Atvinnuleysið í ESB kostar gríðarlega mikið og það slær út heila kynslóð

Framtíð Evrópu er í húfi segir  Olle Ludvigsson Evrópuþingmaður sænskra jafnaðarmanna í samtali við veftímartitið Europaportalen s.l. föstudag. Framtíð Evrópu er háð unga fólkinu, en allt of stór hluti þess er atvinnulaus. Fólkið hefur verið langtímum saman utan vinnumarkaðar og því hætta á að það verði alltaf utanveltu.

Fjöldi þeirra sem eru utan vinnumarkaðar hefur aukist verulega eftir að fjármálakreppan hélt innreið sína. Í fyrra hafði bara um þriðjungur ungs fólks í ESB á aldrinum 15-29 ára atvinnu, en það er lægsta hlutfallið til þessa. Fjórtán milljónir af samtals 94 milljónum manna á þessum aldri stundar hvorki atvinnu né menntun.

Þetta ástand kostar ESB-löndin gífurlega fjármuni. Útreikningar sem gerðir hafa verið sýna atvinnuleysi ungs fólks kostar aðildarlöndin sem svarar um 25 þúsund milljörðum króna, eða 1,2 prósentum af verðmæti samanlagðrar landsframleiðslu ESB-ríkjanna. Þetta samsvarar jafnframt nokkurn veginn öllum útgjöldum ESB í fyrra.

Forseti Evrópuþingsins, jafnaðarmaðurinn Martin Schulz, sagði fyrr í haust að atvinnuleysi ungs fólks væri stærsta vandamál sem Evrópa glímdi við. Um leið kvarta sumir Evrópuþingmenn yfir því að of lítið sé rætt um þetta stóra mál. Þannig telur sænski þingmaðurinn Olle Ludvigsson sem á sæti í atvinnunefnd Evrópuþingsins að ástandið sé í raun svo hræðilegt að stór hluti ungs fólks í álfunni muni aldrei komast í snertingu við vinnumarkaðinn. Og hann klykkir út með því að segja: „Við eigum á hættu að tapa heilli kynslóð.“

Í nýlegri skýrslu Seðlabankans um gjaldmiðilsmálin má sjá að ýmsir kostir við íslenskan vinnumarkað færu fyrir lítið ef við færum í ESB og tækjum upp evru og hætta yrði þá á auknu atvinnuleysi hér á landi. Vinnumarkaður í Evrópusambandinu er í verulegri kreppu. Það var reyndar ljóst fyrir innleiðingu evrunnar að vinnumarkaðurinn uppfyllti á engan hátt skilyrði um sameiginlegt myntsvæði vegna lítils hreyfanleika vinnuafls. Evrupostularnir hlustuðu ekki á þau varnaðarorð. Fyrir vikið er stór hluti ungs fólks utan vinnumarkaðar og lífsgæði þess hafa verið rýrð verulega. Þannig voru um 45% fólks á aldrinum 15-25 ára á Spáni og Grikklandi án atvinnu, um 30% í Slóvakíu, Portúgal, Írlandi og Ítalíu. Það er nokkru minna í þeim löndum sem ekki hafa evru, og svo í Þýskalandi, Austurríki og Hollandi, en síðasttöldu löndin hafa hagnast einna mest á evrusamstarfinu og þá á kostnað jaðarlandanna.

Evrópusambandsaðildarsinnar hér á landi leggja á það áherslu að ná til ungs fólks með áróðursmilljónunum frá ESB. Unga fólkið hér á landi ætti þó að hafa það hugfast hversu bágar aðstæður jafnaldra þeirra eru víða í Evrópu. Jafnframt skulum við hafa það hugfast að  vera Íslands utan gjaldmiðilsbandalagsins kemur í veg fyrir að sams konar ástand skapist hér á landi.

Sjá: http://www.europaportalen.se/2012/10/ungdomsarbetsloshet-dyrare-an-eu


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þau lönd ESB þar sem atvinnuleysið er minnst eru öll með evru. Þetta eru Austurríki, Holland, Lúxemborg, Þýskaland og Malta.

Ef farið er út fyrir ESB í Evrópu er sama upp á teningnum. Þar er atvinnuleysið minnst í örríkjunum  Andorra, San Marínó, Monaco og Lichtenstein sem eru með evru nema Lichtenstein sem er með svissneskan franka. Hvítarússland er einnig i þessum hópi. 

Ef öll Evrópa er lögð undir er atvinnuleysið minnst í öllum þessum áðurnefndu löndum ásamt Noregi og Sviss. Ísland blandar sér einnig í hópinn skv allra nýjustu tölum.

Í Evrópu er atvinnuleysið mest í Kósovó og Bosníu. Næst koma Spánn, Grikkland og Serbía. Aðeins Spánn og Grikkland eru í ESB.

http://en.wikipedia.org/wiki/List_of_countries_by_unemployment_rate

Ásmundur (IP-tala skráð) 1.11.2012 kl. 08:59

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband