Ný nýlendustefna í veiðum ESB undan Afríkuströndum
3.5.2012 | 11:54
Í DV í gær er fjallað um mál sem hefur fengið furðu litla umfjöllum hér á landi fram til þessa. Þetta eru veiðar ESB undan Afríkuströndum. Fyllilega löglegri samningar hafa verið gerðir en þegar rýnt er í þá verður ekki annað séð en þarna sé á ferðinni ný nýlendustefna, í þetta sinn á vegum ESB en með ýmsum þátttakendum.
Því miður taka Íslendingar þátt í þessum umdeildu veiðum og það er einkum sá þáttur málsins sem vakið hefur athygli hér á landi, meðal annars sá gróði sem af veiðunum hefur verið. Siðferðisspurningar og umræða um hvort búið sé að endurvekja nýlendustefnu Evrópu í nýrri mynd, eru í bakgrunninum en ættu ekki síður að vera til umræðu og því er þessu máli hreyft hér.
Spánskur þingmaður, Raul Romeva, lét þessi orð falla um veiðarnar, þýðing úr umfjöllun DV:
Margir af þeim tvíhliða samningum um fiskveiðar sem Evrópusambandið hefur gert við þróunarríki eru ekkert annað en gróf ný gerð af nýlendustefnu með þeim er evrópskum fiskiskipum gert kleift að stunda rányrkju við strendur Afríku sem kemur niður á íbúum þessara landa sem reiða sig á fiskveiðar sér til framfærslu. Samningurinn á milli Evrópusambandsins og Marokkó er sennilega sá versti af þeim öllum þar sem ríkisstjórnin í Marokkó leyfir evrópskum fiskiskipum að veiða í lögsögu Vestur-Sahara sem hvorki sambandið né marokkóska ríkisstjórnin hefur réttmæta heimild til.
Þegar kom að endurnýjun samningsins undir lok liðins árs kom loks að því að ESB setti skilyrði um að rányrkju yrði hætt og að íbúar Vestur-Sahara myndu að einhverju leyti njóta góðs af arðinum sem stjórnvöld í Marokkó höfðu hirt. Viðbrögð Marokkó voru að vísa evrópskum skipum af svæðinu, nokkuð sem ef til vill hefur ekki gengið eftir ef marka má grein DV um veiðar Samherja þar um slóðir. Annars staðar við Afríkustrendur halda veiðarnar áfram samkvæmt samningum sem kallaðir hafa verið ,,gróf nýlendustefna" og vert er að fylgjast með hvort veiðar ESB við strendur Vestur-Sahara munu í raun leggjast af.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.