Prófsteinn á stjórnmálaflokka og Alþingi
15.4.2014 | 13:06
Hjörleifur Guttormsson fyrrverandi ráðherra er einn fjölmargra sem sent hefur inn umsögn um tillögu þá sem liggur fyrir utanríkismálanefnd um að stöðva aðildarferlið að ESB. Hjörleifur færir þar margvísleg og greinagóð rök fyrir því að tillagan verði samþykkt. Í dag grípur Vinstri vaktin aðeins ofan í kafla sem fjallar um hina pólitísku nálgun Alþingis.
Spurningin um afstöðu Íslands til Evrópusambandsins og samskipta við það er prófraun á getu hérlendra stjórnmálaflokka til stefnumótunar og úrlausnar í samskiptum landsins út á við. Reynslan í þessum efnum allt frá því tekist var á um aðild Íslands að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið er heldur döpur.
Þeir sem sótt hafa fastast á um að tengja Ísland Evrópusambandinu eru sósíaldemókratar, sem hafa verið mjög gagnrýnislausir í nálgun sinni, en tekist að draga aðra flokka að hluta til eða í heild með sér á óljósum forsendum við stjórnarmyndanir, t.d. 1988â1989, 1991 og 2009. Samstarfsaðilarnir hafa þá ekki verið undir það búnir að greina hvað framundan væri eða látið kylfu ráða kasti, eins og berlega kom í ljós við aðildarumsóknina að ESB 2009. Með þeirri umsókn var verið að stíga örlagaríkt skref við þær aðstæður, að hvorki lá fyrir skýr vilji Alþingis né þjóðarinnar.
Fullkomið óráð væri að ætla nú að framlengja viðræðuferlið við ESB, sem í reynd var komið í strand þegar á árinu 2012. Þau stjórnmálaöfl hérlendis sem áfram eru þeirrar skoðunar að Ísland eigi að ganga í Evrópusambandið verða að afla fylgis við það sjónarmið í alþingiskosningum og láta þannig reyna á styrk sinn fyrir endurnýjaðri umsókn, ótruflað af grillum um sérlausnir Íslandi til handa. Stjórnmálaflokkarnir geta hvorki skotið sér á bak við meintan þjóðarvilja né ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslur. Í þessu sambandi skal enn vitnað til orða Ágústs Þórs Árnasonar á RÚV 1. mars sl., þar sem hann sagði:.
Eitt af þeim mjög skýru svörum sem ég fékk í Brussel [nú í ársbyrjun], var að það er ekki pólitísk nauðsyn fyrir ESB að fá okkur inn. Það þýðir að það er enginn þrýstingur þar á sérlausnir fyrir okkur. Við erum innan Schengen, við erum í EES og við erum háþróað ríkt Vestur-Evrópuríki. Þannig að það er ekkert, ekki einu sinni norðurslóðavinkillinn sem ýtir neitt á það að Evrópusambandið taki við okkur. Þannig að þær sérlausnir sem er vísað til, þær hafa langflestar gerst fyrir 1994 eða af einhverjum þeim ástæðum sem Evrópusambandið taldi að væru nauðsynlegar til þess að halda einingunni. Þarna erum við bara fyrir utan, þannig að hugmyndin um sérlausnir, við höfum ekki búið okkur til neitt mat á því hvers við eigum að krefjast og hvers við getum vænst. Það sem ég er að segja: Við erum ekki farin að nálgast þann stað [að geta metið þetta], hvorki akademískt, faglega, tæknilega né samfélagslega."
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.