Grænland missti veiðiheimildir til ESB við aðild og fékk þær ekki aftur við úrsögn úr ESB

Grænlendingurinn Jósef Motzfeldt heldur eitt aðalerindið á norrænni ráðstefnu strandríkja á Hótel Sögu á morgun. Hann segir þar frá reynslu Grænlendinga sem fóru nauðugir inn í ESB 1973 en sluppu aftur út 1985. Enn hafa þó ESB-ríki veiðirétt í grænlenskri lögsögu.

 

Þetta kemur fram í grein Jóns Bjarnasonar í Morgunblaðinu í dag, en þar segir hann frá norrænu ráðstefnunni sem verður á Hótel Sögu á laugardag og hefst kl 9,30. Greinin er svohljóðandi:

 

„Samtökin Nei við ESB efna í samstarfi við hreyfinguna Nei til EU í Noregi til ráðstefnu á Hótel Sögu á morgun. Þau sem standa að samtökunum Nei við ESB eru Heimssýn, Ísafold, Herjan, Vinstrivaktin gegn ESB og Þjóðráð. Umræðuefni ráðstefnunnar er sjálfstæði og samstarf strandríkja á norðurslóð utan Evrópusambandsins og staða smáríkja, þar með talin stjórnarskrá þeirra og lýðræðið gagnvart aukinni miðstýringu og samruna í ríkjasambönd og stórríki.

 

Einhugur á Íslandi 1918 og 1944

 

 Alþingi Íslendinga samþykkti með naumum meirihluta að senda umsókn um aðild Íslands að Evrópusambandinu 16. júlí 2009. Ferlið allt hefur verið mjög umdeilt og í síðustu alþingiskosningum hlutu þeir flokkar meirihluta sem lofuðu að draga umsóknina til baka. Nú, næstum fimm árum eftir að umsóknin var send, hefur aðildarferlið verið stöðvað og fyrir Alþingi liggur ríkisstjórnartillaga um afturköllun þeirrar umsóknar. Í ár eru einnig 140 ár frá því að Íslendingar fengu eigin stjórnarskrá 1874 og 70 ár frá lýðveldisstofnun 1944.

Mörgum er enn í fersku minni baráttan fyrir 50 mílna landhelginni og síðar 200 mílna fiskveiðilögsögu þegar Íslendingar þurftu að eiga við herskip og fiskiflota Evrópuríkja í þorskastríðunum. Engum hefði þá dottið í hug að hópi Íslendinga kæmi það til hugar 30-40 árum síðar að framselja forræðið yfir fiskimiðunum til fjarlægs ríkjasambands. Einhugur var meðal þjóðarinnar við stofnun fullveldis 1918, lýðveldisstofnunina 1944 og útfærslu fiskveiðilögsögunnar. Nú er tekist á um hvort framselja eigi fullveldið til ríkjasambands, Evrópusambandsins sem stefnir hraðbyri í síaukinn samruna, »United Europe«.

 

Tuttugu ár frá því Norðmenn höfnuðu ESB

 

 Samtökin Nei við ESB berjast gegn inngöngu Íslands í Evrópusambandið og vilja standa vörð um fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar. Norðmenn hafa tvívegis fellt í þjóðaratkvæðagreiðslu aðildarsamning að ESB, 25. september1972 og 28. nóvember 1994. Grasrótarhreyfingin Nei til EU í Noregi er öflug almannasamtök sem létu mjög til sín taka á þessum örlagatímum fyrir norsku þjóðina. Þau berjast áfram af fullum krafti fyrir því að halda Noregi utan ESB.

Um 27.000 félagar í 19 fylkisdeildum standa að Nei til EU. Norðmenn fagna í ár 200 ára afmæli stjórnarskrárinnar, Grunnloven, og 20 ára afmæli þess að hafa fellt í síðara sinni aðildarsamning að ESB. Aðkoma Nei til EU að ráðstefnunni hér er hluti þeirrar dagskrár sem samtökin hafa efnt til á þessu tvöfalda afmælisári í sjálfstæðisbaráttu Norðmanna.

 

Grænland gekk úr EB 1985

 

 Grænland, sem hluti Danmerkur, gekk árið 1973 í Efnahagsbandalag Evrópu, forvera Evrópusambandsins þrátt fyrir að um 70% þjóðarinnar greiddi atkvæði gegn því. Grænlendingar sóttu fast að fá forsjá eigin mála. Þeir fengu heimastjórn 1979 og þá var jafnframt hafin formleg grasrótarbarátta fyrir því að segja Grænland úr Efnahagsbandalaginu. Eftir að góður meirihluti Grænlendinga hafði samþykkt í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu 1982 að segja sig úr Efnahagsbandalaginu, hófust samningar um úrsögn sem lauk 1985 með formlegri útgöngu Grænlendinga.

Grænlendingar urðu þó að láta Efnahagsbandalaginu eftir tiltekin réttindi svo sem til veiða í grænlensku lögsögunni og ýmsar aðrar skuldbindingar sem sambandsríkin gáfu ekki eftir en buðu í einhverjum tilvikum greiðslu fyrir á móti. Eftir úrsögn Grænlendinga voru settar ákveðnar reglur eða skilyrði inn í sáttmála Evrópusambandsins fyrir úrsögn, m.a. á þá leið að ná þyrfti samningum við hin aðildarríkin um hvernig fara skyldi með gagnkvæm réttindi og skuldbindingar sem komist höfðu á við inngöngu í sambandið. Grænlenska þjóðin fetar sig áfram skref fyrir skref að auknu sjálfstæði.

Jósef Motzfeldt sem heldur eitt aðalerindið á ráðstefnunni um sjálfstæðismálin hefur sem þingmaður, ráðherra og forseti grænlenska þingsins og formaður Inuit Ataqatigiit-flokksins verið áhrifamikill í sjálfstæðisbaráttu Grænlendinga undanfarna fjóra áratugi.

 

Sextán fulltrúar frá Noregi

 

 Sextán manna hópur kemur frá Nei til EU í Noregi á ráðstefnuna og flytja fjórir fulltrúar úr þeim hópi erindi. Allt er þetta forystufólk úr Nei til EU-hreyfingunni í Noregi. Þau eru Helle Hagenau, alþjóðamálastjóri Nei til EU, Odd Haldgeir Larsen, varaformaður Fagforbundet, stærsta stéttarfélags í Noregi, og Olav Gjedrem, formaður Nei til EU í Rogalandfylki, en þau fara fyrir hópnum ásamt Per Olav Lundteigen, þingmanni Miðflokksins á Stórþinginu.

Ráðstefnan sem haldin er í ráðstefnusal Hótel Sögu hefst klukkan 9.30 á morgun, 22. mars, og er öllum opin."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Frímann Jónsson

Lygarar.

Evrópusambandið greiðir grænlendingum mikið fyrir fiskiveiðréttindi í þeirra lögsögu. Eins og kemur fram hérna.

http://ec.europa.eu/fisheries/cfp/international/agreements/greenland/index_en.htm

Jón Frímann Jónsson, 21.3.2014 kl. 12:39

2 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Já. Lygi.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 21.3.2014 kl. 14:15

3 identicon

Að sjálfsögðu er þetta lygi, víst að þessar tvær ESB mannvitsbrekkur segja það :)

Sumarliði (IP-tala skráð) 22.3.2014 kl. 18:18

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband