Áfangasigur hefur unnist en baráttan gegn innlimun í ESB heldur áfram

Það er rökrétt niðurstaða af úrslitum kosninganna að aðildarferlið sé stöðvað og Alþingi afturkalli umsóknina um aðild að ESB. Sannarlega ber að fagna þeim áfangasigri sem felst í yfirlýsingum nýrrar stjórnar. En því miður eru þau áform enn nokkuð óljós og má túlka á ýmsa vegu.

Bæði í ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins í vetur svo og í flokksstjórnarsamþykkt Framsóknarflokksins var komist svo að orði að aðildarviðræðunum við Evrópusambandið „verði hætt“ og „þær ekki hafnar að nýju nema það verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu“. Orðalagið í stefnuyfirlýsing nýrrar ríkisstjórnar þessara flokka um ESB-aðild er hins vegar óljósara, en þar segir að gert verði hlé á aðildarviðræðum Íslands við Evrópusambandið og úttekt verði gerð á stöðu viðræðnanna og þróun mála innan sambandsins. Úttektin verði lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar og kynnt fyrir þjóðinni.

„Ekki verður haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginniþjóðaratkvæðagreiðslu,“ segir jafnframt í yfirlýsingunni.

Að sjálfsögðu væri eðlilegast og hreinlegast að aðildar- og aðlögunarviðræðunum hefði nú verið formlega slitið. En vissulega getur sú orðið niðurstaðan af úttekt Alþingis á “stöðu viðræðnanna og þróun mála innan ESB”. Jafnframt ber að fagna því að landsmönnum er nú heitið að þeir fái loksins aðkomu að ESB-málinu í þjóðaratkvæði. Þó er óljóst hvort það verður á kjörtímabilinu. Þá skiptir þó mestu að spurningin sem lögð verður fyrir kjósendur sé hvorki leiðandi né loðin heldur skýr og auðskilin og snúist um það eitt hvort stefnt skuli að inngöngu í ESB. Orðalag af ýmsu tagi sem ESB-sinnar hafa leikið sér, t.d. það hvort “halda skuli viðræðum áfram” eða hvort ekki sé rétt “að klára viðræður” koma ekki til greina. Tilgangur þjóðaratkvæðagreiðslu hlýtur að vera að fá það á hreint hvort þjóðin vill ganga inn í ESB á grundvelli þeirra upplýsinga sem fyrir munu liggja.

Lesendum til glöggvunar verður hér rifjað upp hvað samþykkt var  í vetur á fundum nýju stjórnarflokkanna: Andstaðan gegn Evrópusambandinu var hert á 41. landsfundi Sjálfstæðisflokksins í ályktun fundarins um utanríkismál miðað við það sem samþykkt var á 40. landsfundi haustið 2011. Þá var samþykkt að „gera skuli hlé“ á viðræðunum en að þessu sinni samþykkti landsfundurinn með miklum meirihluta atkvæða að aðildarviðræðunum við Evrópusambandið „verði hætt“ og „þær ekki hafnar að nýju nema það verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu“. Þá var íhlutun sendiherra ESB í íslensk stjórnmál mótmælt og að Evrópusambandinu skuli gert að „loka kynningarskrifstofu þess hér“.

Endanleg samþykkt 41.landsfundarins um ESB-mál var á þessa leið:

„Evrópa er eitt mikilvægasta markaðs- og menningarsvæði Íslands og því nauðsynlegt að tryggja áfram opinn og frjálsan aðgang að innri markaði Evrópusambandsins svo sem gert er á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES). Nýta ber þau margvíslegu tækifæri sem samningurinn veitir til að fylgja eftir hagsmunum Íslands gagnvart öðrum ríkjum Evrópu. Landsfundur telur að hagsmunum Íslands sé betur borgið með því að standa fyrir utan Evrópusambandið. Áréttað er að aðildarviðræðunum við Evrópusambandið verði hætt og þær ekki hafnar að nýju nema það verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.“

Samþykktina er að finna hér: http://www.xd.is/media/landsfundur-2013fl/utanrikisnefnd_loka.pdf

Í flokksstjórnarsamþykkt Framsóknarflokksins var tekið svo til orða: Framsóknarflokkurinn telur hag lands og þjóðar best borgið utan Evrópusambandsins. Ekki verði haldið lengra í aðildarviðræðum við Evrópusambandið nema að undangenginni þjóðaratkvæðagreiðslu.

Samþykkt Framsóknarflokksins er að finna hér: http://www.framsokn.is/wp-content/uploads/2013/03/ályktanir.pdf

- RA


mbl.is Mun starfa í ungmennaanda
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðlaugur Hermannsson

Ég tel íslandi best borgið innan ESB vegna aðstæðna sem augljósar eru. Ísland í ESB er krafa okkar sem sniðgöngum: Sjálfstæðisflokkinn, Framsóknarflokkinn og Regnbogann.

Guðlaugur Hermannsson, 22.5.2013 kl. 12:47

2 identicon

Sammála þér Guðlaugur...ÍSLAND Í ESB....tökum ekki mark á gömlum kaldastríðs stjórnmálamönnum eins og Ragnari Arnalds og Birni Bjarnasyni.

Helgi Jónsson (IP-tala skráð) 22.5.2013 kl. 16:12

3 Smámynd: Elle_

Æ-i, verst fyrir Guðlaug og Helga að þeir eru í ý-k-t-u-m minnihluta með nokkrum öðrum.  Fóstbræðrum sem eru svo illilega niðurlægðir að þeir þora varla lengur að kíkja úr moldvörpuholunum.  Hvað sem kaldastríðinu nú líður.

Elle_, 22.5.2013 kl. 23:09

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband