Taugatitringur hjá ESB-sinnum út af makríldeilu

Ef ESB réði makrílveiðum við Ísland skryppu tekjur landsmanna saman um 20 milljarða kr. Í ákafa sínum að stöðva veiðar Íslendinga hóta leiðtogar ESB að tengja saman makrílinn og ESB aðild. Ekki leynir sér að hrollur fer um forystumenn Samfylkingarinnar við þá tilhugsun.

Árangurslausum viðræðum til lausnar makríl-deilunni milli Íslands, Færeyja, Noregs og ESB lauk s.l. föstudag í Bergen. Daginn eftir sagði Friðrik J. Arngrímsson, framkvæmdastjóri LÍÚ að á fundinum hefði verið „afar langt á milli aðila". Eggert Benedikt Guðmundsson, forstjóri HB Granda, sagði á ÍNN s.l. miðvikudag að reikna mætti með því að Íslendingar hefðu fengið að veiða makríl fyrir um fimm milljarði króna á s.l. ári væru þeir í ESB, það er einn fimmta af því sem raunin varð.

Í október 2010 rituðu þrír framkvæmdastjórar ESB: Štefan Füle stækkunarstjóri, Maria Damanaki sjávarútvegsstjóri og Karel De Gucht viðskiptastjóri bréf til ríkisstjórnar Íslands þar sem þeir tengdu saman makríldeiluna, aðildarviðræðurnar og viðskiptahagsmuni Íslands gagnvart ESB.

Jón Bjarnason sagði í viðtali 7. janúar s.l. „Hótanir hafa komið beint frá æðstu yfirmönnum Evrópusambandsins um að þetta tvennt væri tengt [aðildarviðræðurnar og makríldeilan]. Ég gerði grein fyrir stöðu málsins í ríkisstjórn í byrjun desember að loknum árangurslausum fundi strandríkjanna á Írlandi. Um leið tilkynnti ég að við myndum taka okkur sömu hlutdeild 2012 og við höfum haft tvö undanfarin ár. Sumir ráðherrar voru mjög taugaóstyrkir yfir því að ákvörðun mín um makrílveiðarnar myndi hafa áhrif á ESB-viðræðurnar. Ég lagði mikla áherslu á að við stæðum á okkar rétti. Í beinu framhaldi af því að hafa gert ríkisstjórninni grein fyrir málinu gaf ég út makrílkvóta Íslendinga 2012. Það þarf að fara að undirbúa veiðarnar og ástæðulaust að láta þetta vera eitthvert vafamál."

Eins og kunnugt er var Jón Bjarnason settur af sem sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skömmu eftir áramótin að kröfu og vegna ákafs þrýstings frá forystuliði Samfylkingarinnar. Jón hefur að sjálfsögðu talið það skyldu sína að verja hagsmuni sjávarútvegs og landbúnaðar, en einmitt þessar tvær atvinnugreinar eru í langmestri hættu að verða fyrir stóráfalli við ESB-aðild. Enginn vafi leikur á því að ástæðan fyrir brottrekstri Jóns var fyrst og fremst sú að Jóhanna óttaðist mjög að Jón yrði þrándur í götu ESB-aðildar.

Jón taldi því öruggast að ákveða einhliða makrílkvóta fyrir árið 2012 áður en hann yrði rekinn úr embætti. Steingrímur J. Sigfússon, nýr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sat fundi í Brussel s.l. miðvikudag 25/1 og ræddi þar við háttsetta yfirmenn ESB, meðal annars Mariu Damanaki, sjávarútvegsstjóra ESB. Eftir fundinn sagðist Steingrímur hafa haldið fram því sjónarmiði að ekki mætti tengja makríldeiluna við aðildarviðræður ESB og Íslands.

Þetta er nú einmitt það sem yfirmenn ESB hafa gert og gera vaflaust áfram. Taugatitringur Jóhönnu og Össurar út af þessu máli er því skiljanlegur. Jóhanna hefur marglýst því yfir að klára verði málið fyrir næstu kosningar sem verða í seinasta lagi eftir rúmt ár og forsætisráðherrann er bersýnilega tilbúin að fórna hverju sem er til að sá draumur Samfylkingarinnar rætist.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Svavar Bjarnason

Er það ekki rétt að Norðmenn hafi verið harðastir gegn okkur í makríldeilunni?

Svavar Bjarnason, 30.1.2012 kl. 13:15

2 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Hamra skal þjóðrembinginn meðan hann er heitur.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 30.1.2012 kl. 13:24

3 identicon

@ Svavar Bjarnason, Norðmenn hafa hvorki verið neitt betri eða verri en ESB í þessu máli. Yfirleitt hefur okkur gengið ágætlega að leysa fiskveiðimál okkar við Norðmenn, samanber smuguveiðarnar, rækjuveiðar okkar við Svalbarða og loðnuveiðarnar.

@ Ómar Bjarki Kristjánsson, það er enginn þjóðrembingur að sjálfsstæð og fullvalda þjóð eins og Ísland standi á sínum lögvörðu sjávarútvegs hagsmunum sem við höfum samkvæmt alþjóða sáttmálum til að ákveða hvernig við stöndum að og hversu mikið magn við veiðum að einstökum fiskistofnum innan okkar eigin alþjóðlega viðurkenndu fiskveiðilögsögu.

Þessi mikilvægu og viðurkenndu alþjóðlegu réttindi höfum við einmitt af því að við erum sjálfsstæð og fullvalda þjóð og af því að við erum ekki hluti af ESB stjórnsýsluapparatinu. Annars myndi sjávarútvegsstofnun ESB úthluta okkur þeim smánar makríl kvóta sem þeim sýndist.

Sem betur fer er Ísland ennþá fullmektug og sjálfsstæð þjóð sem er stofnaðili að Sjávarútvegssáttmála Sameinuðu Þjóðanna.

Ég veit að Ómar Bjarki vill, gefa allt eftir þar á meðal þessi fiskveiðiréttindi okkar bara til þess að geta komið þjóðinni undir óskilvirkt og handónýtt Brussel valdið !

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 30.1.2012 kl. 14:51

4 Smámynd: Vinstrivaktin gegn ESB

Ómar Bjarki kýs frekar ESB-rembinginn en að standa með þjóð sinni í mikilvægu hagsmunamáli. Hins vegar er það hárrétt hjá Svavari Bjarnasyni að við eigum líka í deilu við Norðmenn, enda höfum við oft deilt við þá um fiskveiðimál, t.d. loðnuveiðar. En Norðmönnum hefur aldrei dottið í hug, eins og ESB er nú með í bígerð, að beita okkur valdi vegna veiða okkar í íslenskri lögsögu. Það gerir ESB vegna þess að þeir hafa vanist þeim hugsunarhætti að lögsaga aðildarríkjanna sé sameiginlegt ESB-haf sem þeir geti stjórnað að vild sinni, og svo er eins og þeir gleymi því að við erum ekki kominn í ESB og íhlutun í innanríkismál okkar er ósvífið brot á alþjóðalögum. - RA

Vinstrivaktin gegn ESB, 30.1.2012 kl. 15:53

5 Smámynd: Ómar Bjarki Kristjánsson

Þið eruð á villigötum meðvitað eða ómeðvitað.

Málið er þetta: Það er óásættanlegt að samtök sem kalla sig LÍÚ og hafa aðstöðu á Íslandi, rústi sameiginlegum stofnum sjávar. þetta er óásættanleg hefðun og í öllum eðlilegum ríkjum væri gripið fram fyrir hendurnar á slíkum vitleysingum. En það er ekki gert hér heldur er hamrað á þjóðrembingnum.

Úr því sem komið er er vondandi að EU reki nú hnefann niður í borðið og stoppi LÍÚ af fyrst stjórnvöld hérna i þessu svokallaði ríki eru ófær um það.

Ómar Bjarki Kristjánsson, 30.1.2012 kl. 16:17

6 identicon

ESB rembingur Ómars Bjarka Kristjánssonar keyrir nú um þverbak.

Nú krefst hann þess að ESB reki nú hnefann í borðið og stöðvi makríl veiðar íslendinga. Með að ESB reki nú hnefann í borðið þá á hann greinilega við að ESB fari gegn öllum alþjóða lögum og hafréttarsáttmála Sameinuðu Þjóðanna og stöðvi fullkomlega löglegar makrílveiðar íslenskra sjómanna innan okkar eigin fiskveiðilögsögu með hreinni valdbeitingu.

Slíkt er yfirgengilegt hatur hans í garð sinnar eigin þjóðar.

En geta má þess að þessar veiðar gáfu íslenska þjóðarbúinu 25 þúsund milljónir í hreinar gjaldeyristekjur á síðasta ári og hundruðum sjómanna, fiskvinnslufólks og annarra þjónustuaðila verðmæt störf og góðar tekjur.

Fyrirlitning og hatur Ómars Bjarka á sinni eigin þjóð á sér enginn takmörk og leynir sér ekki þegar að hann talar niður til þjóðar sinnar og kallar Ísland hið "svokallaða ríki"

En það er örugglega það sem hann vill að land okkar verði innlimað í ESB og verði þar "hið svokallaða ríki"

Hann gerir sér ekki grein fyrir að þessir veiðikvótar í makríl í íslenskri fiskveiðilögsögu eru gefnir út eftir ítarlegar vísindaránnsóknir og ráðgjöf okkar hæfustu fiskifræðinga og vísindamanna, sem reiknuðu það út að lungan úr síðasta sumri hafi verið um 1,200 þúsund tonn af þessum makríl vaðandi hér í okkar fiskveiðilögsögu.

Hann ætti að skoða betur hvernig sjávarútvegsstefna ESB miðstýringarinnar hefur gjöreytt mörgum helstu nytjastofnum þeirra og lagt sjávarútveg strandríkja þeirra í rúst og þetta meira að segja viðurkenna þeir sjálfir.

Gunnlaugur Ingvarsson (IP-tala skráð) 30.1.2012 kl. 17:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband