orðin að steinbarni í maga ríkisstjórnarinnar. Vandræði Írlands, Grikklands og fleiri ríkja fæla fólk frá umsókn um aðild. Meirihluti er gegn henni og hann fer vaxandi.
Lengi vel létu forystumenn Samfylkingarinnar eins og vandræðin á evrusvæðinu kæmu aðildarumsókn Íslendinga ekkert við. Þó kusu flestir að þegja. En Helgi Hjörvar og Árni Páll létu eins og um væri að ræða ómerkilegan kvefsjúkdóm sem líða myndi hjá á nokkrum vikum. Jóhanna Sigurðardóttir mætti svo í viðtal við AFP-fréttastofuna sem birt var sama dag og fyrrnefnd ummæli Ingibjargar féllu, og þar neyddist ráðherrann til að viðurkenna með sútarsvip:
Efnahags- og fjárhagsvandræði Evrópu kunna að draga úr stuðningi Íslendinga við að ganga í Evrópusambandið.
Það eru þó miklu fleiri sem þurfa að horfast í augu við staðreyndirnar eins og þær blasa við. Sá hluti forystu VG sem hjálpaði Samfylkingunni að smygla aðildarumsókninni í gegnum þingið þarf að endurskoða hug sinn og hefur of lengi leikið hlutverk saklausa barnsins sem stóðst ekki freistinguna að kíkja í pakkann sem það ætlar þó alls ekki að þiggja.Heimurinn á barmi nýrrar kreppu | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sumt af forystu fólki Samfylkingarinnar er aðeins farið átta sig á gjörtapaðtri stöðu ESB umsóknarinnar og því hefur ESB hrokinn aðeins minnkða hjá sumum þeirra alla vegana.
Gunnlaugur I., 23.9.2011 kl. 17:37
Það var gaman að einhver mundi eftir þessu. ''Sá leiðangur hefur nú staðið í þrjú ár og hófst með herópi Gylfa, forseta ASÍ'' Ég kannaði þetta og skrifaði öllum formönnum aðildarfélaga ASÍ og engin sagði að neitt hefði verið rætt um aðild að ESB. Sumir sögðu reynda að það kæmi aldrei til greina að þeir færu einhvað að leggja á ráðin með það og menn verða gera það upp við sig persónulega en ekki í gegn um félagið. Þetta eru lygar Gylfa og ég á öll svör þessara manna í tölvu minni.
Valdimar Samúelsson, 23.9.2011 kl. 18:00
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.