Í tilefni af tveggja ára afmælis klofnings VG

Nú eru tvö ár liðin frá því VG myndaði ríkisstjórn með Samfylkingunni og fékk sitt umboð til þess frá flokksráðsfundi. Sá flokksráðsfundur er mér enn í fersku minni enda voru þar höfð uppi stór orð, loforð sem voru svikin stuttu seinna. Á þeim fundi var fundurinn nefnilega sannfærður um af flokksforustunni að ágreiningurinn á fundinum, sem  varðaði umsókn að ESB, væri algjörlega óþarfur.

Fundurinn var beðinn um að oftúlka ekki stjórnarsáttmálann og forustan reyndi að koma gestum í skilning um að flokkurinn væri ekki að taka þátt í að sækja um aðild að ESB. Það eina sem flokkurinn myndi gera væri að koma málinu í þann farveg að það fengi þinglega meðferð. Þingmenn VG yrðu að sjálfsögðu frjálsir í atkvæðagreiðslunni og myndu áskilja sér þann rétt að fella málið ef svo bæri undir. Það væri algjörlega undir Samfylkingunni komið að leita eftir stuðningi minnihlutans vildi hún að málið kæmist í gegn. Auðvitað var það svo að gestir tóku þessum orðum trúanlegum, enda voru þeir ekki vanir að hlusta á forustuna fara með ósannindi eða vera uppvís um blekkingar. Meira að segja var sagt að málið yrði ekki lagt fram af ríkisstjórn heldur þingmanninum Össuri Skarphéðinssyni, þegar spurt var hvort flokkur sem væri aðili að ríkisstjórn gæti hafnað frumvarpi sem lagt væri fram af ríkisstjórn.

Ekki getur maður undrast yfir, 16. júlí nokkru seinna, að stór hópur innan VG hafi orðið fyrir miklu áfalli. Þá var málið lagt fram af ríkisstjórn, þrátt fyrir fyrri ummæli og aðeins þriðjungur þingmanna lagðist gegn tillögunni, algjörlega þvert á það sem forustan hafði gefið til kynna, með óbeinum hætti þó, á fundinum. Allir þingmenn VG höfðu talað gegn inngöngu í ESB á fundinum og hví skyldu fundarmenn ætla annað en að það þýddi einnig andstöðu við að sækjast eftir inngöngu. Annað er og væri mjög mótsagnakennt. Er ekki annars hálfundarlegt að smíða skip, ráða á það áhöfn, ýta því úr vör til þess eins að sökkva því?

Annað sem vefst fyrir mér varðandi þessa ákvörðun þeirra þingmanna sem greiddu þessu atkvæði er hvort þeir hafi ekki gert sér grein fyrir afleiðingunum. Ekki bara fyrir flokkinn, heldur líka fyrir ríkið, þjóðina. Gerðu þeir sér ekki grein fyrir bæði þeim kostnaði sem þetta útheimti, orku og tíma? Gerðu þeir sér ekki grein fyrir ástandinu í samfélaginu? Gátu þeir réttlætt þessar gjörðir og útheimtur á sama tíma og þurfti að skera niður milljarða í velferðarkerfinu og víðar? Þegar leggja þyrfti alla krafta til að róa bátnum burtu út úr þessum nær óyfirstíganlega vanda sem þjóðin var komin í?

Er það nema furða að þetta hafi vakið upp reiði flokksmanna? Allt traust og trúverðugleiki sem hafði fylgt flokknum frá upphafi var brostinn og það sem verra var að engar tilraunir voru gerðar til að reyna að ná sáttum eða biðja félagsmenn afsökunar á blekkingarleiknum. Þarna var höggvið stórt skarð í flokkinn sem fékk að klofna enn frekar með tímanum. Ágreiningur um mál eins og IceSave, Magma, AGS og niðurskurðaráætlanir urðu tilefni til enn frekari klofnings og aldrei var gert nokkuð til að reyna að finna lausnir á þessum gífurlega vanda flokksins. Mikil ólga og reiði á beggja bóga einkenndi alla umræðu og sú mikla heift varð til þess að málefnalegur ágreiningur varð persónulegur, og skítkast og óvirðing í tali og skrifum voru og eru enn daglegt brauð.

Hvort sem fólki líkar það betur eða verr er flokkurinn klofinn og er í raun tveir flokkar sem kúldrast undir sama þakinu. Margir hafa yfirgefið flokkinn og þar með sú sem þetta ritar. Mér leið ekki vel í því ástandi sem flokkurinn var kominn og ég taldi og tel enn of seint að lappa upp á flokkinn, svo stór er gjáin sem hefur myndast og illindin mikil.

Formaður flokksins hefur oft líkt þeirri erfiðisvinnu í ríkisstjórn núna við erfiða fjallgöngu og það er ekki af ástæðulausu enda verkefnin strembin. Mér finnst hins vegar leitt að svo mikill og reyndur göngugarpur eins og hann er hafi farið út af slóðinni og týnt áttum. Það er erfitt að rata í rétta átt í þeirri svörtu krataþoku sem hefur lagst yfir flokkinn og með kompás sem stjórnast af stefnu AGS. Það er sama hvað við hin reynum að kalla og benda á hætturnar, allt kemur fyrir ekki. Það versta er hve stór hópur hefur fylgt honum út í óvissuna og treyst honum í blindni.

Við erum mörg sem erum enn á slóðinni og fylgjum stefnunni og hjarta okkar. Mörg okkar hafa gefist upp á að kalla í og reyna að finna þá týndu og koma þeim aftur á rétta braut. Við höfum gefist upp á biðinni og viljum halda áfram förinni að markmiðum okkar. Sem betur fer hafa þrír göngugarpar úr þingflokki VG gefist upp á villuráfandi hópnum og fylgja okkur hinum eftir. Mikið erum við heppin að hafa ekki misst allt okkar þinglið út í myrkrið, að það séu allavega nokkrir eftir sem eru tilbúnir til að berjast áfram af festu og hnika ekki af slóðinni, þeirri hugmyndafræði sem var okkur öllum sameiginleg í upphafi.

Karólína Einarsdóttir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband