Fullveldiskosningar, segja Jón og Haraldur!
5.3.2013 | 11:54
Jón Bjarnason skrifar á heimasíðu sinni um setningu Búnaðarþings og ötula baráttu formanns Bændasamtakanna gegn aðlögun Íslands að ESB. Þeir eru sammála um að kosningarnar nú í vor snúist mjög um fullveldið en það er meiningamunur þegar kemur að því hvort líf leynist enn í umsóknarskömminni. Vinstri vaktin grípur hér niður í pistil Jóns.:
Ég þakka Haraldi samstarfið og góð störf í formennsku Bændasamtakanna og óska honum velfarnaðar á nýjum vettvangi. Sem fyrrum ráðherra landbúnaðarmála þekki ég frá fyrstu hendi trausta baráttu Bændasamtakanna gegn aðlögun og inngöngu í ESB.
Hefðum við ekki notið einbeittrar andstöðu þeirra, studda ítarlegri faglegri vinnu, væri Ísland nú þegar búið að gefa eftir mörg grundvallaratriði sem lúta að sjálfstæði Íslands og fæðu- og matvælaöryggi þjóðarinnar í svokölluðum samningaviðræðum við ESB. Náið samstarf mitt sem ráðherra við forystu Bændasamtakanna og starfsmenn þeirra og þrotlaus barátta þeirra hefur skipt sköpum fyrir þjóðina í þeim efnum.
Matvæla- og fæðuöryggi þjóðarinnar
Ég minni á átökin í kringum bannið á innflutningi á hráu, ófrosnu kjöti og lifandi dýrum. Þar vildu forystumenn ríkisstjórnarflokkanna og samninganefndarinnar að gefið væri eftir fyrirfram í samræmi við kröfur ESB. Og það þrátt fyrir að Alþingi hefði nýlega samþykkt lög sem viðhéldu banni á innflutningi á þessum vörum. Aftur var tekist á um þessi mál inni í utanríkismálanefnd en þar átti ég sæti í nokkra mánuði. Með harðfylgi og kröftugum stuðningi Bændasamtakanna tókst að koma í veg fyrir stórslys af hálfu stjórnvalda í mótun samningsafstöðu Íslendinga í þessum málum. Sú barátta átti reyndar þátt í að mér var síðan vikið úr utanríkismálanefnd, sem er önnur saga.
Nú hafa stjórnvöld neyðst til að gera sýndarhlé á aðlögunarviðræðunum fram yfir kosningar. Áfram streymir þó aðlögunarfé ESB til landsins, áróður og undirbúningur aðildar er á fullu.
Látum ekki blekkjast
Formaður Bændasamtakanna var þó óvarlega bjartsýnn á að umsóknin væri pólitískt dauð. Því miður er það ekki svo. Hann sagði orðrétt:
Í mínum huga er umsókn um aðild að Evrópusambandinu pólitískt dauð, henni verður endanlega aflýst eftir Alþingiskosningarnar í vor en þær kosningar eru fullveldiskosningar. Við höfum staðið fast á okkar stefnu í málinu og sætt margvíslegum ákúrum en okkar sjónarmið hafa aldrei verið hrakin. Nýjasta sending frá ESB til okkar er að sambandið hyggst hafa meðalgöngu í málaferlum gegn Íslandi, svona rétt eins og glæsilegur árangur þeirra í Icesave var, í deilum um að troða inn í landið hráu kjöti sem ESB getur ekki ábyrgst hvort hneggjaði eða baulaði í lifandi lífi. Allt á grundvelli fullkominnar löggjafar um heimsins besta matvælaeftirlit. Verði þeim að góðu".
Vissulega höfum við unnið varnarsigur og andstaðan gegn umsókn og aðild að ESB meðal þjóðarinnar hefur trúlega aldrei verið meiri en nú.
Staðreyndin er því miður sú, að þrír stjórnmálaflokkar, Samfylking, Vinstri græn og Björt framtíð hafa nú þegar lýst því yfir að halda beri áfram aðlögun og samningum við ESB að kosningum loknum. Ég hef rækilega kynnst því hve lítil innstæða getur verið fyrir digurbarkalegu tali um andstöðu við aðild að ESB, en sverustu hnén virðast bogna fljótt þegar ríkisstjórnarsamstarf er í boði eða ráðherrastólar að veði. Það gildir að öllum líkindum um forystufólk hjá fleiri flokkum en Vinstri hreyfingunni - grænu framboði, þótt þeir hinir sömu lýsi því yfir fyrir kosningar að þeir vilja stöðva viðræðurnar eða gera á þeim hlé. Það þarf að ýta þeim strax ákveðið og varanlega út af borðinu.
Fullveldiskosningar í vor
Þegar kemur að fullveldi þjóðarinnar þýðir ekki að vera með eitthvert hálfkák, bjölluat" eða að kíkja í pakkann". ESB veit hvað það vill.
Kosningarnar í vor munu svo sannarlega snúast um fullveldið, eins og fráfarandi formaður Bændasamtakanna komst að orði.
(http://jonbjarnason.blog.is/blog/jonbjarnason/entry/1286017/)
Athugasemdir
Ég hugsaði á meðan ég var að lesa þessa góðu grein og spurning vaknaði hvort það séu útsendarar frá Evrópustofu eða battería frá þeim sem eina að hafa áhrif á einhvern hátt á formenn ýmissa félagasamtaka. Við vitum öll að þeir eru með áróður hér á landi en er virkilega fylgst með því hvernig þeir vinna.
Valdimar Samúelsson, 5.3.2013 kl. 12:51
Mikið er ég orðinn þreyttur á þessum fulltrúum sérhagsmunahópa sem hafa verið svo ofdekraðir lengi af íslensku samfélagi til stórtjóns að þeir eru farnir að trúa því að líf íslensks almennings snúist um einkahagsmuni þeirra.
Annars eru þeir sem fyrr ákaflega seinheppnir í áróðri sínum. Í ESB aðild er valdajafnvægi á milli ESB-þjóðanna. Þær fá allar hlutdeild í fullveldi hverrar annarrar á takmörkuðu sviði og eflast við það til mikilla muna.
Þar sem í EES-samningnum felst hreint fullveldisafsal er um framför að ræða með ESB-aðild enda hættum við þá að taka við tilskipunum frá Brussel sem við höfum enga möguleika á að hafa áhrif á.
Ásmundur (IP-tala skráð) 5.3.2013 kl. 14:14
Ásmundur. Wá fáum við að taka þátt í örlögum okkar. Semsagt við fáum að taka i gikkinn en þeir skjóta.
Valdimar Samúelsson, 5.3.2013 kl. 19:42
Ásmundur tökum dæmi með neftóbakið. Segjum að nákvæmlega öll þjóðin sé með neftóbaki eða 300.000 manns og ESB vill að það sé bannað. hvernig getur þú beitt þér gegn ESB. Búðu til dæmi með einhvað mál sem þú sem þegn/þingmaður vildir koma í gegn. hvernig færir þú að því. fyrst yrðir þú að hafa 100 ea fleiri lobbýista á þínum snærum og reyna að fá 300 þingmenn á þitt band og ef það gengi þá yrði það að fara fyrir ráðherra en hvernig sem þetta er endalokin yrðu að við yrðum bara að sætta okkur við að segja nei eða já. en fengjum ekkert nema það sem þeir vilja sérstaklega fyrir okkur.
Valdimar Samúelsson, 5.3.2013 kl. 19:51
Nei, Valdimar, þvert á móti værum við í aðstöðu til að koma í veg fyrir að tekið verði í gikkinn ef einhver hætta væri því.
Það er hins vegar vænisýki að láta sér detta í hug að svo verði.
Ásmundur (IP-tala skráð) 5.3.2013 kl. 20:38
Valdimar, ef ESB vill banna neftóbak, þá er það vegna þess að það er hættulegt jafnt okkur sem öðrum ESB-þjóðum.
Ég sé ekki að við séum betur stödd með að misvitrir íslenskir þingmenn taki fyrir okkur slíkar ákvarðanir en stofnanir ESB þar sem tryggt er að vandað er til verka.
Í ljósi þeirra gífurlegu ávinninga sem fást með aðild eru þetta algjör smámál sem hafa ekkert vægi í heildarmyndinni.
Einnig er hugsanlegt að fá undanþágu með tóbak. Það fengu Svíar. Ég býst þó ekki við að Íslendingar hafi áhuga á því.
Við megum alls ekki fórna miklu meiri hagsmunum fyrir minni.
Ásmundur (IP-tala skráð) 5.3.2013 kl. 21:08
jón og haraldur - halló - er heimurinn ennþá flatur hjá þér?
Rafn Guðmundsson, 6.3.2013 kl. 00:19
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.