Traust á Alþingi

Forseti lýðveldisins ræddi um traust Alþingis í ræðu sinni við þingsetningu í vikunni. Viðbrögð manna við þeirri ræðu hafa verið blendin og þetta er ekki í fyrsta skipti sem Ólafur þykir færast nokkuð í fang. Í bloggheimum kváðu við reiðiraddir þar sem minnt var á að forsetinn gæti ekki skipað Alþingi fyrir og hefði sjálfur ekki verið neinn friðflytjandi á sínum þingmennskuárum. Áhugasamir geta lesið ræðuna hér en því fer fjarri að þetta sé með betri ræðum Ólafs.

Fullyrðingar um að Alþingi hafi sett niður fyrir deilur þarfnast frekari skoðunar. Í þeim hamförum sem hafa gengið yfir íslenskt stjórnmála- og efnahagslíf á þessari öld er vafamál að lognmolla hafi verið viðeigandi á Alþingi. Miklu frekar má halda því fram að einstakir þingmenn hefðu mátt gagnrýna af meiri krafti þegar bankar og ríkisstofnanir voru gefnir fjárglæframönnum og vildarvinum ákveðinna stjórnmálaflokka. Eða þegar hrunstjórn sjálfstæðismanna og krata flaut hér sofandi að feigðarósi fyrir fáeinum árum.

Að Alþingi hafi færst of mikið í fang orkar einnig tvímælis. Reyndin er sú að Alþingi er líkt og þjóðþing víða um heim orðið valdalítið og hefur á undanförnum árum látið það óáreitt að stofnanir, þrýstihópar og andlitslaust skrifræði stjórnsýslunnar dragi völdin til sín. Alþingi hefur ekki sett niður vegna dugnaðar eða þess að það ætli sér um of heldur vegna dugleysis.

En þá er ótalið það sem mestu varðar um það virðingarleysi sem Alþingi Íslendinga og kjörnir fulltrúar eiga við að búa. Þingmenn hafa einfaldlega ekki staðið við gefin loforð og hlaupist undan eigin stefnumálum í stóru og smáu. Eitt er að orðgífur kjördæmisþingmaður lofi brú eða göngum um fjörð og hálsa og ekkert verði svo úr. Slíkt er í öllum tilvikum aumkunarvert en kannski lítið umfram það.

Það sem er alvarlegast er þegar flokkar og framboð bjóða sig fram á tilteknum forsendum en segja svo allt í plati eftir kosningar. Flokkakerfið er eins og rammi utan um þetta fyrirkomulag þar sem þröngir hópar handvalinna einstaklinga á flokksþingum eru fengnir til að keyra í gegn afsakanir og stefnubreytingar eftir að atkvæði hafa verið veidd af almennum kjósendum. Við þetta bætist svo margskonar annað siðleysi þingmanna sem á Íslandi sitja þrátt fyrir að verða uppvísir að margskonar fjárglæfrum, afbrotum og afglöpum.

Við hér á Vinstri vaktinni höfum verið ódeig að minna í þessu sambandi á viðsnúning VG í ESB málinu. En dæmin eru miklu fleiri. Um áraraðir samþykkti Framsóknarflokkurinn að beita sér fyrir því afnema verðtrygginguna en varðmenn auðhyggjunnar í forystu flokksins og stöðvuðu framgang málsins. Þau svik voru afdrifarík þegar kom að hruni bankanna.

Samfylkingin hefur seint og snemma lofað breytingum í kvótakerfi sjávarútvegs en fól svo í haust bestu vinum LÍÚ innan flokksins að leysa málið. Hreyfingin (eða hvað sá flokkur nú heitir) náði áður óþekktum hæðum í hrossakaupum á Alþingi þegar á fyrstu misserum sinnar stuttu hérvistar.

Sjálfstæðisflokkurinn er í þessu efni sérstakur kapítuli en nafn sitt dregur flokkurinn af því að hafa alltaf svikið í sjálfstæðismálum ef hann hefur komið því við. Á sínum tíma lofaði flokkurinn að landið yrði ekki hersetið á friðartímum en gróf síðan um sig í hermangi. Þegar kom að EES samningi sneri flokkurinn við blaðinu á einni nóttu en sögur herma að þá hafi þurft tvær flöskur gráar ofan í þinghús til að koma svikunum í gegn.

Síðast átti flokkurinn sem kennir sig við Sjálfstæði það þeim Össurri og Ögmundi að þakka að honum tókst ekki að svíkja í ESB málinu eins og til stóð á janúarfundi 2009 - svo hann á þær skammir ódrýgðar. / -b.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Anna Sigríður Guðmundsdóttir

Eru Ögmundur og Össur ekki tryggustu ESB-burðar-hestarnir? Þeir tveir standa sig alla vega mjög vel í að rugla sjálfa sig, hvor annan og almenning.

Útkoman er afskaplega hringlandaleg og ótraustvekjandi, að mínu mati. En betur sjá augu en auga. Allir verða að þora að segja sína skoðun, og með heiðarlegan velvilja sem hvatningu að tjáningunni.

M.b.kv.

Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 17.9.2012 kl. 00:36

2 Smámynd: Helga Kristjánsdóttir

hættu þessu rugli,það verður hvert stjórnmálaafl að haga seglum eftir vindi,en er ekki að breyta um grundvallarstefnu. Hugsaðu þér að þú sért á siglingu og vá sé framundan,sker sem þú þekkir ekki staðsetningu á,þá bjargar þú áhöfninni með því að lúta leiðsagnar herafla sem ver skip þitt. Með því gerist þú ekki liðmaður þeirra.

Helga Kristjánsdóttir, 17.9.2012 kl. 01:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband