Grískir harmleikir
23.2.2013 | 11:26
Sunnanverð Evrópa færist ört í átt að 3. heims ástandi. Á Spáni eru nú atvinnuleysingjar álíka margir og í kreppunni miklu í Þýskalandi skömmu áður en Hitler komst til valda árið 1933.
Síðastliðinn miðvikudag var enn eitt allsherjarverkfallið í Grikklandi. Tvö stærstu verkalýðsssambönd landsins stóðu fyrir verkfalli í sólarhring. Þúsundir gengu um götur Aþenu og annarra borga. Mótmælin eru tímasett m.t.t. þess að eftirlitsmenn Þríeykisins - framkvæmdastjórn ESB, Evrópski seðlabankinn og AGS - heimsækja landið eftir helgina til að fylgjast með að hert verði á niðurskurðinum.
Í Grikklandi ýtist nú sívaxandi hluti þegnanna út í djúpa neyð með hjálp björgunaraðgerða" - lána á eitilhörðum skilmálum - undir leiðsögn Þríeykisins. Gríska blaðakonan Alex Politaki lýsir á þessa leið þrengingum og neyð (humanitarian crisis) þessara stækkandi þjóðfélagshópa, samkvæmt frásögn The Guardian:
- Fólk verður af grundvallar-velferðarþjónustu eins og læknisþjónustu, meðulum og sjúkrahúsvist.
- Í nokkrum hverfum Aþenu eru yfir 60% íbúanna háð meðalaaðstoð frá hjálparsamtökum. Hið opinbera hefur ekkert að bjóða þeim sem ekki geta borgað.
- Grikkland hefur sokkið niður í alvarlega fátækt. Yfir 11% lifa í sárafátækt (extreme material deprivation).
- Atvinnuleysið er 27% og nærri 60% hjá fólki undir 30 ára aldri.
- Af þeim sem hafa fulla atvinnu eru 13% vinnandi fátækir" - geta ekki lifað af launum sínum.
- Óopinberar tölur sýna að fjöldi heimilislausra er kominn yfir 40 000.
- Á einu sviði er vöxtur: Fjöldi súpueldhúsa hefur margfaldast, og mun enn hækka þar sem yfirvöldum er nú tilkynnt um vaxandi fjölda barna sem fellur í yfirlið í skólum vegna vannæringar.
www.guardian.co.uk/profile/alex-politaki
Af hverju gerist þetta allt? Vegna þess að lítil fjármálaelíta veltir, með hjálp Þríeykisins, skuldum sínum yfir á ríkiskassann, og skikkar hann til að skera niður útgjöld á móti. Slík þjóðnýting bankaskulda er reglan í ESB. Líkt og ef íslenska ríkið sæti með allar skuldir íslensku bankanna eftir bankahrunið. Í Evrópu nú um stundir er Ísland helsta undantekningin frá slíkri ríkisyfirtöku á skuldum banka - þökk sé neyðarlögunum frá október 2008 (þótt endanleg útkoma bankaskuldanna fyrir íslenska ríkið sé ekki að fullu ljós). Hingað horfa því æ fleiri Evrópubúar eftir ljósi í sortanum. Lykillin að þessu ljósgjafahlutverki Íslands liggur í stöðu þess utan ESB.
Athugasemdir
Í hugum sumra sambandssinna er allar fórnir léttvægar í samanburði við stór þýsk-franska heimsveldið sem er í samsetningu.
Hið væntanlega heimsveldi krefst blóðfórna og verður það hlutverk komandi kynslóða ungra Evrópubúa að úthella blóði sínu fyrir hið nýja heimsveldi á átakasvæðum heimsins.
"BERLIN—German Chancellor Angela Merkel's cabinet on Tuesday approved the deployment of up to 330 troops to back the European Union's mission in Mali, in which German troops will train the local military to aid its fight against Islamist insurgents "
Já það er rétt, "European Union's mission in Mali"
Evrópusambandið farið að stunda hernaðaraðgerðir í öðrum heimsálfum. Þess verður varla langt að bíða að allar ESB þjóðirnar verði skikkaðar til að senda byssufóður í nafni heimsveldisins enda má ekki mismuna you know!.
Eggert Sigurbergsson, 23.2.2013 kl. 18:50
Þessi pistill varpar ljósi á þá leið, sem gjaldmiðilssamband ESB er á núna. Það stefnir beint fram af hengifluginu. Suður-Evrópa ræður ekkert við að búa við sama gjaldmiðil og Þýzkaland. Þetta endar með ósköpum, og bráðlega munu Ítalía og Frakkland bætast í hóp ríkja í ringulreið evrunnar. Hvað er eiginlega í toppstykkinu á fólki, sem berst fyrir því að setja íslenzka hagkerfið í þessa spennitreyju ? Ef við eigum að geta verið í myntbandalagi með Þjóðverjum, verðum við fyrst að sýna það svart á hvítu, að við getum stjórnað okkar málum af sömu festu og þeir. Slíkur reynslutími er a.m.k. einn áratugur enn með okkar krónu, sem þá verður stöðugt að styrkjast gagnvart evru m.v. stöðu þessara tveggja mynta nú. Með hugmyndafátækt og getuleysi þeirra, sem nú stjórna málum þjóðarinnar, er slíkt algerlega borin von. Ef vatnaskil verða hins vegar í Alþingiskosningunum í apríl 2013, gætu blásið hér ferskir vindar, og möguleikar hagkerfisins eru miklir.
Bjarni Jónsson, 23.2.2013 kl. 23:05
Mikið eigum við “andspyrnuhreyfingunni” hér heima mikið að þakka.Stjórnarliðar skammast sín ekki þótt rekið sé ofan í þá skreytnin,það er bara haldið áfram og engu skeytt. Ég myndi ætla það hreyfði við þeim að horfa upp á neyðina í suðurevrópu,þeir virðast stundum ekkert aumt mega sjá.Líklega í lagi ef það spillir ekki þeirra valdadraumum.
Helga Kristjánsdóttir, 23.2.2013 kl. 23:42
Ég sá ekki færslu Bjarna,en var einmitt að velta fyrir mér kosningunum,hef heyrt pælingar um þær,með tilliti til myndunar nýrrar stjórnar. Fæ hroll ef ég heyri nefnt að annarhvor þeirra sem nú eru í andstöðu,mynduðu stjórn með Krötum.
Helga Kristjánsdóttir, 23.2.2013 kl. 23:48
Smáríkjum vegnar sérstaklega vel í ESB, ekki síst örríkjunum Lúxemborg og Möltu sem eru af svipaðri stærðargráðu og Ísland.
Þetta er vegna þess að aðild hefur í för með sér svo miklu meiri framfarir hjá þeim en stóru ríkjunum. Eigin gjaldmiðill í svona litlum ríkjum veldur óstöðugleika, minni samkeppnishæfni og verri lífskjörum.
Af stærstu ríkjum evrusvæðisins er aðeins Þýskaland í verulega góðum málum. Ítalía og Spánn eru í vanda, eins og allir vita, og Frakkland hrópar ekki húrra yfir eigin stöðu. Ekki heldur Bretar sem eru utan evrusvæðisins. Þar er nú efnahagslegur samdráttur.
Smáríkjum og millistórum ríkjum vegnar mun betur. Þau eru flest í mjög góðum málum. Þau fimm ESB-ríki þar sem atvinnuleysi er minnst eru öll á evrusvæðinu. Þar á meðal eru örríkin Lúxemborg og Malta.
ESB er þannig byggt upp að hagur smáríkja er ekki fyrir borð borinn. Ísland mun fá sex þingmenn. Þannig verða um 53.300 íbúar á bak við hvern þingmann.
Í Þýskalandi eru um 530.000 íbúar á bak við hvern þingmann eða 15-16 sinnum fleiri en verður á Íslandi. Þannig hefur atkvæði hvers Íslendings 15-16 sinnum meira vægi á Evrópuþinginu en atkvæði hvers Þjóðverja.
Þó að atkvæði í ráðherraráðinu skiptist í réttu hlutfalli við íbúafjöldann er hagur smáþjóða einnig tryggður þar. Það er gert með kröfu um aukinn meirihluta atkvæða og skilyrði um að 55% ríkjanna verði að samþykkja mál til að það nái fram að ganga.
Þetta kemur þannig út að mál frá Íslandi getur vel verið samþykkt með lágmarksfjölda ríkja rétt eins og mál frá Þýskalandi ef atkvæðin skiptast þannig.
Í leiðtogaráðinu, þar sem stefnan er mörkuð, og í framkvæmdastjórn, þar sem lagafrumvörp verða til, er einn fulltrúi fyrir hverja þjóð.
Það er því ljóst að Íslendingar geta haft mikil áhrif í ESB ef þjóðin ber gæfu til að velja þangað hæft fólk sem enginn skortur er á.
Ásmundur (IP-tala skráð) 23.2.2013 kl. 23:57
ÉG VIL VITA
Getur verið að við getum líka fengið að standa í biðröð eftir gjafalyfjum hjálparstofnana?
KLÁRUM SAMNINGANA VIÐ EVRÓPUSAMBANDIÐ.
SJÁUM SAMNINGINN!
Hilmar (IP-tala skráð) 24.2.2013 kl. 00:30
Í Evrópu er stríð sem Þýskaland ætlar að vinna eina ferðina en, með öllum þeim hörmungum sem þeim styrjöldum hefur fylgt. Til þess að þetta stríð tapist þá meigum við ekki vera í Evrópu.
Hrólfur Þ Hraundal, 24.2.2013 kl. 06:57
Evran hentar öllum ríkjum sem vilja stöðugleika, minni spillingu og betri lífskjör og eru tilbúnar til að leggja það á sig sem til þarf til að ná þeim árangri.
Þetta er markmið allra evruríkja. Þær eru hins vegar misvel í stakk búnar til þess að ná því. Það mun því taka sumar þeirra lengri tíma en aðrar.
Ástæðan er að landlæg spilling er meiri í sumum löndum en öðrum. Allar vilja þær minnka verulega spillinguna enda rýrir hún alvarlega lífskjör meirihluta þessara þjóða. Evran er frábært tæki til þess.
Þannig má líkja evru við góðan skóla. Þeim sem standa sig vel er umbunað. Þeir sem láta allt reka á reiðanum lenda í vandræðum.
Ásmundur (IP-tala skráð) 24.2.2013 kl. 08:53
"Smáríkjum vegnar sérstaklega vel í Evrópusambandinu" ... og svo telur þú upp Lúxemborg og Möltu en gleymir auðvitað viljandi Kýpur sem er á hausnum. Þú ert snillingur Ásmundur.
Seiken (IP-tala skráð) 24.2.2013 kl. 10:22
Seiken, þú átt í erfiðleikum með lesskilninginn nema þetta sé bara tröllskapur hjá þér.
Ég sagði ekki að öllum smáríkjum vegnaði vel í ESB. Þeim vegnar að sjálfsögðu misvel eins og öðrum ESB-ríkjum en það er sláandi hve mörgum þeirra vegnar vel.
Lúxemborg og Malta eru einu ríkin af svipaðri stærðargráðu og Ísland. Kýpur er stærra en telst þó einnig til örríkja, jafnvel einnig Eistland. Fleiri ESB-ríki teljast til smáríkja þó að ekki séu þau örríki.
Miklar framfarir hafa orðið í Eistlandi eftir inngöngu í ESB. Stuðningur við aðild er miklu meiri núna en í þjóðaratkvæðagreiðslunni.
Utanríkisráðherra Eista var hér á landi nýlega og sagði reynsluna af ESB mjög góða. Hann tók sérstaklega fram að Eistum hefði gengið mjög vel að ná sínum málum fram í ESB. Alltaf væri hlustað á þeirra sjónarmið og reynt að koma til móts við þau.
Slæmt gengi Kýpur stafar að sjálfsögðu af mjög nánum tengslum við Grikki.
Ásmundur (IP-tala skráð) 24.2.2013 kl. 11:26
Aftur stingur Ásmundur sínum ljóta haus hingað inn og fer að þvæla um áhrif smáríkja. Hann vill ekki viðurkenna, að örríki innan ESB hafa öráhrif.
Tökum fyrst Mickey-Mouse þingið í Strasbourg, sem hefur einkennzt af valdabaráttu og spillingu síðan það var sett á laggirnar. Meirihluti meðlima þingsins hafa verið einkenndir sem óheppileg blanda af uppgjafaþingmönnum og pólítískum viðrinum. Ef Ísland yrði aðildarríki, þá fengju Íslendingar 6 þingmenn, sem er um 0,8% af öllum þingmönnum. En þessir þingmenn myndu alls ekki vinna fyrir hag Íslands, þeir mega það ekki. Þeir myndu vinna með 2-3 hópum sem fer eftir pólítískri stefnu. Hver þingmaður sezt í einn af sjö pólítískum hópum sem aðeins hafa velferð ESB-ríkisins, ESB-stofnana og regluverk þess að leiðarljósi, en mega ekki vera með þjóðlega hagsmunagæzlu. Þannig verða 0,8% áhrif að 0% áhrifum.
Varðandi ráðherraráðið, þar sem neitunarvald hefur verið afnumið fyrir aukinn meirihluta (QMV) í flestum málum myndi aðeins vera hlustað á íslenzka ráðherra meðan þeir eru sammála þessum aukna meirihluta. Danmörk, sem hefur mikið meira vægi en Ísland, enda uþb. 15-16 sinnum fleiri íbúar þar, hefur verið algjörlega hunzað í ráðherraráðinu, þegar danskir ráðherrar hafa verið sendir til Bruxelles með baráttumál sín, hvort sem þau hafi verið tengd dýravelferð, matvælamerkingum, landamæravörzlu eða fiskveiðum. Alltaf koma ráðherrarnir aftur sneypulegir heim því að þýzku ráðherrarnir, sem enn virðast líta á Danmörk sem sitt leppríki, höfðu valtað yfir þá.
Ásmundur: Ég gef ekki fimm aura fyrir það sem utanríkisráðherra Eistlands segir. Hann er jafn ótrúverðugur og íslenzki utanríkisörvitinn Össur.
Annars er það að frétta frá landsþingi Sjálfstæðisflokksins, sem verður sennilega stærsti flokkurinn í komandi ríkisstjórn (þótt ekki ætli ég að kjósa þann flokk), að hann myndi láta loka ESB-skrifstofunni (Evrópustofu) eftir kosningar. Ætli Ásmundur haldi þá áfram að fá sínar mánaðarlegu greiðslur?
Pétur (IP-tala skráð) 24.2.2013 kl. 13:35
Ásmundur, það hefur nú reyndar komið í ljós að slæmt gengi Kýpur tengist ekki síður Rússlandi en Grikklandi.
Eins með Eistana, þeim þykir það áreiðanlega til bóta frá fyrrverandi stöðu undir járnslegnum hnúum Sovíet að lúta nú eðalleðurs hnúum ESB.
"Alltaf væri hlustað á þeirra sjónarmið og reynt að koma til móts við þau."
Ehemm - ekki er það orðum aukið hversu mikilvægt það er að að stálhöndin sé klædd leðurhanska.
Kolbrún Hilmars, 24.2.2013 kl. 13:55
Já, það er hlustað á meðan þessi sjónarmið falla að stefnu ESB, annars ekki.
Pétur (IP-tala skráð) 24.2.2013 kl. 16:10
Eða bara hlustað, Pétur. Það er Eistum nýlunda.
Kolbrún Hilmars, 24.2.2013 kl. 16:31
Vænisýki og minnimáttarkennd einkenna skrif Péturs. Svo illa er hann haldinn að lágkúra yfirgnæfir allt innihald. Þetta er gjarnan háttur hinna rökþrota.
Hann stillir Íslandi upp öðru megin sviðsins og öllum hinum löndunum hinum megin og finnst ójafnt komið á með liðum.
Þannig er hægt að stilla öllum löndum upp og fá sömu niðurstöðu fyrir öll löndin enda eru þau öll mjög langt frá því að hafa meirihluta.
Að sjálfsögðu er verið að fjalla um hagsmuni hinna einstöku ESB-ríkja á Evrópuþinginu enda er ESB þessi ríki.
ESB væri tilgangslaust ef ekki væri fjallað um hagsmuni sem að sjálfsögðu snerta hinar ýmsu þjóðir ESB mismikið.
Staðreyndin er auðvitað sú að mál sem Ísland á frumkvæði að getur hlotið samþykki vegna þess að nægilega mörg hinna ríkjanna greiða atkvæði með því.
Íbúar Danmerkur eru 17-18 sinnum fleiri en íbúar Íslands. Samt fá Danir aðeins þrettán þingmenn á Evrópuþinginu eða aðeins rúmlega tvöfalt fleiri en Íslendingar sem fá sex þingmenn.
Það er fróðlegt að bera saman áhrif Íslands í ráðherraráðinu og áhrif Svía sem er sú þjóð sem er í miðjunni að því er fólksfjölda snertir.
Í ráðherraráðinu hefur Svíþjóð 1.9% atkvæða en Ísland mun fá 0.1%. Þar er krafist aukins meirihluta atkvæða 65%, 72% eða jafnvel 100%.
Miðað við mál sem krefst 65% atkvæða til samþykkis þurfa Svíar 63.1% frá öðrum þjóðum til að fá mál samþykkt en Íslendingar 64.9%
Þetta er svo lítill munur að hann mun í fæstum tilvikum skipta máli, ekki síst vegna reglunnar um samþykki 55% þjóða.
Að sjálfsögðu trúir Pétur ekki utanríkisráðherra Eista frekar en öðrum sem falla ekki að hans geðþótta eða óskhyggju.
Þar á meðal eru aðalsamningamaður Íslands við ESB, einn af heiðursframkvæmdastjórum ESB, Evrópuvefurinn ofl.
Ásmundur (IP-tala skráð) 24.2.2013 kl. 22:51
Ásmundur: þetta sem þú kallar vænissýki hjá mér er í raun heilbrigð skynsemi, pólítísk yfirsýn, þekking og slæm reynsla af ESB-bákninu sem ég hef fengið við að búa áratugum saman í ESB-ríkjum.
Hins vegar er það sem ég kalla undirlægjuhátt og fáfræði hjá þér, er ekki annað en það: Undirlægjuháttur og fáfræði. Það sannast á þig málshátturinn, að heimskt er heimaalið barn.
En ég get verið stoltur af þeirri pólítísku baráttu gegn ESB, sem ég tók þátt í meðan ég bjó í Danmörku og Bretlandi.
Pétur (IP-tala skráð) 24.2.2013 kl. 23:20
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.