Samstarfssamningur ESB og Úkraínu; liður í vestrænni útþenslustefnu
4.5.2014 | 11:54
Meginorsök hins grafalvarlega ástands í Úkraínu er pólitík Vesturblokkarinnar, skammsýn gróðadrifin heimsvaldapólitík. Blokkin sú nýtti sér til hins ýtrasta djúpa kreppu og veiklun Rússlands eftir fall Sovétríkjanna.
Þetta var einkum gert með samhliða sókn ESB og NATO inn í gömlu Austurblokkina og áhrifasvæði Sovétríkjanna. Þannig voru brotnir niður gamlir viðskiptamúrar og verndaður iðnaður, opnað fyrir frjálst flæði vestrænna auðhringa o.s.frv. jafnhliða því að Rússland var umkringt hernaðarlega.
Þegar svo Rússland rís úr öskunni og leitar eftir hefðbundinni stöðu sinni sem stórveldi svarar Vesturblokkin af fullri hörku. Annars vegar býður ESB Úkraínu samstarfssamning. Hann gerir Úkraínu að hluta af evrópska markaðnum og raskar mjög tengslum Úkraínu við Rússland sem verið hafa mjög samþættuð frá Sovéttímanum. M.a. útilokar samningurinn þátttöku Úkraínu í svonefndu Eurasian Economic Community sem er efnahagsbandalag undir forustu Rússa.
Samastarfssamningnum fylgdi einnig boð um AGS-lán til Úkraínu. Kreppan í Úkraínu er djúp og hinir voldugu í vestrinu vinna saman, í þessu tilfelli AGS og ESB. AGS-lánið er bundið miklum skilmálum um lífskjaraskerðingu og niðurskurð og mun í framkvæmd setja Úkraínu í líka stöðu og Grikkland. Það var ekki síst þetta AGS-lán sem stjórnvöld í Úkraínu voru að hafna þegar þeir höfnuðu samstarfssamningnum við ESB sl. haust. Íslandsvinurinn Michael Hudson skrifar að markmið AGS-lánsins hafi verið og sé að þvinga stjórnvöld til að stórfelldrar einkavæðingar ríkiseigna. http://therealnews.com/t2/index.php?option=com_content&task=view&id=31&Itemid=74&jumival=11614. Útþenslan heldur áfram. Samstarfssamningur við Georgíu, Moldóvu og Hvíta-Rússland er á aðgerðaráætlun ESB fyrir yfirstandandi ár.
Hin hliðin á sókn Vesturblokkarinnar gagnvart Úkraínu er hernaðarleg. Hernaðarþátturinn var sterkur og afar mikilvægur þáttur í umræddum samstarfssamningi við ESB. Þar segir: Samstarfssamningurinn mun stuðla að samlögun aðila á sviði utanríkis- og öryggismála og stefnir að dýpri þátttöku Úkraínu í evrópska öryggiskerfinu. NATO er ekki nefnt berum orðum en Evrópska öryggiskerfið þýðir á mannamáli NATO og reyndar gaf NATO Úkraínu þegar árið 2008 þungvæga stöðu með strategic partneship.
Enn frekar en á efnahagssviðinu nýtti Vesturblokkin sér veiklun Rússlands í öryggismálum. Eftir fall múrsins sóttu Bandaríkin og NATO hratt inn á fyrrverandi svæði Sovétríkja, komu sér upp herstöðvum í nýju Kákasus-ríkjunum, í Mið-Asíulýðveldunum, í Búlgaríu, Rúmeníu, Póllandi og Eystrasaltsríkjum (og Finnland í norðri hefur samstarfsaðild og náið hernaðarsamstarf við NATO), og nú segir NATO-Rasmussen gallharður að vegna spennunnar í Úkraínu muni NATO efla starfsemi sína í Eystrasaltsríkjum og Austur-Evrópu. NATO hefur auk þess byggt upp langdrægt skotflaugakerfi (gagneldflaugakerfi) á landi og sjó allt frá Eystrasalti til Miðjarðarhafs og Svartahafs. Úkraína er aðeins eitt dæmi um hina herskáu grundvallarafstöðu Vesturblokkarinnar, en sérlega hættulegt dæmi..
Victoria Nuland, bandaríski varautanríkisráðherrann sagði í umtalaðri ræðu að Bandaríkin hefðu varið 5 milljörðum dollara í að byggja upp stjórnarandstöðuna í Úkraínu. Hún átti þá væntanlega helst við aðstoð gegnum ríkisstofnunina USAID, en auk þess hafa fjölmörg bandarísk frjáls félagasamtök starfað í Úkraínu (eins og vítt um heim) að mannréttindamálum um langt árabil. http://www.sott.net/article/273602-US-Assistant-Secretary-of-State-Victoria-Nuland-says-Washington-has-spent-5-billion-trying-to-subvert-Ukraine .
Hér skal látið nægja að fullyrða að valdarán úkraínskra þjóðernissinna í febrúar sl. fór fram með afar ríkulegum vestrænum stuðningi án þess ég útlisti það frekar. Í heimsókn hjá þýska starfsbróður sínum sakaði þá Lavrov, rússneski utanríkisráðherrann, ESB um að byggja upp áhrifasvæði í austur: Ég tek alveg undir með Steinmeier. Það ættu ekki að vera nein áhrifasvæði. En að draga Úkraínu yfir á aðra hliðina, segjandi að hún verði að velja annað hvort eða, annað hvort með ESB eða með Rússlandi er í reynd að skapa slíkt áhrifasvæði." Þessi pólitík er sérstaklega skaðleg í ljósi þess að Úkraín er ósamstætt land a.m.k. tveggja stórra þjóða. http://news.yahoo.com/russia-accuses-eu-seeking-39-sphere-influence-39-121919028--spt.html
Úkraínudeilan er fyrst og síðast afleiðing blindrar útþenslustefnu Vesturblokkar. Þá er þess að geta að hagsmunir innan Vesturblokkarinnar í málefnum Úkraínu og Rússlands eru á margan hátt mjög ólíkir. Fyrir þýskt auðmagn er Úkraína frjótt landbúnaðarland með auðlindir og mikla fjárfestingamöguleika, en fyrir Bandaríkin er mikilvægi hennar fyrst og fremst hernaðarlegt. Ekki síður gagnvart viðskiptaþvingunum og efnahagslegum refsiaðgerðum á Rússa eru hagsmunirnir ólíkir.
ESB er mikilvægasti viðskiptaaðili Rússa og Rússar eru einn af þremur mikilvægustu viðskiptaaðilum ESB. Árleg viðskipti þeirra á milli nema 370 milljörðum dollara. Í samanburði eru viðskipti Bandaríkjanna við Rússa léttvæg, aðeins 26 milljarðar. Viðskiptaþvinganir þýða því fremur samkeppnisávinning fyrir Bandaríkin, nefnilega stóraukinn útflutning til Evrópu. Með viðskiptabanni er að nokkru leyti verið að fórna hagsmunum ESB. Að ekki sé minnst á bein hernaðarátök við Rússa sem væru afar váleg tíðindi fyrir Evrópu. Þá væri nú Evrópa að fórna sjálfri sér fyrir vini sína. Ég er ekkert bjartsýnn, en það væri þó helsta vonin að tilfinnanlegur skaði ESB af refsiaðgerðunum gæti orðið til að slá á herskáa afstöðu ESB-veldanna. http://en.ria.ru/world/20140428/189421661/US-Europe-Divided-Over-Anti-Russia-Sanctions.html
Þórarinn Hjartarson
Þjóðaratkvæði um það að áfram sé haldið viðræðum við ESB um aðild, sem bæði ríkisstjórnin og meirihluti Alþingis eru algerlega andvíg, er óframkvæmanleg og gengur ekki upp miðað við það kerfi sem við byggjum okkar stjórnskipun á.
Í ítarlegri og rökfastri umsögn Hjörleifs Guttormssonar til utanríkismálanefndar Alþingis sem við höfum áður vitnað til hér á Vinstrivaktinni fjallar Hjörleifur m.a. um þann áróður sem nú er uppi að efnt verði til þjóðaratkvæðis um áframhald eða slit aðildarviðræðna. Við birtum hér 8. og 9. kafla umsagnar Hjörleifs svo og 11. og 12. kafla, en 10. kafli birtist hér 15. apríl s.l. og 5. kaflinn um evruna birtist 22. apríl s.l:
8. Hugmyndir um þjóðaratkvæði á veikum grunni
Allt frá því að EES-samningurinn var gerður 1993 hafa öðru hverju komið fram kröfur innan þings og utan um þjóðaratkvæði til að skera úr um niðurstöðu mála, þá oftast stutt söfnunum undirskrifta um slíka kröfu. Með netvæðingu hefur söfnun undirskrifta frá almenningi orðið langtum auðveldari viðfangs en áður var. Í stjórnarskrá Íslands, 26. grein, er heimild fyrir forseta Íslands að synja lagafrumvarpi staðfestingar, og fær það engu að síður lagagildi, en leggja skal það þá svo fljótt sem kostur er undir atkvæði allra kosningabærra manna í landinu til samþykktar eða synjunar í almennri atkvæðagreiðslu. Lögin falla úr gildi ef samþykkis er synjað, en ella halda þau gildi sínu. Sú var staðan varðandi lagafrumvarpið um EES-samninginn, sem þáverandi forseti staðfesti þrátt fyrir fjölda áskorana um synjun. Núverandi forseti hefur þrívegis neitað að staðfesta lagafrumvarp frá Alþingi, 2004 fjölmiðlafrumvarp sem þá var dregið til baka og 2010 og 2011 frumvörp um Icesafe, og varð synjunin tilefni þjóðaratkvæðagreiðslna og voru umrædd lög ógilt af meirihluta þjóðarinnar í bæði skiptin. ‒ Eftir lýðveldisstofnun 1944 hefur aldrei verið efnt til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu enda enga leiðsögn þar að lútandi að finna í íslensku réttarkerfi. Hugmyndir um að beita þjóðaratkvæðagreiðslum í meira mæli en hingað til hafa hins vegar verið ræddar talsvert í seinni tíð, m.a. í umræðum um breytingar á stjórnarskránni. Stjórnmálamenn hafa gefið undir fótinn með slíkar hugmyndir síðustu árin, bæði tengt áformuðum breytingum á stjórnarskrá og til að róa eða setja niður deilur í eigin flokkum.
9. ESB-aðildarumsóknin og hugmyndir um ráðgefandi þjóðaratkvæði
Eins og áður greinir hafnaði fyrrverandi ríkisstjórn því sumarið 2009 að bera ákvörðun um að sækja um aðild að ESB undir þjóðina fyrirfram. Samþykkt Alþingis um aðild 16. júlí 2009 var hins vegar tengd því skilyrði að að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning. Um það síðarnefnda hefur ekki ríkt ágreiningur milli flokka á Alþingi, kæmist málið á annað borð svo langt að aðildarsamningur lægi fyrir.
Krafan sem stjórnarandstaðan á Alþingi hefur nú sett fram um að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um hvort slíta beri aðildarviðræðum eða draga aðildarumsókn til baka er af allt öðrum toga og á sér engin fordæmi í okkar stjórnskipan. Um þann þátt sagði Björg Thorarensen, lagaprófessor og fv. varaformaður viðræðunefndar íslenskra stjórnvalda við ESB, m.a. eftirfarandi í viðræðuþættinum Í vikulokin 1. mars sl.:
Ég vil kannski víkja að þessari umræðu sem hefur orðið hér sem er svolítið óvenjuleg og ég þekki engin dæmi um frá öðrum ríkjum, það er þessi krafa að þjóðin gefi Alþingi og ríkisstjórn fyrirmæli með ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er mjög óheppilegt fyrirkomulag og í rauninni gengur það ekki upp miðað við það kerfi sem við byggjum okkar stjórnskipun á. Við ætlumst til þess að flokkar bjóði fram og hafi sín stefnumál og fólk geti tekið sína afstöðu pólitískt út frá stefnu flokkanna en ekki með því að gefa þingmönnum og ríkisstjórn fyrirmæli í einstaka málum, þótt það sé einhver þjóðarvilji eða mikill stuðningur.
Hún er allavega ekki góð sú hugmynd sem nú liggur fyrir að koma málinu í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég tel það raunar óframkvæmanlegt að ríkisstjórn færi eftir niðurstöðu ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um að hafa samningaviðræður við ríkjasamband sem það er algjörlega á móti. ... Það [þingið] náttúrulega getur ekki vísað því til næsta kjörtímabils. Það er tvískinningur í þessari þingsályktunartillögu [utanríkisráðherra] að gefa einhvers konar vilyrði fyrir því að þetta gerist ekki nema með þjóðaratkvæðagreiðslu, það verði ekki hafnar aftur viðræður. Það finnst mér fullkomlega innantómt og nokkurs konar sýndarmennska.
Þingmenn eru kjörnir til þess vissulega að standa fyrir ýmsum stefnumálum og þeir gefa ýmis loforð um hvað þeir ætli að gera, en aðalatriðið er að þeir fylgja sinni sannfæringu í því sem þeir taka sér fyrir hendur í þinginu og greiða atkvæði sem samræmist best þeirra sannfæringu. Fyrirmæli frá þjóðinni geta ekki breytt því. Hins vegar væri réttast, og öll lýðræðisríki þau sem hafa lengst náð í þróun beins lýðræðis, þau hafa það fyrirkomulag að þingið vinni einhver málefni og ljúki einhverju lagafrumvarpi t.d., og svo sé það borið undir samþykki þjóðarinnar eftir á, það sé skilyrði að þjóðin þurfi beinlínis að samþykkja það.
Ég er sammála ofangreindri afstöðu Bjargar Thorarensen og tel að ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla til að hafa áhrif á mál sem þetta, þar sem ríkisstjórn hefur þegar gert upp hug sinn og styðst að því er virðist við öruggan þingmeirihluta gengur ekki upp miðað við það kerfi sem við byggjum okkar stjórnskipun á.
11. Styrkja þarf stoðir lýðveldisins
Efnahagshrunið 2008, sem engan veginn hefur enn verið unnið úr til hlítar, sem og umsóknarferlið um aðild að ESB í kjölfarið, ætti að hafa kennt okkur Íslendingum lexíu, fyrst og fremst þá að við verðum að geta staðið á eigin fótum, jafnt inn á við sem út á við. Til að tryggja að svo geti orðið þarf ekki síst að treysta stoðir lýðveldisins, m.a. með stjórnarskrá sem breið samstaða sé um þannig að leikreglurnar séu sem skýrastar og með því að efla þýðingarmestu stoðir stjórnkerfisins, svo sem Alþingi, Stjórnarráð og Seðlabanka. Upplýsingastreymi innan samfélagsins þarf að vera opið, þannig að almenningur hafi sem bestar forsendur til að meta stöðu mála og vera virkur þátttakandi í ákvörðunum á ýmsum undirbúningsstigum. Góðir fjölmiðlar, ekki síst óhlutdrægt og öflugt Ríkisútvarp, eru jafnframt mikilvægir þættir í samfélagsvefnum.
12. Góð tengsl í stað aðildar að Evrópusambandinu
Smáþjóð eins og Íslendingar sem byggja afkomu sína mikið á utanríkisviðskiptum þurfa að rækta góð tengsl sem víðast, þar á meðal við Evrópusambandið. Núverandi samskipti Íslands við ESB í gegnum þátttöku í Evrópsku efnahagssvæði eru, eins og varað var við á sínum tíma, langt frá því að vera gallalaus og reyndust m.a. afdrifrík í aðdraganda efnahagshrunsins 2008. Í Noregi er vaxandi gagnrýni á EES-samninginn, ekki síst af hálfu norsku verkalýðshreyfingarinnar. Eðlilegt er að kannaðar séu ásættanlegar leiðir til endurskoðunar á þessum samningsskuldbindingum þannig að ekki sé gengið gegn fullveldisrétti okkar eins og nú eru brögð að. Afar langt er hins vegar frá þeim kvöðum sem tengjast EES og yfir í aðild að Evrópusambandinu, andstætt því sem oft er haldið fram af aðildarsinnum.
Fram undan er á heimsvísu glíma við mikla umhverfis- og samfélagsröskun vegna loftslagsbreytinga af mannavöldum. Íslendingar eiga stórt hafsvæði innan sinnar efnahagslögsögu og þurfa að vera við því búnir á eigin forsendum að takast á við sérstæðar umhverfisbreytingar á norðurslóðum. Við aðild að Evrópusambandinu yrði þetta stóra svæði utan 12 mílna sameiginlegt ESB-haf.
Til framtíðar litið er sá kostur sem við eigum bestan ótvírætt fólginn í því að varðveita sjálfstæði okkar óskert og leita samstarfs jafnt við nágrannaþjóðir og viðskiptaheildir beggja vegna Atlantshafs og í fjarlægari heimshlutum.
Umsögn og umsögn
2.5.2014 | 11:18
Inn á milli umsagna og svokallaðra umsagna um tillögu utanríkisráðherra um að draga aðildarumsókn að ESB til baka er að finna margt merkilegt og enn fleira undarlegt. Þegar ég skautaði yfir þetta umsagnaflóð vakti þetta einna mesta athygli mína:
Stjórn Bandalags íslenskra leikfélaga fundaði um helgina og komst að þeirri niðurstöðu að hún hefði ekki umboð sinna aðildarfélaga til að senda frá sér umsögn um þetta mál.
Ég hnaut ekki um þetta vegna þess að hér sé eitthvað óeðlilegt á ferðinni, nei, þvert á móti hér er afar smekklega og rökrétt komist að orði. Auðvitað dettur stjórn Bandalags íslenskra leikfélaga ekki í hug að hafa opinbera skoðun á þessu máli hvað þá senda Utanríkismálanefnd pappíra þar um.
Þessi afstaða stjórnar BÍL hlýtur að kasta óþægilegum skugga á fíflaganginn í t.d. stjórn Rithöfundasambandsins sem telur sig hafa umboð til þess að fetta fingur út í þessa tillögu utanríkisráðherra. Hitt er líka umhugsunar virði, hvað fær stjórn BÍL til að senda inn þessa tilkynningu (og stjórn RSÍ sína umsögn)?
Hver er að kalla eftir pólitískri afstöðu hjá þessum aðilum í máli sem er jafn umdeilt og raun ber um vitni? Hver óskar eftir því að bandalag íslenskra áhugaleikfélaga um allt land hafi samræmda skoðun á einstaka tillögu um þetta stóra mál? Hver er svo óforskammaður eða vitlaus? - gb.
Baráttukveðjur 1. maí
1.5.2014 | 12:13
Í dag, fyrsta maí, á baráttudegi verkalýðsins sendir Vinstri vaktin gegn inngöngu í ESB öllu verkafólki á Íslandi til sjós og lands svo og landsmönnum öllum hvatningar- og árnaðaróskir. Við sendum jafnframt baráttukveðjur til verkafólks í Grikklandi, vöggu lýðræðis í heiminum, en það lýtur nú miðstýrðar hagstjórnar Evrópusambandsins: Yfir 60% af ungu fólki milli 18 og 25 ára eru atvinnulaust. Alþjóða Rauðikrossinn skilgreinir Grikkland sem Sosialt katastrofeområde" (félagslegt hamfarasvæði), fyrsta Vestur- Evrópuland ið eftir seinni heimsstyrjöldina. Við sendum einnig samúðar- en jafnframt baráttukveðjur til spænsku þjóðarinnar, þeirrar portúgölsku, og ítölsku þar sem hagstjórnarpólitík Evrópusamabandsins krefst harkalegs niðurskurðar velferðarþjónustu og atvinnuleysi meðal ungs fólks er í kringum 50%.
Rislítil verkalýðsforysta
Sennilega hefur ris forystu landssamtaka verkalýðsfélaga , Alþýðusambands Íslands, aldrei verið lægra en nú. Stuðningur samtakanna við áframhaldandi innlimunarviðræður og inngöngu í Evrópusambandið er hreint með ólíkindum. Það er frumréttur hvers mann að geta lagt fram vinnu sína, krafta og hugvit í þágu samfélagsins og þannig séð fyrri þörfum sínum og sinna. Þessum frumburðarrétti telur forysta Alþýðusambandsins sjálfsagt að fórna og krefst inngöngu í ESB.
Umsókn um aðild að ESB fór af stað á grunni kosningasvika vorið 2009 og var frá upphafi umboðslaus bæði af hálfu þjóðar og þings. Þó bar Alþingi gæfu til þess að setja fyrirvara og skorður fyrir samningaferlið af Íslands hálfu. Þar voru settir tilteknir þröskuldar fyrir varinn rétt Íslendinga sem ekki mætti á neinu stigi gefa eftir í samningaferlinu án fyrirfram aðkomu Alþingis.
Nú hefur steytt á þessum á þessum þröskuldum og ekki verður lengra gengið nema að gefið sé eftir forræði yfir fiskimiðunum, að gefinn sé eftir réttur okkar til að stunda hér landbúnað og haga hér búsetu og matvælaframleiðslu á þann hátt sem þjóðinni sjálfri er hagkvæmast.
Ýmis fleiri atriði má nefna sem steytir á við samþykkt Alþingis og kallar á fullveldisframsal sem þjóðin hefur aldrei gefið heimild fyrir. Það er því fullljóst að ekki verður lengra gengið í samningum við ESB nema þessir fyrirvarar verði gefnir eftir og sótt um án skilyrða.
Það hefur hinsvegar hvorki þjóðin né Alþingi heimilað. Umsóknin er því stopp, bæði tæknilega og pólitískt.
Þjóðaratkvæði um framhald umsóknarinnar þýðir í raun að allir fyrirvarar Alþingis séu slegnir af og sótt um án skilyrða. Það er hinsvegar krafa forystu ASÍ sem vill áframhaldandi innlimunarviðræður sem þýðir í raun eftirgjöf á öllum þeim fyrirvörum sem Alþingi hefur sett.
Var Landhelgisbaráttan unnin fyrir gýg?
Hinn 31. ágúst 1972 flutti Ólafur Jóhannesson forsætisráðherra útvarpsávarp til þjóðarinnar. Hann vísaði til einróma samþykktar Alþingis og að baki hennar stendur þjóðin öll".
Útfærsla landhelginnar byggist á þeirri sannfæringu, að réttur okkar til náttúruauðlinda landsgrunnsins sé í eðli sínu sá sami og til landsins sjálfs..." og hann lauk ávarpi sínu: Það er stór dagur á morgun. Þá stækkar Ísland. Þess dags mun minnst meðan Íslandssaga er skráð."
Þá var Snorri Jónsson en ekki Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ
Þetta var allt fyrir tíma Samfylkingarinnar, Viðskiptaþings, Evrópustofu og Gylfa Arnbjörnssonar hjá ASÍ. Hinsvegar var Snorri Jónsson þá forseti ASÍ sem beitti sér fyrir fjölmennasta útifundi til þess tíma í Reykjavík hinn 22. maí 1973. Yfir 30 þúsund manns mættu á Lækjartorg og lýstu yfir fullum stuðningi við útfærslu landhelginnar og mótmæltu innrás breska sjóhersins í íslenska fiskveiðilandhelgi".
Hver hefði séð núverandi forystu ASÍ beita sér fyrir slíkum fundi? Þess í stað ganga menn þar fremst í flokki sem heimta inngöngu í Evrópusambandið með tilheyrandi framsali á yfirráðum fiskimiðanna til Brüssel. Ég man ekki einu sinni eftir að hryðjuverkalögum Breta á Ísland 2008 hafi verið mótmælt í þeim ranni.
Íslendingar létu ekki deigan síga
Matthías Bjarnason varð sjávarútvegsráðherra í ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar. Matthías var kjarkmaður mikill og fylginn sér. Hinn 15. júlí 1975 skrifaði hann undir reglugerð um að fiskveiðilögsaga Íslendinga skyldi færð út í 200 sjómílur. Algjör þjóðarsamstaða var um útfærsluna. Í ræðu sem Matthías hélt þá segir m.a.:
Með gildistöku hinnar nýju reglugerðar er allt hafsvæðið út í 200 sjómílur frá grunnlínu allt í kringum landið lýst lögsögusvæði Íslands. Frá þeim tíma er því öll veiði erlendra skipa innan 200 mílna markanna óheimil samkvæmt íslenskum lögum nema til komi sérstök heimild veitt af íslenskum stjórnvöldum".
Lífbelti þjóðarinnar
Varðveitum lífbeltin tvö" sagði Kristján Eldjárn forseti í nýársávarpi 1972, gróðurinn til landsins og fiskimiðin fyrir ströndinni.
Það kostaði blóð, svita og tár að ná fullum yfirráðum yfir 200 mílna fiskveiðilögsögu landsins. En þjóðin stóð sameinuð í baráttunni.
Þeir sem nú vilja halda áfram aðlögunarsamningum, innlimunarferlinu í ESB, kíkja í pakkann", vita að það verður ekki gert nema fyrst séu gefnir eftir fyrirvarar Alþingis frá 2009, m.a. vegna sjávarútvegsins.
Þeir sem stóðu í landhelgisbaráttunni og lögðu líf sitt undir í stríði við stór og fullkomin erlend herskip hefðu aldrei trúað því þá að aðeins 40 árum seinna risi upp hávær hópur, jafnvel heill stjórnmálaflokkur, forystumenn í atvinnulífi og verkalýðshreyfingu, sem litu á fullveldisbaráttuna sem hagsmunastríð fyrir einstakar atvinnugreinar sem þeir væru reiðubúnir að fórna.
Stefna forystu ASI í Evrópusambands málum gengur því í berhögg við hagsmuni og vilja íslensks verkafólks, íslensku þjóðarinnar.
Svar ESB hefur alltaf verið ljóst
Ríki geta ekki staðið fyrir utan sameiginlega sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins gangi þau í sambandið" sagði Thomas Hagleitner fulltrúi stækkunardeildar Evrópusambandsins á þingmannfundi í Hörpunni nýlega. Og það er ekki í fyrsta sinni sem fulltrúar ESB árétta þá kröfu sína.
Þeir sem nú kalla eftir áframhaldandi samningum og heimta um það þjóðaratkvæðagreiðslu eiga að hafa kjark til að segja beint: við erum reiðbúin að fórna forræði okkar á auðlindunum, við viljum bara fá að ganga í Evrópusambandið og undir það ertu beðinn að skrifa.
Fullveldi þjóðarinnar æðra öllu
Þessi ríkisstjórn sem nú situr og meirihlutinn sem hún styðst við var kosin til að hætta aðildarviðræðunum og að Alþingi afturkalli umsóknina. Við það ber henni að standa.
Sú forysta verkafólks sem talar fyrir framsali fiskimiðanna, sem talar fyrir upptöku hagstjórnar Evrópusambandsins, sem kallar á atvinnuleysi yfir íbúa fjölda ríkja sambandsins er ekki forysta sem starfar fyrir hagsmuni hinna vinnandi stétta. Sem betur fer er fjöldi verkalýðsfélaga og meginþorri almennings í landinu sem stendur með sjálfstæði þjóðarinnar og hafnar hagstjórnar og atvinnustefnu Evrópusambandsins.
Með baráttukveðjum, Jón Bjarnason
Umboðslausir ESB sinnar
30.4.2014 | 12:07
Nokkur hundruð umsagnir hafa nú borist utanríkismálanefnd vegna tillögu utanríkisráðherra um að draga aðildarumsókn að ESB til baka. Það er ekki nema gott um það að segja að einstaklingar komi þannig að lýðræðislegri umræðu um stefnu Alþingis þó nokkurs misskilings virðist á stundum gæta þar sem fólk sendir órökstudda skoðun sína:
Þingsályktunartillaga Gunnars Braga Sveinssonar um að draga til baka umsókn um veru landsins í ESB er mikið óráð. Það er alrangt að það sé fyrirfram gefið hvað kemur út úr tillögunum og ef núverandi ríkisstjórn treystir sér ekki til að vinna að málinu af heilindum er ekkert sem mælir gegn því að leggja málið á ís.
Hér og í miklu fleiri umsögnum lýsir viðkomandi skoðun sinni og mætti ætla að umsagnir til þingsins væru þá einhverskonar atkvæðagreiðsla eða samin með atkvæðaskýringar þingmanna að fyrirmynd. En það eru fleiri hliðar á umsögnum þessum.
Allmörg félög álykta um málið fyrir hönd félagsmanna sinna án þess að hafa í reynd til þess nokkurt umboð. Málið hefur jafnvel ekki verið tekið upp á fundum enda langt utan þess sem viðkemur hlutverki viðkomandi félags. Hafi farið fram umræða t.d. stéttarfélaga um nauðsyn þess að félag beiti sér í þessu tiltekna máli er vitaskuld ekkert við því að segja að félagið og framámenn þess geri það. En þegar einstakir formenn eða fámennar stjórnir senda frá sér ályktanir án undanfarandi umræðu er um algerlega marklausan gerning að ræða.
Gott dæmi um slíkt er ályktun stjórnar Rithöfundasambandsins sem skorar á Alþingi að hafna umræddri tillögu þar sem hún gangi gegn kosningaloforðum núverandi stjórnarflokka. Um þetta eru mjög skiptar skoðanir og fleiri en einn af félögum í RSÍ hafa opinberlega rökstutt að flokkarnir standi þá aðeins við boðaða stefnu sína og loforð að þeir samþykki tillöguna. Það kemur ekki fram hversu margir af nefndum stjórnarmönnum kusu umrædda stjórnarflokka. Þá er vandséð að rithöfundar gangi í rithöfundasamband til þess að berjast með eða móti aðild að ESB. Til þess eru önnur félög.
Jón Bjarnason fv. ráðherra skrifar á heimasíðu sinni um umsögn formanns BHM sem skrifuð í nafni allra félagsmanna þó svo að ekkert í stefnu eða markmiðum BHM gefi tilefni til að samtökin taki afstöðu í svo viðkvæmu máli. Jón segir m.a.
Þegar litið er yfir ályktanir einstakra félaga og stjórnar BHM lúta þær fyrst fremst að menntun, starfskilyrðum og kjaramálum félagsmanna einstakra fagstéttarfélaga.
Þess vegna kemur verulega á óvart að formaður BHM sendi inn umsögn í nafni samtakanna um þingsályktunartillöguna um afturköllun umsóknarinnar að ESB sem nú liggur fyrir Alþingi. Ekki síður vekur það furðu að í umsögninni án rökstuðnings er hvatt til áframhaldandi aðlögunarferils að ESB og afturköllun umsóknarinnar mótmælt. Umsóknin að ESB var komin á endastöð og verður ekki haldið áfram nema að gefnir verði eftir fyrirvarar sem Alþingi setti. Það þýðir í raun ný umsókn um aðild að ESB án skilyrða.
Á heimasíðum BHM eða einstakra aðildarfélaga þess get ég hvergi séð að minnst sé á ályktun eða afstöðu til umsóknarinnar að Evrópusambandinu. Umsögn formanns BHM í nafni samtakanna til stuðnings ESB umsókninni er því með hreinum ólíkindum.
-b.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 12:23 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
ESB er úrelt afkvæmi kalda stríðsins
29.4.2014 | 10:54
ESB varð til á tímum kalda stríðsins þegar veröldin skiptist upp í blokkir undir forystu tveggja risavelda, Bandaríkjanna og Sovétríkjanna. Nú er ESB orðið óvinsælt, fæstir Evrópubúar vilji halda áfram á braut æ meiri samruna og sívaxandi fjöldi fólks vill yfirgefa það.
Á þessarar staðreyndir er bent í nýrri breskri bók, The Trouble with Europe, eftir hagfræðinginn Roger Bootle, sem skrifar einnig vikulega pistla í Daily Telegraph.
Roger Bootle bendir á að markmið ESB um síaukna samræmingu hafi leitt til alltof mikils regluveldis. Árangur ESB í efnahagsþróun hafi verið áberandi slappur, og hætt sé við að hlutdeild ESB í vergri landsframleiðslu ríkja heims fari smám saman minnkandi.
Í bók sinni fullyrðir hann að ESB sjálft standi beinlínis í vegi fyrir velgengni Evrópuríkja. Annað hvort verði að gera grundvallarbreytingar á starfsháttum þess eða það muni óhjákvæmilega brotna upp í smærri einingar. Stofnanir ESB séu illa skipulagðar og illa reknar, verkefni þeirra skipti litlu máli og vaxandi gjá sé á milli stofnana ESB og almennings í Evrópu.
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 10:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
Kíkt á hina kosningabaráttuna
28.4.2014 | 12:03
Ef Ísland væri orðið hluti af ESB væri nú ekki aðeins verið að kjósa til sveitarstjórna á Íslandi heldur einnig til Evrópuþingsins, þar sem Ísland ætti væntanlega 6 sæti af um það bil 742. Að vísu er kosningaþátttaka til Evrópuþingsins sorglega rýr, um 40% og gæti stefnt í enn minni þátttöku nú í maí.
Málflutningur vinstri sinnaðra frambjóðenda, ekki einungis þeirra sem skipa hóp ESB-gagnrýnenda, fyrir kosningarnar eru allrar athygli verður. Þeirra á meðal verður að telja þingforseta Evrópuþingsins sem gæti mjög líklega orðið næsti næsti forseti framkvæmdastjórnar ESB, Martin Schulz.
Hann hóf kosningabaráttu sína fyrir um tveimur mánuðum með því að kalla á endurreisn trausts á ESB. Þá sagði hann í viðtali við Reuter: ,,Við þurfum að fara að hugsa öðru vísi. Ekki: Er enn til kimi í Evrópu sem við höfum ekki skipt okkur af með beinum hætti heldur: Hvað getum við gert betur? ... Við höfum að vissu leyti misst þráðinn. Evrópa er ekki eins vel skilgreind og áður í hugum borgaranna. ESB var loforð um velferð, meiri félagslegan stöðugleika og meiri frið," sagði hann. ,,Þetta loforð hefur ekki verið haldið. Við þurfum að finna leið til baka og hvernig við getum staðið við þetta loforð. ... Þeir sem gagnrýna ESB eru ekki [aðeins] andstæðingar ESB og þar liggja helstu mistök okkar. ... Við verðum að segja við þetta fólk: Við skiljum ykkur, þið hafið rétt fyrir ykkur."
Þetta er rödd eins mesta áhrifamanns ESB, mikils ESB sinna, frá landinu sem flestir telja áhrifamest innan ESB, Þýskalandi. /AB
Evrópumál | Breytt s.d. kl. 14:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
Djúpmið Þorsteins Pálssonar
27.4.2014 | 12:02
Evran veldur víða miklu atvinnuleysi
26.4.2014 | 11:52
Hænsnakjöt og brokkólí
25.4.2014 | 11:35
Jón Bjarna: ESB málið og borgarstjórnarkosningarnar
24.4.2014 | 11:54
Draumurinn um evru er tálsýn
23.4.2014 | 11:47
Evran er spennitreyja sem gæti brostið
22.4.2014 | 11:57
Að hugsa á heimsvísu og bregðast við á heimaslóð
21.4.2014 | 12:38
Klúbbarnir tveir og vinstri menn
19.4.2014 | 10:55