Stuðlar ESB að friði?
23.6.2012 | 12:26
Það er að verða grátlegt að horfa upp á hvernig öll gagnrýni ESB andstæðinga undanfarinna ára og áratuga reynist nú réttmæt og vel það. ESB sinnar halda þó enn í mítur eins og þær að ESB sé friðarbandalag. Betur að satt væri.
Vitaskuld skapar aukið samstarf og aukin viðskipti milli þjóða frið en því fer þó fjarri að Evrópusambandið hafi tryggt frið í allri Evrópu. Evrópusambandið hefur haft þann háttinn á að forðast öll ófriðarsvæði s.s. á Balkanskaganum þegar þar geysaði stríð og hefur síður en svo haft friðaráhrif á rússneska björninn, sem ekki myndi þó af veita.
En nú eru aðrar blikur á lofti. Víðsvegar um Evrópu rísa upp hægri öfgaflokkar lítt friðvænlegir. Og þá er eðlilegt að spurt sé hvað valdi. Stærsta ástæða þess að þjóðernisbullur hverskonar vakna nú upp og tosa til sín fylgi er sú stefna ESB að ganga að þjóðríkinu í Evrópu dauðu með fullveldisframsali og Brussel stórríki.
Evrópska þjóðríkið er í reynd grunnur að því lýðræðis- og mannúðarsamfélagi sem einkennt hefur Vesturlönd 20. aldar. Það að brjóta þetta kerfi niður er mjög öfgafull og lítt friðvænleg stefna. Öfgar stórríkisins laða vitaskuld fram andstæða öfga og því miður verður niðurstaðan allt annað en friðvænleg fyrir álfuna.
Eins og áður hefur verið rakið á þessari síðu hefur Evrópusambandið í reynd lagt álfuna alla undir kapítalísk yfirráð Norður Evrópumanna, þá einkanlega Þjóðverja. Jafnframt því að brjóta niður atvinnuvegi Suður Evrópu hefur evruskipulagið galopnað alla markaði fyrir hinum ráðandi hluta evrusamstarfsins í norðri.
Það er ekki ástæða til að ætla þýskum stjórnmálamönnum eða helstu hugmyndafræðingum ESB að þeir hafi vitandi vits lagt upp í vegferð til að ryksuga upp hagkerfi Suður Evrópu. En hin kapítalíska vél skynjaði það og vinnur sitt verk af miskunnarleysi auðhyggjunnar.
Eftir standa samfélög sem hafa verið svipt öllu sínu, niðurlægð og fátæk. Ef einhver heldur að slík meðferð sé uppskrift að friði þá skjátlast þeim hinum sömu!
Athugasemdir
Það er því miður allt rétt sem kemur fram í þessum pistli.
Þegar samfélagstilveruréttur venjulegs og heiðarlegs fólks er gerður að engu fyrir heims-bankaræningja-kerfið, þá er gjaldið fyrir friðinn svo dýru verði keypt, að betra er að yfirgefa hótel jörðina, með öllu sínu græðgi-plássleysi.
Sumir halda að þrælahald hafi verið afnumið í siðvillta Vestrinu, en það er svo sannarlega rangt. Nú eru heimsbankaræningjarnir hinir "siðmenntuðu" og háskólamenntuðu þrælahaldarar, sem mafía heimsins hefur keypt til að misnota sína menntun, til að blekkja og ræna almenning.
Þetta er viðbjóðslegt heims-samfélag, og einskis virði fyrir heiðarlegt og velviljað fólk.
M.b.kv.
Anna Sigríður Guðmundsdóttir, 23.6.2012 kl. 16:22
Sammála, þetta getur ekki endað nema á einn veg ef banksterar ESB sjá ekki að sér, en það er með borgarastyrjöldum og blóðsúthellingum.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.6.2012 kl. 20:28
Forðum okkur hættu frá!!! Það er aðeins mögulegt með stjórnarslitum.
Helga Kristjánsdóttir, 24.6.2012 kl. 03:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.