Ef þetta snýst bara um peninga ...
27.6.2013 | 11:49
Furðuleg og þó nokkuð fyrirsjáanleg umræða skaut upp kollinum í vikunni. Hún fjallaði um útgreiðslu IPA-styrkja nú eftir að hlé hefur verið gert á aðildarviðræðum við ESB. Þeir miðlar sem hallastir eru undir ESB-aðild voru ekki lengi að reka upp ramakvein og segja að nú yrðu Íslendingar ,,af" 1,4 milljörðum í IPA-styrki. Fyrir þá sem reitt hafa sig á þessa styrki og áreiðanlega til mætra verkefna, er þetta auðvitað hábölvað og með þeim hef ég fulla samúð fyrir að hafa þurft að leita á þessi mið. En það var frá upphafi vitlaust gefið og þetta fé höfum við Íslendingar alveg efni á að láta til góðra rannsókna. Undarlegt er að heyra að fara eigi einhverja flokkunarleið í útdeilingu þess fjár sem ekki hefur verið greitt út, eins og heyra mátti á utanríkisráðherra í viðtali við Fréttablaðið og endurtekið var á visir.is á þriðjudag:
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sagði í samtali við Fréttablaðið í síðustu viku að ráðuneytið væri nú að skoða hvaða verkefni væru beintengd viðræðunum og hver ekki. Þeim sem hægt væri að tengja beint við viðræðurnar yrði ekki haldið til streitu en styrkir frá ESB yrðu þegnir fyrir önnur verkefni.
„Það er ljóst að styrkirnir geta nýst okkur að einhverju leyti sem EES-ríki en þarna eru líka verkefni sem eru beintengd aðildarumsókninni og hvert verkefni verður metið fyrir sig,“ sagði Gunnar Bragi.
Ef þetta snýst bara um peninga, þá er ljóst að við eigum ekki að ganga inn í ESB, þótt sumir reyni að halda því fram að við myndum ,,græða" svo mikið af peningum á inngöngu (!). Það hefur verið margsýnt fram á að við munum greiða meira til ESB en við myndum fá í alls konar styrki, núverandi ástand er blekkjandi og sömuleiðis höfum við haft dulinn og ódulinn kostnað af skrifræði kringum aðildarviðræðurnar. Þeim peningum hefði mátt eyða í annað. Við Íslendingar erum rík þjóð, þrátt fyrir efnahagsáföll um stund. Og það væri svo sannarlega ekkert ósanngjarnt, í stóra samhenginu erum við afskaplega vel aflögufær, en ætli framlögum okkar til alþjóðlegs hjálparstarfs sé ekki betur varið á annan hátt en að halda skrifræði og skömmtunarkerfi ESB við.
En þetta mál snýst ekki um peninga heldur grundvallargildi. Um það við hvernig stjórnarfar og sjálfsákvörðunarrétt við viljum búa í framtíðinni. Kapítalískt skrifræði eða að leggja línurnar sjálf í frjálsu samstarfi ALLRA þjóða og bera ábyrgð á lífi okkar og framtíð.
-ab
Athugasemdir
Þetta hefði ekki átt að koma neinum á óvart. Það vita allir að þetta voru ekkert annað en mútugreiðslur og náttúrulega er ESB ekkert að spreða með fjármuni í verkefni sem auðsýnt er að komi ekki til með að skila sér í INNLIMUN..... Það gefur bara auga leið...................
Jóhann Elíasson, 27.6.2013 kl. 16:10
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.