The Economist um lýðræðishallann í Evrópusambandinu

Í síðasta hefti tímaritsins The Economist (1. - 7. mars) er að finna ítarlega grein um hrörnun lýðræðis víða um heim að undanförnu.  Fyrirsögnin er What´s gone wrong with democracy? Hvað hefur komið fyrir lýðræðið?

 

The Economist er blað sem seint verður sakað um vinstrihalla í sínum málflutningi, fremur hið gagnstæða, en má heita virt og vandað á sínum forsendum. Blaðið segir lýðræðið best heppnuðu hugmynd 20. aldarinnar en lýsir þungum áhyggjum yfir hrörnun þess og nefnir um það ýmis dæmi frá síðustu árum.

 

Bent er m.a. á íhlutun Vesturveldanna í Írak á fölskum forsendum og brostnum vonum með Arabíska vorið. Ýmis dæmi eru tekin um neikvæða þróun stjórnmála í Bandaríkjunum, sem séu orðin samnefnari fyrir þrátefli og sviksamlegar leikfléttur í valdabaráttu. Peningar ráði þar æ meira í stjórnmálalífi og þúsundir lobbýista gæti sérhagsmuna við lagasetningu.

 

Um stöðu lýðræðis innan Evrópusambandsins segir The Economist:

 

„Þá er Evrópusambandið ekki heldur til fyrirmyndar þegar kemur að lýðræði. Ákvörðunin um upptöku evrunnar 1999 var fyrst og fremst tekin af teknókrötum. Aðeins tvö lönd, Danmörk og Svíþjóð, héldu þjóðaratkvæðagreiðslur um það efni, bæði löndin sögðu nei. Hætt var tilraunum til að tryggja almennan stuðning við Lissabonsáttmálann [2005] eftir að einstakar þjóðir byrjuðu að greiða atkvæði gegn honum [Frakkar og Hollendingar – HG]. 

 

Á svörtustu dögum Evru-kreppunnar neyddi Evru-elítan Ítalíu og Grikkland til að skipta út lýðræðislega kjörnum leiðtogum fyrir teknókrata. Evrópuþingið, misheppnuð tilraun til að bæta úr lýðræðishalla ESB, er bæði hundsað og lágt skrifað. Evrópusambandið er orðið klakstöð fyrir „pópúlíska“ flokka eins og Frelsisflokk Geert Wilders í Hollandi og Þjóðfylkingu Marine Le Pen í Frakklandi, sem segjast vera að verja venjulegt fólk fyrir hrokafullri og óhæfri elítu. Gullin dögun í Grikklandi er að láta reyna á þanþol lýðræðisins gagnvart flokki af nasistakyni.

 

Fyrirbærið [ESB] sem átti að vera hannað til að koma böndum á evrópskan „pópúlisma“  er í staðinn að blása í hann lífi.“

 

Lauslega þýtt – HG.

 


mbl.is Evrópumálin tekin fyrir í dag
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband