Svindilbraskarar ESB og herhvöt til vinstri manna úr Djúpinu

Hér í Flóanum lifa enn sagnir af frakkaklæddum mönnnum sem dvöldu í Gaulverjabæ fyrir öld síðan og gerðu þaðan áreiðir á sunnlenska bændur með samninga og bréf. Þar var í forystu norðanmaðurinn Björn Gíslason sem frægur var að endemum en hans helsti samverkamaður var Erasmus Gíslason, maður skaftfellskrar ættar. Gamalt fólk sem ég talaði við mundi eftir þeim og kallaði þá svindilbraskara sem er skemmtileg orðmynd og kímileg. Þeir tóku sér bólstað hjá Gaulverjabæjarbóndanum Jóni Magnússyni og höfðu hann með sér til vika. Nú í aldarminningu þessara mála getur þjóðin margt af þeim lært.

Helstu erindi þessara manna voru að bjóða fátækum Flóamönnum betra líf, lægra vöruverð og nýjan heim. Allt sem bændur þurftu að gera var að lesa yfir bankapappíra og setja nafn sitt þar en það væri þó að þeirra sögn allt án nokkurrar ábyrgðar eða eftirmála. Bankar voru í þann tíð nýlunda í íslensku samfélagi og víxilblöð verkuðu á flesta sem einhver skollaþýska. Á kotbæjum var auðvelt að teygja gildi undirskrifta í efa og fæstir vissu í reynd hvað um var að vera. Þannig segir einn þeirra sem hér átti hlut að máli, Sigurður Ingimundarson á Stokkseyri:

Jafnframt fullvissuðu þeir mig um við undirskriftina, bæði skiftin, að jeg skyldi aldrei bera neina ábyrgð á skuldbindingum skjalsins, og jeg því undirskrifaði án allrar ábyrgðar á efni brjefsins.

Í sömu andrá var beitt fagurgala, lygi og hótunum. Er ekki að orðlengja að við undirskriftir þessar tapaði fjöldi Árnesinga jörðum sínum og mannorði. Gaulverjabæjarbóndinn Jón Magnússon sá fljótt missmíði á braski sínu og endaði ævina angurvær og beygður maður í gustukavist sinna ættmenna uppi í Biskupstungum.

Jarðlausir uppgjafabændur grétu síðar að hafa ekki farið að ráðum þeirra sem vildu siga hundum á svo ísjárverða gesti. Sannaðist hér sem oftar að barnsleg forvitni blandin trúgirni hefur lengi verið verstur óvinur okkar Íslendinga.

Sagan endurtekur sig

Pappírspésar eins og þeir sem byggðu Gaulverjabæ hafa sig nú enn á kreik og nú heldur stórtækari. Sem fyrr vilja þeir að við skoðum pappíra og sem fyrr er þess gætt að þeir séu slík torf og endileysur að lestur þeirra er til einskis. Þó heyrist úr mörgu fleti að menn geti vart á heilum sér tekið nema þeir fái að sjá hvaða áhrif það hafi að skrifa undir samninga þessa um ESB innlimun Íslands. Séu þeir hinir sömu spurðir hvort lesið hafi fyrri samninga sem Ísland hefur gert við Evrópusambandið verður fátt um svör. Sem er ekki nema von.

Það að eitt að lesa svokallaðan EES samning er nokkurra daga vinna en til þess að skilja innihald þess sem lesið er dygði fæstum mánuður og þá miðað við að ekki sé við neitt annað unnið það sinn. Hvort sem spurðir eru stjórnmálamenn eða stjórnmálafræðingar eru allir margsaga um merkingu og þýðingu þessa samnings.

Með tröllauknu skrifræði hefur Evrópusambandið búið til þann heim að enginn einn maður getur þar haft skilning á merkingu pappíra þess eða ákvarðana. Samningur sá sem Íslendingum er nú boðið að undirrita við ESB er marghöfða og hefur sumt þegar verið fastmælum og svardögum bundið af embættismönnum utanríkisráðuneytis, jafnvel með undirskriftum sem engar atkvæðagreiðslur standa bakvið. Þannig höfum við nú þegar breytt okkar stjórnsýslu á fjölmörgum sviðum vegna ESB og t.d. undirgengist að vera ESB fylgispakir í þeirra utanríkisstefnu og hernaði, þeim mikla friðarklúbbi!

Áður en að því kemur að samningum lýkur verða íslensk stjórnvöld að gera margar slíkar skuldbindandi undirskriftir og um leið breytingar á eigin stjórnkerfi, lögum og reglum.

Lygamerðir og húsbændur þeirra

Um margt er ferlið nú líkt háttsemi Gaulverja fyrir hundrað árum. Sögur herma að höfuðpaurinn Björn hafi þá séð um hótanir og sagði það sem satt var en lét kumpánum sínum, Jóni og Erasmus, eftir fagurgala og stundum hreina lygi. Þar með var illt að leita fangs á gerandanum sjálfum en hinir töldust ómerkir.

Í umræðu um innlimun ESB á hinu íslenska lýðveldi hefur sjálft sambandið ekki legið á því að það sé ekkert það til sem heitir aðildarviðræður að ESB heldur aðeins aðlögun að regluverki þess. En til þess að slá ryki í augu almúga og þingmanna eru hafðir íslenskir pótintátar sem klifa á því að við séum að „semja" um sérstaka aðild þar sem í „boði" séu undanþágur, fríðindi, fé og frægð. Og líki okkur ekki við herlegheitin getum við ætíð gert eins og Norðmenn, kosið um samning og hafnað honum.

Allt er þetta þó skrök og það Evrópusamband sem nú hyggst innlima Ísland er gerólíkt því Evrópusambandi sem átti fyrir áratugum í raunverulegum viðræðum við Noreg. Þá fólst ekki í viðræðum fyrirfram aðlögun að regluverki ESB og Evrópusamband þess tíma leyfði sér ekki að senda áróðursskriðdreka sína inn í norskt samfélag til þess að hóta og múta Norðmönnum.

Herhvöt úr Djúpinu

Mörg okkar sem varlegast vildum fara í ESB málum töldum engu að síður mögulegt að hér yrði efnt til lýðræðislegrar umræðu þar sem þjóðin fengi sjálf að ákveða sína framtíð í þessu efni. Ef stjórnkerfið hefði fylgt þeirri ályktun sem Alþingi samþykkti 16. júlí 2009 þar sem kveðið var á um að Ísland undirgengist enga aðlögun áður til aðildar kæmi væri staðan strax önnur en sennilegast er að Evrópusambandið hefði aldrei samþykkt aðildarviðræður á þeim forsendum.

Ef svo ríkisstjórnarflokkarnir hefðu staðið við þau loforð Steingríms J. Sigfússonar að í þessu máli yrði „ekki borið fé á dóminn" þá gætum við talað um eðlilega stöðu málsins í hinni lýðræðislegu umræðuhefð. Staðreyndin er að nú er svo komið að Evrópusambandið ver hundruðum milljóna til áróðurs í íslenskri stjórnmálaumræðu. Jafnvel á dögum Kalda stríðsins leyfðu íslensk stjórnvöld aldrei þannig opinber afskipti erlendra aðila að umræðunni. Helftin af sveitarfélögum og opinberum stofnunum gælir nú við Evrópustyrki sem aðeins eru veittir þjóðum sem standa utan Brusselmúra líkt og sætabrauðið utan á húsi nornarinnar í frægu þýsku ævintýri.

Með verkum sínum hefur ríkisstjórnin hleypt inn í landið nútíma innrásarher möppudýra. Vinstri hreyfingin grænt framboð sem áður var ankeri baráttunnar gegn ESB er í þessu máli orðin að umskiptingi. Einu stjórnmálaflokkarnir sem hafa ESB andstöðu að baráttumáli eru vel hægra megin við miðju. Þrátt fyrir að framboð til komandi kosninga séu mörg er ljóst að það eru fáir valkostir þjóðlegra vinstri manna sem hafna ásælni og heimsvaldastefnu hvort sem hún kemur frá NATÓ eða ESB.

Vinur minn Indriði Aðalsteinsson á Skjaldfönn í Djúpi skrifaði nýlega grein á Smuguna og í Morgunblaðið sem var herhvöt til Jóns Bjarnasonar og allra þeirra sem áður tilheyrðu villikattadeild VG. Jóhanna Sigurðardóttir nafngjafi villikattadeildar kvartaði mjög undan því að erfitt væri að smala köttum og velþekkt er að skepna sú fer sínar eigin leiðir. Vel má samt vera að Djúpbóndanum takist með hvatningu sinni að kveðja saman söfnuð þjóðlegra vinstrimanna og er þá vel. /-b.

(Birt áður í Morgunblaðinu í gær, 2. mars 2013)


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

það er greinilega ennþá svona mikil andúð á Norðlendingum hjá Sunnlendingum. þetta er merkilegt menningarfyrirbrigði. Eg hallast að því að andúð Bjarna Harðar á Valgerði Sverrisdóttur - hafi bara verið út af því að hún var Norðlendingur. ESB var bara tylliástæða.

En varðandu umrætt mál, Gaulverjabæjarmálið, þá tekur maður nú strax eftir því að tæplega var um ,,kotbændur" að ræða í nefndu skjalamáli. Var ekki td. þessi Sigurður Ingimundarson kaupmaður?

þetta er nú eitthvað skrítið mál sem getur átt margar hliðar.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 3.3.2013 kl. 14:17

2 Smámynd: Bjarni Harðarson

Góður Ómar! Þú verður fyrstur til að taka upp hanskann fyrir þá Björn og Erasmus í hundrað ár og það er hraustlega gert svo vondur sem þeirra málstaður alltaf var.

Bjarni Harðarson, 3.3.2013 kl. 18:42

3 identicon

Þetta eru meiru þjóðrembuskrifin. Nokkuð skemmtileg en eiga ekkert erindi í stjórnmálaumræðu.

Það er auðvitað ekki að lofa gulli og grænum skógum að benda á að með inngöngu í ESB er framtíð okkar og komandi kynslóða best tryggð.

Það er sjálfsagt mál að taka þátt í samstarfi Evrópuþjóða. Það veitir okkur nauðsynlegan stöðugleika til að bæta samkeppnishæfnina með nýjum fjölbreyttum atvinnutækifærum og betri lífskjörum.

Þó að einhverjir vilji frekar hokra einangraðir frá öðrum löndum i þjóðrembuandakt stendur það ekki til boða. Skuldir hins opinbera eru allt of miklar til þess að hægt sé að veita sér þann "lúxus".

Þrátt fyrir að liðin séu 4-5 ár frá hruni hefur enn ekki komið fram nein hugmynd sem stenst skoðun um hvernig við getum komið í veg fyrir versnandi lífskjör og meiri einangrun samfara auknum gjaldeyrishöftum.

Vandinn er ekki bara snjóhengjan. Þó að snjóhengjan hyrfi er vandinn vegna ónýts gjaldmiðils enn til staðar.

Þjóðremban getur lifað góðu lífi innan ESB eins og hver önnur sérviska. Þjóðrembingar hljóta að fagna því að með inngöngu í ESB hættum við að taka við tilskipunum sem við höfum ekki átt neitt um að segja.

ESB stendur ekki fyrir neinum áróðri hér. Það veitir aðeins nauðsynlegar upplýsingar fyrir almenning til að hægt sé að taka upplýsta ákvörðun.

Það er auðvitað fráleitt ef kjósendur þyrftu að láta sér nægja áróður hagsmunaaðila. Upplýsingar frá fyrstu hendi eru sjálfsögð þjónusta við almenning.

ESB-aðild og upptaka evru eru eina lausnin á okkar alvarlega vanda sem bent hefur verið á.

Ásmundur (IP-tala skráð) 3.3.2013 kl. 23:08

4 Smámynd: Elle_

Nákvæmlega.  Hvílík skrattans þvæla. 
Ásmundur (IP-tala skráð)

Elle_, 4.3.2013 kl. 00:28

5 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

Þrátt fyrir að komin séu 4-5 ár frá hruni hr. Ásmundur, hafa lífskjör almennings versnað. Elle, þvælan í Ása er á sínum stað,endurtekin; Skuldir hins opinbera eru allt of miklar,til að hægt sé að veita sér þann “lúxus"!!! Luxusinn er að losna við kúgara esb og hann getum við veitt okkur.

Helga Kristjánsdóttir, 4.3.2013 kl. 01:09

6 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það má ef til vill telja merkilega tilviljun hvernig sagan endtekur sig stundum

Valur skýtur sér á milli orða, en annað breytist ef til vill lítt.  Erasmus kemur líka við sögu nú á tímum, þó að teljist hjá flestum plús megin nú á dögum.  Þó er ens og með flest annað umdeilanlegt hversu mikið í plús það telst.

G. Tómas Gunnarsson, 4.3.2013 kl. 19:23

7 identicon

Það er svo alrangt frá a-ö það sem Ásmundur skrifar, að ég veit ekki hvar ég á að byrja. Það virðist vera mein hjá þessum gallhörðu innlimunarsinnum, að fara með rangt mál. Ég tel, að þeir haldi, að ef þeir skýri frá staðreyndum og raunverulegum aðstæðum, þá sjái allir hvað þeir hafi vondan málstað. Í Mogganum sl. laugardag skrifaði einhver kona, sem styður ESB-aðild, lesendabréf sem var svo morandi af staðreyndarvillum, að maður var ekki frá því, að þar skrifaði eiginkona Ásmundar í eigin persónu eftir áralangan heilaþvott á heimilinu.

Eitt er að hafa verðuga andstæðinga, ESB-sinna sem viðurkenna alla hina fjölmörgu galla ESB en vilja samt aðild vegna einhverra mála sem þeir setja í forgang og kunna að rökræða. Hitt er að hafa óverðuga andstæðinga eins og Ásmund, embættismann sem fær greitt af erlendu valdi til að fara með staðlausa stafi og sem kemst stöðugt í mótsögn við sjálfan sig. En við ESB-andstæðingar getum verið sallarólegir, því að menn eins og Ásmundur og Össur Skarphéðins, sem drýgja grímulausan áróður og skammast sín ekki einu sinni fyrirað ljúga að þjóðinni, skjóta sjálfa sig í fótinn, og gera þannig ESB-andstæðingum ómetanlegt gagn.

Fyrr á 20. öldinni hefur verið alls konar pólítískur hræðsluáróður í gangi, bæði í þágu stalínisma, nazisma og bandarískra heimsvaldastefnu. Þar var markhópurinn kúgaðar og fáfróðar eða þröngsýnar þjóðir og aðferðirnar voru hótanir, hatur og hræðsla. Þessir áróðursmeistarar unnu á sitt band (með greiðslum eða utanlandsferðum) einfeldninga í öðrum ríkjum sem voru það sem kallað var "useful idiots". Þannig heppnaðist þessi áróður mjög vel áratugum saman. Þangað til hið sanna kom í ljós.

Hins vegar mun lygaáróður í þágu ESB kolsigla, því að markhópurinn (ESB-andstæðingarnir) er upplýstur og víðsýnn og sem lætur hvorki hræða sig né blekkja. Og vegna þess að þessir nytsömu einfeldningar eins og Ásmundur eru bara ekkert að standa sig mjög vel.

Pétur (IP-tala skráð) 5.3.2013 kl. 17:32

8 identicon

Jæja Pétur, í staðinn fyrir að ég hreki allt þetta bull þitt lið fyrir lið, væri ekki nær að að ræða efnislega athugasemd mína sem þú þykist vera að gagnrýna? Gallinn við þessa löngu athugasemd þína er að þar eru engin rök.

Taktu nú fyrir eitt atriði í einu og komdu með mótrök. Ég hef rökstutt allt þetta áður. En ekki skal standa á að að ég endurtaki rökin ef einhver mótrök koma.

Löng athugasemd án raunverulegs innihalds er verri en engin. Ertu að reyna að höfða til hálfvita? Ertu haldinn ofskynjunum eða finnst þér bara sjálfsagt að ljúga um persónulega hagi mína sem þú þekkir augljóslega ekkert til. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 5.3.2013 kl. 22:03

9 Smámynd: Elle_

Ef það væri lygi, Ási, ef, væri eins sjálfsagt að ljúga um þig eins og þú gerir alla daga í síðu Vinstrivaktarinnar og víðar.  Næstum allt sem þú segir er haugalygi.  Hissa að ég skyldi ekki sjá þig þarna.

Elle_, 5.3.2013 kl. 23:30

10 Smámynd: Elle_

Kannski verðugt að minna hið ógæfulega fólk eins og Ásmund á að núna, 6. mars, eru liðin nákvæmlega 3 ár síðan við, yfir 90% þjóðarinnar, sögðum NEI við ICESAVE kúgun ykkar.

Elle_, 6.3.2013 kl. 00:39

11 identicon

Öfugt við Elle og Pétur lýg ég ekki hérna enda engin þörf á því. Ítrekað hefur Elle verið beðin um að benda á þessar meintu lygar mínar án árangurs.

Ekki nægir að segja það lygi sem allar traustar heimildir á netinu staðfesta að sé sannleikanum samkvæmt enda tekur enginn heilvita maður mark á slíkum fullyrðingum.

Icesave kemur þessu máli ekkert við. En úr því að Elle vill endilega tala um það er rétt að benda á að við værum ekki verr sett ef við hefðum samþykkt samninginn - sennilega mun betur.

Kostnaðurinn við að hafna honum vegna tafa á endurreisninni, lækkaðs lánshæfismats, minna trausts á Íslandi, hærri vaxta á erlendum lánum og lægra gengi krónunnar er eflaust mun meiri en það smáræði sem við hefðum þurft að greiða ef samningurinn hefði verið samþykktur.

Málsókn ESA fyrir EFTA-dómstólnum snerist um hvort við þyrftum að greiða margfalt meira en skv samningnum eða hvort við slyppum með skrekkinn.

Þó að við höfum sloppið með skrekkinn réttlætir það ekki að taka svona mikla áhættu að óþörfu. Jafnvel Sigmundur Davíð bjóst eins við að við myndum tapa málinu.

Fyrri Icesave-þjóðaratkvæðagreiðslan var skrípaleikur. Auðvitað vildu fáir samþykkja samninginn úr því að ljóst var að Bretar og Hollendingar voru tilbúnir að gera miklu hagstæðari samning.

Þess vegna sat ég heima. Þess vegna sátu Jóhanna og Steingrímur heima.

Ásmundur (IP-tala skráð) 6.3.2013 kl. 09:44

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband