Klám án landamæra

Einn helsti postuli hægri manna á Evrópuþinginu, Joseph Daul, hefur látið sér um munn fara þær geðslegu upplýsingar að helst megi ná ungdómnum að kjörborðinu í kosningum til Evrópuþingsins með því að leggja áherslu á greiðan aðgang að klámi í sameinaðri Evrópu!

Daul var ekki að slá á létta ógeðslega strengi þegar hann sagði þetta, nei, í fúlustu alvöru lagði hann þunga áherslu á málið og sagði m.a. dæmisögur af sjálfum sér áður og fyrrum og raunum sínum við að fá að horfa óáreittur á klámmyndir í hinu þá stranga og lokaða Frakklandi.

Hvenær ætli aðildarsinnar á Íslandi taki upp þetta þungavigtar mál?  

- gb. 

http://www.huffingtonpost.co.uk/2014/04/15/eu-borders-porn-joseph-daul_n_5152392.html

http://www.independent.co.uk/news/world/europe/porn-a-good-reason-to-stay-in-the-eu-says-french-mep-joseph-daul-9262793.html 


Vaxandi andstaða við ESB-kerfið innan Evrópusambandsins

(Greinargerð Hjörleifs Guttormssonar til utanríkismálanefndar, sbr. http://vinstrivaktin.blog.is/blog/vinstrivaktin/entry/1375005

Fáum sem horfa hlutlægt á þróun Evrópussambandsins eftir gerð Lissabonsáttmálans  dylst að hún gengur í öfuga átt við vilja meirihluta almennings í aðildarríkjum sambandsins.

Ástæðurnar eru margþættar, en ekki síst ólýðræðislegt stjórnkerfi sambandsins og gífurlegt atvinnuleysi, ekki síst meðal ungs fólks á Evrusvæðinu. Vantrú almennings á ESB birtist m.a. í lítilli þátttöku í kosningum til Evrópuþingsins, sem síðast þegar kosið var reyndist að meðaltali aðeins 43% atkvæðisbærra manna í aðildarríkjunum og fór niður í um 20% þar sem hún var minnst.

Fátt bendir til að á þessu verði breyting í kosningum til þingsins nú í vor (22.‒25. maí), en þó kann framboð margra framboða sem eru í andstöðu við meginstefnu ESB að ýta undir þátttöku. Slík andstaða við ESB-kerfið hefur nýlega mælst með 23% stuðning í Frakklandi, 30% í Hollandi og um 20% í Bretlandi. Kemur hún bæði frá hægri og vinstri og á einnig sterkan hljómgrunn í rótgrónum ríkjum á meginlandinu sem samningslega eru tengd ESB.

Þar talar skýru máli niðurstaða nýlegrar þjóðaratkvæðagreiðslu í Sviss, þar sem meirihluti kjósenda hafnaði óheftum fólksflutningum. Það er ekki aðeins söguleg niðurstaða fyrir Sviss, heldur að margra mati sterk aðvörun til Evrópusambandsins í heild. 


Óðurinn til frelsisins

Hver á sér fegra föðurland
með fjöll og dal og bláan sand,
með norðurljósa bjarmaband
og björk og lind í hlíð?

...Svo aldrei framar Íslands byggð
sé öðrum þjóðum háð.

Þannig kvað hin þingeyska skáldkona Unnur Benediktsdóttir Bjarklind eða Hulda eins og hún kallaði sig í Lýðveldishátíðarljóði 1944. Þessi einlægi óður til nýstofnaðs lýðveldis, til frjálsar þjóðar, er sígilt á vörum fólks er það kemur saman til baráttu eða fagnaðar og hyllir land sitt.

Enn er heil kynslóð Íslendinga á lífi sem man lýðveldisstofnunina , sem man baráttuna fyrir stækkun landhelginnar, sem man þorskastríðið og fagnaði fullum sigri að lokum.

Þessari kynslóð svíður þegar nú stígur á stokk hópur fólks, Íslendingar, forystumenn í atvinnulífi, verkalýðsbaráttu og stjórnmálum, jafnvel í menningarlífi þjóðarinnar og talar niður til fullveldisbaráttunnar og kallar landhelgisbaráttuna hagsmunastríð einstakra starfshópa. Þeir sem þar tala hæst virðast reiðubúnir að framselja það fullveldi sem forfeður okkar og formæður lögðu blóð, svita og tár í að endurheimta.

Á ýmsan hátt er orðræðan nú lík því sem var á síðari hluta Sturlungaaldar þegarmenn gáfu sig á vald Noregskonungs sem deildi og drottnaði, bar á íslenska höfðingjafé og titla til skiptis og atti þeim síðan saman. Þannig vógust Íslendingar á í rúma hálfa öld. Hið erlenda vald vissi hvað það vildi og tíminn vann með því. Þórður kakali sveik kónginn og galt fyrir það með lífi sínu. „Svík þú aldrei ættland þitt í tryggðum, drekktu heldur, já drekktu þig heldur í hel" voru ein eftirmæla hans. En kóngurinn gat treyst Gissuri Þorvaldssyni sem að skipan konungs stóð yfir höfuðsvörðum Snorra Sturlusonar, Sturlu Sighvatssonar, föður hans og bræðrum sem og mörgum íslenskum höfðingjum þess tíma. Ísland gekk Noregskonungi á hönd árið 1262 án þess að konungur þyrfti nokkurn tíma að senda hingað her eða erlenda sendimenn.

Stytta Jóns Sigurðssonar á Austurvelli, tákn sjálfstæðisbaráttunnar

Halldór Kiljan Laxness flutti kyngimagnaða ræðu af svölum Alþingishússins 1.desember 1935 þar sem hann fjallaði um hina eilífu fullveldisbaráttu Íslendinga:

Ég held að það sé ekki til ein mynd sem skýrir öllu betur frelsisbaráttu íslendínga á síðastliðnum öldum en myndin af Jóni Sigurðssyni hér á Austurvelli. Það er eingin flókin heimspekileg skilgreiníng á óhlutkendu hugtaki, heldur mynd af manni sem líf hans var holdgun þjóðviljans íslenska, vilja íslensks almenníngs til að varpa af sér erlendri yfirdrotnun, oki og hlekkjum............

Laxnes rifjaði upp nokkur nöfn í frelsisbaráttunni:

Áður en vér höldum leingra, er oss skylt að bera oss einnig í munn nöfn annarra þeirra manna sem fremstir stóðu í baráttu liðinna alda fyrir frelsi voru, oss bera að nefna nafn Jóns Arasonar sem lagði höfuð sitt undir öxina í baráttunni fyrir sjálfstæði Íslands, og frá öldinni sem leið ber oss einnig að minnast bæði Baldvins Einarssonar og Fjölnismanna, sem á öndverðum dögum Jóns Sigurðssonar beittu sér fyrir velferðarmálum þjóðarinnar og vöktu hana til baráttu".

„Umboðsmenn kúgunarvaldsins"

Enn hélt skáldið áfram:

„Fullveldi íslenska ríkisins, sem var viðurkent 1918, var rökréttur árángur af starfi allra þessara manna. En um leið og vér hugsum til þeirra allra með lotníngu og þakklæti erum vér einnig minnugir hins sögulega lögmáls, að erlendu kúgunarvaldi hefur aldrei tekist að halda þrælatakinu á neinni þjóð nema því aðeins að þetta útlenda kúgunarvald ætti sterka málsvara, leppa eða umboðsmenn innan þjóðarinnar sjálfrar. Þetta hefur svo til geingið hjá oss í sögu fortíðarinnar, einsog hjá öðrum þjóðum sem lotið hafa erlendu kúgunarvaldi, og það mun einnig svo til gánga í nútíð og framtíð: Hættulegustu óvinir sérhverrar þjóðar eru æfinlega innlendir umboðsmenn sem geingið hafa hinu erlenda kúgunarvaldi á hönd og reka erindi þess innnanlands. Þessir menn eiga sitt lángfeðgatal í sögu þjóðarinnar eingu síður en frelsishetjurnar. Nafn Gissurar Þorvaldssonar er þeirra nafn, ætt þeirra hans ætt.

Ræða Halldórs Laxnes á við nú sem þá og ég hvet sem flesta til að lesa hana.Þessi orð og brýning Nóbelsskáldsinsleita sterkt á hugann þegar alþjóð verður vitni að því þessa dagana að tiltekinn hópur einstaklinga gengur sig upp að hnjám í erindagjörðum erlends ríkjasambands og fetar þannigí fótspor Gissurar Þorvaldssonar.

Jón Bjarnason


Prófsteinn á stjórnmálaflokka og Alþingi

Hjörleifur Guttormsson fyrrverandi ráðherra er einn fjölmargra sem sent hefur inn umsögn um tillögu þá sem liggur fyrir utanríkismálanefnd um að stöðva aðildarferlið að ESB. Hjörleifur færir þar margvísleg og greinagóð rök fyrir því að tillagan verði samþykkt. Í dag grípur Vinstri vaktin aðeins ofan í kafla sem fjallar um hina pólitísku nálgun Alþingis.

Spurningin um afstöðu Íslands til Evrópusambandsins og samskipta við það er prófraun á getu hérlendra stjórnmálaflokka til stefnumótunar og úrlausnar í samskiptum landsins út á við.  Reynslan í þessum efnum allt frá því tekist var á um aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið er heldur döpur.

Þeir sem sótt hafa fastast á um að tengja Ísland Evrópusambandinu eru sósíaldemókratar, sem hafa verið mjög gagnrýnislausir í nálgun sinni, en tekist að draga aðra flokka að hluta til eða í heild með sér á óljósum forsendum við stjórnarmyndanir, t.d. 1988‒1989, 1991 og 2009. Samstarfsaðilarnir hafa þá ekki verið undir það búnir að greina hvað framundan væri eða látið kylfu ráða kasti, eins og berlega kom í ljós við aðildarumsóknina að ESB 2009. Með þeirri umsókn var verið að stíga örlagaríkt skref við þær aðstæður, að hvorki lá fyrir skýr vilji Alþingis né þjóðarinnar.

Fullkomið óráð væri að ætla nú að framlengja viðræðuferlið við ESB, sem í reynd var komið í strand þegar á árinu 2012. Þau stjórnmálaöfl hérlendis sem áfram eru þeirrar skoðunar að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið verða að afla fylgis við það sjónarmið í alþingiskosningum og láta þannig reyna á styrk sinn fyrir endurnýjaðri umsókn, ótruflað af grillum um sérlausnir Íslandi til handa. Stjórnmálaflokkarnir geta hvorki skotið sér á bak við meintan þjóðarvilja né ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur. Í þessu sambandi skal enn vitnað til orða Ágústs Þórs Árnasonar á RÚV 1. mars sl., þar sem hann sagði:.

„Eitt af þeim mjög skýru svörum sem ég fékk í Brussel [nú í ársbyrjun], var að það er ekki pólitísk nauðsyn fyrir ESB að fá okkur inn. Það þýðir að það er enginn þrýstingur þar á sérlausnir fyrir okkur. Við erum innan Schengen, við erum í EES og við erum háþróað ríkt Vestur-Evrópuríki. Þannig að það er ekkert, ekki einu sinni norðurslóðavinkillinn sem ýtir neitt á það að Evrópusambandið taki við okkur. Þannig að þær sérlausnir sem er vísað til, þær hafa langflestar gerst fyrir 1994 eða af einhverjum þeim ástæðum sem Evrópusambandið taldi að væru nauðsynlegar til þess að halda einingunni.  Þarna erum við bara fyrir utan, þannig að hugmyndin um sérlausnir, við höfum ekki búið okkur til neitt mat á því hvers við eigum að krefjast og hvers við getum vænst. Það sem ég er að segja: Við erum ekki farin að nálgast þann stað [að geta metið þetta], hvorki akademískt, faglega, tæknilega né samfélagslega." 


Algengur misskilningur

Þeir sem ekki vilja að Ísland gangi í Evrópusambandið fá oft að heyra rök á borð við þau að flestar þjóðir í Evrópu séu innan ESB og uni hag sínu vel þar. Rangt! Í flestum ESB löndum er andstaða við aðildina, sums staðar mikil, og þar sem rammast kveður að henni er jafnvel talað um hvernig megi segja sig úr ESB og er umræðan í Bretlandi undanfarin misseri gleggsta dæmið um það.

En þótt við setjum afstöðu Breta til sambandsins til hliðar í þessum pistli, þá er vert að skoða umræðuna í nokkrum hinna landanna og um hvað umræðan þar snýst. Þess ber einnig að geta að umræðan um að bakka út úr ESB og ganga í EFTA, með eða án EES aðildar, hefur nokkuð verið til umræðu, ekki síst meðal þjóðanna sem áður voru í EFTA en gengu svo í ESB.

Þeir sem gagnrýna ESB innan ESB-landanna eru ekki endilega vongóðir um að landið þeirra gangi úr ESB. Andstaðan á flokkspólitískum grunni er þannig að flokkarnir lengst til hægri og lengst til vinstri eru almennt á móti ESB aðild en á mjög ólíkum forsendum. Röksemdir vinstri flokkanna snúast einkum um skort á lýðræði, áherslu á ESB einka- og markaðsvæðingu og sterka stöðu kapítalísku stórfyrirtækjanna innan ESB á kostnað lýðræðis og áhrifa almennings.

Atvinnuleysi og lífskjaraskerðing undanfarinna ára og þáttur ESB og evrunnar í þeirri þróun eru önnur atriði sem vinstri menn gagnrýna. Lífskjaraskerðingin í Grikklandi í kjölfar kreppunnar þar er vel þekkt og þótt Portúgal fái klapp á bakið fyrir að hafa skorið ríkisútgjöld blóðugt niður kemur það klapp ekki frá almenningi sem þurft hefur að þola lífskjaraskerðingu. Almenningur í þessum löndum er ekkert að deyja úr hrifningu yfir lífskjörum sínum.

Og áhuginn á nánari samþættingu innan Evrópu og upptöku evru í öllum ESB-ríkjunum er í járnum í mörgum ESB-ríkjum, sums staðar er andstaðan mikil. Þau ríki sem ekki hafa tekið upp evruna eru enn mjög mótfallinn auknum samruna í efnahagsmálum og upptöku en í allmörgum Evruríkjum er einnig umtalsverð andstaða, svo sem í Tékklandi, Litháen, Kýpur og Póllandi. Síðast en ekki síst þá er þorri almennings innan ESB andvígur frekari stækkun ESB, 52 % á móti en aðeins 37 % hlynnt. Allt þetta kemur fram í Eurobarometer frá því í nóvember.

En hvað er það sem veldur almenningi í Evrópu mestum áhyggjum? Hækkandi verðlag er svar lang stærsta hópsins eða 40%, 20% nefna atvinnuleysið en einnig eru það ríkisfjármál, skattheimta, efnahagsstaða heimilanna, heilbrigðis- og tryggingamál, menntakerfið og eftirlaunamál sem valda fólki áhyggjum í ESB. Sú glansmynd sem gjarnan er dregin upp af ESB og að innganga í sambandið muni leysa öll lífskjaramál er ekki sú mynd sem blasir við almenningi í þessum löndum og það ættu vinstrimenn ekki síst að hafa í huga þegar verið er að fegra lífið í ESB.

AÓB


Opnar aðildarviðræður ógna íslenskum hagsmunum

Að halda aðildarviðræðum við Evrópusambandið opnum ógnar íslenskum hagsmunum þar sem ljóst er að Evrópusambandið gerir kröfu um yfirráð yfir íslenskri landhelgi. Áframhald viðræðnanna nú væri viðurkenning á þessari kröfu ESB. Þessvegna er mikilvægt að stjórnarflokkarnir standi við gefin fyrirheit og slíti tafarlaust viðræðunum sem efnt var til með vafasamri samþykkt Alþingis sumarið 2009.

Þetta var meðal þess sem kom fram á fjölmennum baráttufundi Heimssýnar sem haldinn var í Tryggvaskála á Selfossi síðastliðið fimmtudagskvöld. Frummælendur á fundinum voru tveir fyrrverandi ráðherrar, Björn Bjarnason og Jón Bjarnason, Vigdís Hauksdóttir alþingismaður og formaður Heimssýnar og síðast en ekki síst fulltrúi Ísafoldar, Halldóra Hjaltadóttir frá Seljavöllum við Hornafjörð.

Frummælendur ræddu meðal annars um þá stöðu sem upp kom í sjávarútvegskafla viðræðnanna þar sem Evrópusambandið neitaði ítrekað að birta skýrslu sína um opnunarskilyrði í sjávarútvegi. Þar með hefðu viðræðurnar siglt í strand og krafa um að halda þeim áfram nú væri raunar krafa um að Ísland félli frá þeim skilyrðum sem vinstri meirihlutinn setti um yfirráð landhelginnar þegar sótt var um aðild.

Ljóst er að falli Ísland frá þeim skilyrðum hefur það ekki aðeins slæm áhrif á samningsstöðu þjóðarinnar í þessum viðræðum heldur verður því haldið til haga af viðsemjendum á alþjóðavettvangi í öðrum viðræðum um sjávarútvegshagsmuni Íslands. Þar með hefði Ísland veikt samningsstöðu sína, til dæmis ef kæmi til tvíhliða viðræðna við ESB sem og innan EES samstarfssins./-b.


Hafa talsmenn aðildar ekki trú á grundvelli ESB?

Margt er sérstætt í þeirri umræðu sem talsmenn aðildar að Evrópusambandinu hafa haldið uppi, jafnt á Alþingi sem á Austurvelli. Þeir gera lítið sem ekkert til að útskýra fyrir almenningi þá miklu kosti sem þeir sjái í aðild Íslands að þessu ríkjasambandi. Það er helst að látið sé glitta í evruna sem allsherjarlausn á sama tíma og óvissa ríkir um það hvort myntbandalagið fái staðist til frambúðar.
 
Núverandi grundvöllur Evrópusambandsins kemur fram í Lissabonsáttmálanum og honum tengjast fleiri tilskipanir en tölu verði á komið. Það ætti því að vera af nógu að taka fyrir þá sem kjósa að boða almenningi þetta fagnaðarerindi. En á það er varla minnst, heldur snýst umræðan mest um hugsanlegar undanþágur frá lögum og reglum ESB Íslandi til handa.
 
Nú hafa tvær virtar háskólastofnanir reitt fram skýrslur sem staðfesta það sem talsmenn Evrópusambandsins hafa margítrekað bent íslenskum stjórnvöldum á sl. fjögur ár: Aðild snýst ekki um það að semja sig frá grundvelli ESB, í hæsta lagi má skoða tímabundinn aðlögunarfrest í einhverjum tilvikum í blálokin.
 
Skiptir fullveldi og sjálfstæði ekki lengur máli?
 
Þeir sem gera kröfu um inngöngu Íslands í ESB ættu í stað hugaróra um undanþágur og óvissan ávinning af aðild að skýra það út fyrir þjóðinni af hverju þeir telja að skerða eigi fullveldi Íslands á fjölmörgum sviðum. Þar blasir m.a. við eftirfarandi:
 
Að Ísland gefur sig á vald miðstýrðu og ólýðræðislegu stjórnkerfi ESB.
Að æðsta dómsvald flyst úr landi í hendur yfirþjóðlegum dómstóli ESB.
Að úrslitavald yfir sjávarauðlindum færist frá Íslandi til Evrópusambandsins.
Að Evrópusambandið fær yfirráð yfir hafsvæðum utan 12 mílna að 200 mílum.
Að samningar við þriðju aðila um fiskveiðimálefni færast til ESB.
Að landbúnaði er stefnt í hættu með tollfrjálsum innflutningi og dýrasjúkdómum.
Að fríverslunarsamningar Íslands við aðrar þjóðir falla úr gildi.
Að sjálfstæð rödd Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum hljóðnar að mestu.
Að stjórn gengis og peningamála flyst í hendur Seðlabanka Evrópu.
Að vinnuréttur verður hluti af ESB-rétti og staða launafólks verður óviss.
 
Evran er ótrygg söluvara
 
Í áróðri aðildarsinna hefur evran frá upphafi verið helsta söluvaran sem réttlæta eigi fullveldisafsal og annað í farangri Evrópusambandsins. Til að sú beita virki er reynt að telja mönnum trú um að evran standi til boða fljótlega eftir að aðildarsamningur væri í höfn.
 
Fátt sýnir betur rangtúlkanir og veikan málstað, því að flest bendir til að aðild Íslands að myntbandalagi ESB tæki ekki minna en áratug frá inngöngu í sambandið. Enginn einn þáttur hefur heldur reynst ESB jafn erfiður ljár í þúfu og evran eftir upptöku hennar 1999 og stærstu vandamál evrusvæðisins tengjast henni, m.a. vegna afar ólíkrar efnahagsstöðu og mismunandi hagþróunar ríkja innan svæðisins. Ýmsir sem teljast sérfróðir um málefni ESB spá því að evran fái ekki staðist til lengdar, bæði af pólitískum og efnahagslegum ástæðum.
 
Síðast var hér á ferð franskur sérfræðingur, François Heisbourg, sem hafði uppi sterkar aðvaranir um framtíð og horfur evrusvæðisins.
 
Vaxandi andstaða innan Evrópusambandsins
 
Í mörgum ríkjum Evrópusambandsins vex nú andstaða við ýmsa grundvallarþætti í leikreglum þess og stjórnkerfi. Ástæðurnar eru margþættar, en ekki síst ólýðræðislegt stjórnkerfi og gífurlegt atvinnuleysi, sem er að meðaltali 25% meðal ungs fólks á evrusvæðinu.
 
Vaxandi vantrú almennings á ESB í ríkjum sambandsins birtist m.a. í lítilli þátttöku í kosningum til Evrópuþingsins, sem náði aðeins 43% síðast þegar kosið var og fór niður í 20% þar sem hún var minnst.
 
Fátt bendir til að á þessu verði breyting í kosningum til þessarar umdeildu samkomu í næsta mánuði. Gagnrýnin afstaða til ESB-kerfisins hefur nýlega mælst með 23% stuðning í Frakklandi, 30% í Hollandi og um 20% í Bretlandi. Kemur hún bæði frá hægri og vinstri og á einnig sterkan hljómgrunn í grannríkjum sem samningslega eru tengd ESB. Þar talar skýru máli niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslu í Sviss, þar sem meirihluti kjósenda hafnaði nýlega óheftum fólksflutningum.
 
Prófsteinn á stjórnmálaflokka og Alþingi
 
Umsóknin um aðild að ESB fyrir nær fimm árum var mikið feigðarflan. Fyrir henni var enginn pólitískur meirihluti og þeir sem að henni stóðu gerðu sér ekki grein fyrir um hvað aðildarferlið snerist.
 
Fyrrverandi ríkisstjórn var strand með þetta ferli þegar á árinu 2012 og því kemur það úr hörðustu átt að sömu flokkar gera nú kröfu um að haldið sé í því lífinu með einhverjum ráðum. Krafan um ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort halda eigi áfram aðildarviðræðum eða draga umsókn Íslands til baka á sér hvorki fordæmi né fótfestu í okkar stjórnskipan. Stjórnmálaöfl hérlendis sem áfram eru þeirrar skoðunar að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið verða að afla þeirri skoðun meirihlutafylgis í alþingiskosningum og láta þannig reyna á styrk sinn fyrir endurnýjaðri umsókn.
 
Best fer á því að það sé gert án þess að haldið sé á lofti grillum um sérlausnir Íslandi til handa.

Hjörleifur Guttormsson
(Birtist í Mbl. í dag, 12. apríl 2014)

Það var nú lítið mál að fá hjá þeim skítadreifarann

Þegar ég frétti að það væri danskur maður yfir félagsbúinu hérna neðar í dalnum þá ákvað ég – eða réttra sagt konan mín – að láta á það reyna hvort ég gæti fengið að láni hjá þeim skítadreifara. Og ég lét ekki sitja við ráðagerðirnar einar...

Lýræðið verst í vök

Lýðræði hentar auðvaldinu illa á krepputímum.Þróun ESB er dæmi um það.ESB er þó alls ekki einangrað, mislukkað dæmi eins og ýmsir kjósa að skoða sambandið, heldur er það á margan hátt dæmigert fyrir þróunina á heimsvísu. Meðan fullvalda þjóðríki með eru...

Skrifræðisjafnrétti

Ferðalög eru eðilegur hluti af lífi flestra sem búa við þau lífsskilyrði að geta veitt sér slíkt. Þau eru bæði vinnutengd og til ánægju ætluð. Talsverð umræða hefur verið um öryggi kvenna á ferðalögum á undanförnum árum og gripið hefur verið til alls...

Var fullveldisbaráttan bara hagsmunastríð!?

Sama dag og íslenskir Evrópusinnar taka því sem sérstöku fagnaðarerindi að þjóðin fengi kannski að ráða sjálf yfir 12 mílum við inngöngu í ESB skrifar Jón Bjarnason fv. ráðherra þarfa ádrepu um landhelgismálin. Grein Jóns ber heitið Samstaða þings og...

ESB-forystan kvíðir kosningum til Evrópuþingsins í maí

Dagana 22.‒25. maí næstkomandi fara fram kosningar til Evrópuþingsins í öllum aðildarríkjum ESB. Kosið er á 5 ára fresti til þessarar fjölmennu samkundu, en heildarfjöldi þingsæta er nú 751 og hefur verið fjölgað um 15 frá kosningunum 2009 í samræmi...

Broslegt einangrunartal

Það eru til ákveðin rök fyrir því að Ísland gangi í ESB og önnur rök, talsvert sterkari reyndar, gegn því að gera svo. En það broslegasta í þessari umræðu er þegar ESB sinnar hampa þeirri klisju að þeir séu alþjóðasinnar og allir sem ekki vilja ganga í...

Getur ekki gengið til Berlínar að mótmæla!

Friðsamleg mótmæli borgara gegn stefnu yfirvalda eru mikilvægur öryggisventill lýðræðis. Íslendingar hafa dýrmæta reynslu af mótmælum þar sem búsáhaldabyltingin er og til þeirra aðgerða hefur verið horft víða um heim. Þar gat íslenskur almenningur staðið...

Eru nógu blóðugar hendur vorar?

Í Lissabonsáttmálanum, sem þeir ekki nenna að lesa sem vita þar margt óþægilegt sínum prívat sannleika, er grímulaust gert ráð fyrir Evrópusambandsher. Þar gerir Evrópusambandið beinlínis ráð fyrir því að það muni á komandi árum efla hernaðarmátt sinn og...

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband