Alrangt hjá Þorsteini Páls að krónan hrynji ef evran falli

Þorsteinn Pálsson, sérlegur sendimaður Össurar í samningaviðræðum um ESB aðild, stendur nú frammi fyrir því eins og aðrir hans líkar, að evran, sem helst átti að lokka þjóðina í ökuferðina miklu inn í ESB, er nú hálfu líklegri til að fæla fólk frá ESB aðild en að örva landsmenn til fylgis.

 

Þorsteinn snýst til ákafrar varnar fyrir evruna í Fréttablaðinu nú um helgina. Hann segir: „Kjarni málsins er sá að falli evran hrynur krónan. Það veitir því ekkert skjól að standa utan myntbandlagsins.“  Þetta er alrangt. Ef gengi evrunnar fellur mikið næstu vikur eða mánuði er hitt jafnvel líklegra að krónan styrktist hlutfallslega frekar en hitt. En sundrist evrusvæðið og skiptist upp í tvö eða fleiri svæði verður ekki séð með neinum rökum að það hefði sérstök áhrif á gjaldmiðil okkar eða efnahagslíf.

 

Kjarni málsins er aftur á móti sá, að mestu skiptir fyrir íslenskt efnahagslíf að gengi gjaldmiðilsins sem við notum hreyfist í takti við þær aðstæður sem þjóðin býr við hverju sinni. Ef mikill uppgangur er í atvinnulífi okkar hentar betur að gengi krónunnar hækki því að þá  vinnur það gegn verðbólgu, þ.e. erlendar vörur fást þá á lægra verði. En þegar fiskveiðar bregðast eða bankakerfið hrynur, svo að kunnugleg dæmi séu nefnd, bregst gengi krónunnar við með því að gera krónuna verðminni. Við erum þá nauðbeygð til að flytja minna inn en um leið gefur útflutningur meira í aðra hönd sem hjálpar efnahagslífinu aftur á réttan kjöl.

 

Þessi aðlögun krónunnar að breytilegum aðstæðum hverfur ef við tökum upp annan gjaldmiðil. Hitt er þó hálfu verra að oft gerist það að gengishreyfingar evru eða annarra gjaldmiðla ganga beinlínis í þveröfuga átt við það sem hentar efnahagslífi okkar. Einmitt þá er voðinn vís ef við erum rígbundin öðrum gjaldmiðli. Þessi staða kemur oft upp; sveiflur í efnahagslífi evrusvæðisins eru iðulega þveröfugar við það sem er hér á landi hverju sinni. Þetta eru meginrökin fyrir því að óskynsamlegt er fyrir Íslendinga að taka upp annan gjaldmiðil. Sveiflur í efnahagslífi Íslendinga eru einfaldlega mjög ólíkar sveiflum á evrusvæðinu og munar þar mestu að sjávarútvegur vegur hér margfalt þyngra en hjá nokkurri annarri þjóð í Evrópu.

 

Hitt er allt annað mál að vaxandi kreppa í evruríkjunum kemur sér illa fyrir okkur Íslendinga, rétt eins og alla aðra sem við þau ríki skipta, og þá einkum á þann hátt að eftirspurn eftir framleiðslu okkar minnkar. Það yrði reyndar hvort sem við værum með krónu eða evru.

 

Eitt er þó jákvætt við það sem gerst hefur á evrusvæðinu undanfarna mánuði. Augu fólks eru loksins að opnast  fyrir þeim miklu ágöllum og veikleikum sem evrusamstarfið býr yfir. Æðstu embættismenn og pólitískir forystumenn ESB viðurkenna beinlínis opinskátt og í allra áheyrn að evrusamstarfið riði til falls vegna innri veikleika ef ekki verði tafarlaust úr bætt.

 

Því hefur lengi verið spáð að svona færi. Frá upphafi var hinn sameiginlegi gjaldmiðill nær því að vera pólitísk yfirlýsing um fyrirhugaða stofnun Bandaríkja Evrópu fremur en að til þess væri stofnað með efnahagslegum rökum. Nú er líka hamrað á því í öllum áttum að það sem á vanti til að samstarfið um einn gjaldmiðil  geti blessast sé enn meiri miðstýring, enn meiri samruni og enn meira framsal fullveldisréttinda í efnahagsmálum, sbr. grein Joschka Fischer, fyrrv. varakanslara Þýskalands, í Morgunblaðinu í dag sem heimtar opinskátt meira valdaafsal aðildarríkja og „frekari tilfærslu á fullveldi“.

 

Hvort það leysir vandann skal ósagt látið. Aðstæður og þarfir aðildarríkjanna eru mjög mismunandi; gengi eða vaxtastig sem hentar Írlandi, Grikklandi eða Portúgal við ákveðnar aðstæður er allt annað en það sem hentar stóru ríkjunum sem ráða ferðinni, Þýskalandi og Frakklandi. Hvernig sem allt veltur þá er innbyggð mótsögn í evrukerfinu sem veldur ólgu undir niðri og leiðir að lokum til þess að upp úr sýður.

 

Þetta er einmitt meginástæðan fyrir því að það væri glapræði fyrir Íslendinga að láta stinga sér ofan í þann grautarpott.

 

Ragnar Arnalds


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Þetta er rétt hjá Þorsteini. Þar sem íslendingar eiga mikið undir útflutningi til ESB þá mundi hrun evrunar þýða það að útflutningur frá Íslandi til ESB mundi leggjast af. Við það mundu ekki neinar tekjur af umræddum útflutningi koma til Íslands og það mundi þýða algert hrun á Íslandi í kjölfarið.

Íslenska krónan mundi auðvitað hrynja í kjölfarið þar sem að engar gjaldeyristekjur væri að fá fyrir útflutning, sem væri auðvitað stopp og mundi bara safnast upp hjá íslenskum fyrirtækjum.

Hvað varðar "aðlögun" íslensku krónunar, sem þú ert svo mikill aðdánandi að. Þá er skemmst frá því að segja að þetta er ekkert nema að pissa bara í skóinn hjá sér. Þar sem að svona mikið gengisfall eins og þú vilt viðhalda á Íslandi mun hækka laun, verðlag og verðbólgu í íslensku hagkerfi.

Semsagt, þetta mun vinna á móti hagsæld og hagsmunum íslenskt almennings þegar fram líða stundir, og það má alveg færa fyrir því rök að lágt gengi íslensku krónunar sé nú þegar farið að vinna gegn hagsmunum almennings á Íslandi.

Sérstaklega þar sem að verðbólgan á Íslandi er komin yfir 5% núna í dag og enginn endir virðist á vexti verðbólgunar á Íslandi þessa dagana.

Að þessu leiti eru öll evru ríkin betur sett en Ísland. Þar sem að þau þurfa ekki að kljást við þetta ákveðna vandamál. Það eru vissulega vandmál í gangi, en þau verða leyst og efnahagslíf evruríkjanna mun jafna sig.

Ef íslendingar halda í ónýta krónun og lokað efnhagslíf þá mun ríkja kreppa á Íslandi allan næsta áratuginn (2. Áratug 21. Aldar) á Íslandi. Slíkt hefur gerst áður í sögu Íslands, og ef íslendingar breyta ekki neinu. Þá mun það gerast aftur.

Jón Frímann Jónsson, 9.8.2011 kl. 14:59

2 Smámynd: Vilhjálmur Stefánsson

Mikið eru menn blindir og þjáðir,að halda að ESB og Evran bjargi öllu.....

Vilhjálmur Stefánsson, 9.8.2011 kl. 15:51

3 Smámynd: Elle_

Já, mikið eru þau þjáð.  Gætu þeir ekki bara verið að ljúga?  Hví flytja þau ekki og hætta að vaða yfir okkur hin? 

Elle_, 9.8.2011 kl. 18:05

4 identicon

Jón Frímann veður ESB elginn og í vonlausri vörn fyrir Evruna sían heilögu.

Þá segir hann núna að ef Evran hrynji þá muni ESB þjóðirnar ekki vilja kaupa vörur okkar.

Þetta er þvílíkt rugl, auðvitað verður fólk alltaf að borða og matvörur munu og hafa farið hækkandi í alheimskrýsunni og munu gera áfram.

Bretarnir sem eru stærstu kaupendur okkar sjávarafurða munu borga okkur með sínum Bresku pundum fyrir þorskinn sinn og ýsuna og síldina. Þeir eru ekki bundnir Evrunni, þeir munu borga okkur í breskum pundum !

Aðrir fiskmarkaðir okkar í ESB EVRU löndunum munu aðeins þurfa að boraga fleiri Evrur fyrir ferska fiskinn eða saltfiskinn af því að á aljóða vísu er gjaldmiðill þeirra fallinn eins og reyndar efnahagurinn líka.

Spánverjar, Portúgalar eða Ítalir munu ekkert hætta að kaupa saltfisk sem þeir hafa verslað með og etið í fleiri hundruðir ára þó þessi uppdigtaði gjaldmiðill standist ekki raunveruleikann.

Svo seljum við nú sjávarafurðir okkar mun víðar svo sem til Japans og Asíu og Vesturheims líka. Reyndar gætum við selt allan okkar sjávarafla léttilega tvisvar sinnum þannig að við erum eða verðum ekki í neinum vandræðum þó svo að hin heilaga myntkerfi Jóns Frímanns ESB trúboða muni leysast upp í frumeindir sínar !

Allur okkar áliðnaður og framleiðsluvörur hans eru seldar í US dollar og stærstur hluti orkutekna okkar er líka í US dollar.

Þannig að þetta er rugl og fjarstæða hjá aumingja Jóni Frímanni. Íslenska krónan myndi styrkjast við fall Evrunnar þó svo að auðvitað myndi það valda okkur einhverjum skammtímavandræðum eins og öðrum ríkjum heimsins.

En flótti hans og niðurlæging í beinni útsendingu er reyndar mjög aumkunnarverður, en hefur verið sýnilegur í all nokkurn tíma en er nú að ná nýju hámarki !

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 9.8.2011 kl. 20:04

5 identicon

Sæl öll.

Ég er algerlega sammála Jóni Frímanni með það að að sjálfsögðu fellur krónan ef Evran fellur. Stór hluti okkar útflutnings er greiddur í Evrum. Ef færri krónur fást fyrir þær evrur til að greiða innlendan kostnað, gerist annað tveggja: Útflutningsfyrirtæki fara á hausinn í stórum stíl eða að krónan fellur.

Hins vegar er ég sammmála greinarhöfundi að einmitt vegna ofanritaðs farnast okkur best að viðhalda krónunni.

Íslandi hefur tekist s.l. 70 til 80 ár að margfalda afkomu þjóðarinnar þrátt fyrir hríðlækkandi gengi og óðaverðbólgu. Hækkað kaupmátt launa margfallt meira en nokkru öðru vestrænu ríki. Þannig að útkoman fyrir mér er að mér er slétt sama um gengi krónunnar. Mér er slétt sama um verðbólgu ef ég fæ sífellt meira fyrir kaupið mitt ár eftir ár. Auðvitað eru ár sem ver gengur eins og akkúrat núna en þegar á heildina er litið hefur okkur gengið ótrúlega vel þrátt fyrir óðaverðbólgu og verðlitla krónu. Það skildi þó aldrei vera að það væri VEGNA krónu!!!!

Kveðjur bestar

Druslari

halldór agnarsson (IP-tala skráð) 9.8.2011 kl. 20:24

6 identicon

Ég held að síða "vinstri" andstæðinga ESB sé einhvert heimskulegasta fyrirbæri sem ég hef rekið augun í. Hér er því fagnað hvað eftir annað hversu dásamlegt það er fyrir "okkur" að geta fellt gengið, því að þannig lögum við vandamál þjóðarinnar. Fall gengis þýðir auðvitað ekkert annað en að launþegar blæða og útflytjendur græða -- og á ég bágt með að sjá hvað er svo gott við það fyrir mig. Og síðan fabúlera menn um hversu óskaplega kaupmáttur hefur aukist á Íslandi í skjóli krónunar!!! Á hvaða plánetu lifir slíkt fólk. En eins og allir vita þá erum "við" snillingar -- það segir forsetinn a.m.k.

Pétur (IP-tala skráð) 9.8.2011 kl. 21:00

7 Smámynd: Elle_

Persónulega vil ég ekki sjá ísl. krónuna og vegna þess að stjórnmálamenn hafa alltaf misnotað hana og munu ekkert hætta að gera það.  Vildi heldur vera með Kanada - eða US dollar, já eða kannski svissneskan franka. 

Hinsvegar er e-ð bogið við ofsatrú evruliðsins sem gengur e-n veginn svona: Sko, veikleiki ísl. krónunnar er krónunni að kenna en veikleiki evrunnar er ekki evru að kenna.  Það er fáránlegur málflutningur og ekkert nema ofsatrú þeirra sem það segja og halda að allt evrulegt og EU-legt sé heilagt.  Hin lönd heimsins, 92% heimsins, kemst víst hvergi nærri í heilagleikanum.  

Veikleiki gjaldmiðils stjórnast af stjórnmálum, það eru íslenskir stjórnmálamenn sem misnota gjaldmiðilinn okkar.  Og það vil ég ekki lengur að þeir geti.  

Elle_, 9.8.2011 kl. 22:07

8 identicon

Það fer að verða Svisslendingum dýrt að hafa svona sterkan franka inni í miðri Evrópu.  Þeir geta ekki flutt neitt lengur út.

Ef evran fellur og pundið ekki, þá munu Bretar eiga í erfiðleikum með að flytja eitthvað út til annara Evrópulanda.

Krónan hlýtur að falla ef hún er í höftum því Seðlabankinn verður að passa upp á það að útflutningstekjur eru meiri innflutningur.

Eða er í lagi að innflutningur sé meiri en innflutningur?

Stefán Júlíusson (IP-tala skráð) 9.8.2011 kl. 22:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband