Þar sem sumir eru jafnari en aðrir

Hin gömlu sannindi Félaga Napóleons um jafnréttið kristallast nú í meðferð Frakka á Róma fólki. Það eru semsagt allir jafnir en sumir eru bara jafnari en aðrir. Hinar helgu reglur um frjálsa för fólks gilda ekki bara fólkinu í vil. Þegar um er að ræða óæðri kynstofna eins og sígaunana þá hafa stjórnvöld líka frelsi til að flytja fólk nauðungarflutningi til og frá um álfuna.

Þjóðernisflutningar á Rómafólkinu frá Frakklandi til Rúmeníu eru grátbroslegir. Kunnugir segja að þeir þýði það eitt að sama fólk taki lestina aftur til Frans og noti til farmiðakaupa smánargreiðslur Frakka sem hafa greitt til að koma þessu óæskilega fólki af sér.

Viðbárur franskra stjórnvalda um að fólk þetta sé heilsuspillandi minna óþægilega á eldra tal í sömu álfu um óæskilega þjóðernisminnihluta. Vitaskuld er Rómafólkið ekki mjög borgaralegt í sínum háttum og fer sínar eigin leiðir í lífsbaráttunni. Um aldir hefur það haft ofan af fyrir sér með því að skemmta fólki og vinna ýmis smá viðvik. Eins og í öðrum söfnuðum finnst þar misjafn sauður í mörgu fé en að afgreiða heila þjóð sem glæpahyski er vitaskuld fyrir neðan allar hellur. Miklu nær er að vestræn samfélög virði sérstöðu þessa fólks og þann sérstæða menningarkima sem það stendur fyrir.

Óskemmtileg aðför að þessum hópi kallast á við umræðuna hér heima þar sem hægri pressan hefur ausið sér yfir hælisleitendur með fúkyrðum um að skilgreina beri hina landflótta menn sem glæpafólk. Einstaklingum sem ekki er lengur vært í sínu föðurlandi eiga sér ekki margra kosta völ. Það að slíkt fólk leiti leiða til að komast landa í milli er hluti af eðlilegri sjálfsbjargarviðleitni og getur verið hluti af baráttu upp á líf og dauða. Baráttu þar sem lög allra landa eru sett til höfuðs viðkomandi.

Okkur, afkomendum norrænna afbrotamanna sem flýðu ríki Haraldar lúfu stendur nær að sýna fólki þessu skilning og opna því eftir því sem við getum leið til þess að lifa mannsæmandi lífi á jörðu sem sem það á alveg jafn mikinn rétt til og við hin. / -b.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er Vistrivaktin orðin uppiskroppa með umfjöllunarefni?

Í dag er verið að kenna ESB um aðfarir Frakka þó að ESB hafi harðlega vítt Frakka fyrir tiltækið.

Í gær var verið að að rifja upp nítján ára gamla skýrslu þar sem hreinskilnislega var farið yfir leiðir til að afla sambandinu fylgis án þess að beita óheiðarlegum brögðum.

Í fyrradag var fjallað um hættuna á að evrukreppan hefði þau áhrif að Romney næði kjöri sem forseti Bandaríkjanna, rétt eins og það væri þá ESB að kenna.

Er virkilega ekki hægt að finna neitt bitastætt á ESB?  

Ásmundur (IP-tala skráð) 10.8.2012 kl. 14:19

2 Smámynd: Gunnlaugur I.

Það sem þið bendið réttilega á hér á Vinstri vaktinni, er það að sumir eru nefnilegja "jafnari" en aðrir í þessu ofurríkja sambandi ESB og þar eru þær systur hrokinn og hræsnin sem stjórna gerðum Valdaelítunnar.

Af því að Frakkland er stórt og eitt af gömlu nýlenduveldum Sambandsins sem nú þverbrjóta mannréttindi á minnihlutahópum, þá er það látið viðgangast með einhverju umli og málamynda mótmælum.

Ef þetta væri smáríki innan Sambandsins s.s. eins og Danmörk eða eitthvað af smáríkjum Austur Evrópu þá væru þau úthrópuð og og beitt refsiaðgerðum og dregin fyrir Evrópudómsstólinn.

En það mun aldrei ske í tilfelli Frakklands eða Þýskalands, þar sem það hefur margsýnt sig að hjá ESB Elítunni í Brussel sumir eru þar miklu æðri og "jafnari" en aðrir !

Það er punkturinn sem ESB dindillinn Ásmundur Harðarson nær ekkert í þessari færslu !

Gunnlaugur I., 10.8.2012 kl. 14:50

3 Smámynd: Elle_

´Ásmundur´, láttu ekki svona.  Endalausir pistlar hafa verið skrifaðir um forsjárpólitíska og ólýðræðislega veldið ykkar, stjórnað af ókosnum og valdaóðum mönnum.  Og mestmegnis af stærstu veldunum.

Elle_, 10.8.2012 kl. 15:07

4 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Hvað er mannsæmandi líf - og hvenær er mannsæmandi líf?  Mér finnst alltaf fullmikið í lagt að líkja landnemum Íslands við flóttamenn nútímans. 

Landnámsmenn tóku með sér það sem þeir áttu til þess að yrkja nýtt land og  fengu hvorki meðgjöf frá gamla landinu né stuðning innfæddra í nýja landinu. 

Flóttamenn treysta á forsjá þeirra sem fyrir búa í landinu.  Þeir taka ekki með sér verkfæri,  timbur í hús eða búpening til þess að lifa af.   Ekki einu sinni framfærslueyri og sjaldnast gilda persónulega pappíra.

Ef okkur ber siðferðileg skylda til þess að greiða skuld forfeðra okkar fyrir landnámið, þá getum við hugsanlega gert það með því að ríkissjóður  kaupi  Grímsstaði á Fjöllum, bjóði flóttamönnum jörðina til afnota þannig að þeir geti skapað sér mannsæmandi líf á eigin forsendum.  Reyndar félli mér betur sú aðferð en að selja jörðina útlenskum auðjöfrum.

Nú, svo eru líka hinar blómlegu Hornstrandir á lausu...

Kolbrún Hilmars, 10.8.2012 kl. 16:51

5 identicon

Hvers vegna eru andstæðingar ESB-aðildar Íslands alltaf að beita blekkingum?

Er málstaðurinn svo veikur að þeir telja nauðsynlegt að fegra hann svo að hann falli í kramið? 

Að Frakkar og Þjóðverjar komist upp með ýmislegt sem minni þjóðir geta ekki leyft sér er einfaldlega rangt enda stríðir það gegn lögum ESB, hvernig það er byggt upp og hvernig það starfar. 

Það hefur vakið athygli hve vel minnstu þjóðunum hefur gengið í ESB. Margir áhrifamiklir einstaklingar hafa komið úr þeirra röðum. Íslendingar munu bera mest úr býtum með aðild enda sláum við þrjár flugur í einu höggi: 

Við fáum sterkan gjaldmiðil með öllu sem því fylgir. Við fáum vandað lagasafn. Og við fáum nauðsynlega bandamenn. Ein á báti með ónýta krónu og hrákasmíðslög erum við eins og korktappi í ólgusjó. Enginn veit hvar hann rekur á land. 

Er Gunnlaugur að reyna að bjarga Vinstrivaktinni með því að gefa í skyn að hún hafi átt við að Frakkar væru jafnari en minni ESB-þjóðir en ekki sígaunar?  

Sígaunar voru það. Ég sé enga ástæðu til að ætla að Vinstrivaktin standi ekki við það. Þetta er hins vegar endurtekið efni og með enga neikvæða tengingu við ESB.   

Ásmundur (IP-tala skráð) 10.8.2012 kl. 17:22

6 Smámynd: Gunnlaugur I.

Áwmundur - Þér er vorkunn ESB þrá þin er aumkunnarverð !

Gunnlaugur I., 10.8.2012 kl. 21:10

7 Smámynd: Bragi

Ásmundur:

Ég held að sumir andstæðingar ESB-aðildar, líkt og sumir sem eru með aðild, beiti blekkingum ef það má kallast það (fremur en fávisku), alveg jafn mikið.

Þú verður að fara að hætta að tala um evru sem sterkan gjaldmiðil, hann verður aldrei sterkari en veikasti hlekkurinn, sér í lagi þar sem tilfærslukerfi ríkir ekki innan sambandsins (og engin pólitísk samstaða er og verður um). Evran fékk 10 ár í góðæri án vandræða og þetta er í fyrsta skipti sem vandamál steðja að honum og það virðist alls ekki ganga nógu vel. Við vitum öll að evran er rosalega stór og þar af leiðandi tiltölulega stöðugur gjaldmiðill. Það hefur bara ekkert að segja með raunhagkerfin og hvernig þeim reiðir af!

Vandað lagasafn segirðu. Gott og vel, það er auðveldlega hægt að fallast á slíkt m.v. íslenska lagasafnið held ég, án þess að vera lögfræðingur.

Krónan er ekki ónýt. Ég vil gjarnan biðja þig um að rökstyðja mál þitt varðandi það.

Bragi, 10.8.2012 kl. 22:56

8 identicon

Bragi, þú spurðir mig meðal annars þessarar sömu spurningar 24. júlí sl og fékkst þá eftirfarandi svar:

Bragi, gerirðu þér ekki grein fyrir að vegna krónunnar tapaði mikill fjöldi fólks margra milljóna eignarhlut sínum í íbúð og sat í staðinn upp með milljóna skuldir umfram íbúðarverðið?

Lántaka í krónum er með öðrum orðum mikið fjárhættuspil. Slíkur gjaldmiðill er ónothæfur.

Vegna smæðar sinnar sveiflast gengi krónunnar miklu meira en gengi stærri gjaldmiðla, sérstaklega ef hún er á floti. Það veldur miklu meiri verðbólgu hér en annars staðar.

Sveiflurnar skapa einnig tækifæri fyrir braskara til að græða á þeim á kostnað almennings. Jafnvel erlendir vogunarsjóðir flytja þannig formúur úr landi.

Miklar gengissveiflur eru stórhættulegar. Þær geta valdið panik á markaði svo að gengið fellur niður úr öllu valdi, oft með skelfilegum afleiðingum. Þannig hefur krónan hrunið allavega þrisvar síðustu áratugina um meira en helming á tólf mánaða tímabili.

Það hefur oft verið reynt að fastbinda gengi krónunnar en það hefur alltaf mistekist og endað með mikilli gengisfellingu. Það er sjálfsblekking að reyna það einu sinni enn. Mikil viðskipti við útlönd og smæð gjalmiðilsins gera fast gengi óraunhæft.

Gengi krónunnar hrundi áður en bankarnir hrundu. Hrun krónunnar olli miklu vantrausti erlendis á íslensku efnahagslífi og átti þannig þátt í hruni bankanna.

Hrun á gengi krónunnar veldur mikilli verðhækkun á innfluttum vörum og erlendum skuldum (talið í krónum). Erlendar skuldir geta því orðið óyfirstíganlegar vegna hruns á gengi krónunnar.

Allt tal um að krónan hafi bjargað okkur i hruninu byggist á misskilningi. Ef við hefðum haft evru hefðu skuldir ekki hækkað. Þá hefði ekki þurft að afskrifa þessi ósköp. Afleiðingar hrunsins hefðu því ekki lent á almenningi og fyrirtækjum í nærri jafnríkum mæli og með krónu.

Vegna hruns krónunnar stórgræða útflutningsfyrirtækin á kostnað almennings. Fyrir utan að fá miklar afskriftir tvöfölduðust tekjur þeirra þegar gengið féll um helming.

Þannig hafa miklar gengisbreytingar í för með sér miklar og óheppilegar fjármagnstilfærslur.

Ég sé því alls ekki að við hefðum verið verr sett með evru eftir hrunið. Svo er alls ekki víst að það hefði orðið neitt hrun ef við hefðum verið með evru. Allavega hefði það ekki verið nærri eins alvarlegt.

Skaðsemi gjaldeyrishafta er margvísleg. Í fyrsta lagi gera þau Ísland litt eftirsóknavert til að eiga viðskipti við. Höft hafa því óheppileg áhrif á gengi krónunnar og lánskjör fyrir utan að viðskiptatækifæri geta hæglega glatast.

Gjaldeyrishöft valda því að erlendur gjaldeyrir kemur ekki til landsins. Menn geyma hann í útlöndum frekar en að taka þá áhættu að verða innlyksa með hann hér heima.

Gjaldeyrishöft hafa tilhneigingu til að versna eftir því sem þau dragast á langinn og fleiri sjá við þeim. Þau valda versnandi lífskjörum enda eru þau í raun stríð sem er dæmt til að tapast. 

Ásmundur (IP-tala skráð) 10.8.2012 kl. 23:41

9 Smámynd: Elle_

Eg sættist ekki heldur á samlíkingu milli flóttamanna og forfeðra okkar og neita nokkurri ábyrgð á glæpum feðranna.  Og hvað er meint með hægri-pressunni?  Svo skil ég ekki, Bragi, hvaða blekkingar andstæðingar þvingunarveldisins hafa verið með, þó blekkingar hinna blasi við eins og eldrauður fáni.

Elle_, 11.8.2012 kl. 12:07

10 Smámynd: Elle_

En til að valda ekki misskilningi, var ég ekkert að ofan að tjá mig um flóttamenn sem hingað koma, nema líkinguna við landnema.  Við eigum að sjálfsögðu að taka á móti alvöru-flóttamönnum, meðan við, 300 þúsund sálir getum. 

Frávita siðspilltir embættis- og stjórnmálamenn, hægri-menn og vinstri-menn og allt þar í milli, eru hinsvegar að moka peningum okkar í rugl eins og Brussel-fáráðið, gleðidaga (ekki fá eldri borgarar og öryrkjar neitt slíkt) og forljóta kumbaldinn við sjóinn.  (Og talandi um hægri, er ekki Brussel-bleðill Jóns Á. Jóhannessonar hægri-pressa?  Það hlýtur að vera þar sem sá bleðill berst fyrir menn eins og hann við að troða landi okkar inn í brusselska stór-kapítalismann.)

Nú vantar bara að moka í ICESAVE svo örugglega verði ekki hægt að endurnýja lífsnauðsynleg lækningatæki og örugglega verði að loka öllum spítölum landsins.

Elle_, 11.8.2012 kl. 14:28

11 Smámynd: Bragi

Ásmundur:

Þú virðist halda að verðtryggingin þurfi að vera til staðar vegna íslensku krónunnar. Til eru smærri gjaldmiðlar en íslenska krónan þar sem verðtrygging er ekki til staðar. Það var svo fyrir 30 árum að verðtryggingin var (ef til vill) góð hugmynd en ekki núna. Gríðarleg hugsanaskekkja margra ESB aðildasinna að verðtryggingu þurfi hér vegna gjaldmiðilsins.

Gengi krónunnar sveiflast meira já. Það sem ég myndi vilja sjá er auðlindasjóður sem væri notaður til að jafna gengi krónunnar. Við höfum ekkert minni náttúruauðlindir per capita en Norðmenn, við erum bara vanþróðari vegna barnalegra stjórnmála og spillingar vegna náinna tengsla. Þetta er allt saman hægt að laga. Það væri mjög athyglisvert að sjá hvað það er, fyrir utan gengissveiflur, sem skapar verðbólgu hér heima fyrir, en verðtryggingarkerfið a örugglega sinn þátt í því að blása upp verðbólguna.

Það þarf ekkert endilega að fastbinda gjaldmiðilinn, það er hægt að hafa svokallað managed float, myndi örugglega henta íslensku krónunni vel og ég hugsa að það verði stefna sem SÍ endar með að fara.

Berðu saman Ísland og Írland. Ef við hefðum verið í ESB hefðum við beinlínis þurft að taka ábyrgð á bankakerfinu okkar og atvinnuleysi væri að öllum líkindum enn á uppleið í stað þess að vera á niðurleið. „Hrun“ Írlands (lesist langvarandi niðursveifla) hefur leitt til meiri lífskjaraskerðingar en gerðist á Íslandi, þrátt fyrir mun stærra bankakerfi hér heima fyrir. Það ætti að segja ansi margt.

Það er mikil hugsanaskekkja að útflutningurinn hjálpi ekki almenningi í landinu, hvet þig til að kynna þér það betur.

Gjaldeyrishöfin voru nauðsyn á sínum tíma. Alveg jafn mikil nauðsyn að losna við þau (að mestu leyti) á næstkomandi misserum. Skoðaðu, http://en.wikipedia.org/wiki/Capital_controls#Free_movement_of_capital_and_payments um kosti og galla gjaldeyrishafta. Auðvitað búum við núna við mjög ströng gjaldeyrishöft, sem brengla verð á mörkuðum, en það er ekki eins og það sé ekki verið að gera neitt í þessu, t.d. fjárfestingarleið SÍ sem er fyrsta skrefið í afnámi hafta.

Bragi, 11.8.2012 kl. 16:42

12 identicon

Bragi, því miður er verðtrygging nauðsynleg meðan krónan er gjaldmiðillinn okkar. Það er þó jákvætt að gefa fólki einnig kost á óverðtryggðum lánum. En það er fráleitt að banna verðtryggingu krónulána. 

Þegar verðbólgan hækkar mikið þurfa vextir á óverðtryggðum lánum að hækka samsvarandi. Þá verða greiðslur svo háar að fólk flest getur ekki staðið í skilum.

Verðtrygging tryggir jöfnustu greiðslubyrðina. Hún gerir mörgum kleift að taka lán sem þeir hefðu annars ekki efni á vegna of þungrar greiðslubyrði fyrstu árin og þegar verðbólgan fer á flug.

Verðtrygging er leiðrétting en ekki hækkun. það er því rangt að tala um að hún valdi verðbólgu.

Mikið hefur verið gagnrýnt að ýmsar hækkanir valdi hækkun á verðtryggðum lánum. Menn hafa gengið svo langt að reikna út að ef þetta og hitt væri ekki í vístölunni á þá hefðu lán hækkað svo og svo mikið minna.

Þetta eru hins vegar rangar ályktanir vegna þess að menn gleyma að ef einn eða fleiri liðir eru teknir út úr vístölunni hækkar vægi hinna.

Mikil verðbólga yfir lengri tíma litið er óhjákvæmileg með krónu. Ég get útskýrt það nánar ef þú vilt. Þetta er reynsla margra fámennra ríkja sem hafa tekið upp stærri gjaldmiðil. En auðvitað er ekki smæð gjaldmiðilsins það eina sem skiptir máli í þessu sambandi.

Fyrir utan smæð krónunnar gera mikil utanríkisviðskipti og miklar erlendar skuldir okkur sérstaklega berskjölduð gagnvart gengissveiflum.

Við höfum nú þegar gjaldeyrisvarasjóð meðal annars til að jafna sveiflur á gengi krónunnar. Það er hins vegar hætt við að hann dugi skammt þegar illa árar einkum þegar erlendir vogunarsjóðir og aðrir ákveða að notfæra sér veikleika krónunnar.

Það er einnig mjög kostnaðarsamt að halda úti gjaldeyrisvarasjóði. Með sterkum gjaldmiðli getum við notað hann til að greiða skuldir og spara þannig tugi milljóna á ári í vaxtakostnað.

Það er því ljóst að það er bráðnauðsynlegt að kasta krónunni við fyrsta tækifæri og taka upp nothæfan gjaldmiðil. Eini kosturinn sem er í boði sem með seðlabanka sem bakhjarl er evran.

Þangað til við getum tekið upp evru eru möguleikar á að krónan komist í skjól hjá ECB fljótlega eftir inngöngu okkar í ESB.

Það er bráðnauðsynlegt að losna sem fyrst við það spilavíti sem krónan er. Það er ekki nóg með að fjársterkir aðilar spili á gengi krónunnatr á kostnað almennings heldur tekur almenningur gífurlega áhættu með því einu að taka krónulán til íbúðakaupa.

Með upptöku evru verður það liðin tíð að eigið fé í íbúð, sem búið er að greiða af í mörg ár, verði að engu og skuldir vaxi upp úr öllu valdi svo að jákvæð eignastað verður neikvæð svo að nemur mörgum milljónum.        

Ásmundur (IP-tala skráð) 12.8.2012 kl. 10:55

13 Smámynd: Bragi

Það er alrangt hjá þér að verðtrygging þurfi að vera til staðar hér vegna krónunnar. Ekki trúa öllu sem þú lest í blöðunum. Þegar verðbólga hækkar hækka greiðslur á breytilegum lánum en mörg óverðtryggð lán hafa fasta vexti til einhvers tíma. Einnig hefur komið fram í umræðunni að ef þú greiðir af föstum vöxtum t.d. til 5 ára af óverðtryggðu láni, þá megi vextirnir hækka ansi mikið eftir 5 ár til að raungreiðslubyrðin verði sú sama og var í byrjun lánstíma.

Verðtrygging tryggir jafna greiðslubyrði já. Raunvextir verðtryggðra lána hafa ekki reynst lægri en raunvextir óverðtryggðra lána, sem brýtur gegn lögmáli Fishers. Það eitt og sér segir okkur að eitthvað mikið sé að. Einnig er bjögun í verðbólgumælingum upp á við, sem ekki er leiðrétt fyrir í verðtryggðum samningum.

Þegar ég segi að verðtrygging valdi verðbólgu á ég við þetta: 3,5% lágmarksávöxtunarkrafa lífeyrissjóða, sem kaupa svo meirihluta ríkisbréfa, ýtir öðrum markaðsvöxtum upp. Það veldur því að fólk tekur frekar verðtryggð lán fremur en óverðtryggð. Vegna þess að engar reglur eru um verðtryggingarjöfnuð bankanna, sem er svo stór hluti af þeirra eigið fé, hvetur það bankana til verðbolguhvetjandi starfsemi. Það leiðir svo til að SÍ þarf að hækka vexti en vegna þess að greiðslubyrði verðtryggðra lána breytist lítið sem ekkert skuldsetur fólk sig enn meira, sem leiðir svo til meiri verðbólgu, sem leiðir svo til að SÍ þarf að hækka vexti enn meira en ella. Mikil verðbólga með krónuna er ekki óhjákvæmileg, það eru til lausnir en þær lausnir þurfa að fara í gegnum stjórnmálamenn okkar.

Ég er að tala um auðlindasjóð til að jafna gengið, en auðlindasjóðurinn myndi auðvitað sýna af sér einhverja ávöxtun, rétt eins og olíusjoður Norðmanna gerir í venjulegu árferði.

Hugsðu svo málið af hverju auðlindahagkerfi hafa fremur viljað sjálfstæðan gjaldmiðil en að fara í myntsamstarf. Telurðu að það sé tilviljun?

Til að lækka verðbólgu og vexti hér heima þarf: 1) Auðlindasjóð, 2) Losna við lágmarksraunávöxtunarkröfu lífeyrissjóða og 3) Afnám verðtryggingar. Við kæmumst ansi langa leið nálægt lágri verðbólgu og vöxtum ef þetta væri framkvæmt.

Evrusvæðið er stórhættulegt jarðsprengjusvæði þar sem bankarnir hafa enn meiri völd en innlendu bankarnir hér heima. Það er hreint út sagt brjálæði.

Bragi, 12.8.2012 kl. 13:44

14 identicon

Bragi, ég rökstuddi í fyrri athugasemd minni hvers vegna krónan krefst verðtryggingar. Það  hefur ekkert að gera með hvað ég hef lesið í blöðunum.

Þegar verðbólgan fer á skrið verða vextir að hækka svo mikið á óverðtryggðum lánum að greiðslubyrðin verður flestum óviðráðanleg.

Auk þess er ljóst að vegna þess að greiðslubyrði óverðtryggðra lána er miklu meiri en verðtryggðra lána fyrstu árin verður lánsupphæðin sem menn ráða við miklu minni en á verðtryggðum lánum.

Margir myndu því ekki ráða við að kaupa íbúð ef verðtryggingin er afnumin.

Það er að vísu ein leið út úr þessu. Hún er sú að menn borgi ekki nema hluta þessara greiðslna þannig að afgangurinn leggist á höfuðstólinn. En þá erum við komnir í svipaða stöðu og með verðtryggð lán. Lánin hækka.

Það eru engin rök fyrir því að óverðtryggð lán eigi að hafa lægri raunvexti en verðtryggð lán. Ástæðan fyrir því að þeir hafa verið hærri er óvissan um verðbólguna framundan. Bankarnir áætla hana því í hærri kantinum til að hafa vaðið fyrir neðan sig.

Markmið lífeyrissjóðanna um 3.5% raunávöxtun á bæði við um verðtryggð og óverðtryggð skuldabréf. Þetta er bara markmið sem ekki er víst að náist hverju sinni.

Það næst ekki um þessar mundir enda eru vextir háðir framboði og eftirspurn eftir skuldabréfum. Ávöxtunarkrafa ríkisskuldabréfa er langt undir 3.5% í dag. 

3.5% ávöxtunarkrafa lífeyrissjóðanna er því ekki verðbólguhvetjandi. Það er skylda lífeyrissjóðanna að ná eins hárri ávöxtun og þeir geta.

Þeir hafa auðvitað fullt frelsi til að setja sér sín markmið. Ef vextirnir verða lægri en 3.5% til lengri tíma verður að lækka lífeyrisgreiðslur.

Aðalástæðan fyrir því að vextir hafa þurft að vera háir á Íslandi er krónan. Krónan nýtur eðlilega miklu minna trausts en margfalt stærri og stöðugri gjaldmiðlar.

Þegar engin gjaldeyrishöft eru verða vextir innanlands því að vera hærri en erlendis til að koma í veg fyrir fjármagnsflótta úr landi. Hærri vextir vega upp á móti minna trausti og skapa jafnvægi á markaði.

Mikil verðbólga er óhjákvæmilegur fylgifiskur krónunnar eins og nærri aldar reynsla sýnir. Ástæðan er gengissveiflur. Þegar gengi krónunnar lækkar hækka innfluttar vörur. Það veldur verðbólguskoti.

Þá kemur þrýstingur á að leiðrétta kaupmátt launa sem endar með launahækkunum. Þær valda svo aftur verðbólguskoti.

Þegar gengi krónunnar hækkar ganga þessi áhrif ekki tilbaka. Þó að innflutningsverð lækki kemur það ekki fram í lægra verðlagi hér heima vegna aukinnar eftirspurnar og vegna tregðu verslana til að lækka verð. Og laun eru að sjálfsögðu aldrei lækkuð.

Þannig valda gengissveiflur verðhækkunum þegar gengi krónunnar lækkar en ekki verðlækkunum þegar gengið hækkar. Niðurstaðan er því miklu meiri verðbólga en þar sem gengissveiflur eru miklu minni.

Hvort þú kallar gjaldeyrisforðann auðlindasjóð eða gjaldeyrisvarasjóð er aukaatriði. Það er hins vegar ljóst að ef hann á að nýtast til að jafna gengissveiflur verður hann alltaf að vera til taks.

Það er því ekki hægt að reikna með hárri ávöxtun á honum. Vaxtamunurinn verður mikill eins og hann er í dag. Það nemur kostnaði upp á tugi milljarða 

Verðtryggingin var sett á til að koma í veg fyrir mikla verðbólgu. Það tókst. Verðtryggingin hafði einnig þau áhrif að bankarnir fóru að lána til langs tíma en ekki aðeins örfárra ára eins og fram að því.

Það skýtur því skökku við að nú sé ráðið til að minnka verðbólguna að afnema verðtryggingu. Það eru engin rök fyrir því að það gangi upp.

Að tala um evrusvæðið sem stórhættulegt jarðsprengjusvæði osfrv eru hrein öfugmæli enda hefur verðbólga verið mjög lítil á svæðinu auk þess sem vextir hafa verið lágir.

ESB-aðild mun því ekki aðeins tryggja okkur stöðugleika heldur einnig miklu lægri raunvexti. Meiri samkeppni banka á evrusvæðinu en hér leiðir til betri lánskjara.

Ástandið á evrusvæðinu í dag skiptir ekki máli því að ekki stendur til að ganga í ESB fyrr en eftir nokkur misseri. Svo er enn lengri tími þangað til hægt er að taka upp evru.

Ásmundur (IP-tala skráð) 12.8.2012 kl. 22:36

15 Smámynd: Bragi

Þú ert alveg úti á þekju, Ásmundur. En jæja, þú verður að eiga það við sjálfan þig.

Bragi, 13.8.2012 kl. 00:02

16 identicon

Svo að þú átt enginn mótrök. Átti svo sem ekki von á því. Samhryggist þér samt.

Þú ættir að læra að hugsa dæmið til enda og láta ekki óskhyggju leiða þig af sporinu. Það hittir þig alltaf að lokum.

Ásmundur (IP-tala skráð) 13.8.2012 kl. 00:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband