Ósmekkleg umræða um ESB þjóðir

Í skuldaumræðu Evrópusambandslanda kemur aftur og aftur upp í umræðu bæði hér á landi og víðar að mismunandi fjárhagsstöðu landa innan ESB megi rekja til leti og sinnuleysi þjóða eins og Grikkja, Spánverja, Portúgala en ég sleppi því hér að ræða hvað sagt er um Íra. Þá sé nú eitthvað annað að horfa á hinn þýska dugnað, nákvæmni þeirra og vinnusemi.

Nú er ég sjálfur giftur inn í þýska fjölskyldu og ber mikla virðingu fyrir þeirri þjóð og því sem þýskt er. En heldur þykir mér sú útlegging að þeim vegni betur á evrusvæðinu en Miðjarðarhafsbúum vegna meiri dugnaðar ósmekkleg svo ekki sé meira sagt.

Staðreyndin er að vinnuvika Miðjarðarhafsbúa er að meðaltali lengri en í Norður Evrópu og dugnaður alþýðu manna er síst minni þar en hér meðal hinna bjarthærðu í norðrinu.

Fyrirkomulagið er aftur á móti með nokkuð öðrum hætti og margir býsnast yfir þeim þjóðháttum þar að taka sér svokallaða síestu um miðjan dag sem byggir þó á árþúsunda hefð. Það að dæma samfélag íbúa þessara heitu landa eftir mælistiku Norður Evrópu er byggt á fordómum sem vakka stutt frá því að flokka þjóðir sem misgöfgar og merkilegar.

Staðreyndir málsins eru að við upphaf evruvæðingar voru lönd þessi skemmra á veg komin í iðnþróun og ýmsu fleiru heldur en til dæmis Þýskaland sem byggt var upp úr rústum seinna stríðsins. Og reyndar er forysta Þýskalands eldri en það sem segir samt ekkert um ágæti þeirrar þjóðar umfram hinar. Í eina tíð voru bæði Grikkir og Egyptar langt á undan okkur og slík er mannkynssagan að blómatímar þjóða koma og fara.

Það sem aftur á móti gerðist með sameiginlegum gjaldmiðli misþróaðra Evrópuríkja að þar með skapaðist mikið ójafnvægi sem hefur síðan bara aukist. Evran er og hefur lengi verið allt of hátt skráð miðað við stöðu hagkerfa Miðjarðarhafslanda og um leið alltof lágt skráð miðað við gang mála í löndum á borð við Þýskaland og Holland.

Við Íslendingar vitum vel hvað of hátt skráður gjaldmiðill þýðir fyrir hagkerfi. Um skamma hríð skapar það ákveðna sælu, líkt og þegar fótkaldur íslenskur sveitamaður vætir með sjálfum sér annan skó sinn. En til lengri tíma lamar það atvinnulífið og þá sem halda uppi framleiðslu og verðmætasköpun. Að sama skapi drífur lágt skráður gjaldmiðill hagkerfi og kapítalismann áfram og þá einkanlega útflutning.

Afleiðingin af þessu verður að þeir sem mest hagnast á hinu opna flæði vöru og þjónustu á evrusvæðinu eru hinar ríku þjóðir sem verða ríkari meðan hinar fátækari verða fátækari.

Þeir smáaurar sem veitt er úr ESB í lán, styrki og aðstoð við hin fátækari lönd líkjast því helst að einhver hafi nú tekið að sér að rétta hinum fótkalda manni aðstoð með því að pissa ofan í hinn skóinn. Óvíst er að það sé vinarbragð.

 

Bjarni Harðarson

Höfundur er bóksali og blaðafulltrúi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband