Fordómar og árásir á minnihlutahópa vaxandi vandamál innan ESB

Fordómar af ýmsu tagi fara vaxandi innan ESB. Í skýrslu Fundamental Rights Agency (FRA) í Vínarborg kemur fram að árásum á múslima hefur fjölgað í Finnlandi, Frakklandi og Svíþjóð en mörg ríki ESB halda ekki sérstaklega utan um slíka tölfræði svo ekki er unnt að fullyrða á ástandið sé verst í þessum ríkjum. Hins vegar virðist aðeins hafa dregið úr árásum gyðingahatara. Í Bretlandi halda samtökin ,,Tell Mama“ utan um fjölda árása sem beinast gegn múslimum og þar hafa menn einnig vaxandi áhyggjur af ástandinu.

Ekki er nema mánuður síðan Amnesty International vakti athygli á því að fordómar gegn samkynhneigðum og á grunni kynþátta í ESB-löndum voru samtökunum mikið áhyggjuefni. Flóttafólk frá Afríku og Asíu verður einkum fyrir barðinu á þessum fordómum sem birtast bæði í beinum árásum og slælegum vinnubrögðum stjórnvalda við að tryggja mannréttindi flóttafólks. Þá eru mannréttindabrot í garð Roma-fólks (sígauna) algeng. Eins og í skýrslu FRA kemur fram að jafnvel hin umburðarlyndu ESB-lönd í norðri standa fyrir mismunun eða láta hana óátalda og bera þá stundum fyrir sig lagagreinum sem eiga að vinna gegn hryðjuverkum en beinast í vaxandi mæli gegn almennum borgurum. Uppgangur rasista í Grikklandi og Ungverjalandi hringir mörgum viðvörunarbjöllum og nauðsynlegt að greina úr hvaða jarðvegi slíkar öfgahreyfingar spretta. Reynsla sögunnar sýnir að þegar þrengt er að almenningi þarf að vera sérstaklega vakandi fyrir því að næra ekki þess konar hugmyndafræði, spurningin er hvort viljinn til þess sé nægur.

Þá gagnrýnir Amnesty International þær þjóðir sem virðast setja kíkinn fyrir blinda augað þegar kemur að árásum á samkynhneigða og eru þar nefnd til sögunnar stjórnvöld í Búlgaríu, á Ítalíu, í Litháen og Slóvakíu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband