Rætur atvinnuleysis í Evrópu

Nokkrar helstu ástæður mikils atvinnuleysis í Evrópu eru evran, mjög stíf peningastefna með ofuráherslu á litla verðbólgu, samdráttur í opinberum útgjöldum og illa útfærð vinnumarkaðsstefna.

Það hefur mikið verið rætt og ritað um hið mikla atvinnuleysi í Evrópu og afleiðingar þess, en minna ber á umræðu um hvað veldur þessum vanda. Það er þó gert á vefsíðu sem gerir sér far um að útskýra ýmis fyrirbæri í efnahagsmálum, econ.economicshelp.org.

Á þessari síðu kemur fram að fram undir 1970 hafi atvinnuleysi verið fremur lítið í Evrópu, en nú sé það mikið og viðvarandi í kringum 10% og í sums staðar farið yfir 20%.

Ein af ástæðunum fyrir atvinnuleysinu er einfaldlega sú að eftirspurn eftir neysluvarningi  og öðru hefur minnkað eins og annars staðar, en það fækkar störfum í fyrirtækjum. Hinn mikli niðurskurður opinberra útgjalda í álfunni hefur stuðlað enn frekar að fækkun starfa enda hefur Seðlabanki Evrópu einnig stuðlað að aðhaldi.

Peningastefna Seðlabanka Evrópu skýrir sem sagt vandann að hluta. Bankinn hefur lagt á það höfuðáherslu að halda verðbólgu í skefjum. Vegna ofuráherslunnar á litla verðbólgu hefur bankinn verið tilbúinn að fórna möguleika á fjárfestingum og hagvexti til að draga úr atvinnuleysinu.  Að því leyti telja höfundar að munur sé á viðbrögðum Englandsbanka og Seðlabanka Evrópu í núverandi fjármálakreppu.

Of hátt skráður gjaldmiðill og misgengi innan evrulandanna vegna mismunandi verðþróunar er fjórða ástæðan sem nefnd er. Mismunandi verðþróun hefur leitt til þess að framleiðsluverð  í jaðarríkjunum í suðri hefur hækkað mun meira en í Þýskalandi þannig að samkeppnisstaða jaðarríkjanna hefur versnað, útflutningur þaðan hefur minnkað og störfum fækkað þess vegna.

Þessu tengt er sú spennitreyja sem evran setur ríkin í þegar þau lenda í vanda. Grikkland, Spánn, Portúgal og önnur ríki geta ekki út af fyrir sig breytt vöxtum til að efla fjárfestingu. Þau geta heldur ekki aukið peningamagn í umferð upp á eigin spýtur eða aðlagað gengi gjaldmiðilsins til þess að bæta samkeppnisstöðu sína.

Stöðugleikasáttmálinn hefur einnig sín áhrif, en hann kemur í veg fyrir að fjármálum ríkisins verði beitt til þess að auka atvinnu (ESB hefur þannig á vissan hátt sett Keynes til hliðar – ólíkt sumum öðrum bönkum).

Þessu tengt er að atvinnuleysisbætur eru rausnarlegar, segja höfundar, en það dregur úr hvata fólks til að leita sér að vinnu, með vissum undantekningum þó, eins og í Hollandi. Þá eru reglur á vinnumarkaði að jafnaði illa útfærðar þegar kemur að því að ráða fólk og segja því upp, en það dregur úr vilja fyrirtækja til að ráða nýja starfsmenn, og þess sem meiri stífni er hvað varðar vinnutíma en annars staðar. Illa útfærð vinnumarkaðsstefna og ofurvald verkalýðsfélaga er þannig talið stuðla að því að langtímaatvinnuleysi er meira en ella, þar sem t.d. er lögð mun meiri áhersla á réttindi þeirra sem eru í starfi en að leysa mál þeirra sem ekki hafa vinnu.  Langtímaatvinnuleysið veldur svo því að fólk fer hreinlega alveg af vinnumarkaði og telst ekki lengur til virks vinnuafls. Fyrir vikið er allt of stór hluti fólks í Evrópu utan við það sem kalla má virkt samfélag.

Sjá nánar: http://econ.economicshelp.org/


mbl.is Hernaðurinn gegn atvinnulífinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Óskar Guðmundsson

Eitt gleymist oft í umræðunni um atvinnuleysi í Evrópu.

Ferðamannaiðanðurinn.

Raunin er sú að svort vinna innan ferðamannaiðnaðarins er mikil.

Aðilar sem áður treystu á svartar tekjur hafa þurft að leggjast á bætur þegar að ferðamönnum fækkaði skyndilega mikið.

Þetta er ein af stóru skýringunum á Spáni, Portúgal, Grikklandi og Ítaliu.

Síðan koma til "aðhaldsaðgerðir ríkisstjórna" sem er því miður fremur umhugsað að taka til hjá öðrum (atvinnulífinu) en sér sjálfum (ríkisbákninu) og er það svo hér heima líka og er þetta "trendið" hvort sem að stjórnir eru til hægri eða vinstri enda þær skilgreiningar að afmást að mestu í pólitík Evrópu.

Gjaldmiðillinn var síðan önnur stór orsök og það að lífstíllinn var hækkaður við inngöngu í EURO og allt tekið að láni. Grikkir eru nú m.a. að bíta úr nálinni með það. Allt gekk glimrandi með Dmökru og átti EURO aðeins að toppa ennfremur ástandið en hátt skráð gengi og óhófleg bjartsýni auk genbgdarlausrar lántöku og hækkun lífstíls varð mönnum að falli og sannast þá enn einu sinni að "dramb er falli næst.".

Óskar Guðmundsson, 21.11.2012 kl. 13:04

2 identicon

Mikið atvinnuleysi í Evrópu líkt og annars staðar í heiminum er vegna kreppunnar sem hófst 2008 og er langt frá því að vera lokið. Þetta er mesta kreppa sem skollið hefur á síðan á fjórða áratug síðustu aldar.

Samt sem áður er atvinnuleysið á evrusvæðinu nú litið meira en nokkru fyrir upptöku evru eins og hér má sjá:

http://www.tradingeconomics.com/euro-area/unemployment-rate

Þau tvö lönd Evrópu, Grikkland og Spánn, þar sem atvinnuleysi er langmest eru bæði á evrusvæðinu. Atvinnuleysi á evrusvæðinu er 11,6% en 11.1% í ESB.

Ef þessi tvö lönd eru undanskilin er atvinnuleysið mun minna á evrusvæðinu en í ESB enda eru atvinnleysið minnst i mörgum evrulöndum. Atvinnuleysi er minna eða jafnmikið og í Bandaríkjunum í um helming evrulanda.

Mesta atvinnuleysið í Evrópu er í Kósovó, Makedóníu og Bosníu Herzegóvinu. Ekkert þeirra er í ESB hvað þá á evrusvæðinu.

http://en.wikipedia.org/wiki/List_of_countries_by_unemployment_rate

Ég hef ekki fundin nein gögn um atvinnuleysi í Grikklandi fyrir 1998. Vegna ástandsins þar er þó líklegt að atvonnuleysið þar sé í hæstu hæðum.

Það á einnig við um Portúgal sem er í þriðja sæti yfir atvinnuleysi á evrusvæði. Það er þó miklu minna en á Spáni og í Grikklandi.

Hins vegar er atvinnuleysið á Spáni nú mjög svipað og 1994. Á Írlandi, sem er í fjórða sæti yfir atvinnuleysi á evrusvæðinu varð atvinnuleysið meira en núna bæði á níunda og tíunda áratugnum.

http://www.tradingeconomics.com/spain/unemployment-rate

http://www.tradingeconomics.com/ireland/unemployment-rate

Almennt má segja að atvinnuleysi hafi minnkað á evrusvæðinu með upptöku evru og náð lágmarki rétt fyrir hrun en síðan hafi það aukist mikið með tilkomu kreppunnar.

Ásmundur (IP-tala skráð) 21.11.2012 kl. 16:36

3 Smámynd: Eggert Sigurbergsson

Evrópuþjóðir bregðast mismunandi við aðsteðjandi vanda, eins og sést á línuritinu. Hollendingar bregðast við stöðugum samdrætti með fjölgun hlutastarfa og er svo komið að annar hver Hollendingur er í hlutastarfi, ástæðan fyrir lágt skráðu atvinnuleysi Hollendinga er þetta fyrirkomulag þar sem maður í hlutastarfi er ekki talin til atvinnulausra.

Grikkir hafa ekki tileinkað sér þessa aðferð til að bregðast við samdrætti og er mjög lágt hlutfall þeirra sem vinna hlutastarf enda eykst atvinnuleysið hjá þeim mjög skart.

Á Íslandi er mikið um hlutastörf og sveiflast þau eftir atvinnuástandi, þannig  t.d hækkar ekki endilega atvinnulausum mikið strax þar sem fólk fer hratt í hlutastörf, eins fækkar þeim ekki endilega hratt á atvinnuleysisskrá þar sem margir fara í full störf aftur í stað þess að ráðið sé önnur manneskja í hálfa starfið enda sést þetta ágætlega á línuritinu í samanburði við Hollendinga og Grikki.


Eggert Sigurbergsson, 21.11.2012 kl. 19:31

4 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Fróðlegt línurit, Eggert.  Hollenska aðferðin er snjöll, því fólk í hlutastarfi viðheldur þekkingu og þjálfun og á auðvelt með að fara í fullt starf þegar aðstæður leyfa.

En óneitanlega skekkir hollenska aðferðin heildaratvinnuleysistölur ESB, auk sinna eigin í samanburði við aðrar þjóðir.

Kolbrún Hilmars, 22.11.2012 kl. 10:48

5 Smámynd: Gunnlaugur I.

Lesendur hér á "Vinstri Vaktinni gegn ESB" og fleiri reyndar eru nú margir farnir að bíða eftir því að þið birtið hér svör frambjóðenda í forvali VG í Reykjavík um afstöðu hvers þeirra og eins er til ESB og umsóknarinnar.

En eins og þið greinduð frá þá höfðu þau frest til miðnættis í gærkvöldi þ.e. þann 21 nóvember til þess að senda ykkur skrifleg og sundurgreind svör.

Um leið og ég fagnaði þessu framtaki ykkar þá sagði ég jafnframt að ég ætti ekki von á því að þessi svör þeirra skiptu einu né neinu og yrðu ábyggilega hvorki "fugl né fiskur"

Við sjáum nú hvað setur, en það kæmi mér ekki á óvart að fáir hafi nú svarað þessu og að þið yrðuð að ganga enn frekar eftir svörum, jafnvel að þið fengjuð enginn svör frá æði mörgum fyrir forvalið nú um helgina.

Eins og flokkslínan frá forystu flokksins hefur unnið í þessu máli þá hefur skipulega verið farið undan í flæmingi og keyptur tími með frestunum og nefndarskipunum og að fá svona "heildstætt mat" upp á borðið.

Gunnlaugur I., 22.11.2012 kl. 12:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband