Það er engin þörf á að kíkja frekar í pakkann

Aftur og aftur hafa fulltrúar ESB verið spurðir hvort Íslendingar gætu staðið utan við sameiginlega stefnu ESB í sjávarútvegs- og landbúnaðarins. En talsmenn ESB hafa alltaf gefið sömu svör, nú seinast í Hörpu s.l. þriðjudag: Íslendingar verða eftir inngöngu að undirgangast yfirráð ESB á þessum sviðum.

 

Í mörg ár hafa ESB-sinnar með Össur Skarphéðinsson í broddi fylkingar reynt að telja þjóðinni trú um að Íslendingar geti náð því í aðildarsamningi að íslenskur sjávarútvegur verði tekinn út fyrir sviga og undanþeginn meginreglum ESB um yfirráð æðstu stofnana ESB yfir sjávarútvegi aðildarríkjanna, þ.e. „sameiginlegu sjávarútvegsstefnunni“ eins og hún er nefnd í Brussel.

 

Össuri gafst tækifæri til þess sem utanríkisráðherra í tæp fjögur ár að fá þessa fullyrðingu sína staðfesta. En þegar hann hvarf úr embætti hafði hann ekki fengið svo mikið sem stafkrók út úr leiðtogum ESB í þessa veru. Meginreglurnar um sjávarútvegsmál gilda fyrir öll aðildarríki ESB. Síst af öllu getur nokkurt þeirra gert sér vonir um undanþágu á þessu sviði þegar um er að ræða helsta atvinnuveg viðkomandi lands eins og gildir um Ísland. Þetta hafa forystumenn ESB margsagt við sendimenn Íslendinga sem eftir þessu hafa leitað.

 

S.l. þriðjudag hélt sameiginleg þingmannanefnd Íslands og ESB fund í Hörpu, en til þessarar nefndar var stofnað haustið 2010 í tilefni af aðildarumsókn Íslands. Innan ESB er nú rætt um að tímabært sé að nefndin verði lögð niður þar eð ekki sé lengur þingmeirihluti að baki umsókninni um aðild.

 

Fyrir hönd stækkunardeildar ESB sat Thomas Hagleitner fundinn að þessu sinni. Hann áréttaði þar þá staðreynd, eins og margoft hefur áður komið fram, að ríki innan ESB yrðu að viðurkenna sameiginlega sjávarútvegsstefnu ESB en bætti því við að við „framkvæmd stefnunnar“ væri unnt að taka tillit til sjónarmiða einstakra ESB-ríkja.

 

Guðlaugur Þór Þórðarson, alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, sat þennan fund í Hörpu, en Guðlaugur er formaður íslenska hluta sameiginlegu nefndarinnar. Hann sagði við mbl.is eftir fundinn:

 

„Ég spurði hann [Hagleitner] að því hvort ríki gætu staðið fyrir utan sameiginlega stefnu Evrópusambandsins í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum og það kom alveg skýrt fram hjá honum að það væri ekki hægt. Það þýðir einfaldlega að okkar markmið að halda yfirráðum yfir sjávarútvegsauðlindinni okkar er ekki í boði. Það fer þvert á sjávarútvegsstefnu sambandsins.“

 

Nú er það öllum kunnugt að kröfur Íslands í sjávarútvegsmálum hafa legið fyrir síðan aðildarumsóknin var samþykkt á Alþingi sumarið 2009. Samkvæmt nefndaráliti á þingskjali 249 (38. máli árið 2009) fólu þessar kröfur m.a. í sér:

 

„forræði í stjórn veiða og skiptingu aflaheimilda innan íslenskrar efnahagslögsögu sem byggð er á ráðgjöf íslenskra vísindamanna. Auk þess verði leitað eftir að eins víðtæku forsvari í hagsmunagæslu í sjávarútvegi á alþjóðavettvangi og kostur er lúti málefni að íslenskum hagsmunum. Jafnframt verði haldið í möguleika á því að takmarka fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegi og skýrri aðkomu Íslendinga að mótun sjávarútvegsstefnu ESB í framtíðinni.... Þá verði forræði þjóðarinnar tryggt yfir sjávarauðlindinni og þannig búið um hnútana að framlag sjávarútvegsins til efnahagslífsins haldist óbreytt.“

 

Ljóst er að stækkunardeild ESB hafnaði þessum kröfum Íslendinga í verki með því að stöðva viðræður við íslensk stjórnvöld um sjávarútvegsmál í mars 2011 og með því síðan að neita að afhenda íslenskum stjórnvöldum rýniskýrslu um málaflokkinn. Krafa ESB virðist hafa verið, þótt það hafi aldrei komið opinberlega fram, að íslensk stjórnvöld breyttu kröfum sínum í grundvallaratriðum áður en lengra yrði haldið í viðræðunum. Í árslok 2012 valdi svo þáverandi ríkisstjórn þann kostinn að leggja viðræðurnar til hliðar að svo stöddu, og síðan hefur aðildarumsóknin legið afvelta.

 

Orð Thomasar Hagleitner á fundinum í Hörpu s.l. þriðjudag voru enn ein staðfesting á því að umsókn Íslands í ESB kemur ekki til greina nema Íslendingar falli frá þeim kröfum sem fylgdu aðildarumsókninni. Því má með fullum rétti segja að Íslendingar hafi þegar „kíkt í pakkann“ og ekki sé eftir neinu að bíða með að afturkalla umsóknina. - RA

 


mbl.is Samkomulag um kolmunnaveiðar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Bjarni Jónsson

Myndlíking Össurar "að kíkja í pakkann" á engan veginn við.  Innihaldið er umbúðalaust og blasir við öllum, sem hafa augun opin.  Össur og Þorsteinn eru heldur ekki svo skyni skroppnir, að þeir hafi einhvern tímann búizt við "sérlausn" frá ESB til Íslands í fallegum umbúðum.  Pakkatalið er fyrir nytsömu sakleysingjana, sem láta þá félagana teyma sig á asnaeyrunum langleiðina til Brüssel.  Þeir félagar og aðrir aðildarsinnar vilja Ísland inn í ESB, skilyrðislaust, "no matter what", eins og Englendingar segja.  Það blasir við, að Ísland yrði, eins og öll önnur aðildarlönd ESB, að laga sig að Rómarsáttmálanum, Maastricht-sáttmálanum, Lissabon-sáttmálanum og öllum hinum sáttmálum ESB.  Hlutverk andstæðinga ESB-aðildar er að leiða umræðuna út úr blekkingahjúpi Össurar, Þorsteins og skoðanabræðra þeirra og til raunveruleikans.  Fáránleikinn hefur náð ákveðnu hámarki í umræðunni um þjóðaratkvæði á Íslandi um "framhald viðræðna", sem mótaðilinn stöðvaði.  Umræðunni þarf að beina að kjarna málsins: á að milda eða falla frá skilyrðunum, sem pistilhöfundur sýnir hér að ofan ?  Ætli kæmi þá ekki annað hljóð í strokkinn hjá sumum ?

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 29.3.2014 kl. 14:08

2 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Afhverju þarf Ísland ,,að standa fyrir utan" CFP og CAP?

Afhverju vilja þjóðrembingar og fyrrum sovét-dýrkendur endilega að íslendingar séu alltaf úti? Telja þeir að íslendingar séu svo ómerkilegir að þeir séu eigi húsum hæfir hjá vestrænum siðlegum lýðræðisríkjum??

Ómar Bjarki Kristjánsson, 30.3.2014 kl. 00:16

3 Smámynd: Elle_

Þið Brusseldýrkendur- og rosarembingar eruð eigi húsum hæfir og það er ekki framsjöllum eða hægri-öfgamönnum, og ekki einu sinni Sovét-dýrkendum að kenna.  Við viljum ekkert endilega að þið verðið úti en þið megið vera úti ef þið viljið, þið eruð með heilt fjall og ætti ekki að vera erfitt.

Elle_, 30.3.2014 kl. 00:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband