Viðleitni VG til að afmarka sérstöðu sína

Ólundarleg viðbrögð nokkurra forystumanna VG við tillögu ríkisstjórnarinnar um afturköllun aðildarumsóknar vöktu undrun og reiði meðal fjölmargra stuðningsmanna VG í gær. En tillaga sem VG lagði fram í gærkvöldi er þó spor í rétta átt.

 

Þingflokkur VG veigrar sér við að styðja beinlínis tillögu ríkisstjórnarinnar um afturköllun aðildarumsóknar en leggur til í þess stað að ESB sé tilkynnt að gert hafi verið formlegt hlé á aðildarviðræðum (sem raunar hefur þegar verið gert). Engar líkur eru þó á að stjórnarflokkarnir falli frá því áformi sínu að afturkalla umsóknina enda virðast þeir hafa öruggan meirihluta á þingi fyrir þessari stjórnartillögu.  

 

Það jákvæða við tillögu VG er þó það að í henni er tekið undir þá stefnumörkun að aðildarviðræður verði ekki „teknar upp á nýjan leik nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.“ Að þessu leyti er orðalagið í tillögu VG samhljóða tillögu ríkisstjórnarinnar. Þetta er einmitt það atriði sem Árni Páll, formaður Samfylkingarinnar, æsti sig hvað mest út af og taldi einhvers konar „stjórnarskrárbrot“, sem auðvitað er tómt rugl, því að þessi punktur í tillögum VG og í tillögu stjórnarliða er stefnumörkun Alþingis til framtíðar en er að sjálfsögðu ekki lagasetning og snertir því ekki stjórnarskrá.

 

En jafnframt felst í þessari tillögu VG sú stóra breyting að þingflokkurinn er ekki lengur að tala um að gerður sé samningur við 27 ríki um inngöngu Íslands í ESB og þá fyrst þegar hann liggi fyrir fái kjósendur aðkomu að málinu í þjóðaratkvæði. Þvert á móti er áhersla lögð á það að viðræður verði ekki hafnar að nýju eða samningur gerður nema þjóðin hafi lýst þeim vilja sínum að stefna skuli í þá átt. Því til viðbótar er stefna VG áréttuð í greinargerð:

 

„Stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er að aðild að Evrópusambandinu þjóni ekki hagsmunum Íslands í heild. Á þeirri stefnu hefur engin breyting orðið.“

 

Þingflokkurinn leggur til að þjóðaratkvæði fari fram um ESB-málið fyrir lok kjörtímabilsins. Þingflokkurinn tekur þó ekki af skarið um það hvernig spurningin í þjóðaratkvæðagreiðslu yrði orðuð. En í greinargerð segir:

 

„Í umræðum um málið hefur komið fram það sjónarmið að rétt væri að leita álits þjóðarinnar á því hvort halda eigi viðræðum áfram og bera samningsniðurstöðu undir þjóðina. Einnig hefur það sjónarmið verið viðrað að réttast væri að spyrja hvort meirihlutavilji sé til þess með þjóðinni að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu og vilji þar af leiðandi að aðildarumsókninni verði haldið til streitu eða hún dregin til baka ef ekki reynist vilji til þess að Ísland gangi í Evrópusambandið.“

 

Enda þótt tillaga VG, sem birt er hér að neðan, sé að sumu leyti ófullkomin og beri þess merki að um málamiðlun sé að ræða, má draga þá ályktun af þeirri staðreynd, að allur þingflokkurinn stendur að flutningi hennar á Alþingi, að VG vilji skilja sig með skýrum hætti frá ESB-flokkunum á Alþingi, Samfylkingunni og Bjartri framtíð. Eins og staða mála er nú eru að vísu engar líkur á að tillagan geti „skapað breiða sátt, óháð afstöðu til ESB-aðildar“ í þinginu, eins og nefnt er í greinargerð með tillögunni.

 

En stóra málið sem varðar tiltrú og traust stuðningsmanna á VG í framtíðinni veltur endanlega á því hvaða afstöðu þingmenn flokksins taka, þegar greidd verða að lokum atkvæði um afturköllun aðildarumsóknar. Spurningin er hvort flokkurinn, sem lýst hefur ítrekað yfir andstöðu við ESB-aðild, greiðir þá atkvæði gegn tillögu ríkisstjórnarinnar um afturköllun aðildarumsóknar eða styður framgang stjórnartillögunnar, helst með beinum stuðningi eða að lágmarki með hjásetu. – RA

 

Tillaga VG er svohljóðandi:

 

„Tillaga til þingsályktunar um formlegt hlé á aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins og þjóðaratkvæðagreiðslu um viðræðurnar

 

Flm.: Katrín Jakobsdóttir, Árni Þór Sigurðsson, Bjarkey Gunnarsdóttir,

Lilja Rafney Magnúsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon,

Svandís Svavarsdóttir, Ögmundur Jónasson.

 

Alþingi ályktar að gera formlegt hlé á aðildarviðræðum Íslands og Evrópusambandsins og felur ríkisstjórninni að gera Evrópusambandinu grein fyrir þeirri afstöðu. Enn fremur ályktar Alþingi að aðildarviðræðum verði ekki haldið áfram eða þær teknar upp á nýjan leik nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Alþingi ályktar að efnt skuli til þeirrar þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir lok kjörtímabilsins.

 

Greinargerð

 

Alþingi samþykkti 16. júlí 2009 að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að ESB og að loknum viðræðum við sambandið yrði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning. Samkvæmt þingsályktuninni skyldi við undirbúning viðræðna og skipulag þeirra fylgja þeim sjónarmiðum um verklag og meginhagsmuni sem fram komu í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar (þskj. 249 á 137. löggjafarþingi). Formlegar viðræður hófust um ári síðar á grundvelli þessarar samþykktar Alþingis og höfðu 27 samningskaflar af 33 verið opnaðir um áramót 2012–2013, þar af hafði 11 verið lokið. Auk þess hafði Ísland afhent samningsafstöðu í tveimur köflum til viðbótar.

 

Í ársbyrjun 2013 var hægt á aðildarviðræðum og ákveðið að opna ekki fleiri samningskafla enda óvissa um framhald málsins og þá þegar ljóst að viðræðum yrði ekki lokið á því kjörtímabili. Sérstaklega var vísað til þess að Evrópusambandið hefði dregið að ljúka rýniskýrslu sinni um sjávarútvegsmál mánuðum saman, en það er án vafa sá kafli viðræðnanna sem hvað mesta þýðingu hefur fyrir íslenska hagsmuni. Var málið því metið svo að það þjónaði best hagsmunum Íslands að gera tímabundið hlé fram yfir alþingiskosningar í því augnamiði að ákvörðun um framhald málsins yrði tekið af nýju Alþingi og nýrri ríkisstjórn.

 

Skiptar skoðanir hafa lengi verið meðal landsmanna um hver tengsl Íslands við Evrópusambandið ættu að vera. Sömu sögu er að segja um afstöðu stjórnmálaflokkanna, milli þeirra og innan. Stefna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs er að aðild að Evrópusambandinu þjóni ekki hagsmunum Íslands í heild. Á þeirri stefnu hefur engin breyting orðið. Eigi að síður telur Vinstri hreyfingin – grænt framboð að framtíðartengsl Íslands og Evrópusambandsins séu eitt af stórmálum íslenskrar utanríkisstefnu sem takast þarf á við og ræða. Það er afstaða flokksins að um sé að ræða stórmál af því tagi sem þjóðin sjálf verði að lokum með lýðræðislegum hætti að taka af skarið um. Í þeim anda er tillaga þessi flutt. Í kjölfar efnahagshrunsins 2008 og fram eftir ári 2009 voru skýrar vísbendingar um vilja kjósenda til að kanna kosti þess og galla fyrir Ísland að gerast aðili að Evrópusambandinu. Endurspeglaðist sú afstaða ítrekað í skoðanakönnunum. Á sama tíma hafa þó flestar skoðanakannanir bent til þess að meiri hluti þjóðarinnar væri andvígur aðild að sambandinu.

 

Allt frá því að málið kom til meðferðar Alþingis vorið 2009 hafa þau sjónarmið verið uppi að rétt væri að leita álits þjóðarinnar í þjóðaratkvæðagreiðslu, m.a. var lagt til á sínum tíma að efnt yrði til tvöfaldrar þjóðaratkvæðagreiðslu, annars vegar um hvort sækja skyldi um aðild og hins vegar um samningsniðurstöðu. Af því varð þó ekki og tillaga um að sækja um aðild hlaut stuðning úr öllum stjórnmálaflokkum sem sæti áttu á Alþingi á síðasta kjörtímabili.

 

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar sem var mynduð eftir alþingiskosningarnar í apríl 2013 var kveðið á um að viðræðurnar við ESB yrðu ekki teknar upp að nýju nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Enda þótt þau sjónarmið hafi komið fram af hálfu formanna beggja stjórnarflokkanna fyrir kosningar að þeir væri því fylgjandi að slík þjóðaratkvæðagreiðsla færi fram á fyrri hluta kjörtímabilsins var þó ekki kveðið svo fast að orði í stjórnarsáttmálanum. Hann veitir því ekki beina leiðsögn í málinu umfram það sem þar segir beinum orðum.

 

Í vor ákvað utanríkisráðherra að gera hlé á aðildarviðræðunum um ótiltekinn tíma og stöðva frekari vinnu samninganefnda og hópa. Síðsumars lagði utanríkisráðherra fram í utanríkismálanefnd lögfræðiálit þess efnis að ekki væri nauðsynlegt að afla samþykkis Alþingis fyrir þeirri ákvörðun. Skiptar skoðanir eru um hvort ríkisstjórnin geti einhliða vikið ályktun Alþingis til hliðar með þeim hætti og flutningsmenn þessarar tillögu eru þeirrar skoðunar að veigamikil lýðræðisleg rök hnígi að því að ráðherra geti ekki farið í bága við þingsályktanir sem varða mikilsverð utanríkismál og samskipti við aðrar þjóðir eða alþjóðastofnanir nema að fá fyrst fram skýra afstöðu þingsins þar um.

 

Nú hefur verið lögð fram stjórnartillaga um að slíta aðildarviðræðum við Evrópusambandið. Athygli vekur að tillagan kemur fram áður en umræðu um skýrslu Hagfræðistofnunar um stöðu Evrópusambandsmálsins er lokið. Á fyrri stigum höfðu talsmenn núverandi ríkisstjórnar ítrekað sagt að ekki væri tímabært að taka ákvörðun um málið fyrr en umrædd skýrsla væri fram komin. Telur ríkisstjórnin bersýnilega enga þörf á gagngerri umræðu um ESB-skýrsluna og ómerkir þannig fyrri orð. Það bendir til þess að ríkisstjórnin kæri sig ekki um ítarlega og vandaða umfjöllun um málið.

 

Úr því sem komið er mun niðurstaða ekki fást um tengsl Íslands við Evrópusambandið á hvern veg sem er nema þjóðin taki afstöðu til málsins í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ugglaust hefði verið affarasælast að bera spurninguna um upphaf viðræðna undir þjóðina á sínum tíma en miðað við stöðu málsins nú og yfirlýsingar forustumanna stjórnmálaflokkanna hefði mátt telja víst að almennur stuðningur væri við það að leita eftir ráðgefandi áliti þjóðarinnar um framhald málsins. Í umræðum um málið hefur komið fram það sjónarmið að rétt væri að leita álits þjóðarinnar á því hvort halda eigi viðræðum áfram og bera samningsniðurstöðu undir þjóðina. Einnig hefur það sjónarmið verið viðrað að réttast væri að spyrja hvort meirihlutavilji sé til þess með þjóðinni að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu og vilji þar af leiðandi að aðildarumsókninni verði haldið til streitu eða hún dregin til baka ef ekki reynist vilji til þess að Ísland gangi í Evrópusambandið. Með því að leggja málið formlega til hliðar að sinni, en sammælast jafnframt um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir lok kjörtímabilsins, þannig að leiðsögn þjóðarinnar í málinu liggi fyrir við næstu reglulegu alþingiskosningar, er þess freistað að taka málið úr þeim átakafarvegi sem það hefur verið í og um leið komið til móts við ólík sjónarmið.

 

Flutningsmenn telja að samskipti Íslands og Evrópusambandsins standi á nokkrum tímamótum. Evrópusambandið er óumdeilanlega mikilvægur samstarfsaðili Íslands á fjölmörgum sviðum. EES-samningurinn sem Ísland hefur verið aðili að í um 20 ár er umfangsmikill og nær til fjölmargra málasviða og hafa skuldbindingar þjóðarinnar samkvæmt honum orðið æ meiri í tímans rás, án þess að þjóðin hafi nokkru sinni verið spurð um afstöðu til hans. Í honum felst umtalsvert framsal ríkisvalds og nýjar ákvarðanir reyna í vaxandi mæli á þanþol stjórnarskrárinnar gagnvart honum. Þá á Ísland í umfangsmikilli samvinnu á grundvelli Schengen-samstarfsins sem sömuleiðis er því marki brennt að þjóðin hefur ekki tekið afstöðu til þess sérstaklega. Núverandi ríkisstjórn er andvíg aðild Íslands að Evrópusambandinu en hefur kveðið á um að ef halda eigi viðræðum áfram verði það einungis gert að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu. Þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald málsins á einnig vaxandi hljómgrunn meðal stjórnarandstöðuflokkanna. Skoðanir um málið eru afar skiptar meðal þjóðarinnar ef marka má skoðanakannanir. Að öllu þessu virtu er sanngjarnasta málsmeðferðin og sú sem ætti að geta skapað breiða sátt, óháð afstöðu til ESB-aðildar, að gera formlegt hlé á aðildarviðræðunum þannig að þær verði þá ekki viðfangsefni núverandi ríkisstjórnar, en jafnframt að efna heit, m.a. forustumanna núverandi ríkisstjórnar, um aðkomu þjóðarinnar að ákvörðun um framhald málsins. Með því að stefna að slíkri þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir næstu alþingiskosningar getur þjóðin veitt leiðsögn sína og stjórnmálahreyfingarnar tekið mið af henni við myndun næstu ríkisstjórnar.“

 

Þessi tillaga er hugsuð sem framlag til að finna málinu ábyrgan og ásættanlegan farveg fyrir sem allra flesta án tillits til efnislegrar afstöðu til aðildar að Evrópusambandinu. Með þessu móti ætti einnig að vera unnt að skapa festu og traust í samskiptum Íslands við Evrópusambandið sem þrátt fyrir allt er einn mikilvægasti samstarfsaðili Íslands á alþjóðavettvangi. Flutningsmenn tillögunnar leggja áherslu á að fram að þjóðaratkvæðagreiðslu starfi þverpólitískur hópur þingmanna allra stjórnmálasamtaka að upplýstri umræðu um málið og til undirbúnings atkvæðagreiðslunni.


mbl.is Orðalag vó að æru þingmanna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Of lítið og of seint.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.2.2014 kl. 12:02

2 identicon

Hvaða heilvita manni er ekki fullkomlega skítsama hvað VG segir? Ég kaus þá og lærði mína lexíu 2009. VG er hópur af lygurum og lítið skárri en samspillingin. Nákvæmlega ekkert að marka þetta pakk, enda er það öllum augljóst núna þegar VG er á móti að draga umsóknina tilbaka. VG vill heldur halda í lygaáróðurinn um að sjá samninginn og alla þá lygaþvælu. Megi skömm þeirra verða ævarandi.

palli (IP-tala skráð) 26.2.2014 kl. 17:09

3 Smámynd: Bjarni Jónsson

Þegar sverfur til stáls, þá guggnar Vinstri hreyfingin grænt framboð á Alþingi.  Moðsuða sú, sem ofangreind þingsályktunartillaga er, furðuverk á þessum tímapunkti.  VG mun ekki ríða feitum hesti frá afstöðuleysi af þessu tagi.  Þessum þingmönnum væri nær að leita í smiðju til Hjörleifs Guttormssonar, sbr Morgunblaðsgrein hans 25. febrúar 2014, og taka af skarið á ögurstundu í sjálfstæðismálum Íslendinga, í stað þess að gera sig seka um hálfvelgju og gefa undir fótinn með að vilja stuðla að inngöngu Íslands í Evrópusambandið.  Hvers vegna standa þingmennirnir ekki og falla með flokkssamþykktum sínum ?  Þingflokkurinn er orðinn opinn í báða enda.

Bjarni Jónsson, 26.2.2014 kl. 21:06

4 Smámynd: Gunnlaugur I.

Tek undir með öðrum sem hafa kommentað hér.

Þetta er allt of moðsuðulegt og svikaslóð VG og ESB umsóknarinnar verður úr þessu aldrei af þeim tekin.

Var áður stuðningsmaður VG einmitt vegna einarðrar og að því ég hélt sannrar ESB andstöðu þeirra.

Fyrir mér er VG algerlega ónýtt vörumerki þó ég geti borið virðingu fyrir mörgu heiðarlegu og sönnu vinstra fólki sem þar er þó enn innanborðs.

Gunnlaugur I., 26.2.2014 kl. 21:46

5 Smámynd: Bjarni Jónsson

Samfélagsandstæðurnar krystallast núna.  Áhangendur stórauðvaldsins berjast nú um á hæl og hnakka fyrir skilyrðislausri inngöngu Íslands í ESB.  Sérlausnatal er hrein blekkingariðja.  Ég get skrifað undir hverja málsgrein í frábærri grein Hjörleifs Guttormssonar í Morgunblaðinu 25. febrúar 2014.  Vinstri hreyfingin grænt framboð hefur misst tilverugrundvöll sinn.  Gjörsamlega bitlaust tæki í þjóðfélagsbaráttunni. 

Bjarni Jónsson, 26.2.2014 kl. 22:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband