Horfum á það sem sameinar okkur en ekki það sem sundrar

Ekki er vilji til inngöngu í ESB og evran ekki nein töfralausn. Nær er að horfa á það sem sameinar okkur og nýta þau tækifæri sem Ísland hefur í raun, segir Eyþór Arnalds, framkvæmdastjóri í grein sem birtist í Mbl. s.l. fimmtudag.

 

„Sú ákvörðun ríkisstjórnarinnar að draga umsókn Íslands um aðild að ESB til baka er rökrétt og ætti ekki að koma á óvart. Meirihluti þjóðarinnar vill ekki ganga í ESB. Meirihluti Alþingis vill það ekki heldur. Það væri því undarlegur leiðangur að halda áfram samningaviðræðum í þessari stöðu og engum greiði gerður með því að halda uppi væntingum um inngöngu. Því miður er umræðan farin að snúast um persónulegar ávirðingar og lítið fer fyrir málefnalegri umfjöllun um ESB. Margir halda fram evrunni sem lausn efnahagsmála Íslands en slík töfralyf eru ekki laus við aukaverkanir. Í ljósi þess er rétt að fara yfir nokkur atriði sem virðast hafa farið á skjön í umræðunni.

 

Ein helsta röksemdin fyrir inngöngu í ESB er að þá séum við eins og aðrar nágrannaþjóðir okkar. Staðreyndin er sú að nær engin nágrannaþjóða okkar notar evru. Af Norðmönnum, Svíum, Dönum, Bretum, Írum, Færeyingum, Grænlendingum, Kanadamönnum og Bandaríkjamönnum er aðeins ein sem notast við evru og sú hefur verið í miklum fjárhagsvanda. Írar.

 

Önnur röksemd sem gjarnan heyrist er að utanríkisviðskipti okkar séu að mestu leyti við Evrópu og því sé rétt að taka upp evru. Þegar nánar er að gáð kemur í ljós að stærsti hluti útflutnings okkar er í USD og stærsti hluti innflutnings. Þá er vert að geta þess að erlend fjárfesting á Íslandi kemur að afar litlu leyti frá Evrópu. Í iðnaði eru það fyrst og fremst félög í Bandaríkjunum, Ástralíu, Kína og Japan sem eiga stóriðjufyrirtækin. Sagt er að atvinnulífið vilji að Ísland gangi í ESB, en samkvæmt könnun sem Capacent Gallup gerði fyrir SI eru 52,8% félagsmanna andvíg aðild en 33% hlynnt aðild. Því er haldið á lofti að aðild að ESB stuðli að nýsköpun en ég get fullyrt að nýsköpunarumhverfið á Íslandi hefur skilað góðum árangri sem eftir er tekið erlendis.

 

Evrusvæðið er ólíkt Íslandi

 

Ein helstu rökin fyrir evrunni eru stöðugleikinn sem henni fylgir. Nú er það svo að gjaldmiðlar mæla verðmæti en sveiflast gagnvart hver öðrum. Ef við skoðum íslensku krónuna sést að Bandaríkjadalur hefur farið úr 60 krónur í 126 krónur á síðustu 10 árum sem er sveifla um 115%. En hvað um evruna? Sjálf evran fór úr 0,8 í 1,6 USD en það er 100% frávik og því ljóst að gengi hennar er ekki meitlað í stein. Spurningin er; hvaða mynt endurspeglar íslenskan veruleika?

 

Margt bendir til þess að krónan geri það best og önnur vandamál séu hjá okkur en myntin. Árinni kennir illur ræðari segir máltækið. En vilji menn taka upp aðra mynt er eins gott að hún endurspegli hagkerfi okkar sem best.

 

Sagt er að vilji menn sjá örlög þjóða sé best að lesa í aldurssamsetningu þeirra. Þegar þetta er skoðað sést að spár um aldurssamsetningu eru Íslandi í hag miðað við Evrópusambandsríkin. Samkvæmt upplýsingum sem Datamarket hefur tekið saman verða 37% Íslendinga yfir 55 ára árið 2050, en 42% íbúa ESB. Aldursdreifing hefur áhrif á fjárhag fyrirtækja, heimila, lífeyrissjóða og opinberra aðila svo um munar.

 

Sagt hefur verið að hagvöxtur verði meiri á Íslandi í ESB en utan. Hagvöxtur á Íslandi var 3% á árinu 2013 samkvæmt nýjustu tölum Seðlabankans, en -0,4% á evrusvæðinu. Hver er að vaxa? Það eru fá rök og lítill vilji til inngöngu í ESB í þessari stöðu. Nær er að horfa á það sem sameinar okkur frekar en þetta mál sem sundrar okkur. Horfum á tækifærin sem við getum nýtt fyrir Ísland í menntun, skynsamlegri nýtingu auðlinda og aukinni framleiðni. Verum raunsæ og byggjum upp á þeim grunni sem er raunverulegur og þá mun vel vegna.“


mbl.is Þjóðaratkvæði ekki heillavænlegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband