Loftbóluhagkerfið og ESB

Hver var meginorsökin fyrir bankahruninu og hvaða lærdóm má af því draga? Íslensku bankarnir stóðu traustum fótum fyrir einkavæðingu og höfðu þjónað landsmönnum ágætlega, einn þeirra í 80 ár, annar í 100 og sá þriðji í 120 ár. En það tók fjármálasnillingana aðeins sex ár að setja þá alla á hausinn.

Hvernig gat þetta gerst? Hvernig komust fjárglæframenn upp með að taka þúsundir milljarða af sparifé landsmanna ásamt ævintýralega háum erlendum lánum til kaupa á fyrirtækjum vítt og breitt um heiminn. Útrásarbrjálæðið og aðdragandi hrunsins var vissulega margþætt og flókin atburðarás. En upphafið má rekja til EES-samningsins og regluverks hans um óhefta fjármagnsflutninga milli landa. Í anda EES-samningsins var hafist handa um einkavæðingu banka sem síðan spönuðu upp verð hlutabréfa í sjálfum sér og fengu þannig olnbogarými til að fjármagna útrásina. Þaðan lá svo beinn og breiður vegur út af hengifluginu. Það þarf engan að undra að í hópi bankastjóra og útrásarvíkinga var einmitt að finna ýmsa áköfustu talsmenn fyrir ESB-aðild og upptöku evru.

Auðvelt er þó að sýna fram á að hrunið á Íslandi hefði orðið enn skelfilegra, skuldabyrði ríkis og þjóðar langtum stærri og endurreisnin stórum torveldari ef við hefðum verið í ESB og með evru, sbr. reynslu Íra, Portugala og Grikkja. Einmitt þessa dagana en verið að flytja tugþúsundir milljarða úr þrotabúum gjaldþrota einkabanka yfir á herðar skattgreiðenda í þessum ríkjum samkvæmt fyrirmælum ESB og í andstöðu við heimamenn sem ekki fá rönd við reist.

Kjarni málsins er sá að ESB regluverkið sem við fengum með EES-samningnum greiddi götu fjárglæframanna sem komust í aðstöðu til að byggja upp gífurleg eignasöfn sem skráð voru með uppsprengdu verði í efnahagsreikningum fyrirtækja, banka og sjóða. Hlutabréfaverð á Íslandi þrefaldaðist á fáum árum eftir aldamótin en verð á hlutabréfum banka sex- og sjöfaldaðist. Að sjálfsögðu var engin innistæða fyrir þessari ímynduðu verðmætaaukningu. Þetta var sannkallað loftbóluhagkerfi. Bankatröllin þrjú urðu tíu sinnum stærri að umfangi en heildarframleiðsla landsmanna og þegar þessi þrjú tröll risu upp í litlum báti var rökrétt að honum hvolfdi. Frelsi fjármagnsins, æðsta boðorð ESB, stuðlaði að því beint og óbeint að engar hömlur eða höft voru sett á umsvif eigenda bankakerfisins. Enn er í fersku minni þegar Ögmundur Jónasson nefndi í ræðu að bankarnir væru orðnir þvílíkt vandamál í íslensku efnahagslífi að kannski væri heppilegast að þeir flyttu höfuðstöðvarnar eitthvað annað. Hópur manna á netinu réðist með offorsi á Ögmund og hann var úthrópaður sem ofstækismaður.

Loftbóluhagkerfið kom þúsundum Íslendinga í þrot og hafði næstum gert íslenska ríkið gjaldþrota. Hömlulaus gróðahyggja hentar vafalaust fáum þjóðum jafn illa og okkur Íslendingum vegna fámennis og smæðar hagkerfisins. Sú lexía sem hrunið kennir okkur er einmitt sú að fjölmargar reglur sem við fáum frá ESB eru fremur sniðnar fyrir ríki sem eru hundrað til tvö hundruð sinnum fjölmennari en okkar þjóð.

Ragnar Arnalds


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband