Almennt vantraust fólks á ESB í draumalandi íslenskra ESB-sinna
27.4.2013 | 14:37
Kannanir sýna að í sex fjölmennustu aðildarríkjum ESB, þar sem 2/3 íbúa sambandsins býr, lýsir mikill meiri hluti fólks því yfir að það vantreysti ESB. En hér á Íslandi hamast Samfylkingin og Björt framtíð við að troða Íslendingum inn í ESB í andstöðu við skýran vilja meirihluta þjóðarinnar í könnunum.
Í hádegisfréttum RÚV s.l. fimmtudag var sagt frá könnun sem Lundúnablaðið Guardian hefur gert í sex fjölmennustu aðildarríkjum ESB, þar sem spurt var hvort það treysti Evrópusambandinu, en nákvæmlega sams konar könnun var gerð fyrir fimm árum. Það kemur auðvitað ekki á óvart að vantraustið er mest á Spáni þar sem atvinnuleysið er 27,6 % um þessar mundir og rúmar sex milljónir eru án atvinnu. Þar segjast 72% kjósenda í könnuninni vantreysta ESB, en fyrir fimm árum lýstu 23 % kjósenda vantrausti sínu á ESB. Vantraustið hefur sem sagt þrefaldast!
Næstmest er vantraustið í Bretlandi. Þar segjast 69% kjósenda vantreysta ESB en þeir voru 49% fyrir fimm árum. Bretar munu hugsanlega fá að segja til um það í þjóðaratkvæði á kjörtímabili núverandi ríkisstjórnar hvort þeir vilji vera áfram í ESB. Hafi traustið á ESB þá ekki aukist frá því sem nú er, gæti bersýnilega svo farið að Bretar yfirgæfu Evrópusambandið.
Óvæntustu tíðindin í þessari könnun eru þó að einmitt það land þar sem þriðja mesta vantraustið er ríkjandi meðal íbúa er Þýskaland. Samt eru Þjóðverjar einmitt þeir einu í ESB sem taldir eru hafa haft mikinn hag af upptöku sameiginlegrar myntar. Þar mælist vantraustið 59% en var 36% fyrir fimm árum.
Frakkland hefur frá öndverðu verið annað helsta kjarnaríkið í ESB ásamt Þýskalandi. Þar mælist vantraustið 56% en var 41% fyrir fimm árum. Svipaða sögu er að segja frá Ítalíu. Þar lýsa 53% kjósenda yfir vantrausti á ESB en samsvarandi hlutfall var 28% fyrir fimm árum.
Lengi leit út fyrir að Pólverjar, sjötta fjölmennasta þjóðin í ESB, væru sérlega ánægðir með að hafa komist í ESB eftir að hafa í áratugi staðið í skugga fjandvina sinna í austri, Rússanna. Fyrir fimm árum voru aðeins 18 % íbúanna sem vantreystu ESB samkvæmt könnunum. Nú er sú tala rokin upp í 47%.
Það þarf því ekkert að koma á óvart að nýjasta könnun Félagsvísindastofnunar HÍ sem birt var 23. apr. s.l. og sagt var þá frá í kvöldfréttum RÚV skuli sýna að mikill meiri hluti Íslendinga vill ekki að Ísland gangi í ESB eða 52,2 % en einungis 27,6% eru því hlynnt. Ef einungis eru meðtaldir þeir sem taka afstöðu til spurningarinnar er niðurstaðan enn skýrari: 65,4% eru andvíg inngöngu í ESB en 34,6% eru hlynnt inngöngu.
Með öðrum orðum: um það vill tveir af hverjum þremur aðspurðum er á móti inngöngu í ESB. Þessi staðreynd mun að sjálfsögðu hafa mikil áhrif á hvernig kjósendur greiða atkvæði í dag. - RA
Fundið fyrir mikilli jákvæðni | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Fyrir mér er þetta löngu ljóst eftir viðtöl við vini mína í Austurríki og Þýskalandi,þar sem þeir hafa varað mig í nafni þjóðarinnar að ganga inn i ESb, þeir segja og eru svo sammála að við höfum allt sem við þurfum til að vera sjálfstæði þjóð, og að við séum ef til vill eina þjóð Evrópu sem séum okkur nóg um aðfönd og orku. við eigum að hlusta á slíkar raddir þannig er það bara.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.4.2013 kl. 00:49
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.