Evran er spennitreyja sem gæti brostið
22.4.2014 | 11:57
"Sameiginlega myntin, evran, sem tekin var upp af 11 ESB-ríkjum 1999 og sem nú gildir í 18 aðildarríkjum þess, er það bindiefni sem ætlað er að ná til allra aðildarríkja um leið og þau uppfylla skilyrði þar að lútandi.Undantekning eru England og Danmörk sem lúta sérákvæðum.
Enginn einn þáttur hefur reynst ESB jafn erfiður ljár í þúfu og evran eftir upptöku hennar og stærstu vandamál Evrusvæðisins tengjast henni vegna afar ólíkrar stöðu og mismunandi hagþróunar ríkja innan svæðisins.
Mest áberandi hefur spennan verið milli Þýskalands annars vegar og Miðjarðarhafslanda ESB hins vegar, en sem nú er einnig farin að setja mark sitt á samskipti Þýskalands og Frakklands, ríkin sem um 1990 tóku ákvörðun um upptöku evrunnar.
Í hópi þeirra sem teljast sérfróðir um málefni ESB fer þeim fjölgandi sem spá því að evran sem sameiginleg mynt fái ekki staðist til lengdar, bæði af pólitískum og efnahagslegum ástæðum. Síðast var hér á ferð franskur sérfræðingur, François Heisbourg, sem hafði uppi sterkar aðvaranir um framtíð og horfur Evrusvæðisins.
Í máli margra þeirra sem hérlendis hafa mælt með aðild Íslands að ESB undanfarin ár hefur evran verið helsta beitan, sem flestu eigi að bjarga. Þó er ljóst að Ísland sem aðildarríki kæmist hvorki með illu eða góðu í þá spennitreyju í fyrirsjáanlegri framtíð."
(Úr greinargerð Hjörleifs Guttormssonar til utanríkismálanefndar, sbr. einnig http://vinstrivaktin.blog.is/blog/vinstrivaktin/entry/1375005)
Athugasemdir
Undir téða greinargerð HG til utanríkismálanefndar Alþingis er algerlega hægt að taka. Ef eitthvað er, er hún vægilega orðuð, þegar kemur að gríðarlegum erfiðleikum rómönsku- og grískumælandi þjóðanna. Þýzkaland vill ekki ábekja skuldir þeirra, og Stjórnlagadómstóllinn í Karlsruhe hefur birt athygliverða úrskurði. Þeir fjalla í reynd um, að samkvæmt Stjórnarskrá Sambandslýðveldisins sé stjórnmálamönnum óheimilt að skuldbinda þýzka skattgreiðendur til stuðnings öðrum löndum án vandaðrar umfjöllunar í Bundestag og Bundesraat, þ.e. báðum deildum þýzka þingsins. Allt ber að sama brunni. ESB er ólýðræðislegt ríkjasamband á einkennilegri braut. Það er ótímabært fyrir Ísland að sækjast eftir aðild fyrr en sést, hvernig málin munu skipast. Deilan við Rússa verður ákveðinn prófsteinn á ESB.
Bjarni Jónsson, 22.4.2014 kl. 20:45
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.