Ísköld markaðssjónarmið ESB engin tilviljun

Þótt það sé eflaust rétt að myntbandalagið um Evruna sé í uppnámi, og jafnvel hinir hörðustu Samfylkingarmenn eru farnir að viðurkenna það, þá munu breytingar á því bandalagi ekki skipta sköpum fyrir þau öfl sem ráða ferðinni innan ESB, öflin sem fyrst og fremst þjóna hagsmunum alþjóðlegra stórfyrirtækja. Þar á bæ er kúgun og fórn einnar smáþjóðar ekki tiltökumál.

Umræðan um ,,björgunaraðgerðir" fyrir Grikki gefa ærið tilefni til að horfa á þetta mál í stærra samhengi og setja upp vinstri gleraugun hér á Vinstrivaktinni gegn ESB. Hamrað er á því að annað hvort verði málið leyst á pólitískan hátt með því að Grikklandi verði ,,bjargað" og ,,fái" að vera áfram í Evrusamstarfinu eða efnahagslega og þá verði Grikkland ,,rekið" úr Evrusamstarfinu.

Svo virðist sem fyrrnefndi kosturinn verði ofan á, þótt allt geti breyst í því Evrópusambandi sem enginn veit hvað er. En hvað felur hann í sér? Jú, Grikkland skal lúta lausnum þess stórgróðahyggju-hagkerfis sem skapaði vandann, ,,leysa" mál sín með því að skera niður störf, skera niður velferðarþjónustu og annan kostnað sem gjarnan hefur verið talinn óþarfur og jafnvel til óþurftar út frá köldum markaðssjónarmiðum. Þessi birtingarmynd er aðeins hluti af miklu víðtækari þróun í átt til miskunnarleysis markaðshyggjunnar þar sem hagsmuna stórfyrirtækja er gætt og engu eirt.

Nýleg heimsókn Noam Chomsky og fyrirlestur hans, umsagnir fyrrverandi útsendara AGS og sláandi heimildarmynd sem var á dagskrá sjónvarps að kvöldi 14. september, The Shock Doctrine byggð á bók Naomi Klein, eru býsna hörð áminning um hvernig þessi öfl vinna.

Stundum er eins og fólk sem er tilbúið að fordæma þessi einkenni, ef þau koma að vestan, sé meira en fúst til að setja kíkinn fyrir blinda augað ef bent er á að þau ráði ekki síður ferðinni í uppbyggingu og hagsmunagæslu innan ESB.

Fáir hafa betur komið orðum að þessum einkennum eins og þau birtast í ESB en Þórarinn Hjartarson, sem skrifað hefur um málið í vefmiðla, blöð og rit sem Rauður vettvangur gaf út á síðasta ári. Orðin hér að neðan eru frá því í apríl á vefmiðlinum eggin.is:

Ríkjandi blokkir heimsauðvaldsins - Bandaríkin fremst ásamt bandamönnum sínum í ESB - vinna markvisst að miðstýrðum heimsyfirráðum. Vald ríkjandi auðblokka og alþjóðlegra fjármálamarkaða raungerist gegnum „yfirþjóðlegar" stofnanir eins og AGS og Heimsviðskiptastofnunina, OECD og í æ ríkara mæli einnig SÞ. Hin öra samrunaþróun Evrópu - frá verslunarsamningum og síðan efnahagsbandalagi yfir í sameiginlegan markað (ESB), þá peningamálasamband og loks pólitískt samband með Lissabonsáttmála - sýnir þessa þróun í hnotskurn innan okkar álfu. Valdið flyst frá þjóðkjörnu valdi til skrifræðisstofnana og æ fjarlægari stjórnsýslustiga - og efnahagssamruninn ryður þar brautina. Þessum öflum er mikilvægt að losna við allt sem kalla má lýðræði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband