Augljóst samhengi milli upptöku evru, atvinnuleysis og kreppu

Árum saman hefur stífur áróður verið rekinn fyrir inngöngu Íslands í ESB með þeim rökum að þá gætum við tekið upp evru. Á sama tíma er að koma æ betur í ljós að evran á hvað mestan þátt í að magna upp atvinnuleysi og kreppu á jöðrum evrusvæðisins.

 

Ein augljósasta vísbendingin um hvernig evran hefur á sama tíma komið sér vel fyrir kjarnaríki ESB en illa fyrir fjölmörg evruríki á jöðrum svæðisins birtist í opinberum tölum um atvinnuleysi ungs fólks yngra en 25 ára í viðkomandi löndum.

 

Á útjöðrum evrusvæðisins er ástandið skelfilegast í Grikklandi og á Spáni þar sem atvinnuleysi meðal ungs fólks er rétt í kringum 60%, en í Portúgal og á Ítalíu liðlega 40%. Sennilega eru þessi fjögur ríki á evrusvæðinu heimsmethafar í atvinnuleysi ungs fólks. Næst koma svo Slóvakía og Kýpur þar sem atvinnuleysi ungs fólks er rétt innan við 35%.

 

Ísland, Noregur og Danmörk sem öll hafa borið gæfu til að standa utan við evrusvæðið eru einmitt í hópi þeirra ríkja í Evrópu þar sem minst atvinnuleysi er meðal ungs fólks, en í þeim hópi er einnig Þýskaland með 7,5 atvinnuleysi í þessum aldurshópi. Þýskaland nýtur þess óspart í krafti stærðar sinnar og áhrifa að vera miðpunktur evrusvæðisins, og dafnar eins og blóm í eggi, sem þiggur næringu og nýtur skjóls úr hvítunni sem umlykur það, á meðan jaðarríkin á evrusvæðinu engjast í kreppu og atvinnuleysi.

 

Nú kann einhver að segja að atvinnuleysi og kreppa sé víðar en á evrusvæðinu. Það er rétt. Þó er það svo að Bandaríkin eru nú í hópi þeirra ríkja þar sem atvinnuleysi meðal ungs fólks er hvað minnst og sömu sögu er að segja um Japan.

 

Það kemur því ekki á óvart að efnt skyldi til sérstaks neyðarfundar í Brussel í seinustu viku til að ræða um atvinnuleysið í ESB. Samkvæmt fréttastofunni AFP var samanlagt atvinnuleysi á evrusvæðinu (þ.e. án tillits til aldurs) í maí s.l. meira en nokkru sinni fyrr eða um 12,1%. Tölur frá Eurostat gáfu heldur ekki neina von um skjótan efnahagsbata í álfunni. Eurostat segir að rúmlega 26 milljónir manna séu nú án atvinnu innan Evrópusambandsins. – RA

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Rafn Guðmundsson

ég held að Danmörk sé eitt af þessu vondu löndum sem völdu esb aðild - held það allavega

Rafn Guðmundsson, 6.7.2013 kl. 15:28

2 Smámynd: Vinstrivaktin gegn ESB

Rafn! Danir eru í ESB en hafa alltaf neitað að taka upp evru. 

Vinstrivaktin gegn ESB, 6.7.2013 kl. 16:56

3 Smámynd: Rafn Guðmundsson

það er fleiri lönd í esb sem EKKI hafa tekið upp evru er það ekki

Rafn Guðmundsson, 6.7.2013 kl. 17:12

4 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Danska krónan er með fastgengi við Evru upp á 2,5% vikmörk og slíkt hefur í mjög álíka áhrif og það að vera með Evru nema hvað verxtir verða hærri en ef þeir tækju upp Evru. Það hversu lítið atvinnuleysi er í Danmörku og einnig þó nokkrum Evru ríkjum sýnir hvað er mikið til í þeirri fullyrðingu að atvinnuleysi í sumum suður Evrópuríkjum sé Evrunni að kenna.

Sigurður M Grétarsson, 6.7.2013 kl. 18:07

5 Smámynd: Vinstrivaktin gegn ESB

Í pistli Vinstrivaktarinnar var á það bent að evruríkin búa við gjörólíkar aðstæður. Í kjarna evrusvæðisins, þ.e.í Þýskalandi og í nokkrum nálægum ríkjum, er ástandið fremur gott en á útjöðrum svæðisins, í Írlandi, Portúgal, á Spáni, Ítalíu og í Grikklandi, er ástandið skelfilegt. Landfræðilega er Danmörk aðeins angi út úr Þýskalandi og efnahagsaðstæður eru því mjög svipaðar í þessum tveimur löndum. Þess vegna hentar Dönum vel að tengja gengi sitt við evru með vissum vikmörkum. En þeir hafa þó ítrekað harðneitað að taka upp evru. Ísland yrði sannarlega á útjaðri evrusvæðisins, ef við tækjum upp evru, og efnahags- og atvinnulíf okkar er mjög ólíkt því sem er í kjarnaríkjum evrusvæðisins. Þar munar mest um það að við erum mikil fiskveiðiþjóð og íslenskur landbúnaður býr við allt aðrar og gjörólíkar aðstæður en eru á evrusvæðinu. Margir hagfræðingar hafa bent á að kannski væri það einfaldasta lausnin á þrengingum evrusvæðisins og þeim vanda sem evran hefur skapað, ef Þjóðverjar yfirgæfu evrusvæðið og tækju aftur upp þýskt mark. Þessi umræða sýnir glöggt hvar vandinn liggur. - RA

Vinstrivaktin gegn ESB, 7.7.2013 kl. 10:33

6 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

ESB ríkin voru með fastgengisstefnu gagnvart innbyrðis gjaldmiðlum í marga áratugi áður en þau fóru út í Evrusamstarfið. Evran er því í raun ekki svo mikil breyting. Það að Danir halda í krónuna er fyrst og fremst tilfinningalegt mál hjá almenningi enda hjálpar það þeim ekki á nokkurn hátt efnahagslega nema síður sé því vextir í landinu eru hærri fyrir vikið.

Finnar eru jaðarríki í ESB og þeir hafa haft Evru í langan tíma og á sama tíma hefur efnahagur þeirra batnað þó vissulega finni þeir núna fyrir þeirri alþjóðlegu fjármálakreppu sem er í gangi núna.

Eystrarsaltsríkin eru eitt af öðrum að taka upp Evru og það bendir flest til þess að það bæti efnahag þeirra.

Það er því alveg á tæru að efnahagsvendi nokkurra suður Evrópuríkja og Íralands er ekki komin til vegna Evrunnar heldur er það sambland af langríma óráðsíu í peningamálum og alþjóðlegri fjármálakreppu sem veldur því að vandinn verður ljós. Að öllum líkindum væri ástandið þar enn verra en það er ef þau væru með sjálfstæðan gjaldmiðil enda hefðu hann fallið og í kjölfarið fylgt mikol verðbólga og mikil kjaraskerðing sem væri mun meir en þau hafa orðið fyrir vegna kreppunnar.

Sigurður M Grétarsson, 7.7.2013 kl. 12:41

7 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Mér hafa alltaf þótt athyglisverð þau rök að vandi sumra evruríkja stafi aðeins af þeirra eigin óráðsíu í peningamálum.  Upptaka evru sem átti einmitt að skilyrðast af ráðsíu í peningamálum.

Hvernig stendur þá á því að þessum ríkjum var leyft að taka upp evru?

Kolbrún Hilmars, 7.7.2013 kl. 14:56

8 Smámynd: Sigurður M Grétarsson

Kolbrún. Það er vert athugunarfefni af hverju þessum ríkjum var leyft að taka upp Evru þrátt fyrir að ástandið þar væri ekki eins og ætlast var til. En það breytir þó ekkki því að það er ekki orsök þess vanda sem þau ríki eru í.

Sigurður M Grétarsson, 8.7.2013 kl. 18:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband