Blair og heimsvaldastefna Vesturlanda

"Fyrir land eins og Egyptaland, með sinni miklu og fjölbreyttu menningu, sem inniheldur um átta milljónir kristinna manna og ungt fólk sem þarf að vera tengt umheiminum, þá er engin framtíð fyrir slíkt ríki sem íslamskt ríki sem hyggst vera hluti af svæðisbundnu kalífaveldi.

Hvað eiga Vesturlönd þá að gera? Egyptaland er nýjasta áminningin um að ólga ríkir fyrir botni Miðjarðarhafs og að hún mun ekki láta okkur í friði, alveg sama hversu mjög við óskum þess. Það að taka ekki þátt í ferlinu er ekki valkostur, því að óbreytt ástand er ekki valkostur. Allar ákvarðanir um að gera ekki neitt eru í sjálfu sér ákvarðanir sem hafa veigamiklar afleiðingar."

Ofanritað er úr grein eftir Tony Blair sem birt er í Morgunblaðinu í dag. Þar rekur forsætisráðherrann fyrrverandi rök sín fyrir því að Vesturlandabúar eigi að segja Egyptum hvernig þeir hagi sínu lífi og fagnar herforingjastjórn þeirri sem nú hefur rænt völdum. 

Grein Blairs er kærkomin að því leyti að þar er handfast á einum stað margt af því versta og heimskulegasta í heimsvaldastefnu Vesturlanda. Bakvið grímulausa nýlendustefnu er barnaleg hugmyndafræði þess sem er fær um passa allan heiminn. Ríkjum Vesturlanda ber að stýra málum um heim allan því þau ein ríkja hafa uppgötvað hið rétta stjórnarform.

Í Egyptalandi var staðan þannig að frekar hófsamir íslamistar komust til valda í lýðræðislegum kosningum. Við sem horfum á getum efast um að það hafi verið heppileg niðurstaða kosninga og við getum líka efast um að íslamistar séu færir um að stjórna lýðræðisríki að vestrænni fyrirmynd.

En úr því að við erum byrjð á efasemdum þá getum við líka klórað okkur í hausnum yfir þeirri fullyrðingu að lýðurinn, almenningur, fari raunverulega með völd í vestrænum lýðræðisríkjum. Kannski eru völdin miklu meira í höndum bankamanna og hinna stóru í viðskiptalífinu í bland við misjafnlega rotinpúrrulegar stjórnmálaklíkur. Eða þá því að hin vestrænu hagvaxtarríki séu heppileg fyrir jarðarkringluna.

Vitaskuld ganga drengir eins og Blair erinda hins alþjóðlega auðmagns sem vill opna fyrir nýja leikvelli í löndum þriðja heimsins. Slík opnun er ekki gerð af sérstakri umhyggju fyrir mannréttindum, jafnrétti og kjörum þess fólks sem byggir hin víðu og vaxandi lönd. Og Blair karlinn er ekkert að spara það hvaða aðferðir þurfi og verði að nota í þessu samhengi:

Ef það skiptir máli, þá verður að grípa til aðgerða, alveg sama hversu erfiðar þær eru.

Langt breytingaskeið er hafið í Mið-Austurlöndum. Það verður erfitt, tímafrekt og dýrt. Margir á Vesturlöndum trúa því að það ætti að vera hlutverk einhvers annars að hjálpa til við að greiða úr flækjunum. En það er okkar starf. Þessi barátta skiptir alla máli.

Góðu fréttirnar eru þær að það eru fleiri milljónir af nútímalegu fólki með opinn huga í Mið-Austurlöndum. Það fólk þarf að vita að við séum með þeim í liði, að við erum bandamenn þeirra - og að við séum reiðubúin að færa þær fórnir sem þarf til þess að standa með þeim. 

Orðið dróni er ekki í þessum texta, ekki stafrétt. Það stendur ekki skýrum stöfum að það megi nota ómannaðar sprengjuflugvélar til þess að drepa vonda menn og vini þeirra en það er kirfilega ritað milli línanna.

Það versta við íhlutunarstefnu Vesturlanda, hvort sem er í Egyptalandi, Pakistan eða annarsstaðar í heimi spámannsins er að stefnan ýtir undir veldi öfgafullra íslamista. Auðvitað eru fleiri milljónir manna í þessum löndum með opinn og nútímalegan huga eins og forsætisráðherrann segir. Ekki þó endilega opinn á þann hátt að fólk þetta trúi á barnalegar lausnir breskra heimsvaldasinna.

En einmitt hin opna hugsun lýtur í lægra haldi þegar Vesturlönd taka að beita sínum miður snyrtilegu aðferðum til íhlutunar. Völdum er rænt með hjálp hersins og saklaust fólk er sallað niður í stríðsleik sem kenndur er við baráttuna gegn hryðjuverkum. 

„Mér er alveg sama þó að Bandaríkjamönnum líki einn daginn vel við menn eins og Ósama Bin Laden og ráði hann í sína þjónustu. Eða þó að þeim líki illa við hann næsta dag. Mér líkar við ekki við þessa menn, hvorki Obama né Osama sem var upphaflega ekkert annað en málaliði CIA. Hann var þeirra maður ekki okkar." (Mbl.12/2 2012, sbr. http://bjarnihardar.blog.is/blog/bjarnihardar/entry/1223922/)

Þetta sagði Rafiq Gundapur fyrrum samstarfsmaður Ali Bhutto í Pakistan þar sem bloggari hitti hann á heimavelli í borginni Rawalapindi.  Rafiq eins og milljónir annarra Pakistana fara hljótt með þá skoðun sína að þeir vilji meira frelsi og opnara stjórnkerfi af þeirri einföldu ástæðu að með því eru þeir taldir styðja kvala þjóðar sinnar, hina vestrænu hernaðarmaskínu.

Á meðan hún starfar í þessum löndum mun öfgaöflum íslamista, hernaðarhyggju og kúgunar vaxa ásmegin, öllum til bölvunar. /-b. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Fín grein Bjarni. Kominn tími til að gera heimsvaldastefnuna að þema.

Þórarinn Hjartarson (IP-tala skráð) 16.7.2013 kl. 17:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband