Hví eru þeir Össur og Ólafur ritstjóri svo lítilþægir?

Á árum áður var það ein helsta staðhæfing ESB-sinna að íslenskur sjávarútvegur fengi varanlega undanþágu frá regluverki ESB ef til aðildar kæmi, vegna þess að íslensk fiskimið væru svo fjarri meginlandinu. Margir minnast þess þegar helsti talsmaður ESB-aðildar í hópi valdamanna, Halldór Ásgrímsson, boðaði að 200 mílna landhelgi okkar yrði sérstakt stjórnsýslusvæði sem önnur fiskveiðiríki myndu ekki skipta sér af. Draumsýn Halldórs varð mjög til að fjölga þeim sem vildu „kíkja í pakkann“ og kanna hvað væri í boði ef sótt yrði um aðild.

 

Nú er ljóst að áróðursmeistarar ESB hafa algerlega snúið blaðinu við. Fræg urðu ummæli Össurar í sumar þegar hann sagði að Íslendingar þyrftu ekki neinar undanþágur frá fiskveiðistefnu ESB. Ólafur Stephensen tók í sama streng í leiðara Fréttablaðsins 15. september s.l. og varaði eindregið við „alls konar óraunhæfum kröfum sem litlar líkur eru á að hægt sé að rökstyðja“. Hann hélt því jafnframt fram að fráleitt væri „að sækjast eftir varanlegum undanþágum“.

 

Hvers vegna hafa þessir menn snarsnúist í miðjum viðræðum við ESB og ganga nú þvert á þá stefnu sem meirihluti Alþingis þóttist ætla að fylgja þegar aðildarumsóknin var samþykkt? Nokkrar skýringar kunna að vera á því:

 

Í fyrsta lagi var þeim alltaf ljóst að varanlegar undanþágur frá meginreglum ESB í sjávarútvegsmálum væru ekki í boði. En meðan slagurinn stóð um það hvernig lokka mætti fram aðildarumsókn frá Alþingi vildu þeir ekki slæva vonir þeirra sem helst voru hikandi. Nú er það taktík Össurar og ESB-sinna að draga sem mest úr vonum almennings svo að vonbrigðin verði ekki eins sár þegar samningurinn sér dagsins ljós.

 

Í öðru lagi er nú unnið að því að smíða sýndarlausn í fallegum umbúðum sem reynt verður að selja landsmönnum með áróðursherferð, sem kosta mun mörg hundruð milljónir króna, þar sem niðurstöðu samninga verður lýst sem stórmerkilegum sigri Íslendinga. Samningamenn ESB eru þrautþjálfaðir í þess háttar kúnstum og nægir að minna á „finnsku sérlausnina“ í landbúnaðarmálum sem enn er í hávegum höfð í áróðrinum sem merkur sigur Finna, en fólst þó í því einu að Finnar fengu leyfi til að styrkja landbúnað sinn með hlutfallslega hærri fjárhæðum úr eigin vasa en önnur ríki.  Árangurinn var sá að þar varð hrun í landbúnaði. Með sama hætti verður íslenski pakkinn að sjálfsögðu nefndur „sérlausn fyrir Ísland“ þótt hann feli ekki í sér neinar raunverulegar undanþágur frá regluverki ESB. 

Sennilega eru þetta skýringarnar á því að Össur og Ólafur Stephensen eru svo lítilþægir að vilja ekki lengur tala um „varanlegar undanþágur“ þegar rætt er um fyrirhugaðan samning við ESB.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Snorri Hansson

Ég vil þakka fyrir sérlega vandaðan og málefnalegan málflutning á þessari síðu.

Snorri Hansson, 24.9.2011 kl. 03:28

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband