Evrusvæðið er einn versti atvinnuleysispyttur heimsins

Evru fyrir Íslendinga er gulrótin sem einkum hefur verið beitt um langt skeið í linnulausum áróðri fyrir inngöngu í ESB. En helmingur þjóðanna sem tók upp evru hefur nú fengið að kenna á því að gulrótin góða fór bölvanlega í maga rétt eins og úldin kartafla.

 

Evrusvæðið samstendur af 17 ríkjum: Austurríki, Belgíu, Eistlandi, Finnlandi, Frakklandi, Grikklandi, Hollandi, Írlandi, Ítalíu, Kýpur, Lúxemborg, Möltu, Portúgal, Slóvakíu, Slóveníu, Spáni og Þýskalandi. Gengisskráning og vaxtastig á evrusvæðinu mótast mjög af aðstæðum í stærsta og voldugasta ríkinu, Þýskalandi, og því er það engin tilviljun að atvinnuástand á evrusvæðinu hefur verið þar langskást, svo og í aðliggjandi ríkjum sem lengi hafa verið í nánum efnahagstengslum við Þýskaland, svo sem Austurríki, Holland og Lúxemburg, en í þessum fjórum löndum var atvinnuleysi 4,7-6,4% í mars s.l.

 

Atvinnuleysið er hins vegar langverst í nokkrum þeim ríkjum sem liggja á útköntum eða jaðri svæðisins svo sem í Grikklandi 27,2%, á Spáni 26,7% og í Portúgal 17,5%. Í sex evruríkjum er atvinnuleysið á bilinu 10-15% en það eru Slóvakía 14,5%, Kýpur 14,2%, Írland 14,1%, Ítalía 11,5%, Frakkland 11% og Slóvenía tæp 10%.

 

Langverst er atvinnuleysið meðal ungs fólks á aldrinum 15-24 ára. Meira en helmingur fólks á Spáni á þessum aldri er án atvinnu, litlu færri í Portúgal og víða annars staðar um þriðjungur þessa aldurshóps.

 

Það eru engar ýkjur þegar sagt er hér í fyrirsögn að evrusvæðið sé einn versti atvinnuleysispyttur heimsins.  Ástandið er miklu skárra í Bandaríkjunum og Bretlandi þar sem atvinnuleysi á liðnu ári var í báðum ríkjum rúmlega 8%. Í Suður-Kóreu og Japan er atvinnuleysi minnst hjá OECD ríkjum eða 3,2% og 4,4%.

 

Á Íslandi mældist atvinnuleysið að meðaltali um 6% á síðasta ári en 13,8% hjá yngsta aldurshópnum. Hér fór atvinnuleysið upp í 8-9% eftir hrunið en hefur lækkað jafnt og þétt frá 2010 og er enn að lækka. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands var árstíðaleiðrétt atvinnuleysi í apríl s.l. um 5,8%.

Íslenska krónan hefur vissulega sína galla og sveiflast töluvert. En það böl er lítilfjörlegt í samanburði við það mannfélagsböl sem skapast þegar þjóðir á útjaðri evrusvæðisins festast í atvinnuleysis- og fátæktargildru vegna þess að hagkerfi þeirra slær ekki í neinum takti við þýska mótorinn í Mið-Evrópu. - RA


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Vandamálið er miklu stærra, en þú gerir þeir nokkurn tíman grein fyrir.

Í svíþjóð er raunverulegt atvinnuleysi meir en 12%.  Þar er atvinnuleysistölum haldið niðri, með að setja atvinnlausa á bísann þegar a-kassin er dauður.  Um leið og þeir fara úr a-kassa kerfinu, eru þeir ekki lengur á skrá sem atvinnulausir, þó atvinnu sé ekki  fyrir þá heldur.

Í mörgum löndum Evrópu, meðal annars Svíþjóð er grunur þess efnis að atvinnumarkaðurinn er eins og hann er, til að gera borgurum annarra ríkja erfitt, ef ekki ómögulegt að setjast að.

Þannig að "samvinnan" innan Evrópu, er bara á pappírnum.

Bjarne Örn Hansen (IP-tala skráð) 26.5.2013 kl. 13:16

2 Smámynd: Vinstrivaktin gegn ESB

Tölur um atvinnuleysi í ESB sem vitnað er til í pislinum hér að ofan eru frá Eurostat og er þar örugglega um samræmda mælingu að ræða. Samkvæmt sömu tölum var atvinnuleysi í mars í Svíþjóð 8,4% og í Danmörku 7,2%. - RA 

Vinstrivaktin gegn ESB, 26.5.2013 kl. 14:52

3 Smámynd: Gunnar Heiðarsson

Það er með öllu útilokað að gera sér í hugarlund hvernig ástandið er í þessum löndum evrunnar sem búa við svo mikið atvinnuleysi.

Þegar það var hæðst hér, fyrst eftir hrun, fór það nærri 9% og þótti skelfilegt. Þegar atvinnuleysi nær yfir fjórðung þess fólks sem er vinnufært, hlýtur ástandið að vera orðið óbærilegt, bæði fyrir fólkið sem fyrir því verður, en ekki síður fyrir þjóðina sem heild.

Það er vandséð hvernig komist verður útúr slíku ástandi, en þó er verst að slíkt ofuratvinnuleysi er sem gróðrarstía fyrir hvers kyns öfgasamtök.

Gunnar Heiðarsson, 27.5.2013 kl. 08:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband