Merkel heimtar enn meira framsal fullveldisréttinda
12.11.2012 | 11:59
Kanslari Þýskalands kveðst tilbúin að verja líf evrunnar af ýtrasta mætti en heimtar annað í staðinn: enn meiri miðstýringu í ESB og enn frekari framsal fullveldisréttinda frá aðildarríkjunum til kommissaranna í Brussel, einkum á sviði ríkisfjármála og efnahagsmála.
Angela Merkel er í heimsókn í Portúgal í dag. Portúgalar eru ein af mörgum jaðarþjóðum ESB sem farið hafa illa út úr upptöku evru. Svonefnt skuldatryggingaálag (cds: credit-default swaps), sótthitamælir markaðarins, sem sýnir hversu mikið lánstraust er ríkjandi gagnvart einstökum ríkjum þykir þar skuggalega hátt eða nærri 600 punktar.
Portúgalar taka á móti þýska kanslaranum með því að breiða svört klæði á svalir, minnismerki og byggingar. Merkel er að sögn forsprakka mótmælanna eins konar tákn fyrir þau pólitísku mistök sem bitna á Portúgölum þessa dagana.
Merkel kanslari hélt ræðu s.l. miðvikudag, 7. nóv. á þingi ESB í Brussel, svonefndu Evrópuþingi (sem að sjálfsögðu er rangnefni) og svaraði fyrirspurnum. Hún sagði m.a:
Svo sannarlega verðum við að finna réttu leiðina til að koma á jafnvægi á evrusvæðinu til frambúðar og leiðrétta kerfislægar skekkjur.
Leiðtogi þingflokks frjálslyndra, Guy Verhofstadt, skaut því að henni að tafarlaust yrði að hefja undirbúning að formlegri stofnun stórríkis ESB, þ.e. Bandaríkjum Evrópu. Því svaraði kanslarinn með þessum orðum:
Að sjálfsögðu mun framkvæmdastjórn ESB breytast einn daginn í ríkisstjórn. Ráðherraráð ESB verður þá að annarri deild þingsins (second chamber) og Evrópuþingið mun fá aukin völd.
Þetta er lærdómsríkt að heyra fyrir þá sem sífellt klifa á því að ESB sé aðeins samstarfsvettvangur fullvaldra ríkja.
Athugasemdir
Þeir sem klifa á þessum "samstarfsvettvangs" áróðri læra ekki neitt sem þeir ekki vissu áður. Annað en að spara sér áróðurinn - hugsanlega?
Kolbrún Hilmars, 12.11.2012 kl. 14:17
Nei, þeir læra ekki neitt. Og þó þeir vissu það, væri það sama. Það er bara blekkt og logið út í hið óendanlega um hið mikla fullveldi og sjálfstæði meðan lífeyrir gamalmenna í sambandsríkjum er skertur um 50% að kröfu alræðisins í Brussel.
Elle_, 12.11.2012 kl. 14:38
Satt segið þið dömur, það er með ólíkindum hve þetta fólk lemur höfðinu við steininn þegar kemur að skynsamlegri niðurstöðu um ESB aðild, þar ræður frekar trúarbrögð en heilbrigð skynsemi.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.11.2012 kl. 15:05
Það er óneitanlega hægt að hafa gaman af Vinstrivaktinni.
Í hvert sinn sem endurbætur eru gerðar á lögum og reglum ESB segir Vinstrivaktin það vera "enn meira framsal fullveldisréttinda".
Ég hélt að menn hefðu vit á að hætta að tuða um fullveldisframsal eftir að norsk sérfræðinganefnd ályktaði að mun meira afsal fullveldis fylgdi EES-samningnum en ESB-aðild.
Það er fullkomlega í samræmi við fullveldi að hafa samstarf við aðrar þjóðir af fúsum og frjálsum vilja öllum til hagsbóta sérstaklega þegar hægt er að slíta því hvenær sem er. ESB-þjóðirnar eru allar fullvalda ríki.
Og sem betur fer eru lög og reglur í ESB í stöðugri endurskoðun til að aðlagast veruleikanum hverju sinni.
Það er grátbroslegt hvernig þjóðremban rænir fólk allri skynsemi. Stundum virðist jafnvel gripið til hennar til að komast hjá því að þurfa að hugsa.
Ásmundur (IP-tala skráð) 12.11.2012 kl. 15:24
Ásmundur, en hvað ég er sammála þér núna; "að hafa samstarf við aðrar þjóðir af fúsum og frjálsum vilja".
Hvað áttu við með því að ESB þurfi stöðuga endurskoðun til þess að aðlagast veruleikanum?
Og svona í framhaldi af því; hversu langan tíma heldur þú að það taki ESB?
Kolbrún Hilmars, 12.11.2012 kl. 15:42
Elle, hættu þessum lygum.
Ef lífeyrir er einhvers staðar í evruríki skertur er það algjörlega ákvörðun heimamanna. Hins vegar á það við um ESB-ríki eins og önnur ríki, fyrirtæki og einstaklinga að það eru sett skilyrði fyrir lánveitingum.
Að sjálfsögðu veitir ESB ekki ríki í vanda lán nema það hætti öllu bruðli þar á meðal himinháum lífeyrisgreiðslum sem eru komnar til vegna spillingar. Annars er ESB ekki að standa sig gagnvart hinum aðildarþjóðunum.
Öll aðstoð við Grikki á að vera hjálp til sjálfshjálpar. Fjármögnun áframhaldandi spillingar er ekki af því taginu.
Ástandið í Grikklandi er svo alvarlegt að mikill niðaskurður er nauðsynlegur ef Grikkir eiga einhvern tímann að komast á réttan kjöl.
Ásmundur (IP-tala skráð) 12.11.2012 kl. 15:43
Kolbrún, stöðugri endurskoðun lýkur að sjálfsögðu aldrei því að heimurinn er á öllum tímum breytingum undirorpinn.
Þess vegna starfar Alþingi og önnur þjóðþing endalaust. Verkefninu lýkur aldrei.
Ásmundur (IP-tala skráð) 12.11.2012 kl. 15:55
http://ec.europa.eu/enlargement/pdf/publication/20110725_understanding_enlargement_en.pdf
Þú ættir ef til vill að byrja á að lesa þessa skýrslu frá esb Ásmundur.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 12.11.2012 kl. 16:10
Hvernig er hægt að sjá þetta ekki ala Ásmundur og co.? Merkel og fleiri hafa talað um aukna miðstýringu lengi í ESB og nú er svo komið að það er nauðsynlegt svo þetta bull samband hrynji ekki! Svona aðilar eru náttúrulega í engu sambandi við neinn raunveruleika.
Charles Geir Marinó Stout, 12.11.2012 kl. 16:30
Já, bullsamband, það var orðið. Líka stendur skýrum stöfum á bls. 9 í prenti beint frá bullsambandinu með forhyggjubrjálæðið, þar sem Ásthildur vísaði í: Not negotiable. Hættu að ljúga sjálfur, Ási.
Elle_, 12.11.2012 kl. 17:27
Áhugamönnum um óskorað og óskert fullveldi er bent á Norður-Kóreu. Ef viðkomandi vilja ekki Norður-Kóreu. Þá er þeim einnig bent að 18 og 19 öldin hefur örugglega pláss fyrir þá einhverstaðar.
Jón Frímann Jónsson, 13.11.2012 kl. 04:02
Jón Frímann alltaf jafn flottur! ;) Fullkomið dæmi um mann sem er í engu sambandi við raunveruleikann og svartri framtíð ESB.
Charles Geir Marinó Stout, 13.11.2012 kl. 06:41
Charles Geir. Áður en þú sakar mig um að vera sambandslaus við raunveruleikann. Þá ættir þú að athuga fyrst hvort að þú sért yfir höfuð í sambandið sjálfur.
Staðreyndin er sú að fullyrðingar Vinstri vaktin gegn ESB eru ekki byggðar á neinu. Þetta eru goðsagnir eins og íslensku tröllin, tannálfurinn og verðbólgulaust tímabil þegar Ragnar Arnalds var fjármálaráðherra Íslands.
Það er algerlega nauðsynlegt fyrir íslendinga að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Þó ekki væri nema bara til þess að koma í veg fyrir að framtíðar Ragnar Arnalds Íslands nái að leggja efnahaginn, gjaldmiðill og allt í rúst eins og gert var á árunum í kringum 1970 - 2008. Vítin eru til þess að varst þau. Málflutningur Ragnar Arnalds er eitt af þessum vítum sem ber að varast.
Jón Frímann Jónsson, 13.11.2012 kl. 07:32
Vel til fundið hjá Jóni Frímanni að benda á að Norður-Kórea sé fyrirmynd þeirra sem hafna ESB-aðild. Þar er hið heilaga fullveldi dýrkað ómengað með þeim afleiðingum að þar er allt á heljarþröm.
Upphafin þjóðremba og ýkt fullveldisdýrkun eru helstu rök Vinstrivaktarinnar og áhangenda hennar. Slík afstaða er skyld trúarofstæki því að skynsemi og rökhugsun komast hvergi að.
Þess vegna er ónýt króna og skelfilegar afleiðingar af hennar völdum í fortíð, nútíð og framtíð ekki áhyggjuefni þessa sérkennilega trúarsafnaðar. Þó að Ísland verði gjaldþrota af völdum ónýtrar krónu mun söfnuðurinn ekki haggast. Þetta var guðs vilji.
Ásmundur (IP-tala skráð) 13.11.2012 kl. 08:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.