Icesave vitleysan var skilgetið afkvæmi ESB
30.1.2013 | 11:39
ESB var formlegur aðili að dómsmálinu gegn íslensku þjóðinni út af Icesave. Kommissarar þess bera sig nú illa undan löðrunginum sem þeir fengu og heggur nærri regluverki ESB. Enn vofir líka yfir hótun ESB um hafnbann á íslensk skip. Ljónið er sært og bíður átekta.
Yfirlýsing kommissara ESB í gær eftir Icesave-dóminn í fyrradag kom ekki á óvart. Þeir höfðu reynt hvað þeir gátu að koma ábyrgðinni af skuldafylleríi útrásarvíkinganna yfir á herðar íslenskra skattgreiðenda. Þeir áttu einmitt sjálfir sök á meingölluðu regluverki sem opnaði íslenskum óreiðumönnum leiðina inn í evrópskan bankaheim í gegnum EES-samninginn. Þeir kannast við króann. Icesave-reikningarnir voru skilgetið afkvæmi ESB.
Icesave-deilan og makríldeilan eiga það sameiginlegt að kommissarar í Brussel eru höfuðandstæðingar Íslendinga í báðum þessum deilum. Og í báðum tilvikum hafa deilurnar snúist um fullveldi íslensku þjóðarinnar. Ef Íslendingar hefðu verið komnir inn í ESB fyrir hrunið hefði þjóðin verið pínd til að kyngja allri skuldasúpu óreiðumanna í föllnu bönkunum. Þetta er einmitt það sem Írar máttu þola. Þeir voru þvingaðir af stjórnendum ESB til að taka risavaxin lán til bjargar bönkunum vegna þess að þeir eru með evru. Þær drápsklyfjar sem lagðar hafa verið á Íra valda miklu um að nú er þar 15% atvinnuleysi. Hins vegar er atvinnuleysi rúm 4% á Íslandi.
ESB hefur enn á ný gert samning við Norðmenn um að skipta með sér 90% af ráðlögðum makrílafla á Norður Atlantshafi. Íslendingar, Færeyingar, Rússar og önnur fiskveiðiríki utan ESB eiga að skipta með sér 10%. Talið er að yfir ein milljón tonna af makríl hafi gengið inn í íslenska lögsögu á s.l. ári og fitað sig þar um hundruð þúsunda tonna, jafnvel hálfa milljón tonna. Ljóst er af því hvernig kommissararnir hafa talað um makrílveiðar Íslendinga í eigin landhelgi, að værum við nú í ESB hefðu kommissarar skammtað okkar aðeins brot af þeim makríl sem við veiðum nú. En fullveldisréttur okkar Íslendinga veitir okkur rétt til þess samkvæmt hafréttarsáttmála SÞ, og meðan við stöndum utan ESB, að veiða þau 145 þúsund tonn af makríl sem Jón Bjarnason ákvað sem kvóta að höfðu samráði við fiskifræðinga og Steingrímur Sigfússon endurnýjaði í fyrra.
Bæði þessi mál sýna og sanna að það er grundvallaratriði fyrir Íslendinga að láta ekki glepjast til að framselja fullveldisrétt þjóðarinnar til Brussel. Og bæði málin eru fullt tilefni til þess, hvort fyrir sig, að afturkalla aðildarumsóknina þegar í stað enda er umsóknin bráðum sjálfdauð en verður þó öllum til æ meiri minnkunar sem reyna að halda henni til streitu. - RA
Opnað fyrir nýtt Icesave og tímasprengja tengd | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Athugasemdir
Sammála, það er lykilatriði í fullveldi landsins, að vera utan ESB.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.1.2013 kl. 11:56
Þetta er nákvæmlega málið.
ESB hefði ekki tekið við umsókninni ef stjórnvöld hefðu ekki lofað að semja um lausn Icesave. Þetta hefur verið staðfest af Atla Gíslasyni og Lilju Móses.
Þetta mál er einfaldlega svo alvarlegt að það væri ólíðandi annað en að þeir ráðherrar sem tóku þátt í þessari fjárkúgun verði látnir svara fyrir hana fyrir dómsstólum.
Seiken (IP-tala skráð) 30.1.2013 kl. 12:44
ég er eiginlega að komast á þá skoðun líka. Þetta er óþolandi framkoma ráðamanna gagnvart þjóð sinni, svo ekki sé meira sagt.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 30.1.2013 kl. 13:03
Ekki má gleyma þætti spillta stjórnsýslukerfisins á Íslandi, í öllu ferli Icesave! Það þurfti hjálparkokka í embættismanna-kerfinu, til að þetta siðlausa "einkabanka"-rugl væri framkvæmanlegt. Þeir aðstoðar-kokkar mega ekki sleppa.
Sumir þykjast vera saklausir í dag, þótt þeir hafi verið upphafsmenn að öllu siðlausa ferlinu, sem sumir voguðu sér að kalla tæra snilld!!!
Sumir kalla lygar, svik og rán ennþá tæra snilld!!! Þeir sömu vinna að því bak við tjöldin að halda áfram á sömu braut, því þeir sjá ekkert athugavert við siðblind en lögleg vinnubrögð um allar jarðir! Það er ógnvekjandi.
Það er næsta verkefni að loka fyrir svona siðlaus bankarán, með skýrum lögum, og ógleymanlegri sekt og skaðabótaskyldu, ef þau lög eru brotin.
ESB (fátækur almenningur ríkjanna) borgar kostnaðinn af málaferlunum gegn ólöglegri fjárkúgun sambandsins, sem sambandið sjálft ætlaði að þvinga almenning á Íslandi til að borga?
Það er ekki skrýtið að fólk spyrji hvað þetta ESB sé í raun og veru. Ég veit hvað mér finnst um þessa óframkvæmanlegu regluþvælu sambandsins, sem þeir skilja ekki einu sinni sjálfir, sem þar vinna.
ESB þjónar ekki bankarændum almenningi, heldur svikulli elítu þjóðanna.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 30.1.2013 kl. 13:15
Þó að Icesave og ESB umsóknin séu algjörlega óskyld mál má til sanns vegar færa að Icesave-vitleysan sé skilgetið afkvæmi ESB-umsóknarinnar.
Icesave varð smámál eftir að ljóst varð að þrotabú Landsbankans myndi greiða höfuðstólinn og við myndum aðeins greiða vexti ef um semdist.
Icesave-vitleysan varð hins vegar að þvílíkum óskapnaði að annað eins hefur varla þekkst. Þetta var slæmur vitnisburður um íslenska þjóð.
Skyldleikinn við ESB-umsóknina kemur þannig til að það tókst að telja öllum fábjánunum, sem eru á móti ESB vegna þess að Davíð sagði þeim beint eða óbeint að vera það, trú um að Icesave væri ESB.
Þannig byrjaði boltinn að snúast og enn er ekkert lát á, þrátt fyrir að málinu sé lokið með fullnaðarsigri Íslands.
Með því að hafna Icesave-samningnum var tekin gífurleg áhætta, margfalt meiri áhætta en ef hann hefði verið samþykktur. Færustu sérfræðingar bentu á þessa áhættu en þeir sem höfnuðu Icesave hlustuðu ekki.
Það má líkja Icesave við einstakling sem hefur tapað miklum fjármunum en kemst þó vel af. Hann ákveður að freista þess að ná fénu aftur með því að veðja aleigunni í spilavíti.
Þó að hann verði svo heppinn að vinna féð tilbaka var það galin hugmynd að taka þessa áhættu.
Allar kröfur um að ríkisstjórnin eða einstakir ráðherrar segi af sér vegna Icesave eru því fráleitar. Ég held reyndar að það sé nokkuð ljóst að við höfum ekkert grætt á að hafna Icesave.
Kostnaðurinn af að seinka úrlausn málsins hefur örugglega verið mikill enda lækkaði lánshæfismatið niður í ruslflokk þegar ÓRG ákvað fyrri þjóðaratkvæðagreiðsluna.
Matið hækkaði ekki aftur fyrr en eftir seinni þjóðaratkvæðagreiðsluna þegar Steingrímur fór á fund matsfyrirtækjanna og benti þeim á að Icesave-höfuðstóllinn yrði greiddur úr þrotabúi Landsbankans.
Hætt er við að kostnaður vegna tafa á úrlausn Icesave hafi verið mun meiri en þeir fáeinu tugir milljarða sem Buchheit-samningurinn hefði kostað okkur.
Ásmundur (IP-tala skráð) 30.1.2013 kl. 18:20
En er ekki alt í lagi að hengja "Suma feðga".
Er þetta feimnismál, eða hvað?
Gangsterar eru gengsterar og þeir vita það sjálfir.
"Við borgum ekki skuldir óreiðumanna"
Að sjálfsögðu átti hann við glæpamenn, en var orðvar því þetta eru hans "kumpánar".
Það er eins gott að vera orðvar í pólutík.
En ég spyr aftur- Er ekki OK að hengja "suma"?
Hún er sérkennileg þessi friðhelgi"Zígaunaþjóðarinnar" í norðri.
Zvindlaðu að náunganum og þú ert í góðum málum.
Einn löngu fluttur.
V.Jóhannsson (IP-tala skráð) 30.1.2013 kl. 23:21
Þessi færsla RA er langsótt. Þarna er vænisýkin á fullu með ESB í meintri hatrammri árás á Ísland.
Sannleikurinn er sá að það er Noregur sem er aðalandstæðingur Íslands í makríldeilunni og ræður för enda hagsmunir þeirra mun meiri en þeirra ESB-landa sem hafa hagsmuna að gæta.
Makríldeilan er fyrst og fremst deila á milli Íslands og Færeyja annars vegar og Noregs, Íra og Skota hins vegar. Fyrir ESB í heild eru þetta litlir hagsmunir.
ESB tekur skiljanlega afstöðu með þeim ríkjum sem eru innan bandalagsins. Staðan væri því allt önnur ef við hefðum verið þar. Þá hefðum við verið sú ESB-þjóð sem hefði haft langmestra hagsmuna að gæta.
Innan ESB hefðum við verið í mun betri aðstöðu til að tala okkar máli. Málið væri því trúlega leyst með farsælli lausn fyrir Ísland.
Ef ekki, hefðum við sótt málið fyrir Evrópudómstólnum sem hefði hlustað á okkar sterku rök. Bretar fengu þar lausn sinna mála þegar Spánverjar keyptu bresk útgerðarfyrirtæki og sigldu með aflann til Spánar.
Innan ESB er lögð mikil áhersla á að leysa deilumál á milli einstakra aðildarríkja. Í ljósi þess að hagsmunur Íslands eru langmestir og rökin okkar megin er engin ástæða til að æla að málið hefði ekki leyst farsællega með Ísland innanborðs.
Þá hefðu engin viðskiptabönn verið yfirvofandi.
Ásmundur (IP-tala skráð) 31.1.2013 kl. 08:32
Icesave hefði orðið okkur miklu léttbærara innan ESB.
Þá hefðum við í fyrsta lagi sloppið við allsherjarhrun bankakerfisins. Með Ísland innanborðs hefði sambandið lagt sig fram um að leysa okkar vanda. Nú er komin á samtrygging milli tryggingarsjóða ESB landa sem útilokar slík mál þar í framtíðinni.
Það er rangt hjá RA að við verðum að sætta okkur við ákvarðanir yfirstjórnar ESB. Slík mál eru ekki afgreidd með geðþóttaákvörðunum. Ef ekki semst um málalok hefðu Íslendingar skotið málinu til Evrópudómstólsins.
ESB er iðulega í málaferlum við hinar ýmsu aðildarþjóðir án þess að það þyki tiltökumál. Þetta er einfaldlega rétt leið siðaðra þjóða til að leysa úr deilumálum sem ekki verða leyst með öðrum hætti.
Atvinnuleysi á Íslandi er ekki rúmlega 4%. Það er 5.6%. Það er mikið í sögulegu samhengi. Á Írlandi er hins vegar hefð fyrir miklu atvinnuleysi. Þrátt fyrir kreppu er það ekki með mesta móti núna. Það varð meira á níunda og tíunda áratugnum.
Með ESB-aðild deilum við fullveldi Íslands og fullveldi allra hinna ESB-landanna með þeim. Þannig endurheimtum við fullveldismissi EES-samningsins. Skv honum er okkur nauðugur sá kostur að taka við tilskipunum frá Brüssel án þess að geta haft nein áhrif á þær. Með ESB-aðild verður það liðin tíð.
Það er með ólíkindum að menn skuli halda því fram að Íslendinga geti veitt eins og þeim sýnist af makríl ef þeir eru utan ESB. Sem betur fer er það' ekki þannig því að þá yrði stofninum fljótt útrýmt.
Að sjálfsögðu þarf að semja um skiptingu aflans til að koma í veg fyrir ofveiði. Innan ESB erum við í miklu betri aðstöðu til þess en utan.
Ísland eitt á báti með ónýta krónu án bandamanna er vonlaus framtíðarsýn.
Ásmundur (IP-tala skráð) 31.1.2013 kl. 11:16
Vegna athugasemdar Ásmundar skal það tekið fram að atvinnuleysi á Íslandi á 4. ársfjórðungi 2012 var 4,7% samkvæmt skýrslum Hagstofu Íslands.
Hann segir að við hefðum sloppið við allsherjarhrun bankakerfisins ef við hefðum verið í ESB. ESB hefði leyst okkur úr snörunni. En hvernig? ESB hefði hugsanlega lánað ríkinu og þar með skattgreiðendum landsins til að bjarga bönkunum. Óvíst er þó að slíkt lán hefði bjargað bönkunum nema í skamman tíma. En lánið hefði verið óbærilegur skuldabaggi fyrir ríkið og þjóðina og vafalaust gert landið gjaldþrota fyrr en síðar. Við megum því þakka fyrir að hafa ekki fengið að njóta aðstoðar ESB því að þá hefðum við lent í margfalt verri stöðu en Grikkir og Írar vegna þess hve umfang skuldanna sem hvíldu á bönkunum var gríðarlega hátt hér á landi miðað við þjóðarframleiðslu. - RA
Vinstrivaktin gegn ESB, 31.1.2013 kl. 11:59
Skv vef hagstofunnar er atvinnuleysi skv nýjustu mælingu, sem er frá desember 2012, 5.6%, eins og hér má sjá:
http://hagstofan.is/
Ef við hefðum verið í ESB er óvíst hvort neitt hrun hefði orðið. Allavega hefði það ekki orðið nærri jafnalvarlegt og raunin varð vegna krónunnar.
Það er því út í hött að velta vöngum yfir því hvernig við, ef við hefðum verið í ESB, hefðum leyst vanda sem varð til vegna þess að við vorum ekki í ESB.
Það er rangt að í ESB hefði ríkið þurft að ábyrgjast einkabanka. Írar gerðu það vegna þess að þeir töldu hag sínum best borgið þannig.
EF ESB telur ótækt að bankar fari í þrot verður það sjálft að koma í veg fyrir það með fjárframlögum til bankanna eða með því að þrýsta á niðurfellingu skulda þeirra. Ríki bera enga ábyrgð á einkafyrirtækjum.
Skuldavandinn stafar af krónu. Hann hefur verið á góðri leið með að setja hér allt á annan endann á fimmta ár og er ekkert lát á.
Með evru eða krónu í skjóli ECB hefðu skuldir ekki hækkað heldur þvert á móti lækkað með hverri greiðslu.
Erlendar skuldir hækkuðu upp úr öllu valdi vegna gengishruns krónunnar. Fyrir þá sem ekki höfðu tekjur í gjaldeyri, eins og ríki, sveitarfélög og flesta einstaklinga, var þetta skelfileg þróun. Lántaka í krónum er fjárhættuspil.
Vegna gengishruns krónunnar græða útgerðarfyrirtæki nú á tá og fingri á kostnað almennings.Ásmundur (IP-tala skráð) 31.1.2013 kl. 14:43
Næsta skref eftir Icesave er að eyða þessari ESB aðlögun. Að því loknu getur þjóðin snúið sér að endurreisn og uppbyggingu þjóðfélagsins innan frá.
Sem verður léttara þegar ekki þarf lengur að dæla ómældum fjármunum og vinnuframlagi í aðlögunina.
Aukabónus verður svo lausn frá þessum gengdarlausa ESB áróðri með tilheyrandi ergelsi og þrasi.
Kolbrún Hilmars, 31.1.2013 kl. 16:07
Heyr Heyr! Kolbrún innilega sammála.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 31.1.2013 kl. 16:09
Auðvitað hefði ísl. ríkið verið þvingað í ríkisábyrgð á ICEsave, no. 10. Ekki síður en gríska ríkið og írska ríkið voru þvinguð í þeirra 'ICEsave'. Sættu þig við það að Brusselveldið ykkar er þvingunarveldi.
Þú gætir samt alltaf haldið lifandi gamla ICEsave-áróðri ykkar. Þú mannst þar sem við vorum lögbrjótar, útlendingahatarar og vitleysingar, þjóðrembingar og öfgamenn, og rændum breska og hollenska ríkisborgara í útlöndum. Þú færir nú ekki að hætta þessu eftir ómerkilegan EFTA-dóm??
Elle_, 31.1.2013 kl. 23:10
Elle, ef þú ert svona sannfærð komdu með hlekk á þessar upplýsingar.
Það er erfiðara að biðja mig að koma með hlekk. Það væri eins og að biðja saklausan mann um að koma með hlekk um að hann hafi ekki framið glæp.
ESB-ríkin eru fullvalda réttarríki. Ríki bera að sjálfsögðu ekki ábyrgð á skuldum einkafyrirtækja nema þau hafi sjálf ákveðið að veita slíka ábyrgð.
Lánveitendur geta hins vegar sett skilyrði fyrir lánveitingum. Það á jafnt við um einstaklinga, fyrirtæki og ríki. Þannig geta fjármálastofnanir sett skilyrði fyrir ríkisábyrgð á lánum til banka í vanda.
Þetta á að sjálfsögðu ekkert frekar við um ESB-ríki en önnur ríki.
Munurinn á Íslandi og Írlandi er ekki sá að Ísland hafi valið aðra leið en Írar. Bæði reyndu þau allt sem þau gátu til að bjarga bönkunum.
Ísland fékk hins vegar ekki nauðsynlega lánafyrirgreiðslu. Þess vegna var hrun íslenska fjármálakerfisins óhjákvæmilegt.
ESB-ríkin eru fullvalda ríki eins og hér má sjá um Danmörku. Danir segja reyndar að ESB-aðildin hafi veitt fullveldi þeirra aukinn slagkraft:
Danish foreign policy is based on its identity as a sovereign nation in Europe. As such its primary foreign policy focus is on its relations with other nations as a sovereign independent nation. Denmark has long had good relations with other nations. It has been involved in coordinating Western assistance to the Baltic states (Estonia,[58] Latvia, and Lithuania).
http://en.wikipedia.org/wiki/Denmark#Foreign_relations_and_military
Ásmundur (IP-tala skráð) 1.2.2013 kl. 09:03
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.