Leiðtogar ESB hafa afneitað óskum Íslendinga um varanlegar undanþágur

ESB-sinnar reyna þessa dagana að hanga í því hálmstrái að þjóðin vilji fá að vita hvaða undanþágur séu í boði í sjávarútvegsmálum. Þó liggur ljóst fyrir að ráðamenn í ESB hafa oft gefið  a.m.k. munnleg svör hvað þetta varðar, svo og almennar yfirlýsingar.

 

Áköfustu aðildarsinnar svo sem Össur og Þorsteinn Pálsson hafa mjög reynt að telja fólki trú um að ekkert sé vitað um afstöðu ESB til óska Íslendinga um undanþágur og sérlausnir sem fyrri ríkisstjórn lagði upp með í samræmi við samþykkt Alþingis þegar sótt var um aðild. En er það rétt?

 

Hverjar eru staðreyndir málsins?

 

Framkvæmdastjórnar ESB segir beinlínis á blaðsíðu 9 í bæklingi sínum, »Understanding Enlargement« sem gefinn var út árið 2011 til þess að hjálpa fólki að skilja aðildarferlið:

 

»Hugtakið »samningaviðræður« getur verið villandi. Aðildarviðræður einblína á skilyrði og tímasetningar á innleiðingu aðildarríkisins, útfærslu og framkvæmd á reglum ESB - um 100.000 blaðsíðum. Og þessar reglur (einnig þekktar sem acquis, franska fyrir »það sem hefur verið samþykkt«) eru ekki umsemjanlegar.«

 

Og þetta segir framkvæmdastjórn ESB á heimasíðu sinni um »samningaferlið«. Undir liðnum »Um hvað er samið?« er sagt skilmerkilega frá því að samið sé um aðstæður og tímasetningu þess að aðildarríkið taki upp allar núverandi reglur ESB. Jafnframt segir þar í íslenskri þýðingu:

 

»Þessum reglum er skipt í 35 mismunandi stefnusvið (kafla), eins og samgöngur, orkumál, umhverfi o.s.frv., og er samið um hvern kafla sér. Reglurnar eru ekki umsemjanlegar.«

 

Síðustu tvö orðin, »ekki umsemjanlegar«, eru feitletruð til þess að ítreka það sem er rétt í þessum efnum: Það eru engar varanlegar undanþágur í boði, en stundum fær aðildarríkið tíma til þess að aðlagast regluverkinu.

 

Þegar aðildarviðræður við ESB hófust formlega, 27. júlí 2010, var efnt til fréttamannafundar í Brussel. Þar talaði Össur Skarphéðinsson, þáverandi utanríkisráðherra, um að ESB myndi vafalaust útbúa »klæðskerasniðnar« sérlausnir fyrir Ísland eins og oft hefði verið gert fyrir ný aðildarríki. En Össur hafði varla fyrr sleppt orðinu en Stefan Füle, þáverandi stækkunarstjóri ESB, skaut að þeirri athugasemd að sama væri hversu hugvitssamlegar slíkar lausnir væru, þá yrðu þær að rúmast innan regluverks ESB. Orðrétt sagði Stefan Füle að slíkar lausnir yrðu að vera:

 

 »byggðar á þeirri almennu meginreglu, sem verður gegnumgangandi í gegnum viðræðurnar, að það eru engar varanlegar undanþágur frá tilskipunum ESB«.

 

Einn af höfundum skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, sem nýlega var birt, Ágúst Þór Árnason, hefur ítrekað bent á þá meginniðurstöðu skýrslunnar:

 

að engar varanlegar undanþágur væri að fá úr hendi sambandsins. Viðræðunum væri því að hans mati sjálfhætt.

 

Birgir Ármannsson, formaður utanríkismálanefndar, hefur einnig lýst því yfir að hann telji hæpið að undanþágur fáist:

 

„Ég tel persónulega að það sé afar ólíklegt að nokkrar undanþágur sem máli skiptu myndu nást á sviði sjávarútvegs- og landbúnaðarmála. Það er himinn og haf milli regluverks ESB á þessu sviði og þeirra sjónarmiða sem Íslendingar þyrftu að setja á oddinn. Þrátt fyrir að finna megi dæmi um afmarkaðar sérlausnir á þröngum sviðum þá sýnist mér regluverk ESB vera þannig úr garði gert að það séu hreinir draumórar að halda því fram að hægt væri að ná fram einhverju sem máli skipti fyrir okkur Íslendinga.“

 

Í þriðja viðauka við fyrrnefnda skýrslu Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands um ESB-viðræðurnar segir Stefán Már Stefánsson prófessor, þegar hann ræðir um sérreglur fyrir einstaka svæði og lendur innan ESB:

 

„Helst má nefna í dæmaskyni Kanaríeyjar, Ceuta og Melilla sem tilheyra Spáni. Eyjar þessar liggja utan Evrópu og var samið um það við inngöngu Spánar í bandalagið (nú sambandið) að fjöldi reglna, þ. á m. allar reglurnar um fiskimál, skyldu ekki gilda fyrir eyjarnar. Þessi sérstaða myndaðist m.a. vegna legu eyjanna og stjórnmálalegs viðhorfs til þeirra. Þessu hefur nú verið breytt þannig að hafsvæðin umhverfis Kanaríeyjar falla alfarið undir fiskveiðistefnu sambandsins en hafsvæðin umhverfis hinar eyjarnar að hluta til.

Aðalatriðið hér er að vissar lendur og svæði, sem jafnvel geta verið innan marka aðildarríkja, geta og hafa notið undanþágu frá reglum Evrópusambandsins. Tæplega verður þó séð hvernig unnt er að beita þessum ákvæðum til hagsbóta fyrir Ísland í aðildarviðræðum þar sem óraunhæft virðist að hluta landið niður með þessum hætti.“


mbl.is Fundað um framhald ESB-málsins
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Skil eiginlega ekki þessa tregðu við að viðurkenna að málið er dautt.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.3.2014 kl. 12:20

2 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Evrópusambandið hefur frítt spil að fiska í lögsögu Möltu. Takmarkanirnar felast í því að Maltverjar hafa undanþágu til stærðartakmarkana skipa innan 25 milna. Aðeins skip upp að 11 metrum mega fiska þar. Líka skip evrópusambandsin. Menn nenna þó ekki að gera út slíkar dollur langveg að heiman, svo Maltverjar sítja mest einir að þessu. Fiskveiðar þeirra er hálfgerður sjálfsþurftarbúskapur með heildarafla upp á einhver hundruð tonna eða svo. Tunfiskur, sverðfiskur og rækja.

Svo eru menn að reyna að líkja þessu saman. Að sjálfsögðu er aldrei talað um eðli málsins og staðreyndir, þá litu evrópusinnar hálf kjánalega út.

Hér er skýrsla ESB um þetta. Read it and. Weap.

http://ec.europa.eu/fisheries/cfp/eff/op/list_of_operational_programmes/malta_en.pdf

Jón Steinar Ragnarsson, 7.3.2014 kl. 18:41

3 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Afli íslendinga er u.þ.b. Þúsundfaldur afli Maltverja.

Jón Steinar Ragnarsson, 7.3.2014 kl. 19:23

4 Smámynd: Bjarni Jónsson

Inngönguferlið strandaði árið 2011 á ósamrýmanlegri stefnu Alþingis, eins og hún birtist í skilmálum utanríkismálanefndar með umsókninni, og stefnu ESB í landbúnaðar- og sjávarútvegsmálum.  Síðan þá reyndu þeir kumpánar, Össur og Þorsteinn, allt hvað af tók að finna "sérlausn" fyrir Ísland.  Allt var það án árangurs.  ESB hafði engan hug á því, en Össur og Þorsteinn höfðu ekki dug til að játa ósigur sinn, heldur þóttist Össur gera hlé.  Þar lagði hann lík á ís, því að Alþingi mun aldrei koma til móts við kröfur í rýniskýrslu ESB um téða málaflokka.  Þá er ESB ekki til viðtals um framhald.  Það er eins og sumt fólk á Íslandi neiti að skilja breytinguna, sem varð á inngönguferli í ESB fyrir 20 árum.

Með góðri kveðju /

Bjarni Jónsson, 7.3.2014 kl. 21:29

5 Smámynd: Jón Valur Jensson

Góð skrif hér sem oftar.

Jón Valur Jensson, 8.3.2014 kl. 03:43

6 Smámynd: Bjarni Jónsson

Hvernig má það vera, að fólk, sem stöðu sinnar og menntunar vegna ætti að geta tekið við nýjum upplýsingum, unnið úr þeim og dregið sínar ályktanir, virðist lítið sem ekkert breyta um afstöðu til umsóknarinnar um aðild að ESB þrátt fyrir uppljóstranir í nýrri skýrslu HHÍ um skipbrot umsóknarinnar og árangursleysi þeirra kumpána, Össurar og Þorsteins, við að finna "sérlausnir" ?  Það er aðeins ein skýring á því.  Slíkt fólk vill í náðarfaðm Berlaymont, hvað sem það kostar, og skeytir hvorki um skömm né heiður í því sambandi.  Slík afstaða er gjörsamlega óábyrg og þjóðhættuleg.  Hana verður að kveða í kútinn.  Andstæðingar slíks ábyrgðarleysis verða að brýna kutana.

Bjarni Jónsson, 8.3.2014 kl. 13:18

7 Smámynd: Predikarinn  -  Cacoethes scribendi

Hárrétt hjá síðuhöfundi.

Eg má til með að leggja hérna inn góða grein Jóns Bjarnasonar fyrrverandi sjávarútvegsráðherra sem undirbjó og lagði fyrir aðlögunarnefndina samningskröfur sínar og ESB krafðist á móti að Ísland lagaði sig að reglum ESB. Sjáið pistil Jóns Bjarnasonar :

„Miðvikudagur, 5. mars 2014

Störukeppnin

Samningaviðræður við Evrópusambandið eru stopp. Evrópusambandið neitar að opna á viðræður um sjávarútveg. Fyrirvari og kröfur Íslendinga um fullt forræði yfir fiskimiðunum er algjörlega óaðgengilegt fyrir ESB. Þeir fyrirvarar Íslands eru bundnir í samþykktum Alþingis og ekki fram hjá þeim gengið:

"Samstaða var í nefndinni um meginmarkmið í samningaviðræðum við ESB varðandi sjávarútveginn. Þau lúta að forræði yfir sjávarauðlindinni með sjálfbæra nýtingu að leiðarljósi. Það felur í sér forræði í stjórn veiða og skiptingu aflaheimilda innan íslenskrar efnahagslögsögu sem byggð er á ráðgjöf íslenskra vísindamanna. Auk þess verði leitað eftir eins víðtæku forsvari í hagsmunagæslu í sjávarútvegi á alþjóðavettvangi og kostur er lúti málefni að íslenskum hagsmunum. Jafnframt verði haldið í möguleika á því að takmarka fjárfestingar erlendra aðila í íslenskum sjávarútvegi og skýrri aðkomu Íslendinga að mótun sjávarútvegsstefnu ESB í framtíðinni. Í þessu sambandi er rétt að undirstrika þjóðhagslegt mikilvægi atvinnugreinarinnar, en meiri hlutinn telur að með þessu megi tryggja að breytingar sem verða á fiskveiðistjórn hér á landi verði að undirlagi íslenskra stjórnvalda og áhrif landsins aukist á þessu sviði í Evrópusamstarfi. Þá verði forræði þjóðarinnar tryggt yfir sjávarauðlindinni og þannig búið um hnútana að framlag sjávarútvegsins til efnahagslífsins haldist óbreytt".

Íslendingar höfðu lagt fram sína vinnu í sjávarútvegsmálum og kröfurnar lágu fyrir í þeim efnum. ESB lagði ekkert fram annað, en kröfuna um að Ísland samþykkti forræði ESB yfir fiskimiðunum.

Afturköllun IPA- styrkjanna - skýr skilaboð ESB

Einhliða afturköllun ESB á IPA-styrkjunum, aðlögunarstyrkjum sem umsóknarríki fær frá Sambandinu eru einnig skýr skilaboð í verki að þeir hjá ESB líta ekki lengur á Ísland sem umsóknarríki.

Hvernig sem menn vilja orða hlutina er umsóknin fullkomlega strand af beggja hálfu og getur ekki haldið áfram nema Alþingi taki málið aftur fyrir, felli niður fyrirvarana sem það setti með umsókninni og sendi inn nánast nýja umdsókn, sem fellur að skilyrðum og kröfum ESB. Fyrir því er enginn pólitískur meirihluti á Alþingi. Um þetta segir í greinargerðinni með þingsályktuninni:

" Á hinn bóginn leggur meiri hlutinn áherslu á að ríkisstjórnin fylgi þeim leiðbeiningum sem gefnar eru með áliti þessu um þá grundvallarhagsmuni sem um er að ræða.

Að mati meiri hlutans verður ekki vikið frá þeim hagsmunum án undanfarandi umræðu á vettvangi Alþingis og leggur meiri hlutinn til að orðalagi þingsályktunartillögunnar verði breytt með hliðsjón af þessu".

"Störukeppnin" tilgangslaus

Nú er komið í ljós að bæði í sjávarútvegs- og landbúnaðarmálum verður Ísland að gefa í grundvallaratriðum eftir fyrir kröfum Evróðusambandsins til að aðlögunarferlið geti haldið áfram. Samkvæmt ákvörðun Alþingis hefur ríkisstjórnin ekki heimild til þess og áframhaldandi "störukeppni" Íslenskra stjórnvalda og ESB tilgangslaus. Hún aðeins skaðar uppbyggingu eðilegra tvíhliða samskipta milli Íslands annarsvegar og ríkjasambands Evrópbandalagsins hinsvegar.

Afturköllun umsóknarinnar er því hið eina eðlilega og heiðarlega svar Íslendinga.”

Predikarinn - Cacoethes scribendi , 8.3.2014 kl. 17:48

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband