Andstæður hins evrópska markaðar

Þróun ESB var og er prófsteinn á hugmyndina um fríverslun og opnar gáttir: að óheft samkeppni á fjölþjóðlegum markaði, fjölþjóðleg verkaskipting og óheft viðskipti leiði til mesta hagvaxtar fyrir alla aðila.

Þetta var ein grunnhugmynd frjálshyggjunnar á dögum Adams Smith og hún er það enn í hnattvæðingarbylgju undanfarinna tveggja áratuga. Það má kalla hana hnattvæðingarreglu nr. 1.  Helstu múrbrjótar þeirrar hugmyndafræði á heimsvísu hafa verið AGS, GATT og Heimsviðskiptastofnunin (WTO), stofnanir sem ganga erinda vestræns stórauðvalds.

Með hjálp þeirra hafa hagkerfi byggð á grunni sjálfstæðra (smárra og meðalstórra) þjóðríkja verið brotin upp og þvinguð til að sveigja sig að hnattvæddum markaði. Í því umhverfi er leið landa til sjálfstyrkjandi þróunar torfærari en nokkru sinni.  

Í okkar heimshluta er múrbrjótur hnattvæðingarreglunnar ESB og hefur gengið hreint til verks: hin óhefta samkeppni ræður nú ríkjum innan sambandsins. ESB er einn helsti tilraunareiturinn fyrir aðferðir frjálshyggju og hnattvæðingar. Með frjálsu flæði vöru og fjármagns milli landa – og þegar við bætist sameiginlegur gjaldmiðill – er markaðurinn orðinn einn og öll vernd horfin. Þetta gildir um allt EES-svæðið (vissar atvinnugreinar þó teknar út fyrir sviga í EFTA-ríkjunum).

Samkvæmt kenningunni ætti allt svæðið jafnt að njóta góðs af þessu frelsi. Á þenslutímum má telja fólki trú um að hinar opnu gáttir skapi öllum svæðum hagvöxt en á samdráttartímum sést veruleikinn skýrar. Hinn sameiginlegi markaður skiptist nefnilega í tvennt: í kjarnasvæði norðan og austanvert í Evrópu og svo jaðarsvæði í austri og suðri (auk Írlands).

Efnahagskerfi jaðarsins verður undir í samkeppninni meðan kjarninn, einkum Þýskaland, blæs út sem útflutningshagkerfi. Jaðarlöndin verða efnahagslegar hjálendur, nálægt stöðu nýlendunnar. Hin ójafna samkeppni virkar sem tæki til eignatilfærslu og arðráns. Virðisaukinn lendir allur í kjarnalandinu en dregur þróttinn úr hinu. Dæmigerð, harkaleg auðvaldssamþjöppun. Það segir t.d. sína sögu að nánast allt fjármálakerfi ESB-ríkja í Austur-Evrópu er nú í eigu vestrænna banka.

Bæði fyrir og eftir kreppu hefur þessi breikkandi gjá milli sterkra og veikra verið brúuð með miklu flæði lánsfjármagns frá kjarna til jaðars (svo kaupa megi fleiri þýskar vörur). Sem aðeins frestar hinum félagslega vanda. Þegar ríkisstjórnir hjálendnanna ráða ekki við lýðinn er því svarað með aukinni miðstýringu og fullveldið er framselt enn frekar. Pólitísk valdasamþjöppun er hið sérstæða við þetta ríkjasamband, og er það sem mestan óhug vekur.

Kreppan í Grikklandi og Suður-Evrópu er gjarnast skýrð sem staðbundin óstjórn. Við fáum að heyra í útvarpinu að Grikkir vinni lítið, taki ellistyrkinn snemma og skuldir þeirra stafi af rándýru, „sósíalísku“ velferðarkerfi. En þetta stenst ekki. Vinnutími Grikkja er víst sá lengsti á Evrusvæðinu (og Þjóðverja sá næststysti). Eftirlaunaaldur þeirra (virkur) er um meðaltal á evrusvæðinu og einnig útgjöld hins opinbera til trygginga- og heilbrigðismála. Nei. Ef greina á meinsemdir ESB-kerfisins, hvað þá lækna það, verður þess vegna að reiða miklu hærra til höggs.

ÞH


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

"Vinnutími Grikkja er víst sá lengsti á Evrusvæðinu (og Þjóðverja sá næststysti)." 

Hvorug fullyrðingin er rétt skv skýrslu OECD.

Sex þjóðir OECD standa Þjóðverjum framar hvað stuttan vinnutíma snertir og eru Grikkir í næsta sæti á eftir Þjóðverjum. Þessar sex þjóðir eru allar í Evrópu, fimm í ESB og ein aðeins í EES. Þrjár þeirra eru á evrusvæðinu.

Það er að vísu viss einföldun að tala um stuttan vinnutíma. Þarna er verið aö ræða um jafnvægi á milli vinnu og frítíma. Þar telur vinnutíminn augljóslega mest.

Ísland kemur illa út úr þessum samanburði enda er vinnutími hér óvenjulangur. Við erum í 30. sæti á listanum. Öll evruríkin eru þar miklu framar en við.

http://www.oecdbetterlifeindex.org/topics/work-life-balance/

Ásmundur (IP-tala skráð) 17.11.2012 kl. 17:57

2 Smámynd: Vinstrivaktin gegn ESB

Takk fyrir ábendinguna Ásmundur. Þetta tölfræðilega atriði breytir þó engu um meginrök og niðurstöður pistlahöfundar./-b.

Vinstrivaktin gegn ESB, 18.11.2012 kl. 10:48

3 identicon

Það eru mjög augljósar ástæður fyrir vanda þeirra fáu evrulanda sem eru í verulegum kröggum. Ástæðurnar hafa lítið sem ekkert með evru eða ESB að gera.

Ástæðurnar eru mismunandi hjá hverri þjóð fyrir sig. Í Grikklandi er ástæðan óráðsía vegna mikillar spillingar auk þess sem það var vanrækt að beita nauðsynlegum aðhaldsaðgerðum vegna lækkunar vaxta þegar evran var tekin upp. Vandinn kemur einkum fram í allt of miklum ríkisskuldum og miklu atvinnuleysi.

Á Spáni var mikil fasteignabóla fyrir hrun. Lágir vextir vegna upptöku evru og einnig vegna mikils framboðs á lánsfé á góðum kjörum í heiminum átti stærstan þátt í bólunni auk sögulega mikils atvinnuleysis allt frá því fyrir inngöngu Spánar í ESB. 

Þar var einnig vanrækt að stíga á bremsuna. Þegar bólan sprakk urðu mikil vanskil í bönkum sem þess vegna riðu margir til falls. Spænska ríkið, sem var ekki sérlega skuldugt fyrir, sá sig tilneytt til að ábyrgjast lán til banka til að koma í veg fyrir hrun.

Þannig má halda áfram og útskýra ástæður fyrir stöðu hverrar þjóðar fyrir sig. Gott dæmi um lítið jaðarland með evru sem er vel á vegi statt er Finnland. Það hefur best lánshæfismat allra ESB-landanna.

Það er hins vegar svolítið til í því að slæmt gengi einnar þjóðar kemur á vissan hátt fram í velgengni annarrar. Eins dauði er annars brauð. Þetta á hins vegar við um allan heim og kemur evru og ESB ekkert við.

Í þessu sambandi er athyglisvert að þær þjóðir sem vel standa efnahagslega í Evrópu og eru ekki í ESB hafa allar gert samning við ESB um tollaívilnanir ofl annaðhvort með EES-samningi eða tvíhliða samningi. Þannig eru þær háðar ESB.

Ljóst er að ef evruríki í kröggum hefðu haft eigin gjaldmiðil hefði hann hrunið niður úr öllu valdi með skelfilegum afleiðingum. Við höfum reynsluna.

Yfirgnæfandi meirihluti íbúanna í þessum löndum, oftast yfir 80% skv skoðanakönnunum, vill því áfram ESB-aðild og evru.   

Ásmundur (IP-tala skráð) 18.11.2012 kl. 10:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband