Ætlar VG að fórna sjálfu sér fyrir ESB umsóknina?
27.3.2012 | 14:09
Ekkert mál hefur leikið VG jafn grátt og ESB-umsóknin. Fólk með eðlilega rökhugsun fær ekki skilið af hverju flokkur með þá yfirlýstu stefnu að ESB-aðild þjóni ekki hagsmunum Íslendinga stendur ár eftir ár í aðildarviðræðum við ESB. Sú hrapallega mótsögn veldur síminnkandi trausti meðal kjósenda.
Skoðanakannanir sýna að væri nú kosið til þings fengi VG 10-12% fylgi en fékk 22% í seinustu kosningum. Aðeins ár er eftir til kosningar. Ef áfram fer sem horfir er framundan hjá VG eitt mesta hrun í fylgi stjórnmálaflokks sem sögur fara af á seinni áratugum og er þá meðtalið hrun framsóknar í kosningunum 2007 sem duttu úr tæpum 18% í tæp 12% og ultu um leið út úr ríkisstjórn.
Vissulega eru fleiri en ein skýring á hrynjandi fylgi VG. Meginskýringin er þó sú að mikill meiri hluti þjóðarinnar álítur ESB-málið langstærsta og örlagaríkasta átakamálið sem þjóðin stendur frammi fyrir. Jafnframt sýna kannanir að tveir þriðju hlutar landsmanna eru beinlínis andvígir aðild. Samfylkingin reynir aftur á móti að klóra í bakkann á grundvelli þess að þriðjungur þjóðarinnar er hlynntur ESB-aðild og flokkurinn er sá eini sem hefur aðild á stefnuskrá sinni.
VG hefur sett sig í þá stöðu að reyna að standa báðum megin víglínunnar, vera með aðildarumsókn en samt á móti aðild. Þess konar hringlandaháttur fer ávallt mjög fyrir brjóstið á venjulegu fólki. Æ færri taka þá skýringu gilda að við séum að kíkja í pakkann" sem ESB hefur upp á að bjóða. Þegar aðildarumsóknin var samþykkt fyrir bráðum þremur árum boðaði Össur að við fengjum hraðferð inn í ESB". Hrunið var efst í huga fólks og upptaka evru á næsta leiti. Því var harðneitað að þjóðin fengi neitt um það að segja hvort sótt yrði um aðild og ekki átti að leita álits landsmanna fyrr en gerður hefði verið samningur um inngöngu við 27 aðildarríki ESB.
Í gær lýsti Össur því hins vegar yfir á fundi utanríkismálanefndar Alþingis að litlar líkur væru á að aðildarviðræðunum yrði lokið fyrir næstu þingkosningar sem verða í seinasta lagi vorið 2013. Auk þess er löngu ljóst orðið að Íslendingar þyrftu að bíða eftir því í mörg ár frá því að samningur væri gerður að taka upp evru sem meiri hluti þjóðarinnar skv. könnunum vill reyndar alls ekki taka upp, jafnvel þótt það væri í boði.
Samfylkingunni tókst að böðlast af stað með þjóðina í eftirdragi í þennan vonlausa ESB-leiðangur með því að hengja rúmlega hálfan þingflokk VG aftan í sig. Sú ákvörðun hefur þegar reynst VG afar dýrkeypt og veldur nú síauknum hrakförum flokksins. Stjórnarflokkarnir tveir standa samanlagt með aðeins þriðjung þjóðarinnar að baki sér, hvort heldur reiknað er í samanlögðu flokksfylgi eða ESB-fylgi.
Enn er ráðrúm fyrir VG að segja: hingað og ekki lengra - og snúa aftur úr þessari feigðarför. Tilefnin blasa hvarvetna við: sú yfirlýsing Össurar að aðildarviðræðum geti ekki lokið á kjörtímabilinu er ágætt tækifæri til að taka málið allt endurskoðunar á Alþingi. Framganga ESB í makríldeilunni hefur sagt okkur Íslendingum sannleikann um það sem bíður okkar í sjávarútvegsmálum við inngöngu í ESB. Gjörbreytt viðhorf blasa við í gjaldmiðilsmálum og evrusvæðið riðar til falls. Allt eru þetta nægar ástæður fyrir forystu VG til að hverfa af villu síns vegar og reisa sig til sóknar í samræmi við raunverulega stefnu flokksins og vilja kjósenda. - RA
Athugasemdir
Ef það væri nú svo einfalt fyrir VG að taka bara upp nýjan kúrs í ESB málum.
Ef við lesum saman nýjan ESB kúrs VG, og orð Össurar, að ESB "samningur" liggi ekki fyrir næstu kosningar, hver er þá trygging kjósenda, að VG svíki ekki aftur gefin loforð eftir næstu kosningar?
Og ef við bætum í þetta ofuráherslu VG og Samfylkingar, að losna við Ólaf Ragnar, og kjósa einhvern "meðfærilegri", er þá ekki einsýnt að stefnubreyting svona rétt fyrir kosningar, yrði bara leikrit?
En vandræði VG eru alls ekki bara tengd ESB svikum. Ég held að þjóðin vilji ekki kjósa aftur yfir sig þann geysilega hroka sem meirihluti þingflokks VG hefur sýnt.
Það er engu líkara en nýjir þingmenn hafi tileinkað sér, og álitið, að framkoma Steingríms J, sé eðlileg framkoma á Alþingi. Enda er það nú svo, að hófsamara fólk hefur hrakist á brott, undir óbótaskömmum þeirra öfgafyllri.
VG er ónýtur flokkur. Engin stefnubreyting getur bjargað honum. Ef menn vilja gera aðra tilraun, væri reynandi að hreinsa út öfga- og ofstopamennina. Fremur tilgangslítið þó, því flokkurinn myndi bara klofna aftur, því harðlínufólkið gefur ekki eignarhaldið eftir átakalaust.
Hilmar (IP-tala skráð) 27.3.2012 kl. 16:11
Fool me once, shame on you.
Fool me twice, shame on me.
palli (IP-tala skráð) 27.3.2012 kl. 16:32
Þetta ESB faðmlag forystu VG við Samfylkinguuna er kæfandi faðmlag sem er nú þegar búið að gera út af við VG.
Forysta flokksins virðist algerlega sambandslaus við baklandið og grasrótina og kærir sig kollótta um þú þúsundir fólks og dugandi þingmenn og margir góðir og gegnir trúnaðar- og hugssjónafólk yfirgefi flokkinn í umvörpum. Þau virðast þvert á móti bara fagna og forherðast enn frekar í sjálfseyðingarhvötinni.
Og að binda allt sitt trúss við þessa lýðskrumara og tækifærissinna í Samfylkingunni er hreint út sagt alveg makalaust og það á eftir að hlakka í Samfylkingunni út af hrakförum VG og hvernig þeir fífluðu forystuna og lögðu vinstri græna flokkinn þeirra í rúst.
Síðan eiga þeir þá ósk heitasta að komast uppí með íhaldinu sem varaskeifa.
Ég er sammála öllu sem RA skrifar hér að ofan, gjörsamlega öllu, nema því að ég held reyndar að úr þessu verði feigum ekki forðað.
Gunnlaugur I (IP-tala skráð) 27.3.2012 kl. 17:21
Samfylkingin virðist hafa sömu áhrif og engisprettufaraldur.
Hún skildi við Sjálfstæðisflokkinn á þann hátt að eftirláta honum allar sameiginlegar syndir. Hið sama mun hún gera VG.
Verst að VG er svo lítill flokkur - hlutfallslega - að hann þolir það ekki.
Minn annar helmingur, sá vinstrisinnaði, stingur upp á því að heiðarlegir vinstri menn endurreisi gamla Alþýðubandalagið.
Kolbrún Hilmars, 27.3.2012 kl. 17:57
VG var fórnað við fyrstu lygar Steingríms í lögleysunni ICESAVE 3. júní, 09. Illa var aftur snúið. Og seinna gróf hann og meðhjálparar hans enn dýpri gröf með banka-skotleyfum á skuldara og Brussel-rugliinu. Þeir munu ekki komast aftur upp á yfirborðið.
Elle_, 27.3.2012 kl. 23:29
Sammála ykkur VG er orðin ónýtur flokkur alla leið, með fylgispekt sinni við Samfylkinguna og svikin við kosningaloforð sín.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 28.3.2012 kl. 00:57
Já af augljósum tilefnum,er e.t.v. ráðrúm fyrir V.G. að segja skilið við makker sinn,en Steingrím elta alvarlegu afglöpin,um fádæma ósvífin athæfi og má segja aðför að lýðræðinu. Blóðlangar að tala um pólitísku flokka fyrri ára,en veit að það tekur allt of langan tíma fyrir mig einputta,svona næstum. Ekki það að ég hefði ehv. sérstakan áhuga,en ólst upp við hlustun á eldhúsdagsumræður. Það var í lagi að hlusta þá ,en var slökkt,þegar mig langaði að hlusta á dægurtónlist á Laugardagskv. En ég hef það á syndaregistrinu að læðast fram opna útvarpið,stilla lágt og leggja eyrað að.( smá útúrdúr) Vona að þessi ríkisstjórn verði að steini,eins og tröllskessur sem komust ekki til fjalla fyrir sólarupprás í hvarf,svona í hindurvitnum.
Helga Kristjánsdóttir, 28.3.2012 kl. 03:46
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.